10.9.2008 | 15:48
Ekki er allt sem sýnist.
Nú er mjög reynt að hrekja niðurstöður Jónasar Haralz og fleiri virtra hagfræðinga þess efnis að áhrif stóriðju og virkjana séu stórlega ofmetin og bjargi í raun engu í efnahagsmálum. Þegar gumað er af útflutningstekjum af áli er þess ekki getið hve mikið útgjöldin vaxa vegna innflutnings á hráefni fyrir álframleiðsluna. Heldur ekki að virðisaukinn af álframleiðslunni, sem skilar sér í þjóðarbúið er allt að þrefalt minni en í sjávarútvegi.
Bendi á góða athugasemd Náttúruverndarsamtaka Íslands um ofmat á störfum sem skapist. Sum af þessum svonefndu "afleiddu" störfum hefðu hvort eð er verið til staðar og ekki er tekið tillit til ruðningsáhrifa af álframleiðslunni sem meðal annars lýsa sér í því að sá sem byrjar að vinna í álveri kann að fara úr öðru starfi til þess.
Það er hægt að stilla þessu enn einfaldara upp. Ef allar atvinnugreinar á Íslandi færu nú í áróðurskapphlaup við álpostulana og reiknuðu gildi sitt á sama hátt og þeir hvað snertir "afleidd störf", þá verður heildarútkoman sú að störf á Íslandi séu rúmlega 500 þúsund eða 200 þúsund fleiri en nemur öllum íbúafjölda landsins!
Allar atvinnugreinar skapa "afleidd störf" og því er skásta samanburðarleiðin sú að taka einfaldlega saman hve margir vinna beint í þeim. Þá er niðurstaðan sú að 0,7% vinnuaflsins er í álframleiðslunni og fer varla yfir 2% þótt sex risaálver yrðu reist á endanum og allri orku landsins fórnað í það.
Svipuð niðurstaða og hjá Jónasi Haralz og kó: Álframleiðsla er ekki framtíðarlausn á atvinnuvanda Íslendinga.
Álútflutningstekjur yfir 30% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það duldist engum, að Jónas er fyrst og fremst á móti dýrum og orkufrekum iðnaði, sem farið yrði í nú, vegna þess að hann telur að það tefji fyrir inngöngu í Evrópusambandið, sem hann er svo vægt sé til orða tekið hlynntur.Hann gerði enga tilraun til að hrekja það að uppbygging á orkufrekum iðnaði nú,myndi styrkja stöðu krónunnar.
Sigurgeir Jónsson, 10.9.2008 kl. 16:21
Mér leiðist þetta hjal álrisanna um afleidd störf. Hef oft spurt hvað einn skuttogari hafi skapað mörg afleidd störf hér í den og það er ekkert mál að telja þau í hundruðum ef maður beitir frjálsegri röksemdafærslu. Löndun, frystihús, flutningar, þjónusta, verslun, viðhald og fleira.
Björgvin Valur (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 16:35
Væri þá ekki nær að fullvinna álið hér á landi?
Sigurjón, 10.9.2008 kl. 17:59
Iðnaðarráðherra nefnir 1000 afleidd störf vegna álversins fyrir austan. Í þessari tilkynningu iðnaðarráðuneytis og Alcoa er talað um 300. Eru þá 700 afleidd störf vegna Fjarðaáls í Reykjavík ?
Pétur Þorleifsson , 11.9.2008 kl. 04:12
Jónas Haralz er tæplega níríður að aldri og merkilega ern. Hann er fulltrúi gamla tímanns og nörg hagstjórnarleg mistök voru gerð á blómatíma hans. En við lærðum sitttthvað á mistökunum skulum við vona.
"Bendi á góða athugasemd Náttúruverndarsamtaka Íslands um ofmat á störfum sem skapist", segir þú Ómar.
Síðan hvenær urðu náttúruverndarsamtök trúverðug í umfjöllun sinni um efnahags og atvinnumál, nú eða náttúruverndarmál ef því er að skipta? Hverjum dettur í hug að spyrja þau um arðsemi og afleidd störf? Samtök sem eru á móti öllu raski í náttúrnni "No matter What"!
" sá sem byrjar að vinna í álveri kann að fara úr öðru starfi til þess". Þetta er með því vitlausara sem ég hef séð frá þér koma Ómar. Ég fer ekki einu sinni út í að rökstyðja það. Þú hlýtur að átta þig ef þú hugsar aðeins betur um þetta.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.9.2008 kl. 10:31
"Sum af þessum svonefndu "afleiddu" störfum hefðu hvort eð er verið til staðar"
Hahaha! Náttúruverndarsamtök eru komin í bullandi samkeppni við þig um grínið!
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.9.2008 kl. 10:36
Alltaf er gaman að heyra menn afgreiða menn eins og Jónas Haralz og Jón Baldvin Hannibalsson sem gamalmenni og fulltrúa gamla tímans. Þessu er nefnilega þveröfugt farið.
Báðir þessi menn voru sanntrúaðir fylgismenn fyrsta álversins í Straumsvík og Búrfellsvirkjunar, svo og næstu virkjana á eftir. Það var ég líka. Það var "gamli tíminn", sem menn eins og t. d. Styrmir Gunnarsson geta ekki slitið sig frá.
Hins vegar eru bæði Jónas og Jón Baldvin menn sem eru ekki fastir í gamla tímanum heldur átta sig á því hvað hefur breyst. Ég heyrði Jón Baldvin flytja ræðu um virkjana- og orkumál í Bæjarbíói í mars 2007 sem var besta ræða sem ég hef heyrt flutta um þau mál, bæði hvað varðar efnisatriði og flutning allan.
Við höfðum hist nokkrum sinnum og hann sagðist í fyrsta samtali okkar vera gamall virkjana- og stóriðjusinni. Ég tók hins vegar eftir því hve undrafjótur hann var að setja sig inn í nýjar og jafnframt flóknar aðstæður, miklu fljótari en margir ungir menn á svokölluðum "besta aldri."
Ég hef þekkt Jón Baldvin frá því að við vorum saman í menntaskóla og hann er hressari, skarpari og magnaðri en nokkru sinni fyrr. Hvílík firra að afgreiða hann og Jónas sem útbrunnin gamalmenni!
Og nú heyri ég að Davíð hafi meira að segja lesið Geir Haarde pistilinn í dag!
Ómar Ragnarsson, 11.9.2008 kl. 20:07
Ég las ræðu Jóns Baldvins sem þú vitnar í af lotningu. Í mínum eyrum var hún bara "flautuþyrillinn Jón Baldvin Hannibalsson" í essinu sínu. Innantómir frasar og allt stílað upp á vinsældir. (Populismi)
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.9.2008 kl. 00:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.