Úrelt hreppapólitík.

Stærð Kópavogs sýnir vel hve vel í sveit þetta bæjarfélag er sett á höfuðborgarsvæðinu með Smárann sem einn hluta af krossgötum þess sem markast af línunni Ártúnshöfði-Árbær-Mjódd-Smári. Þyngdarpunktur íbúabyggðar á höfuðborgarsvæðinu liggur austast í Fossvogsdal og því eru ýmsar ályktanir sem borgarfulltrúar í Reykjavík draga af samsetningu borgarinnar dregnar af röngum forsendum.

Fáránleiki bæjarfélagamarka sést best rétt austan við Smárann milli Seljahverfis í Reykjavík og Salahverfis í Kópavogi, þar sem hvort bæjarfélagið um sig virðist hafa skipulagt sig eins og nágrannarnar kæmu þeim ekki við.

Engin tenging er að milli þessara tveggja hverfa og sem dæmi má nefna að ef aka á frá Stapaseli til Blásala, sem eru í 100 metra fjarlægð þarf að fara 3-4 kílómetra hring.

Í raun eiga bæjarfélögin og hverfin Mosfellsbær-Grafarvogur-Árbær-Breiðholt-Kópavogur-Garðabær og Hafnarfjörður svo margt sameiginlegt að þau tengsl og hagsmunir eru jafnvel meiri en það sem tengir Reykjavík vestan Elliðaáa við hverfin fyrir austan árnar. 

Innan höfuðborgarsvæðisins er í gangi óhjákvæmileg þróun sem ég hef áður bloggað um og lýsir sér í aðdráttarafli krossgatnanna á svæðinu við Elliðaárnar fyrir verslun og þjónustu. Í kringum þetta vaxandi miðjusvæði eru Fossvogs-Smáíbúðahverfið, Langholtshverfi, Grafarvogur, Árbær, Breiðholt, austurhluti Kópavogs og nyrstu hluti Garðabæjar. 

Upptalningin ein sýnir hve núverandi mörk bæjarfélaga og samsetning þeirra eru orðin úrelt og til trafala fyrir eðlilega þróun og heppilega skipulagningu höfuðborgarsvæðisins.  


mbl.is Kópavogsbúar þenja sig í 30 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, Ómar, þetta er verulegur skortur á skipulagsleysi, eins og það var einhvern tíma orðað. Smákóngarnir okkar eru aðallega í því að redda einhverju smávegis í dag án þess að hugleiða hvað gerist eftir mánuð.

Gestur Ólafsson arkítekt og skipulagsfræðingur var einmitt í hádegisfréttum að kvarta undan þessum skorti á framsýnu skipulagi sveitarfélaga. Það er mál til komið að þorpin hér á höfuðborgarsvæðinu taki höndum saman með framsýnt heildarskipulag -- Reykjavík hér talin með öðrum þorpum.

Það er ekki nóg að tala með útilegumannarómi og láta sem maður sé einn í heiminum og aðrir skipti ekki máli.

Sigurður Hreiðar, 14.9.2008 kl. 13:09

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þetta er rétt "Skortur á skipulagsleysi". Ef eitthvað ætti að sameina þá er sameining á höfuðborgarsvæðinu það eina rétta, bara út af skipulagsmálum.  Möllerinn ætti að leggja áherslu á það frekar en að kom með tillögu um lággmarksfjölda í sveitarfélögum 1000 manns eins og hann talar um. Hundrað manna sveitarfélag getur verið mikið betur statt en 20 þúsund manna, skipulagslega séð, eins og sést á Kópavogi. En annars: Það er gott að búa í Kópavogi

Haraldur Bjarnason, 14.9.2008 kl. 15:14

3 identicon

Ertu ekki ánægður með þetta, Ómar.  Mér sýnist á umhverfissjónarmiðum þínum að Ísland eigi að vera borgríki, því engar framkvæmdir mega eiga sér stað úti á landi skv. þínum sjónarmiðum.

En er borgríki eins og hér er orðið, er það umhverfisvænt?  Hugsið ykkur öll skipulagsslysin, deilur um skipulagsmál, umferðaröngþveiti, staðbundin mengun, náttúruperlur sem verður að fórna vegna sívaxandi borgarbyggðar á Höfuðborgarsvæðinu, háhýsabyggðir með tilheyrandi mengun, umferðaröngþveiti, sjónmengun og minna útsýni fyrir nágranna þessara háhýsa sem varla sjá orðið til sólar.

Til hamingju Ómar og öll þið hin með borgríkið Ísland með öllum þess ókostum og löstum!  Þetta er alveg eins og í öðrum þróunarríkjum, nútímalegt höfuðborgarsvæði - vanþróuð og strjálbýl landsbyggð.

Björn Fannar Óskarsson (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 15:28

4 identicon

Borgríki geta vel verið umhverfisvæn og eru það sérstaklega miðað við höfðatölu. Hinsvegar er borgríkið íslenska alls ekki umhverfisvænt. Ræður þar mestu hreppapólitík eins og Ómar bendir á, einkabílismi, flugvöllur á mjög vondum stað fyrir eðlilega byggðaþróun og ýmislegt fleira. Hinsvegar þegar þarf á þessum málum, koma alltaf sérþarfirnar í ljós. Bæjarstjórnir úti á landi, þarfir bíleiganda, framavonir bæjarstjóra í borgríkinu, og þarfir einkaflugvéla.  Síðan byrjar söngurinn um allt sé nauðsynlegt að hafa allt eins og engu má breyta.  Og við situm í umferðarsúpunni !

Gísli (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 16:17

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Engar framkvæmdir mega eiga sér stað úti á landi" segir Björn Fannar að sé stefna mín. Ekki þarf annað en fletta bloggpistlum mínum um hin fjölmörgu framfaramál, sem veita má fé í úti á landi til að sjá hve mikil fjarstæða þessi fullyrðing er.

Andstaða mín gegn álveri í Helguvík og tilheyrandi óþörfum umhverfisspjöllum við borgardyr höfuðborgarsvæðisins tel ég ekki vera gegn framkvæmdum "úti á landi." Nútíma samgöngur hafa gert það að verkum að svæðið frá Borgarnesi um Selfoss og Hveragerði til Reykjanesbæjar er ekki lengur "úti á landi."

Ég hef átalið sinnuleysi um samgöngur á Vestfjörðum og bent á leiðir til að framkvæma þar til gagns fyrir fjórðunginn. Sömuleiðis hef ég bent á aðrar leiðir til eflingar á norðausturlandi heldur en úreltar stórkarlalausnir í anda Stalíns.

Ég hef bent á möguleika á styttingu hringvegarins um allt að 25 km á leiðinni Reykjavík-Akureyri með tilheyrandi framkvæmdum.  

Ég hef ítrekað bent á atvinnuskapandi tækifæri fyrir austan og norðan með tilvísun til reynslunnar á Lapplandi. Á þessu virðist enginn áhugi vera, - ekkert kemst að nema álver, sem ryðja burt öðrum hugmyndum án þess að vera sú lausn í atvinnumálum Íslendinga sem sífellt er klifað á.

Það sýnir hve röng þessi stóriðjustefna er að á endanum muni aðeins 2% af vinnuafli þjóðarinnar starfa í álverum þegar öll orka landsins hefur erið sett í þau.

Ómar Ragnarsson, 14.9.2008 kl. 16:42

6 identicon

Það er nú verið að tengja þetta með arnanesveginum, sem mun ná frá arnanesi og tengjast breiðholtsbrautinni. Ástæðan fyrir því að þetta var ekki tengt á sínum tíma er útaf því að þeir vildu ekki fá mikla umferð í gegnum þessi íbúðahverfi.

Rafn (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 17:55

7 identicon

Það eru allstaðar landamæri ,en hversu langt við búum frá þeim er annað mál. En eitt er víst að það er gott að búa í Kópavogi og verður alltaf.

gunna (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 20:48

8 identicon

Naflinn er Rjúpnahæð lærin Kársnes og Seltjarnarnes. Og hvað er þar á milli auðvitað flugvöllur, en það er akkurat þar sem flugtakið á sér stað.

lelli (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 21:02

9 Smámynd: Jónas Jónasson

Sammála! Sunnanátt og eldgos í bláfjöllum er kanski það sem fær fólk til að skilja hversu mikilvægt var að sameina höfuðborgarsvæðið og bæta samgöngur til að hægt væri að tæma borgina á sem styðstum tíma.

Jónas Jónasson, 14.9.2008 kl. 21:32

10 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég hef lengi haldið því fram að til að mynda eðlilegar skipulagsheildir þurfi að sameina verði aftur Seltjarnarneshrepp eins og hann var áður en fyrst Reykjavík og svo Seltjarnarnes/Kópavogur voru skilin frá honum. Þannig myndast landfræðileg heild á ný.

Land Kópavogs er t.d. nú 3 algerlega aðskilin landsvæði. Í raun er Kópavogur restin af Seltjarnarneshreppi gamla þegar Reykjavík og Seltjarnarnes höfðu verið skorin í burtu, og sú rest er í þremur hlutum sem allir liggja að Reykjavík.

Hinsvegar ætti að sameina aftur Hafnarfjörð, Garðabæ og Bessastaðahrepp í eitt sveitarfélag sem þá væri sama landsvæði Bessastaðahreppur gamli var. Í raun er kannski ekki tilviljun að hrepparnir voru þessar t.t. landfræðilegu heildir áður en þéttbýlismyndin tók kipp og þau klufu sig frá upphaflegu hreppunum, þ.e. um er að ræða eðlilegar landfræðilegar heildir og því náttúrlegar skipulagsheildir einnig.

Þar með væru samt tvö borgarsamfélög á svæðinu og hæfileg ólík til að í senn að vinna saman og keppa hvort við annað. 

Útfrá þeim grundvelli mætti svo draga Mosfellsbæ til liðs við „Reykjavík/Seltjarnarneshrepp“, og á hinn veginn Voga og Vatnsleysuströnd til liðs við „Hafnarfjörð/Bessastaðhrepp“

Helgi Jóhann Hauksson, 15.9.2008 kl. 00:11

11 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sameining og stækkun er nú ekkert töframeðal. Það myndi ekki bæta ástandið í Reykjavík með því að stækka það sveitarfélag. Hins vegar er hægt, og á, að skoða skipulagsmáli heildrænt. Er vitlegt að setja allar þessar stofnanir út á nesið þar sem gamli miðbærinn er. Skipulag sem býr til umferðarvanda.

Björn Fannar. Þó að Ómar vilji ekki álver í hvert þorp á Íslandi, þýðir það ekki að hann sé á móti landsbyggð. Það eru til menn sem sjá ekkert út fyrir höfuðborgarsvæðið. Það er hins vegar mjög ómálefnalegt að gagnrýna Ómar Ragnarsson fyrir slíkt.

Sigurður Þorsteinsson, 15.9.2008 kl. 06:31

12 identicon

Góður pistill, Ómar, og skynsamleg nálgun á viðfangsefnið, eins og þín var von og vísa. Í framhaldinu fór maður að bollaleggja um stjórnsýsluna á Íslandi yfirleitt. Er ástæða til þess að hafa tvö stjórnsýslustig í 310.000 manna samfélagi? Til hvers? Gef ekki túkallsvirði í rökin um "nálægð notenda við stjórnsýslu", ég veit ekki til þess að nokkur manneskja sem flokkast undir kategoríuna "almenningur" sé yfirleitt í stöðu til þess að ná sambandi við sitt sveitarstjórnarfólk, nema þá í Árneshreppi! Það eru alltof margir fastir í framsóknarmennsku og nítjándu aldar sjónarmiðum varðandi ýmis samfélagsleg skipulagsatriði.

Ellismellurinn (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 07:43

13 identicon

Já en Ómar, samgögnubætur einar og sér skapa ekki atvinnu úti á landi.  Slíkar framkvæmdir eru það sem Dofri Hermannsson kallar "sjússalausnir" en sem ég vil kalla að gefa sjúklingnum, þ.e. landsbyggðinni magnýl, svo hann gleymi vandamálinu um stund.

Það eina sem þú virðist hafa komið með til ativnnusköpunar úti á landi er "Lapplandslausn" þín.  Vandamálið við hana er að hún hefur einungis svæðisbundin áhrif og mun í mesta lagi skapa c.a 50 störf, þar af myndu ca. helmingurinn verða til í Reykjavík í sambandi við flug og útleigu rútu og bíla til að flytja fólk til "Lapplands" Íslands. 

Þessi lappalausn þín er ekki lausn til ativnnusköpunar úti á landi, heldur einungis búbót á afmörkuðu svæði Norð-austanlandsi og þá frekar sem árstíðarleg búbót.

Við sjáum hversu mörg störf Vatnajökulsþjóðgarðurinn hefur skapað úti á landi.  Mér skylst að flest störfin séu við stjórnsýslu og þau eru í Reykjavík, hvar annars staðar? - ekki í og við þjóðgarðinn sjálfan.  Búið er að taka stór svæði í gíslingu með þessum þjóðgarði og sjá til þess að engar framkvæmdir verði þar.  Flestar afleiddar tekjur af þjóðgarðinum koma í skaut aðila á Höfuðborgarsvæðinu td. vegna þjónustu og af ferðarmönnum.  Gáfulegt þetta!

Björn Fannar Óskarsson (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 09:04

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er sammála þér, Björn Fannar, um of mikla samþjöppun hér á suðvesturhorninu. Í Noregi er Jóstedalsjökulsþjóðgarður um margt líkur Vatnajökulsþjóðgarði og stjórn hans er ekki í Osló.

Helsta svæðið í Vatnajökulsþjóðgarði sem "búið er að taka í gíslingu og engar framkvæmdir leyfðar þar" er vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.

Það er ofmælt að "engar framkvæmdir séu leyfðar" en þarna kemur enn upp hjá þér  löngunin til að klára að virkja allar ár á Íslandi fyrir álver, því að virkjun Jökulsár á Fjöllum stenst ekki nema með því að upphefja friðun hennar.

Ég hef rökstutt að hægt væri að skapa fleiri störf í Mývatnssveit í tengslum við "Setur sköpunarinnar" við Leirhnjúk ef Leirhnjúks-Gjástykkissvæðið væri látið ósnortið heldur en þau 20-30 störf sem skapast myndu í álveri á Bakka.

Í álverinu myndu vinna margir útlendingar en eðli málsins samkvæmt myndu fjölmenntaðir Íslendingar vinna við Setur sköpunarinnar hjá Kröflu.  

Ómar Ragnarsson, 15.9.2008 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband