Kreppa eða ekki kreppa?

Ég minnist gamallar sögu um bjartsýni Bandaríkjamanna þess efnis, að fólk sem stóð við glugga á 50. hæð í bandarískum skýjakljúfi hafi heyrt að Bandaríkjamaður sem féll af 100. hæð hrópaði um leið og hann féll fram hjá 50. hæðinni: "Þetta er allt í lagi ennþá!" Sagan kemur í hugann þegar Geir Haarde segir að hér sé ekki kreppa.

Bæði Geir og fallandi Bandaríkjamaðurinn gætu haft rétt fyrir sér að vissu marki. Ekki fylgdi sögunni gömlu hvort hinn fallandi maður var á leið niður í björgunarnet og gæti gengið ómeiddur í burtu eftir fallið. Sumar upphrópanir um kreppuna byggjast á samanburði við tvö óeðlileg ár í þjóðarbúskap Íslendinga, árin 2006 og 2007, þegar þjóðin lifði langt um efni fram á mestu skuldasöfnun veraldar.

Þannig var það sett upp sem gríðarleg niðursveifla nýlega hvað umferð um Hvalfjörð hefði verið miklu minni í ár en í fyrra, en þegar nánar var rýnt í tölurnar sást að samt var umferðin í ár meiri en 2006 og miklu meiri en nokkurt ár á undan því.

Jafnvel þótt kjararýrnunin yrði 10-20% svo að einhver tala sé nefnd, yrðu kjörin samt svipuð og fyrir nokkrum árum áður en efnahagsfylleríið hófst. Ekki ríktu hér nein móðuharðindi þá og upphrópanir með orðavali í ætt við móðuharðindi álíka óviðeigandi og þegar stjórnarandstæðingar töluðu um efnahagsástandið í upphafi ferils Viðreisnarstjórnarinnar sem "Móðuharðindi af mannavöldum."

Hinu má hins vegar ekki gleyma að svona samdráttur kemur því miður afar ójafnt niður hjá fólki líkt og gerðist í samdrættinum 1983. Þá fóru ungt fólk, sem var nýbúið að kaupa húsnæði, afar illa út úr efnahagsráðstöfununum og þannig virðist það aftur ætla að verða nú sem og í byggingaiðnaðinum.

Við vitum ekki enn hvort hægt verði að mýkja lendingu fjármálakerfis heimsins með björgunarneti og koma í veg fyrir jafn slæma kreppu og í kringum 1930.

Það er því djarflega mælt þegar forsætisráðherra gerir lítið úr því falli, sem hafið er og afgreiðir það á svipaðan átt og hinn fallandi Kani gerði í skrýtlunni forðum tíð.  


mbl.is Hrun á öllum mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta tel eg að sé rétt lýsing, og nefndi fyrir nokkru síðan:

http://eyjan.is/blog/2008/06/23/kronuhrun-i-morgun-41-fall/

Sagan úr skýjakljúfinum er lýsandi :)

Rómverji (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 13:42

2 identicon

Er ekki til þá efnahagslegar lausnir fyrir fólkið í landinu? Ef hægt er að búa til sjóð þar sem öll laun landsmanna eru greidd,inná þá er hægt að ákvarða lágmarkslaun,sem eru af frumvarpi frá alþingi,að lágmarkslaun í landinu,yrðu 580þús á mán.

svo að allir hafi mannsæmandi laun og hámarkslaun 5.milj.þannig er komið þak á eiðsulunn og krónan færi að verða eitthvað?Láta féið vinna fyrir fólkið,en ekki búa til fátækt og ofurtekjur.Þá yrðu allir glaðir og hamingjusamari.

Jon T Halldórsson (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 17:07

3 Smámynd: Sverrir Einarsson

Það er nefnilega ekkert mál að lifa af fall af 100. hæð....það er helvítis lendingin sem drepur mann.

En þangað til ertu jú lifandi.

Sverrir Einarsson, 15.9.2008 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband