7.10.2008 | 01:16
Dapurlegt tilefni og undrun útlendinga.
Undrun útlendinganna, sem ég hitti á samkomum Seacology-samtakanna í San Fransico og Los Angeles um helgina var mikil yfir því sem er að gerast á Íslandi. Það er í raun dapurlegt að verðlaun samtakanna skuli í fyrsta sinn vera veitt Evrópumanni eftir að þau hafa verið veitt fólki í hinum heimsálfunum í 16 ár.
Ástæðan er sú að vettvangur samtakanna hefur hingað til að mestu verið bundinn við fátæk þróunarlönd þar sem sveltandi eða frumstæðu fólki hefur verið hjálpað til þess að ganga ekki á ómetanlegar gersemar og auðlindir náttúrunnar.
Sem dæmi má nefna þegar verðmætum skógi var bjargað frá því að íbúarnir eyddu honum í neyð sinni og yllu með því flóðum og gróðureyðingu sem hefði á endanum eyðilegt lífsmöguleika þeirra.
Útlendingarnir sem ég hef hitt hafa undrast þær staðreyndir, sem þeir höfðu aflað sér um íslensk umhverfismál áður en þeir veittu verðlaunin. Margir höfðu lesið grein í tímaritinu National Geography um Kárahnjúkavirkjun.
Menn frá tímaritinu komu raunar til Íslands 2001 og skrifuðu grein sem stungið ofan í skúffu. Af einhverjum ástæðum var því frestað að senda grein um málið út fyrr en nú. (Kippti einhver í spottann? Sambönd og áhrif valdhafana liggja ótrúlega víða.)
Þeir göptu yfrir því að íslensk stjórnvöld hefðu sent álrisum heims bækling með loforðum um lægsta orkuverð heims og sveiganlegt umhverfismat sem yrði ekki hindrun fyrir þau. Og ekki síður yfir því að þetta upplýstist ekki fyrr en níu árum seinna í frábærri rannsóknarblaðamennsku Andra Snæs Magnasonar.
Útlendingunum finnst óskiljanlegt að ein ríkasta þjóð heims á þeim tíma skyldi senda betllibréf til að lokka álrisana frá því að virkja vatnsorku, sem gnægð er af í löndum annarra heimsálfa, nálægt framleiðslustaðnum.
Svarið við því hvernig það gæti borgað sig að flytja hráefnið yfir hálfan hnöttinn til Íslands og álið síðan til baka var einfalt: Af því að orkuverðið var svo lágt. Svo lágt, að falli verðið á því að marki vegna minnkandi eftirspurnar (30 sinnum meiri orku þarf til að vinna tonn af áli en stáli) munu Íslendingar reka virkjanirnar með tapi.
Útlendingarnir undruðust að þjóð sem þegar framleiðir fimm sinnum meiri orku en hún þarf sjálf til eigin nota og á möguleika á að verða fyrsta þjóð veraldar sem er algerlega óháð jarðefnaeldsneyti, skuli ætla að framleiða allt að 10-15 sinnum meiri orku en hún þarf til að knýja álver í eigu útlendinga þar sem innan við 2% vinnuaflsins myndi fá vinnu.
Fólk í samtökunum lýsti yfir aðdáun á baráttu íslensks náttúruverndarfólks gegn ofurefli valda, fjár og aðstöðu ráðandi afla. Það er út af fyrir sig ágætt að geta fært íslenskum umhverfisverndafólki góð skilaboð um stuðning samtakanna við málstaðinn en tilefnið dapurlegt engu að síður.
Athugasemdir
Þú berð saman ál og stál. Hefurðu borið saman endurvinnsluhlutfall þessara málma? Hefurðu borið saman orkumismuninn í endurvinnslu þessara málma? Hefurðu borið saman notkunarmöguleika þessara málma? Hefurðu skoðað gjaldeyrisukninguna í íslenska hagkerfinu eftir að áliðnaðurinn hóf innreið sína á Íslandi? Hefurðu pælt í því að í kjölfar hinna válegu tíðinda í efnahagsmálum heimsins, þá hrapar fylgið við sjónarmið þín varðandi stóriðjur og virkjanir?
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.10.2008 kl. 01:38
Jú, Gunnar, fyrirbærið um að selja ömmu sína þegar á þarf að halda er sígilt.
Gjaldeyrisaukningin vegna útflutnings áls er alltaf nefnd en ekki aukningin á gjaldeyriseyðslu við að flytja hráefnið inn. Sjávarútvegurinn þarf ekki að flytja hráefnið inn yfir þveran hnöttinn og borga fyrir það í erlendum gjaldeyri. Hráefnið kemur enn upp úr auðlindalögsögu í eigu Íslendinga.
Sjávarútvegurinn skapar þrefalt meiri virðisauka í þjóðfélaginu en álframleiðslan. Það verður alltaf þörf á fæðu í heiminum en þörfin fyrir ál verður síðri þegar og ef draga verður neyslubruðl saman.
Ómar Ragnarsson, 7.10.2008 kl. 01:52
Ómar lagði Andri Snær og ýmsir aðrir "náttúruverndarforkólfar" ekki til að við ættum að stofna fjármálamiðstöð á Íslandi ? Einhverjir þeirra lögðu þetta til í fullri alvöru (man ekki hvort það var ASM). Að við ættum að hætta að starfrækja gamaldags iðnað eins og álver. Álverið fyrir austan gerir það að verkum nú að staða okkar er mun betri.
National Geographic fjallaði um Kárahnjúkaverkefni og lauk á það lofsorði vegna þeirrar verkfræðilegrar og verklegrar kunnáttu sem þar átti sér stað. Þættirnir hétu Extreme Engineering og eru mjög vinsælir á rásinni.
Þú veist það vel að ál er mun hagkvæmari málmur í alla staði en stál, sérstaklega í farartæki. Ég hélt í það minnsta að flugmaðurinn vissi það. Saga vélflugsins og saga t.d. Alcoa er mjög samofinn. Ekki af tilviljun !
Segðu mér eitt Ómar, hvað vilt þú að við gerum nú til að atvinnusköpunar og til aukinnar gjaldeyristekna ? Ef þú nefnir ferðamannaiðnað, ertu þá að hugsa um umhverfið og vernd íslenskra fjallasvæði. Á umhverfisvernd bara heima í kringum virkjunarstaði Lv og OR ?
Gísli (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 02:19
Laissez-Faire, Er ekki óhófleg skuldsetning þjóðarbúsins vegna virkjana sem framleiða niðurgreydda raforku handa úlendum fyrirtækjum sem þurfa endalaus fríðindi og skatta afslætti frekar hluti af orsök vandans? Það hafa sjórnmálamenn meira að segja bent á. Öfugsnúið að sletta því svona fram sem lausn......
Gunnar Th. Hefur verið gerð skoðanakönnun á fylgi við þessi sjónarmið?
Gísli, Þú talar um ál í flugvélar. Hvaða önnur efni hafa verið notuð í flugvélaskrokka? Fyrir daga álsins var það trégrind og léreft, talsvert léttara en ál. Í nútímanum eru önnur efni en ál: koltrefjar og trefjaplast. Sem sagt álið er lang þyngsta efnið sem notað er í flugvélaskrokka. Í bifreiðar hefur til dæmis verið notað plast, sem er miklu léttara og ódýrara en ál. Samt eru bílar ekki léttari og það er vegna þess það eru aksturs eiginleikar og síðan og ekki síst smekkur bílakaupenda sem ræður mestu um þyngd bíla, Þungir bílar eru jú þíðari og stöðugri en léttir bílar. Við höfum haft álbíla hér á götunum í áratugi. Land Rover og Range Rover. Þeir eru ekki léttari ódýrari eða minna mengandi en aðrir bílar. Hvað er svona hagkvæmt við álið?
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 10:05
Húnbogi snýr öllum staðreyndum á hvolf. Það er ekki hægt að rökræða á þessum nótum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.10.2008 kl. 11:43
Afsakaðu Gunnar Th. en þetta hljómaði eins og ef þú hefðir sagt: úps nú hef ég ekki fleiri rök þannig að það er best að segja að hinn sé ruglaður
Rósa (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 12:53
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.10.2008 kl. 14:58
Ál er hægt að endurvinna endalaust án þess að það tapi gæðum sínum, ólíkt flestum öðrum efnum, þ.mt. málmar og plast. Auk þess sem fá efni ef nokkurt krefst eins lítillar orku við endurvinsluna. Tæp 90% alls áls sem framleitt hefur verið í heiminum frá upphafi er enn í umferð. Ekkert efni sem maðurinn framleiðir getur státað af öðru eins.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.10.2008 kl. 15:03
"Hvað er svona hagkvæmt við álið?"
Ál væri ekki framleitt ef ekki væri efturspurn eftir því. Horfið í kringum ykkur, það er ál út um allt!
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.10.2008 kl. 15:09
Léttastu flugvélar á Íslandi, miðað við stærð, franskar vélar af gerðinni Jodel, eru smíðaðar úr hverju, getið þið upp á því? Svar: Krossviði og léreftsdúk.
Nýjustu og vinsælustu vélarnar eru úr koltrefjaefnum til dæmis þær sem auglýstar hafa verið sem kennsluflugvélar hjá Keili.
Ómar Ragnarsson, 7.10.2008 kl. 17:05
Léttustu flugvélar á Íslandi, miðað við stærð, eru franskar vélar af gerðinni Jodel og smíðaðar úr krossviði og striga. Mest seldu og nýjustu flugvélarnar eru úr koltrefjum.
Það er ekki tilviljun að orkufyrirtækin vilji breyta mestu náttúrugersemum landsins í iðnaðar- og virkjanasvæði. Því miður fer það langoftast saman að mesta orkan er á slíkum svæðum og stærstu gróðurvinjarnar á hálendinu ofan í lægðum sem henta vel fyrir miðlunarlón.
Munurinn á Bandaríkjamönnum og Íslendingum er sá að kanarnir láta mesta orkusvæði sitt, Yellowstone, ósnert en fá okkur Íslendinga til að umturna verðmætari náttúrugersemum.
Ómar Ragnarsson, 7.10.2008 kl. 17:16
Enda nota þessir mestu orkusóðar veraldarinnar ódýrasta orkukostinn fyrir sig, jarðefnaeldsneytið í stórum stíl
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.10.2008 kl. 19:36
Við Íslendingar fylgjum Könunum fast á eftir sem orkusóðar og þarf ekki annað en að horfa yfir bílaumferðina hér vestra þessa dagana og sjá, að eina landið sem keppir við Kanann í því efni erum við Íslendingar.
Ómar Ragnarsson, 7.10.2008 kl. 20:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.