Ef Þjóðverjar hefðu vitað um völlinn og hnitið...

Þór Whitehead prófessor hefur fundið kort, sem gert var af útsendurum Þjóðverja yfir mögulega lendingarstaði á Íslandi í stríðsbyrjun. Þeir eru merktir með krossum um allt land en enginn lendingarstaður var tiltækur, - annað hvort voru þeir of stuttir eða að það þurfti vikur eða marga mánuði til að gera þá nothæfa.

Enginn kross er við Sauðármel á þessu korti, sem var einmitt staðurinn sem Þjóðverja vantaði til að taka Ísland af Bretum í september 1940 og halda landinu líkt og þeir höfðu gert í Noregi með tilstyrk yfirráða sinna í lofti frá fyrsta degi. Á Sauðármel hefðu þeir getað valtað nógu langar brautir með flugvélum á einum degi og komið fyrir nægilega mörgum flugvélum og birgðum til að styðja innrásina úr lofti.

Enginn var þarna á ferli, langt frá byggð, og Þjóðverjar voru eina stríðsþjóðin 1940 sem réði yfir nógu langfleygum flugvélum til að stunda flutninga á liði, vopnum og vistum loftleiðis til Íslands. Áætlunin Ikarus var tilbúin og auðvelt að taka landið, en forsenda til að halda því voru yfirráð í lofti.

Það, að ekki var krossað við Sauðármel á kortinu, þýðir að hvorki Emmy Todtmann né Agnar Koefoed Hansen unnu fyrir þýsk hernaðaryfirvöld. Ég er að gera kvikmynd um þetta með nákvæmri heimildavinnu og það hvernig þetta hefði breytt gangi stríðsins verulega og orðið þjóðarharmleikur fyrir Íslendinga.

Hnit vallarins er 16 02  -  64 50 og hann er aðeins fyrir sunnan örnefnið Kvíslar, sem sýnt er á nokkrum kortum. Fyrir sunnan völlinn eru gamlar eyrar Sauðár, sem eru að gróa upp og líta því út eins og grænn blettur í fjarska. Völlurinn er rétt austan við beina línu milli Kverkfjalla og Kárahnjúka og með því að fljúga frá Sauðardalsstíflu upp með Sauðá vestari detta menn inn á völlinn.

Á hlaði vallarins standa þrír fornir bílar, rauður, hvítur og grár.  

Aka má þangað með því að fara sömu leið og til Grágæsadals, en beygja til vinstri við skilti sem á stendur "Brúarjökull 8km." Þaðan eru 3,5 km til vallarins. Gamla Brúardalaleiðin liggur um völlinn, yfir Sauðá á vel merktu vaði og þaðan eru um 6km að Hálslóni og Töfrafossi, þann tíma vors sem hann er sjáanlegur. 

2,5 km fyrir sunnan völlinn er hluti Hraukanna, hólaraðar sem er fyrirbæri, sem hvergi er að finna í veröldinni nema þarna. Auðgengið er þangað en líka liggur þangað um 5km langur vegarslóði.

Sjá nánar pistilinn hér á undan.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Hefðu risastórar flutningavélar þjóðverja, Ju 252, Ju Hercules, Messerschmitt Gigant ( 57 metra vænghaf ) og Focke Wulf Condor getað lent þar, þær vógu frá tæpum 20 tonnum og uppúr ?

Hugsanlega Condorinn, en hinar ?

Haraldur Davíðsson, 2.9.2008 kl. 03:47

2 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Þetta eru merkilegar pælingar. Spurning hversu raunhæft það hafi verið fyrir þjóðverja að hertaka Ísland, eða ef það hefði verið og þeir tekið landið, hefðu orðið bardagar með tilheyrandi mannfalli og líka hjá íslendingum. En mikið hlýtur að vera frábært að geta flogið um landið á lítilli vél. Finnst það alveg stórkostlegt. Sá þig, Ómar, á kaffi Valný á Egilsstöðum um daginn. Vildi ekki trufla bloggvinnuna.
Kv. 

Ólafur Þórðarson, 2.9.2008 kl. 09:39

3 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Það verður gaman að sjá þessa kvikmynd sem þú vinnur að  Ómar  Þetta svæði er heill heimur  út af fyrir sig

Gylfi Björgvinsson, 2.9.2008 kl. 11:24

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

1940 var aðeins Focke Wulf Condor framleidd af þessum "risavélum, sem þú nefnir." Heinkel 111 og Junkers Ju 88 voru á stærð við Douglas DC-3 og þurftu ekki stærri velli en þristurinn. Condórinn var sambærilegur við Douglas DC 4 Skymaster. Á árunum í kringum 1940 þurfti ekki lengri brautir en 1300 metra fyrir þær flugvélar sem þá voru notaðar, t.d. í Reykjavik og Kaldaðarnesi.

Condórinn gat flogið tvisvar sinnum fram og til baka frá Noregi á standard-bensíngeymum (flugdrægið 4400 km)  og Ju 88 hafði flugdrægi fram og til baka án aukageyma. Með aukageymum gat Condórinn flogið 6300 kílómetra í einum rykk, sem sýnir hve vel hann hefði dugað til flutninga á eldsneyti, vopnum og vistum til Íslands.

Með 250 kílóa aukageymi neðan á skrokknum gat Messerschmitt Me-109 flogið til Íslands frá Bergen og Junkers Ju 87 Stuka var enn betur sett með aukageymum, sem og gamla "Frænka" (Tante), Ju 82.  

Ef Þjóðverjar hefðu tekið landið hefðu þeir að sjálfsögðu gert velli í Reykjavík og Kaldaðarnesi sem voru hvort eð er aldrei nema með um 1200-1500 metra langar brautir og þeir hefðu getað gert flugvöll á Miðnesheiði með nógu löngum brautum fyrir langfleygustu flugvélar.

Mannfall og eyðilegging hefði orðið mest þegar bandamenn urðu að taka landið aftur, vegna þess hve Þjóðverjar hefðu getað skemmt mikið fyrir nauðsynlegum flutningum birgða, vopna og hermanna til Bretlands til að ráðast inn í Normandy.

Raunar er vafasamt að hægt hefði verið að ráðast inn í Normandy fyrr en um haustið 1944 ef Þjóðverjar hefðu lokað Norður-Atlantshafinu og það hefði getað leitt til þess að Sovétmenn hefðu farið langleiðina yfir Þýskaland í stað þess að komast að Elbu.

Þjóðverjar skildu eftir sig sviðna jörð í Norður-Finnlandi og Norður-Noregi þegar þeir voru hraktir þaðan og svipað hefði getað gerst á Íslandi.

Þær afleiðingar kreppunnar miklu að engir flugvellir voru á Íslandi 1939 voru einhver mesta gæfa þjóðarinnar í sögu hennar.  

Ómar Ragnarsson, 2.9.2008 kl. 18:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband