25.9.2008 | 12:30
Laun þrautseigjunnar, verðskulduð þökk.
Það er kalt á toppnum, sama hver hann er. Eiður Smári Guðjohnsen hefur fengið að kenna á því. Hann er undir smásjá fylgismanna liðs hans á Spáni og hann er undir smásjá okkar hér heima á skerinu sem hann fór frá til að sækja fram á því sviði þar sem augljósir hæfileikar hans nytu sín.
Tugmilljónir drengja um allan heim verða að láta sér nægja að dreyma um að verða knattspyrnustjörnur. Það þarf sterk bein til að þola bæði frægð og frama en ekki síður mótlætið. Öll erum við mannleg með kostum okkar og göllum, ávinningum og mistökum, Eiður Smári jafnt sem við hin.
Eiður er gagnrýndur harðlega þegar eitthvað bjátar á eða hann stenst ekki grimmar kröfur um að sýna gargandi snilld í hverjum leik. Að ekki sé nú talað um umtalið þau tímabil sem hann verður að þrauka á bekknum leik eftir leik og vita ekki hvort eða hvenær kemur til hans kasta.
Þá vill gleymast að svo margir afreksmenn eru í liði Eiðs að þeir verða flestir að sætta sig við það sama og hann.
Enn og aftur vísa ég til Muhammads Alis, sem talinn er mesti þungavigtarhnefaleikari allra tíma og jafnvel mesti íþróttamaður allra tíma,þótt hann tapaði fyrir Joe Frazier, Ken Norton, Leon Spinks, Larry Holmes og Trevor Berbick.
Síðustu tveimur bardögunum tapaði hann kominn langt á leið ofan af toppi líkamlegrar getu og haldinn Parkinsonveiki.
Hann barðist þrívegis við Frazier og Norton og lauk viðureignunum við báða með tölunni 2 vinningar gegn einum, Ali í vil.
Á tindi getu sinnar 1967 hefur Ali vafalaust verið besti þungavigtarhnefaleikari allra tíma. En það eitt hefði aldrei nægt til að skipa honum á þann stall sem hann er nú.
Því veldur sá eiginleiki sanns meistara að kunna að vinna úr ósigrum sínum og veikleikum og eflast við það. Viðbrögð við ósigrunum og mótlætinu segja meira um mannkosti en viðbrögð við sigrum. Enginn kunni það betur en Ali, og síðustu árin á keppnisferlinum var það viljinn einn, kjarkur og óbilandi þrautseigja sem hélt honum á floti.
Ali segist nú heyja merkilegasta og mesta bardaga lífs síns, baráttuna við Parkinsonsveikina. Hann segir: Úr því að Guð úthlutaði þessu verkefni til mín lít ég á það sem áskorun sem mér sé ljúft, skylt og heiður af að fá að fást við. Ég vil ekki bregðast því trausti sem forlögin sýna mér með því að fela mér þetta erfiða verkefni."
Þetta hlýtur að vera fyrirmynd fyrir alla, hvort sem þeir eru íþróttamenn eða fást við annað. Kjarkur og þrautseigja, þolinmæði sem þrautir vinnur allar. Þess vegna tek ég undir þakkarorð Spánverjanna: Þakka þér, Eiður Smári!
Takk, Guddy | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.