14.10.2008 | 22:20
Álkerja tók ég trú...
Álkórinn hækkar nú raustina sem aldrei fyrr og í öllum ályktununum og fréttaflutningnum er aldrei minnst á hvaðan orkan á að koma og hvernig eigi að taka hana. 460 þúsund tonna álver í Straumsvík verður bara byrjunin því að stækkunarkrafa mun líka koma frá Helguvík, samanber nýjustu stækkunarkröfuna á Bakka.
Það þarf ekki mikla samlagningarkúnst til að sjá að þetta muni kosta það að allur Reykjanesskaginn, Neðri-Þjórsá, Norðlingaölduveita, Bjallavirkjun og Langisjór/Skaftárveita verði tekin til virkjunar auk tilkalls til orku í Kerlingarfjöllum og á Torfajökulssvæðinu.
Í græðginni er svo mikil orka kreist út úr jarðvarmavirkjunarsvæðunum að orkan verður uppurin eftir nokkra áratugi og barnabörnum okkar látið eftir að taka afleiðingunum af því.
Engum virðist detta í hug að það geti verið skynsamlegt að geyma eitthvað handa orkuvinnslu fyrir bílaflotann og skipin.
Þetta virðast vera trúarbrögð. Eitt sinn var kveðin stakan: Álvera tók ég trú. / Traust hefur reynst mér sú...o. s. frv.
Nú gæti hún hljóðað svona, lítt breytt:
Álkerja tók ég trú.
Traust hefur reynst mér sú.
Fæ ég í fnyknum að standa
fyrir náð heilags anda. Amen.
Vilja viðræður um stækkun Straumsvíkurálvers | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í stórum stórum steini
er skrítinn álfabær
þar býr hann Álver bóndi
og Álvör álfamær
álfabörn með álfatær
huldukýr - hulduær.
Ísland elskar álver
og alvör elskar það
þau kyrja fyrir landann
gleyma stund og stað
"ó guð vors lands".
við útlent lag.
(Spilverk þjóðanna 1977)
Georg P Sveinbjörnsson, 15.10.2008 kl. 03:31
Bið þig að skoða stærra samhengi þessara gerninga hér. Það er ískyggilegt. Bendi þér einnig á að lesa falið vald á www.vald.org
Hér er listi þeirra, sem sækja NWO samkundur Bildenberg og hvenær. Takið eftir hverjir eru þar af Íslendingum. Það ætti að vekja mönnum hroll vegna IMF, sem er af sama meiði. Bendi líka á athugasemdir mínar varðandi IMF og Lipsky hjá Ívari Pálssyni.
http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Bilderberg_attendees#Icelandonum
Jón Steinar Ragnarsson, 15.10.2008 kl. 03:55
Hvalveiðar voru mikið stundaðar fyrir ströndum Íslands á liðnum öldum. Einkum voru það Norðmenn sem ráku hvalveiðistöðvar í nær hverjum firði á Vestfjörðum á síðustu áratugum 19. aldar og fram yfir upphaf fyrri heimsstyrjaldar. Þegar hvölum hafði nánast verið útrýmt Vestanlands fluttu Norðmenn stöðvar sínar í Mjóafjörð og Stöðvarfjörð á Austurlandi og voru þær starfræktar uns Alþingi tók loksins af skarið og friðaði hvali 1915 enda hafði verið gengið gegndarlaust á stofninn. Norður á Ströndum hafa fundist merkar leifar hvalveiða Baska um 1600 og verður vonandi að þær rannsóknir haldi áfram.
Allar þessar hvalveiðar byggðust á rányrkju. Nú í dag er vitað að ekki gengur að ganga nær jarðhitanum en skynsamlegt er að nýta. Framundir 1980 var t.d. gengið mjög nærri jarðhitanum í Mosfellssveit, dæla þurfti með meiri kostnaði og tilþrifum heita vatninu en áður þurfti. Skýringin var einfaldlega sú að náttúran var þessum ósköpum búin að þessi auðlind var ekki ótakmörkuð. Virkjun Nesjavalla breytti töluverðu og er nú verið að sækja orku á Hellisheiðina. Auðvitað verður að fara gætilega að tappa ekki of miklu af þessari dýrmætu orku enda takmörk fyrir öllu.
Álbræðsluhugsjón sumra landa okkar nú á tímum nokkurn svip af hvalveiðum fyrri tíma. Menn eru svo barnslegir í hugsun sinni að þeim finnst sjálfsagt að varpa fyrir róða mikilvægum lögum og framkvæmd þeirra sem byggist á að fara gætilega með náttúruauðlindir. Þessum sömu aðilum finnst sjálfsagt að víkja til hliðar lögum um umhverfismat og virkja eins og andskotinn væri kominn til að darka í náttúru Ísalands sem naut í flagi.
Nú fer álverð lækkandi sjálfsagt vegna mikils samdráttar og mjög aukins framboðs á áli á markað. Tímaspursmál er hvenær Bandaríkjamenn taka upp á að endurnýta áldósir en þegar sú stund rennur upp þá er þar um að ræða svipað magn áls og er framleitt í norður Evrópu.
Um nánast alla Evrópu hefur verið tekið upp umhverfisgjald á mengandi starfsemi - nema á Íslandi. Hvers vegna skyldi svo vera? Stóriðjan verður að kaupa sér mengunarkvóta og er verð á einu tonni af CO2 um 25 evrur. Hér hafa stjórnarherrarnir ekki ljáð máls á að taka upp sama hátt hvað þá eru til viðræðu um það. Með þessu móti gefum við álfurstunum um 50 milljónir evra svona þeim áláhugamönnum til gamans. Þetta er fjármagn sem kæmi t.d. rekstri Háskóla Íslands og Landspítala mjög vel.
Ljóst er að mengunargjald er sem eitur í eyrum þeirra sem ráða fjárfestingum í áliðnaði. Spurning er hvenær kemur að því að álfurstarnir vilji loka álsjoppum sínum á Íslandi. Verður þá Straumsvík, Grundartangaálverið og Reyðarfjarðarálverið ásamt fyrirhuguðum álbræðslum við Húsavík og í Keflavík rústir eins og sjá má á Hesteyri við Ísafjarðardjúp?
Á bernskuárunum mínum bjó Mosi í Vogunum í Reykjavík. Niður undir Elliðaárvogi var heilmikil bygging. Þar hugðist einn athafnamaður íslenskur hefja skjótfenginn gróða. Gríðarmikill glerhaugur var sunnan við verksmiðjubygginguna. Þetta var leiksvæði okkar ævintýraglaðra drengja og stúlkna. Fóru margir krakkar langar leiðir til að fara í fjallgöngu á glerhauginn mikla, komu heim með dálítinn glermola og skrámur til baka. Til starfseminnar þurfti örlítið magn af arseniki en eins og kunnugt er það mjög varasamt eitur og var fyrr á tímum einkum notað til að koma refum fyrir kattarnef. Þarna voru umtalsverðar arsenikbirgðir sem hefðu dugað í margar aldir miðað við mestu hugsanleg afköst við glerframleiðsluna. Þetta eitur hefði auk þess dugað til að margdrepa alla Íslendinga og sjálfsagt alla íbúa Norðurlanda.
Við eigum að forðast fagurgalana í samfélaginu. Þeir eru eins og fuglarnir sem syngja fagurlega þegar vel stendur á hjá þeim. En þess á milli megum við ætíð vænta langra dimmra nátta.
Látum því skynsemina ráða og leyfum þessa martröð líða hjá því fyrr eða síðar birtir aftur af degi eftir erfiðan sjálfstæðan vetur.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 15.10.2008 kl. 09:54
Ég héllt að væri búið að kjósa um þesa stækkun í Straumsvím í Hafnarfirði var sú kosning fellt Var kannski aldrei ætlunin að taka mark á þeirri kosningu eða niðursyöðu hennar.
Gylfi Björgvinsson, 15.10.2008 kl. 12:22
Ég sé að þú segir stöðugt að Langisjór verði virkjaður. Afhverju? Ég, "virkjanafíkillinn" væri á móti því (hef þó bara séð hann á myndum)
Það að hann hafi einhverntíma verið skoðaður í einhverjum virkjanahugmyndum á árum áður, þýðir ekki að hann verði eyðilagður. Vertu nú ekki að hræða fólk að óþörfu Ómar minn.
Gunnar Th. Gunnarsson, 15.10.2008 kl. 15:15
Landsvirkjun hefur ekki viljað falla frá hugmyndum um Skaftárveitu heldur bætt Bjallavirkjun við eftir að hún hafði legið í skúffu í 30 ár. Heldur hefur ekki verið fallið frá Norðlingaölduveitu, henni aðeins frestað.
Ómar Ragnarsson, 16.10.2008 kl. 20:48
Eins og einhver orðaði það snjallt um daginn; EKKI RÆNA AF OKKUR LANDINU LÍKA!!!
Georg P Sveinbjörnsson, 16.10.2008 kl. 21:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.