Stærsta sýning heims.

Skafárhlaupið er atriði í því sem ég vil kalla "The greatest show on Earth", stærstu sýningu í heimi. Eldvirkni undir Vatnajökli, sem á sér enga hliðstæðu í veröldinni bræðir jökulinn ofan á sér uns flóð brýst fram. Flóðið er allt í senn, hrikalegt, aurugt, úfið og ótrúlega fallegt, enda liggur leið þess um óviðjafnanlegt landslag með Eldgjá á aðra hönd og Lakagíga á hina.

Í nokkrar aldir er spilaður kafli í sýningunni sem kalla mætti sandkaflann, þegar áin, fóðruð af jarðhita og ísi, leitast við að fylla eldhraunið sem myndaðist í stærsta gosi á sögulegum tímum árið 1783. Þessi þáttur er í gangi núna. Sandurinn sækir nú að syðstu gígum Lakagígaraðarinnar og smám saman munu  góðir veiðilækir í Landbroti líklegast þorna upp eða færast til.

Eftir nokkrar aldir mun síðan væntanlega verða stórgos af svipaðri gerð og Eldgjárgosið 930 og Skaftáreldar 1783 og nýtt eldhraun renna yfir sandinn og gömlu eldhraunin. Þar á eftir kemur næsti sandkafli og svona koll af kolli.

Nú verður hart sótt í það að veita Skaftá yfir í Langasjó og drekkja þessu fallegasta fjallavatni Íslands í auri til þess að fá aukna raforku í virkjanakerfi Tungnaár og Þjórsár, kannski á við hálfa Blönduvirkjun. Með þessu þykjast menn ætla að bjarga syðstu Lakagígunum og lækjunum í Landbroti.

Á ráðstefnu um þetta mál kom fram að aðeins væri hægt að fresta þornun lækjanna í Landbroti um nokkra áratugi. Aðeins er um ræða örfáa gíga í enda hinnar 35 kílómetra löngu Lakagíga.

Á tímum þegar allt snýst um peninga og bruðl langt umfram þarfir virðist engum koma í hug að peningar geti verið fólgnir í því að varðveita stærstu sýningu veraldar og selja inn á hana ef peningar eru það eina sem skipta máli. Frekar á að eyðileggja fallegasta fjallavatn Íslands og klára allt sem virkjanlegt er fyrir orkuverð á útsöluprís.   

 


mbl.is Hlaupið tekið að sjatna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ómar, "Eldgjárgosið 930 og Skaftáreldar 1983," á þetta ekki örugglega að vera ".... 1783"?

Jón Valur Jensson, 12.10.2008 kl. 20:29

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, auðvitað 1783. Hélt ég væri búinn að breyta þessari innsláttarvillu en geri það nú.

Ómar Ragnarsson, 12.10.2008 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband