17.9.2008 | 21:01
Þröskuldur sem virkar öfugt?
Í Rússlandi, Þýskalandi og Tyrklandi fundu Íslendingar fyrirmyndir að 5% þröskuldi í fylgi til að koma mönnum á þing, tvöfalt hærra lágmarki en í nágrannalöndunum okkar. Allir vita hver tilgangurinn er í Rússlandi með takmörkunum, sem varna Kasparof að komast á þing, en í Þýskalandi mun hræðsla við nýnasista hafa ráðið mestu og í Tyrklandi hræðsla við öfgamúslima.
Tæknilega virkar þröskuldurinn þannig hér á landi að nái framboð hvergi inn kjördæmakjörnum þingmanni þarf sem svarar fylgi sem annars gæfi þrjá þingmenn til þess að að koma nokkrum manni á þing. Íslandshreyfingin fékk heildarfylgi sem svarar til tveggja þingmanna en þröskuldurinn kom í veg fyrir það.
Ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi hefði Íslandshreyfingin komið tveimur mönnum á þing. 3386 kusu flokkinn í Reykjavík og fengu engan mann, en í Norðvesturkjördæmi kusu 2432 Frjálslynda flokkinn og fengu tvo þingmenn.
Í síðustu skoðanakönnunum hefur Frjálslyndi flokkurinn mælst með 4% fylgi. Flokkurinn mældist svo lágur síðast 2006 ef ég man rétt, en eftir að hann gerði innflytjendamál að aðalmáli sínu seint á því ári með inngöngu Jóns Magnússonar og Nýs afls, flaug fylgið yfir 10% en varð síðan 7,3% í kosningunum.
Nú, þegar fylgi Frjálslynda flokksins er aftur komið niður fyrir þröskuldinn, getur reynslan frá 2006-7 orðið til þess að þeim mönnum vaxi ásmegin í flokknum sem byggja meðal annars á því, að í löndum með marga innflytjendur og mikið erlent vinnuafl er alltaf fyrir hendi allstór hópur kjósenda sem veitir flokki sem er yst úti á vængnum í þeim málum brautargengi.
Þótt Guðjón Arnar og Sleggjan fengju 13,6% í Norðurlandi vestra, má fylgi þeirra í því kjördæmi ekki við því að fara niður fyrir 10% því þá fær flokkurinn ekki kjördæmakjörinn mann þar.
Á sínum tíma var Jón Magnússon í fararbroddi ungra sjálfstæðimanna og í slagtogi með mönnum sem síðar urðu alþingismenn og ráðherrar.
Það er því eðlilegt að hann ætli sér stóra hluti nú. Ákvæðið um lágmarksfylgi getur haft hvetjandi áhrif á það að leitað sé að jaðarfylgi sem gæti verið álíka stór markhópur hér og í nágrannalöndunum og gefið von um að koma örugglega manni á þing.
Sá tilgangur þröskuldsins fyrrnefnda að koma í veg fyrir framboð sem höfða til jaðarfylgis getur þar með snúist upp í andhverfu sína.
Ekki er ólíklegt að þeir Jón og Magnús Þór skynji að þetta geti gefið þeim sterka stöðu í Frjálslynda flokknum þegar um er að tefla að koma manni á þing eða ekki. Ef þeim tekst að hrekja Sleggjuna af leið, veikir það stöðuna í akkeriskjördæminu Norðurlandi vestra og þar með stöðu formannsins. Þá birtist hættan á að flokkurinn nái ekki manni þar inn og þar með vex nauðsyn þess að ná 5% þröskuldinum á landsvísu.
Í næstu kosningum verða 11 ár síðan Guðjón Arnar og Sverrir Hermannson komust á þing með kvótamálið sem aðalmál. Eftir því sem kvótakerfið lafir lengur og árin líða dofnar það mál og þörfin vex á að skjóta nýjum málefnastoðum undir flokkinn, sem veiti honum álíka sérstöðu og hann dafnaði á í upphafi.
Það skyldi þó aldrei fara svo að niðurstaðan yrði kristilegur þjóðernissinnaður flokkur á hægri vængnum með innflytjendamál sem aðalmál og að þröskuldurinn góði virki öfugt við það sem kannski var ætlast af þeim sem settu hann inn í kosningalögin?
Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eins og hurð sem er með lamirnar sömu megin og skráin.
lelli (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 21:18
Ég las pistil þinn með athygli af því að ég hélt að þú ætlaðir að fjalla um 5% lágmarkið og velta því fyrir þér. Mér finnst það spurning hvort það eigi að vera lágmark yfirleitt. Það er fyrst og fremst lýðræðisleg spurning. Hvað varðar aðrar vangaveltur þá hef ég ekkert gert til að reyna að hrekja Kristinn H. Gunnarsson burt úr Frjálslynda flokknum.
En Ómar er eitthvað að því að vera þjóðernissinni. Ég hef sagt það opinberlega oftar en einu sinni að ég sé þjóðernissinni. Það hefur ekkert með að gera afstöðu til annarra þjóða heldur fyrst og fremst að vera stoltur af þjóð sinni og vilja vinna henni allt hið besta. Ég held að þú sért þjóðernissinni á þinn hátt m.a. lýsir afstaða þín til landsins og fólksins í landinu þeim viðhorfum.
Og Ómar er eitthvað athugavert að vera kristilegur. Er eitthvað athugavert við að vilja efla kristileg viðhorf í landinu og kristna menningu? Boðun Jesús er jú kærleiksboðskapur og boðskapur fyrirgefningar. Mér finnst jákvætt og vil starfa í þeim anda hvort heldur er í pólitík eða annarsstaðar í lífinu. Kristnar lífsskoðanir vísa til virðingar og velvilja til alls fólks óháð kyni, kynþætti eða stöðu Mér hefur fundist þú í skrifum þínum skrifa í þeim anda þannig að ég held að þú sért sem betur fer mótaður af þeim sjónarmiðum í þinni þjóðfélagsbaráttu.
Þannig Ómar sennilega eigum við það sameiginlegt að vera kristilegir þjóðernissinnar.
Jón Magnússon, 17.9.2008 kl. 21:33
Athyglisverður vinkill, takk fyrir hann Ómar
Óskar Þorkelsson, 17.9.2008 kl. 22:24
Kristinn H. þarf alls enga hjálp til að koma sér út í horn. Hann kann það og honum hefur tekist það aftur og aftur og núna einu sinni enn.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 17.9.2008 kl. 22:43
Minn kæri Jón, það er ekkert athugavert við það að vilja vinna þjóð sinni vel eða styðja það besta sem kristnin getur gefið okkur og því síður að kenna sig við það. Ég held hvergi öðru fram.
Það má nefna að fleiri vilja vinna að sjálfstæði þjóðar og þegna en Sjálfstæðismenn og fleiri en Framsóknarmenn að finna að framsókn í málefnum lands og þjóðar. Það eru til fleiri frjálslyndir en eru í Frjálslynda flokknum og á sínum tíma taldist margt fólk til alþýðu og vildi hag hennar sem mestan ekkert síður en Alþýðuflokksmenn og Alþýðubandalagsmenn.
Ég trúi því varla að þér finnist það athugavert þótt ég velti því fyrir mér að hér á landi eins og í næstu löndum verði til flokkur sem setur þessi gildi, kristileg og þjóðleg, ofarlega.
Er ekki til flokkur sem heitir Kristilegi þjóðarflokkurinn? Og er nokkuð athugavert við það?
Ég velti þessu svo sannarlega ekki upp í þeim tilgangi að gera lítið úr slíkum viðhorfum þótt ég reyni að giska á hugsanlegar áherslur sem þinn flokkur kann að setja ofarlega.
Raunar tel ég orðið "öfgar" ofnotað í stjórnmálum og nota það ekki sjálfur þegar ég tala um íslensk stjórnmál. Það má kannski tala um nýnasista sem öfgahóp og ákveðna hópa erlendis innan trúarbragðanna svo sem í Tyrklandi, og þess vegna finnst mér út í hött að á Íslandi séu hömlur á möguleikum hópa í gerólíku erlendu umhverfi notuð sem fyrirmynd í íslenskri stjórnskipan.
Vona að þú sért mér sammála um það.
Þegar rætt er um litrófið hægri-vinstri má tala um jaðarhópa til glöggvunar án þess að setja málstað viðkomandi hópa undir eitthvað annað mæliker en almennt er notað um mismunandi skoðanahópa.
Við skulum minnast þess að í hugum margra samtíðarmanna Krists hefur hann líklegast verið skilgreindur sem öfgamaður í sínu samfélagi miðað við það hve mjög hann var upp á kant við ríkjandi viðhorf í því á þeim tíma. Og vilja ekki allir þá Krists-Lilju kveðið hafa?
Ómar Ragnarsson, 17.9.2008 kl. 23:37
fyrst þá tek ég undir með þér Ómar um að Reykjavík eigi að vera eitt kjördæmi.
síðan.
5% lágmarkið er nauðsynlegt. hvernig væri ef við værum með 63. þingmenn í 10 til 15 flokkum? ef þú vilt kynna þér hvernig slíkt kerfi virkar í raun og veru, skoðaðu þá stjórnmál í Ísrael.
litlu flokkarnir byggja á kannski einu málefni. til þess að mynda starfhæfa stjórn þá kaupa stóru flokkarnir þá litlu. eins bókstafstrúarflokkurinn í Ísrael gerir þá kröfu til að mynda ríkisstjórn að opinberu fé sé veitt til bókstafstrúarskóla sem flokkurinn rekur.
varðandi Kristinn H. þá virðist bara að hann kunni ekki að spila með öðrum. hann er góður leikmaður og getur margt upp á eigin spítur. gallinn er bara að leikurinn er hópíþrótt og það þarf að vinna með öðrum. ekki bara einspila og gefa boltan aldrei á samherja.
Fannar frá Rifi, 17.9.2008 kl. 23:42
"Ef þeim tekst að hrekja sleggjuna af leið, veikir það stöðuna í akkeriskjördæminu Norðurlandi vestra og þar með stöðu formannsins..." Bíðum aðeins- ef ég man rétt þá náði flokkurinn þar tæplega því fylgi sem Guðjón og Sigurjón fengu í kosningunum þar á undan! Hefði það ekki átt að aukast með innkomu Kristins til að ályktun þín fengi stuðning í sögunni? Það sem kom mér á óvart var það að Kristinn virtist ekki njóta bókstaflega neins stuðnings í sinni heimabyggð samkvæmt samanburði á atkvæðatölum!
Sú undrun er reyndar löngu rokin út í veður og vind. En það getur reyndar skekkt þennan samanburð að á Sauðárkróki og nærsveitum er Sigurjón vinsæll og nýtur mikils trausts, sem best má sjá á því að hann var í sumar kosinn formaður Ungmennasambands Skagafjarðar. Því má telja líklegt að persónufylgi hans hafi ekki orðið flokknum og Kristni til framdráttar er hann flutti sig í annað kjördæmi.
Tek undir með þér Guðrún Þóra.
Árni Gunnarsson, 17.9.2008 kl. 23:45
Þegar verið er að tala um Ísrael gleymist það að þingmennirnir eru miklu fleiri en hér og því þarf hlutfallslega miklu minna fylgi til að koma þar manni að en hér. Hver þingmaður hér hefur tæplega 1,6% á bak við sig, eða 2000 manns.
Við höfum dæmi um fjölda framboða sem ekki hafa náð þeirri hlutfallstölu og það er alveg nógu mikill þröskuldur að þurfa að bjóða fram um 130 manns samtals í öllum kjördæmum, fá hátt í þrjú þúsund meðmælendur og heyja dýra nútímakosningabaráttu á móti flokkum sem hafa úr hundruðum milljóna króna að spila.
Erfiðustu stjórnarkreppurnar á Íslandi hafa ekki verið vegna fjölda flokka. Fjórir flokkar voru í landinu þegar þær erfiðustu voru, - 1942, þegar ekki tókst að mynda þingræðisstjórn, og í hinum löngu stjórnarkreppum 1947, 1950, 1978 og 1979-80.
Ómar Ragnarsson, 18.9.2008 kl. 00:34
Jæja nú kemur Jón fram og með réttu ætti hann endanlega að hafa afskrifað sig sem stjórnmálamann á Íslandi.
Hvernig dettur ykkur í hug að tala um þjóðfélag árið 2008 sem byggir á trúarlegum grunni, eruð þið að fara fram á að við förum sömu leið og þeir í USA.
Gerið þið ykkur ekki grein fyrir því að EKKERT land getur notað trú sem sameiningar tákn allra.
Ég ætla að spyrja ykkur að því hvað kristilegt siðgæði er, ég ætla einnig að spyrja ykkur að því hvort þið hafið yfirhöfuð lesið biblíu.
Vitið þið td að biblían telur konur verða ~50% af verðgildi karla, að hún styður við þrælahald, aftökur á fólki fyrir engar sakir... að Jesú góði gaurinn segir: Veljið mig eða brennið að eilífu
Nú er ég að skilja hvers vegna svo margir kristnir fíla hann Jón... og Jón komdu nú og segðu mér hvað kristilegt siðgæði er... ég bíð
DoctorE (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 08:49
Ég hef sótt það sem mér sýnist best í Nýja testamentið og lít á Gamla testamentið sem bókmenntir síns tíma og það er fjarri mér að skrifa undir eða aðhyllast margt af því sem stendur þar.
Ég geri mér fulla grein fyrir hættunni á því sem hörð þjóðernisstefna eða trúarstefna ber með sér.
Kommúnisminn var í raun trúarbrögð sem byggði á því að ganga fram hjá því sem ekki verður gengið fram hjá, mannlegt eðli. Leit ágætlega út á pappírnum en kostaði kúgun, einræði og tugmilljónir manna lífið.
Svipað á við um þann algerlega óhefta kapítalisma sem nú er að ganga í gegnum svipað ferli, - menn gleyma göllum hins mannlega eðlis og að það er ekki nóg að kenning líti vel út á pappírnum ef reynslan sýnir annað.
Ég vil minna á að nútíma hugmyndir um mannúð, mildi og mannréttindi eiga rætur í kenningum Krists.
Á sama hátt má finna grunn hins besta siðgæðis og lífsspeki í ýmsum öðrum trúarbrögðum.
Ég er byrjaður að skrifa stóra bók með sögu, sem byggir á þeim grunni að öll trúarbrögð og þjóðmálastefnur eru í raun sprottnar af einni aðal forsendu, aðstæðum á hverjum tíma.
Breytist þessar aðstæður og forsendur geta trúarbrögðin farið að virka gegn góðum uppprunalegum tilgangi sínum.
Og ekki verður framhjá því litið að einhverjar verstu styrjaldir sögunnar hafa verið háðar af heittrúarhópum í þjóðmálum. Þjóðernisjafnaðarmennska (National socialism) er fallegt orð sem beitt var fyrir vagn mestu villimennsku sem heimurinn hefur kynnst.
Gamla testamentið býr yfir mörgum vísdómi en er notað af heittrúar Gyðingum til þess að færa sönnur á að þeir séu Guðs útvalda þjóð sem Guð hafi ætlast til að tækju lönd af öðrum þjóðum í "fyrirheitna landinu."
Spurt er: Hvað er kristilegt siðgæði. Því svaraði Kristur: Það sem þér viljið að aðrir menn gjörið yður, það skulið þér og þeim gjöra."
Læt það nægja í bili.
Ómar Ragnarsson, 18.9.2008 kl. 09:51
Misskilningur Ómar með að siðgæði og annað eigi rætur í biblíu, hrapalegur misskilningur hjá þér EN ég veit vel að þú einn og sér hefur meira siðgæði en allir þeir sem skrifuðu biblíu til samans.
Örugglega einn af svölustu íslendingum sögunnar, þó víðar væri leitað.
Menn skulu athuga það að Jesú sagði að GT væri í fullu gildi, þar mætti engu breyta... ég minni líka á það að ríkiskirkjan styðst faktískt við GT þegar hún hafnar giftingum samkynhneigðra.. eða bara boðorðin 10, þau er reyndar búið að snyrta til, taka út viðurkenningu á þrælahaldi og öðrum ósóma.
Við getum plottað með það að þegar GT var ein og sér og fólkið upplifði helvíti á jörðu.. Menn gátu ekkert ógnað þessu fólki.. BANG Jesú kom inn í myndina og bætti um betur með að segja að EF menn gerðu ekki X þá biði þeirra pyntingar að eilífu, Jesú kom nefnilega með þá ógn.
DoctorE (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 13:31
Kommúnisminn er auðvitað ekkert nema trúarbrögð þar sem foringinn gerir sjálfan sig að guð og útilokar önnur trúarbrögð.
Við sjáum trekk í trekk hvernig menn vinna þetta, annað hvort eru menn guðir eða segjast tala við guð eins og Bush
Svo höfum við Dear Leader, faðir hann er enn við stjórn þó löngu dauður sé, Kim á grafarbakkanum líklegast, spurning hvort þetta deyr út með honum eða hvort við fáum heilagan anda sem næstu stjórnendur notast við
Skemmtilegt videó sem lýsir vel hvernig menn gera sig að guðum
http://www.youtube.com/watch?v=3dC2aDHtEqk
DoctorE (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 14:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.