28.9.2008 | 03:18
Talking lady, viðbótar"kóari."
Sagnir eru um íslenska blaðakonu, sem er mælsk mjög á íslensku en ekki síður á aðrar tungur. Er sagt að þegar spurt var um hana í löndum, þar sem hún hafði verið á ferð, hafi útlendingarnir, sem spurðir voru, svarað: "Do you mean the talking lady?"
Hún hefur komið mér í hug í síðustu tveimur ferðum mínum um Bandaríkin. Hingað til höfum við hjónin rætt um aksturinn og bestu akstursleiðir með aðstoð korta og ferðabóka og við höfum því verið nokkurs konar tveggja manna áhöfn líkt og í ralli.
En nú hefur bæst við nýr ferðafélagi með tilkomu GPS leiðsögutækjanna, sem hægt er að leigja með í ferð á bílaleigubílum. Að minnsta kosti köllum við Helga hana alltaf Talking Lady og dáumst að mælsku hennar og rökvísi.
Á leið og við settumst upp í bílinn í gærkvöldi til að aka til Yellowstone talaði Helga þannig um Talking Lady að ókunnugur á ferð með okkur hefði rekið í rogastans. Svona er þessi kona orðin sprellifandi i hugum okkar frá því í síðustu ferð.
Í stuttu máli sagt: Talking Lady er konan sem hefur ljáði GPS leiðsögutækjunum rödd sína. Og sú kona hlýtur að vera til einhvers staðar.
Ef ekki er farið að ráðum hennar út í hörgul verður hún stundum nær óðamála og stoppar varla við að heimta að beygt sé til hægri eða vinstri eða snúið við. Hún refsar okkur fyrir að fara ekki að ráðum hennar með því að lengja áætlaðan ferðatíma, sem birtist jafnharðan á skjánum, og lengir sömuleiðis vegalengdina, sem eftir er að aka, miskunnarlaust.
Þessi viðbótar aðstoðarökumaður eða "kóari" eins og stundum er sagt til styttingar, er sem sé ýtinn og neytir allra bragða við að ráða ferðinni.
Þeir sem eru einir í bíl gætu gætu vel farið að gera hana enn meira lifandi en hún er þegar orðin í huga okkar hjóna með því að pæla í því hvort sá tími muni koma að hún láti ekki nægja að fylgja einfaranum að húsinu eða hótelinu sem hann ætlar í, heldur áfram allt inn á herbergi.
Svona geta nú litlir hlutir orðið lifandi og skemmtilegir á ferðalögum. Ég hef meira að segja búið mér til í huganum mynd af því hvernig Talking Lady GPS-tækjanna lítur út. Næsta skref í gerð GPS-tækjanna er að maður sjái hana á skjánum um leið og hún malar og leiðir mann alla leið inn í rúm.
Athugasemdir
Ég var einmitt að blogga um daginn um GPS-tækin, hvað þau eru í raun vannýtt. Það væri hægt að bæta við virkni þeirra til muna. Sjá HÉR
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.9.2008 kl. 05:22
Á mínum bæ er þessi óðamála, afskiftasama en ómissandi kona kölluð Kjaftakellingin.
Villi Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 06:19
Við Álfheiður njótum fylgdar einnar svona konu, nema hvað sú mælir á danska tungu sem ljóstrar kannski upp hvar faðmur hennar opnast okkur. Hún segir svo elskulega drej til venstre, drej til højre -- eller kør lige ud. Á okkar bæ heitir hún Danska konan og við erum hætt að ergja hana með því að bregða út af fyrirmælum hennar -- við einfaldlega slökkvum á henni þegar það kemur fyrir en leyfum henni að láta ljós sitt skína strax og við erum tilbúin að fara að fyrirmælum hennar aftur.
Og hún hefur aldrei reynt að elta okkur inn á herbergi.
Sigurður Hreiðar, 28.9.2008 kl. 12:39
Við notumst við American Jack í Garmin tækinu okkar. Konan mín á það til að rífast við hann og vill fara aðra leið en hann leggur til. Þá segir hún gjarnan við mig, "Ekki hlusta á American Jack!" Þetta verður stundum til þess að leiðin lengist aðeins.
kveðja Rafn.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 17:37
Vinkona okkar heitir Gæskan. Við kynntumst henni fjölskyldan þegar við fórum til Kanödu í sumar. Alveg var ég steinhissa á hvað hún var staðkunnug. jafnvel þegar við renndum út af hraðbrautinni til þess að taka bensín á að því er virtist lítilfjörlegri bensínstöð nánast úti í móa, þá rataði hún þaðan út rétt eins og hú hefði verið þar í gær.....eða kannski var það einmitt þannig?! Hú bjó einnig yfir yfirgripsmikilli þekkingu um veitingahús og gististaði hverskonar og það er ef til vill spurning hvort ekki væri upplagt að fá hana til að kynna sér fjármál allskonar, þá gæti hún ráðlagt um fjárfestingar á verðbréfamörkuðum nú eða jafnvel gefið ríkisstjórnum „hint“ hvernig ráða eigi við lausafjárstöðuna. Það væri fengur í því....
Guðmundur Gunnarsson, 28.9.2008 kl. 23:52
Hæ hæ
Við Óskar höfum alltaf kallað konuna með röddina Vegu því hún reynir alltaf að segja manni til vegar Við í fjölskyldunni fylgjumst með blogginu og ferðumst þannig með ykkur í huganum. Njótið ferðarinnar, kv. Ninna
Ninna (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 00:49
Sæl, Ninna mín, og þakka þér fyrir skeytið. Við ókum frá Denver í fyrradag langleiðina í gegnum Wyomingríki til bæjar að nafni Riverton og í gær ókum við þaðan í gegnum Yellowstone og erum nú í litlum bæ í Montana, skammt frá Yellowostone, sem heitir West Yellowstone. Á morgun er meir en þúsund kílómetra akstur á dagsrkrá héðan til Salt Lake City en þaðan fljúgum við á þriðjudagsmorgun til San Fransisco. Ástarkveðja.
P. S. Ég bað um ódýrasta bíl og fékk fimm metra langan blæjubíl sem er í flokki með þeim minnstu vegna þess að blæjubúnaðurinn stelur næstum öllu farangursrýminu. Fyrir bragði ökum við þegar hentar í opnum bíl í sólskinun á eins amerískan vestrahátt og hægt er! Frábært, en það er athyglisvert að það er miklu betra skjól í Fíat-lúsar blæjubílnum mínum, sem er ódýrasti blæjubíll í heimi.
Ómar Ragnarsson, 29.9.2008 kl. 03:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.