Áfram skrúfað fyrir og nú algerlega að óþörfu.

Er nú að setjast upp í Fiat-lúsina til að aka austur og upp á Hraunin fyrir austan Snæfell og Eyjabakka og fylgjast með því þegar Kelduá verður veitt inn í göng, sem liggja austur í virkjunarkerfi Jökulsár í Fljótsdal. Þar með verður skrúfað fyrir ána og á annan tug fossa að minnsta kosti sem hafa verið prýði hennar um aldir.

Hugsanlega verður aðeins félagi minn eða ég einn vitni að því þegar fossarnir verða teknir af lífi rétt eins og við Jökulsá í Fljótsdal um daginn. Því veldur fyrirbrigði sem ég kallaði "fossafælni" í Morgunblaðsgrein og lýsir sér í því að hægt og hljóðlega stefnir í það að á þessum fyrsta áratug þessarar aldar mun helmingur stórfossa Íslands að minnsta kosti munu af mannavöldum þegjandi og hljóðalaust. 

Faxi og Kirkjufoss, sem nú eru að hlíta sínum dauðadómi, eru aðeins örfáa kílómetra frá hinum malbikaða vegi á Fljótsdalsheiði. Þess hefur hins vegar verið gætt að sem allra erfiðast sé að komast að þessum fossum og má kannski segja að þjóðin hafi verið í hlutverki strútsins, sem stingur höfðinu í sandinn og telur sér trú um að það sem ekki sést, sé ekki til.

Það myndi verða talið fréttnæmt ef á sama degi væri skrúfað fyrir bæði Skógafoss og Goðafoss af því að í þeim tilfellum er erfitt að stinga höfðinu í sandinn.  

Fossarnir í Kelduá hafa verið enn afræktari en fossarnir í Jökulsá á Fjöllum, svo fallegir og sérstakir sem þeir eru. Uppþurrkun þeirra verður dapurlegur viðburður, einkum vegna þess, að í því hlýja árferði, sem nú er í samræmi við spár þar um, gerir það að verkum, að Hraunavirkjun er alger óþarfi og hefði verið hægt að sleppa henni eða að búa svo um hnúta, að ekki þyrfti að láta renna í Kelduárlón nema ástæða væri til.

Þetta hefði verið hægt ef botnrás eða hjáleið hefði verið við Kelduárstíflu, en auðvitað var það talið of dýrt á sama tíma sem reistar voru stíflur og virkjun í yfirstærð miðað við það vatnsmagn sem þarna er dögum hlýnunar í veðurfari jarðarinnar.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Fjandinn að maður sé ekki á landinu. Ég hefði hent öllu frá mér til að fara með og kvikmynda einhvern fossinn hætta að falla. Gott ef ég hefði ekki kallað til fólk til að standa við hina fossana, því maður getur víst bara verið á einum stað í einu. Hvað um það, þetta gerist þá bara hægt og hljótt. Það sem við ekki vitum af er ekki til og engin ástæða til að trúa að það hafi nokkurn tíma verið það.

Villi Asgeirsson, 19.9.2008 kl. 20:07

2 Smámynd: Einar Indriðason

Er nokkur leið, Ómar, að þú verðir með myndavél?  Og þetta verði aðgengilegt fyrir fólk á einhvern hátt?  Mig langar að flakka meira um landið okkar, ég er rétt að smitast af landaflakksbakteríunni.  Það væri gaman að fá að sjá þetta amk á mynd, þó ekki væri annað.

Einar Indriðason, 19.9.2008 kl. 22:33

3 identicon

Já það er sorglegt hlutskipti að þurfa að horfa upp á annað eins og það sem er að gerast fyrir austan, rétt eins og um náttúruhamfarir sé að ræða en ekki mannanna verk sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Hefði fólk aðeins fengið tækifæri til að njóta þess sem þarna er verið að fórna áður en til framkvæmda kom er ég viss um að þetta hefði aldrei orðið.

Mér verður oft hugsað til þess undraheims sem opnaðist fólki við að brúa Jökulsá á Fjöllum og Kreppu á sínum tíma og þess að ef stjórnvöld hefðu varið smáaurum í eitthvað svipað fyrir austan, t.d. að lagfæra vegslóðir og brúa Jöklu og Jökulsá í Fljótsdal inni á hálendinu þannig að fólk hefði með eigin augum getað áttað sig á þeim náttúruaðæfum sem nú hefur verið drekkt eða skrúfað fyrir.

Það var svo sannarlega þess virði að ganga nokkrum sinnum með Jökulsá í Fljótsdal þótt sú ganga hafi verið tregafull vitandi um hvaða örlög biðu allra fallegu fossanna og eru mér þar minnistæðastir Ufsarfoss, Hrakstrandarfoss, Tungufoss, Kirkjufoss, Faxi, Stóralækjarfoss, Raufarfoss og Stíflufoss, hver með sitt svipmót umvafðir gróðri og fallegum bergmyndunum.

Það kom mér svo á óvart þegar ég gekk með Kelduá, sem fáir virðast hafa heyrt nefnda, að þar voru ekki síður fallegir fossar sem ég kann ekki nöfn á nema hinum einstaka Brúðarfossi og með ánni allri var einstakt lífríki, falleg eyrarrósin, birkið og öll smádýrin sem tæplega munu þrífast án árinnar.

Þú Ómar ert svo sannarlega að vinna þarft verk með því að skrá með myndatökum og að koma á framfæri réttum upplýsingum til þeirra sem ekki höfðu tök á að njóta, en því miður verður þetta eins og sorgleg minningargrein.

Snorri SigurjónssonS

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 20.9.2008 kl. 15:53

4 Smámynd: Alda Sigurðardóttir

Þyngra en tárum taki... Þjóðin og heimur allur fátækari og innistæðan fyrir ást á landinu minnkar hratt. Það er ekki annað en hægt að dást að þér og því sem þú ert að gera. Sjálf hef ég ekki getað einu sinni hugsað mér að fara á Austurland síðustu árin, finn fyrir hrolli við tilhugsunina eina. Geymi í hjartanu minningu um gönguferð í kringum Snæfell sem kæran dýrgrip.

Alda Sigurðardóttir, 20.9.2008 kl. 23:30

5 identicon

Ómar, farðu nú að slaka á, það virðist vera að þú gerir þér ekki grein fyrir því að við, fólkið á landsbigðinni, þurfum líka að lifa. Hefuru ekki farið upp á Hellisheiði nýlega og virt fyrir þér náttúruspjöllin þar? eða er kannski allt í lagi með þau vegn þess að þau eru svo nærri Reykjavík?

Alda, þú getur allveg gengið áfram kringum Snæfell og séð eitthvað nýtt í hverri ferð, það er hugafarið sem skiftir máli.

Áframhaldandi uppbiggu á landsbyggðinni.

Landsbygðin lifi!

Gísli Einars (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 11:41

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þessa fossa sem eru að hverfa þekki ég vel og þarna finnst mér persónulega mestu náttúruspjöllin liggja. Takk fyrir að standa vaktina og vissulega verður á næstu misserum fróðlegt að sjá þetta allt sýnt í mynd. Þegar þú verður búin að klippa þetta inn í heild. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 21.9.2008 kl. 12:04

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gísli Einars, hefurðu ekkert fylgst með baráttunni hér fyrir sunnan gegn Bitruvirkjun, Grændalsvirkjun, Nestúnsvirkjun við Krýsuvík og óþarfa umhverfisspjöllum við Trölladyngju? Eða gegn Heguvíkurálveri, stórfelldri stækkun álvers í Straumsvík og virkjunum í Neðri-Þjórsá, en þetta hangir allt saman á suðversturlandsspýtunni?

Ómar Ragnarsson, 21.9.2008 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband