Nauðsynleg kaflaskil í sögu flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið stór flokkur, svo stór að innan hans má finna allt að því þverskurð íslensks samfélags. Að sumu leyti hefur hann verið eins og regnhlífarsamtök og farnast undravel að haldast saman sem heild. Nú er nauðsynlegt fyrir flokkinn að gera gagngera endurskoðun á starfi sínu og stefnu.

Um 1980 hófst tímabil á Vesturlöndum, sem í framtíðinni verður kennt við Reagan og Thatcher. Þau stóðu fyrir stefnubreytingu til hægri sem höfðu áhrif um allan heim. Vegna þess að stefna Reagans í utanríkismálum kom fram á réttum tíma féllu Sovétríkin og í kjölfar þess fylgdi enn meiri útbreiðsla hins nýja kapítalisma, meira að segja undir verndarvæng alræðisstjórnar kommúnista í Kína.

Hér á landi var gömlu, skaðlegu og úreltu hafta og sérhagsmunagæslukerfi rutt í burtu og okkur loks komið að fullu inn í samfélag vestrænna þjóða með viðskipta- og atvinnufrelsi í gegnum EES. Upp úr aldamótum reis enn ný og undrahá gróða- og útþenslualda.

Allan þennan tíma horfði hið vestræna samfélag fram hjá því að ein af höfuðundirstöðum hinnar nýju velmegunar byggðist á óhæfilegri áhættu sem fólst í því að Bandaríkin voru rekin með svimandi háum viðskiptahalla sem knúinn var áfram með óheyrilegri skuldasöfnun um allan heim.

Meðan allt lék í lyndi skrúfaði þetta upp verðmætamat og starfsemi sem var ekki var byggð á raunverðmætum heldur huglægu mati sem var á skjön við raunveruleikann. Rétt eins og útþensla hins opinbera kerfis hafði verið meiri en þörf var fyrir (lögmál Parkinssons) varð útþensla hins græðgisknúna frjálshyggjukerfis langt umfram raunverulegar þarfir.

Af ýmsum orsökum og fyrir heppni viðgekkst þetta miklu lengur en búast hefði mátt við og fólk var farið að trúa því að endanlega lausnin væri fundin, þessi tegund kapítalisma hefði sigrað og kommúnisminn tapað.

Nú er runnið upp augnablik sannleikans og endurmat og rótttæk endurnýjun verður að eiga sér stað á rústum þess sem hrunið er. Enginn flokkur þarf eins á því að halda og Sjálfstæðisflokkurinn, helsta vígi einkaframtaksins á Íslandi. Það er lífsnauðsyn fyrir flokkinn að gera þetta ef hann á að geta haldið áfram hlutverki sínu á hægri væng íslenskra stjórnmála. 

Ef hann gerir það ekki mun illa fara fyrir honum. Flokkurinn hefur áður staðið framm fyrir því að kaptílaisminn hafi beðið hnekki en það var í kreppunni miklu. Flokkurinn fékk að vísu 48% fylgi í kosningum 1931 en þá var tekist á um kjördæmamál og þá ólýðræðislegu skipan að mikill minnihuti landsmanna gæti fengið meirihluta á þingi.

Nú er staðan önnur. Þúsundir Íslendinga sem beinlínis ætluðu að nýta sér græðgisvæðinguna sitja eftir með sárt enni. Engin smjörklípuaðferð mun geta komið Sjálfstæðisflokknum til hjálpar. 

 


mbl.is Tár felld á flokksráðsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þér nafni að nú verða að verða þáttaskil. Það var búið að telja okkur trú um m.a. af forseta landsins Ólafi Ragnari Grímssyni að framtíð landsinns fælist í hugvitinu og útrásini og að hin gömlu gildi til sjós og lands gæfu eftir vegna þess gríðarlega mannauðs sem einbeitti sér að útrásini. Nú blasir kaldur raunveruleikinn við, allt var þetta byggt á sandi. Nú verðum við að treysta aftur á náttúruauðlindir þjóðarinnar, við þurfum að nýta fiskimiðin skynsamlega, og við þurfum að virkja fallvötnin skynsamlega til orkuöflunar og sölu. Þar liggja okkar tækifæri en ekki í tuskubúðum við Oxfordstreet. Snúum bökum saman að stórátaki í þessum málum og látum ekki kreddur og umhverfisöfgar halda aftur af okkur.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 16:42

2 identicon

Auðveldara sagt en gert fyrir xD að gera upp við nútíðina.

Davíð Oddson hefur ráðið flokknum og stefnu hans á grundvelli sinna gáfna, orðheppni, beittrar tungu, heiftarlegs metnaðar og takmarkalausar valdafíknar. DO er náttúrulegur leiðtogi. Hann er sem sem Egill Skallagrímsson forðum; sérhver bíður bráðan dauða sem gengur geng honum á vígahóli.

Annaðhvort verður honum ráðinn pólitískur bani innan flokksins af þeim sem þor hafa, eða sjá sér leik þegar hann vel liggur við höggi. Þá mun gefast tækifæri til að breyta stefnu flokksins að einhverju takmörkuðu leiti. Líklegra er að hann hljóti sama aldurtila og Egill og eldist úr sinni valdastöðu.

Afdrif xD verða eins og þau alltaf hafa verið. Stór hluti Íslendinga er hlynntur einstaklingsframtaki, vestrænu lýðræði og samstöðu vestrænna ríkja og sér xD sem traustustu stoð þeirrar hugsjónar. Það mun ekki breytast.

Logi Gunnarsson (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 16:52

3 identicon

Sæll Ómar. Þetta eru fínir pistlar hjá þér.

Ég aftur á móti er að vona að sjálfstæðisflokkurinn þurrkist út eftir það sem hann hefur komið okkur í.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú sýnt að hann er ekki sú "trausta stoð" sem Logi Gunnarsson vitnar í með athugasemd sinni. Það væri ekki slæmt að fá sendinefnd frá útlöndum til að fylgjast með embættisfærslum þessara óhæfu ríkisstjórnar sem við höfum, bara svona til að koma í veg fyrir að þeir reyni að bjarga einkavinum sínum í einkaframtakinu fyrst.

En hvað veit ég, ég er bara ein af þeim sem fann aldrei fyrir þessu stórkostlega góðæri sem umtalað var hér, aftur á móti er passað upp á að ég þurfi að borga samt fyrir þetta góðæri.

Helga Þorsteinsdottir (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 19:30

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er ósammála þeirri skoðun að nýjust atburðir sýni að hugvit og útrás þess séu orðin einskis nýt. Ég veit ekki betur en að fyrirtæki á borð við Össur og Marel hafi notað íslenskt hugvit til framleiðslu, bæði hér heima og erlendis á vörum, sem ekki eru hráefni eins og fiskur og ál.

Hvernig sem allt veltist mun mannauðurinn skila meiru til okkar en hráefni þótt ekki megi án þeirra vera. Á 21. öld munu ekki lengur gilda lögmál 19. aldarinnar um að bókvitið verði ekki í askana látið.  

Ómar Ragnarsson, 12.10.2008 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband