Skömm er óhófs ævin, - nefndi höfuðið tíu...

"Skömm er óhófs ævin" sagði einn fyrsti vinur minn sem ég hitti við komuna til landsins í morgun og víst á þetta orðtak við nú. Atburðarásin hefur verið svo hröð að hún minnir á frásögn Njálu af því þegar Kári kom að einum brennumönnum óvörum þar sem hann taldi peninga í skógi og hjó umsvifalaust af honum hausinn. "Og nefndi höfuðið tíu þegar af fauk bolnum..." segir í sögunni.

Hausinn fauk og ríkidæmið með. 

Það er svo örstutt síðan það ástand ríkti, sem við öll þekkjum, að það var ekki vandamál að kaupa frægustu og dýrustu skemmtikrafta heims til að skemmta hér í afmælisveislum, eða að hafa það eins og Yngvi Hrafn Jónssson lýsti þegar laxveiðiþotuliði var flogið með þyrlum að laxveiðiánni og prúðbúinn þjónn fylgdi hverjum veiðimanni á árbakkanum. Skotist á þyrlu ef það vantaði pylsu og kók.

Það er svo örstutt síðan að það ástandi ríkti sem fyrsti Íslendingurinn sem ég hitti í Leifstöð lýsti svona:  "Þau fóru, skötuhjúin, öreigar, til fjármálaþjónustufulltrúans, og komu frá út frá honum, orðin eigendur að 40 milljón króna húsi, tveimur lúxusbílum og á leið til útlanda til að slappa af eftir erfiði dagsins."

Þetta verða sögurnar sem erfast munu til afkomenda okkar auk margra annarra enn ótrúlegri.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég kannast ekki við það að hafa notað vikupeninga Britney Spears eða álika mælikvarða í mínum rökræðum. Ég hef aldrei haldið því fram að framleiðsla sé skítug og ekki sæmandi Íslendingum, - hef raunar ævinlega talið alla vinnu göfuga og sjálfur unnið öll möguleg störf um ævina.

Ég studdi Búrfellsvirkjun og ótal fleiri virkjanir. Ég studdi álver í Straumsvík og verksmiðjur á Grundartanga.  

Það sem ég hef hins vegar andmælt er græðgisleg sókn eftir skjótfengnum peningum án tillitis til framtíðarinnar eða afkomenda okkar. Þetta hefur blindað mönnum sýn og rutt öðru burtu.

Því er haldið fram að lausn á atvinnuvanda þjóðarinnar liggi í að hér rísi sex risaálver sem krefjist allrar orku landsins með algerri fórn allra náttúruvermæta. En í þessum álverum munu samt aðeins 2% vinnaflsins fá vinnu!

Hvernig sem fjármálakreppa heimsins leikur þjóðirnar er ljóst að mannauðurinn er mikilvægasta auðlindin og að menntuðustu þjóðirnar eiga mesta möguleika. Hér á landi hafa margs kyns fyrirtæki, sem hafa reynt að nýta mannauðinn til framleiðslu á nýjum vörum, átt erfitt uppdráttar vegna ofuráherslunnar á það að selja álrisum rafmagn undir kjörorðinu "ódýrasta orka í heimi, - sveigjanlegt umhverfismat."

Slíkt gera aðeins vanþróaðar þjóðir. Við töpum endanlega öllu ef keppum við þær um að útvega ódýrt vinnuafl í störf sem krefjast "engrar sérstakrar menntunar", (eins og stendur í síendurteknum auglýsingum Fjarðaáls) , jafnvel þótt nú verði hart á dalnum í einhver ár.

Varnarlína þjóðarinnar liggur í Leifsstöð. Ef við missum allt menntaðasta fólkið frá okkur í gegnum hana verðum við að lokum enn minni þjóð en við erum nú og í hópi hinna vanþróuðu þjóða.    

Ómar Ragnarsson, 11.10.2008 kl. 14:17

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það kann að vera að einhverjir hafi nefnt "thriving banking sector"2006 þegar greinin var sett saman. Þá áttu eftir að líða tvö ár þangað til það kom í ljós að fjármálafíklar höfðu blásið upp blöðru, sem var tíu sinnum stærri en þjóðarframleiðslan.  2006 vissu menn ekki betur að í landinu væru Fjármálaeftirlit og önnur yfirvöld sem tryggðu það að sýnd væri ábyrgð í þessum málum og raunar virðist enginn hafa haft hugmynd nema um brot af þeirri sápukúlu sem í raun var blásin upp. 

Menn héldu að um væri að ræða hæfilega viðbót við þjóðarstarfsemina innan ramma þess að hafa ekki of mörg egg í körfunni. Þeir sem mest bárust á hvöttu einnig mest allra til hegðunar í anda orðtaksins "take the money and run" á öllum sviðum þjóðlífsins.

Og í anda gamblaranna er orkuverðið bundið við álverðið og hefur fallið mikið á síðustu árum. Því miður getur kreppan valdið meira falli og aukið hættu á því að hið fáránlega lága orkuverð verði ekki einu sinni nógu hátt til að endar nái saman, þ. e., að við seljum með tapi.  

Enginn virðist heldur hafa reiknað með skipbroti Bandaríkjanna þótt það blasi við eftir á að auðvitað gat þetta stærsta fjármálaveldi heims ekki endalaust haldið áfram að reka þjóðfélagið með stórfelldum halla og skuldasöfnun bæði heima fyrir og erlendis.

Ómar Ragnarsson, 11.10.2008 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband