Gamall draumur að rætast.

Fyrir rúmum þrjátíu árum var hlegið að því þegar ég minntist á þá möguleika sem Ísland býr yfir hvað snertir bílaiðnað og bílaíþróttir heimsins, auk möguleika á öðrum viðburðum sem verða stærri vegna þeirrar umgjörðar sem land okkar getur gefið þeim.

Ég styrktist á næstu árum í þessari trú við að heyra um þau áhrif sem það hafði á erlenda rallökumenn að aka til dæmis í "svörtum snjó" eins og þeim fannst þeir gera vestast á Dómadalsleið, að ekki sé talað um allt hið litskrúðuga og einstæða landslag sem blasti við þeim á leið þeirra.

Alls konar fordómar óðu upp, svo sem þegar við bræðurnir, Jón og ég, tókum þátt í frönsku jepparalli og ég minntist á það að mikið af drullu hefði komið upp á framrúðuna á Kjalvegi. Menn töldu þetta sanna að ég hefði ekið utan vegar.

Sú gagnrýni sýndi hins vegar vanþekkingu á aðstæðum á þessari leið, þar sem það var dauðadómur yfir keppanda að lenda í urðinni utan vegar, ekki hvað síst okkur, sem ókum aðeins á venjulegum Subaru-fólksbíl.

En hvaðan kom þá drullan? Jú, neðst í öllum þeim lægðum, sem Kjalvegur liggur um, liggur mold undir sandinum, - leifar af jarðvegi sem var á Kili áður en hann blés upp og varð að sandauðn, meðal annars fyrir tilverknað sauðkindarinnar, sem öldum saman hafði yfir sér svipaða helgi og kýr á Indlandi. 

Í polla, sem lágu á niðurgröfnum veginum í lægðunum, seytluðu leifar að hinni fornu mold, auk þess sem ofan í þessar lægðir barst mold með moldarstormum af þeim gróðurtorfum sem enn voru að blása upp.

Nú er komin nógu löng hefð á röll og aðra svipaða atburði til þess að gömlu fordómarnir hafa vikið fyrir reynslunni. Og nýja fornbílarallið sýnir, hvernig hægt er að auglýsa landið til gagns fyrir ferðaþjónustu og fá jafnframt inn tekjur af þeim, sem hingað koma, annað hvort í slíka keppni eða til að auglýsa bíla eða hvað annað, sem landslagið okkar frábæra getur lyft undir.

Okkar hlutverk er að skapa þá umgjörð sem tryggir að enginn skaði verði og að allt sé þetta undir stjórn og í farsælu hófi.  


mbl.is Ísland reyndi á þolrifin í nýjum Golf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Fólk veit upp til hópa ekkert í sinn haus, og segir bara eitthvað.

Töku bara hálendið: fólk heldur að þar sé ekki hægt að gera veg, því það snjói yfir hann.  Það fólk hefur ekki heyrt um né séð upphækkaða vegi.

Auðvitað er hér um slóður fullt af alveg ídeal rallýleiðum.  Bara hér á Reykjanesinu er fullt af sniðugum vegum sem gaman er að keyra.

Ásgrímur Hartmannsson, 10.9.2008 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband