Betra í gamla daga?

Alveg var yndislegt að heyra og sjá Sigurð Guðmundsson og Memphis-mafíuna í Kastljósi í kvöld. Já, svona var þetta gert í gamla daga. Maður fór inn í útvarpssal fullan af fólki og söng heila breiðskífu í einum rykk með hljóðfæraleikurunum, ekkert endurtekið og engu hnikað eftir á.

Ég minnist upptökunnar á "Sveitaballi", sem fór fram í Þórscafé um miðjan dag. Til þess að Gunnar Ormslev gæti spilað inn í sama hljóðnema og ég söng í,  þurfti hann að standa uppi á borði þétt að baki mér og spila í saxófóninn yfir mig! Allt spilað og sungið inn í einni upptöku.

Ef engir áhorfendur voru var auðvitað hægt að taka lag upp aftur, en þá varð að gera það í heilu lagi með öllum aftur, þótt aðeins einn hefði gert mistök í fyrri upptöku.

Ég minnist upptökunnar á laginu "Ég hef aldrei nóg" í útvarpssal þar sem við veltum vöngum yfir því hvort flutningurinn væri nógu líflegur. Ég hafði á tilfinningunni að við rauðhærðu vitleysingarnir, ég og Rúnar Georgsson, gætum sleppt beislinu fram af okkur og gert betur.

Við fífluðumst svolítið áður en upptakan hófst, hann lét vaða hinn einstæða koktón sem hann einn allra í heiminum gat kreist upp úr barkanum, og svo ákváðum við að slá í kárinn og láta vaða.

Saxófónslólóin hans í leikna kaflanum er eitt af því sem ég held mest upp á af ferli mínum. Hún kom algerlega frá hjartanu, hann lét vaða á súðum og þessi sóló varð ekki aðeins allt öðru vísi en hún hafði verið í fyrri upptöku, - hún varð öðruvísi en allar aðrar í veröldinni.

Í dag er tekið upp á guð má vita hve margar rásir og söngur er lagaður með tölvutækni tón fyrir tón.

Kannski var Pálmi Gunnarsson einn hinna fyrstu sem uppgötvaði það hve hamlandi of mikil tækni getur verið. Þegar hann eitt sinn var búinn að vera að basla lengi við að syngja lag eitt í stúdíói í óteljandi pörtum, fauk í hann og hann hrópaði: "Ég get staðið lengur í þessari vitleysu, - þetta er steindautt!  Setjið þið í gang og ég syng þetta allt saman upp á nýtt í einni töku og er síðan farinn!"

Og það gerði hann og eftir situr eitt af bestu lögum hans. Þetta leitaðist hann við að gera eftir þetta og þannig söng hann "Íslensku konuna." Maður heyrir að þetta er "live", og það skiptir ekki máli þótt einn eða annar tónn verði ekki alveg 100% tandurhreinn, - aðalatriðið er þetta er hluti af því að tilfinningin skilar sér beint frá hjartanu. 

Ég fékk Kristin Sigmundsson til að syngja lagið "Flökkusál" inn á disk. Þetta er lagið "Wandering star", sem hinn rámi strigabassi Lee Marvin hafði gert frægt. Tími fyrir upptökuna var kl. 15:00 og ég vildi sýna þessum mikla og ljúfa meistara tillitssemi með því að koma 2o mínútum síðar til þess að gefa honum tækifæri til að taka nokkur rennsli áður en til alvörunnar kæmi.

Þegar ég kom var mér sagt að Kristinn væri löngu farinn. Hann hefði komið klukkan 15:00 og farið fimm mínútum síðar eftir að hafa sungið lagið í einum rykk í einni töku á þann hátt að eftirminnilegt er, með mun meiri, grófari og dýpri bassarödd en ég hafði ímyndað mér að hann byggi yfir.

Ég hringdi eyðilagður í Kristin og bað hann afsökunar á því sem hafði gerst. "Þú þarft ekkert að afsaka þig," sagði hann, - "ég veit alveg hvernig nú tíðkast að vinna við svonalagað, en ég vinn ekki þannig. 

"Hvernig fórstu að því að framkalla þessa rödd?" spurði ég. "Ég kom úr löngu veiðiferðalagi í nótt og svaf viljandi fram yfir hádegi," svaraði hann. "Þegar ég kom í stúdíóið var röddin enn rám í mér nývöknuðum eftir hinn langa svefn."

Ég sagði honum að ég tryði því varla að hann skyldi gera þetta svona vel í "one-take" án upphitunar. "Elskan mín," svaraði Kristinn, - "við hvað heldurðu að ég vinni? Jú, ég vinn við það í óperuhúsum að syngja óperur í "one-take." Ég stoppa ekki hljómsveitina í miðri aríu og bið um að fá að byrja aftur. Mín vinna er í "one-take" og þetta er aðeins spurning um að vinna heimavinnuna sína áður." 

Við þessi orð Kristins hef ég því við að bæta að í raun er lífið allt "one-take" í beinni útsendingu. Allt annað er eftirlíkingar sem býður upp á það að verða með sama blæ og steinrunnin tæknin sem er að baki þegar tilfinning mannsins víkur fyrir elektrónikinni.

Ég tek ofan fyrir Sigurði og mafíunni. Þetta eru mínir menn, - óhræddir við að feta aftur gamlar slóðir með aðferðum sem búið var að afskrifa sem úreltar en skila þó sannri og einlægri túlkun, - oft á tíðum betur en hægt er að gera með öllum tæknibrellum flókinnar og "fullkominnar" upptökutækni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigurður Guðmundsson er minn maður. Pönnsur með jarðarberjasultu og rjóma. Gamlar ömmur og feitar konur.

Fullkomið.

Þorsteinn Briem, 15.9.2008 kl. 22:23

2 Smámynd: Steinunn Þórisdóttir

Já þetta sannarlega yljaði manni. Hann hefur svo sérstaka rödd drengurinn. Og það er svo gaman þegar yngri kynslóðin gerir svona hluti.

Steinunn Þórisdóttir, 16.9.2008 kl. 12:23

3 identicon

Hann gerir mömmuna stolta !!! heheh

Gróa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 17:16

4 identicon

Takk, Ómar.

S.

Sigurður Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband