4.11.2008 | 22:52
Björn Bjarnason sver af sér hvítbók.
Á vefsíðu sinni segist Björn Bjarnason ekki hafa skipað Valtý Sigurðsson og Boga Nilsson til verka við hvítbók og átelur mig fyrir ummæli þar að lútandi á vefsíðu minni. Ég skal fúslega hafa það er sannast reynist í þessu máli og biðja Björn Bjarnason afsökunar á því að bendla hann um of við þetta mál.
Ég hefði gjarna viljað gera þetta í formi athugasemdar á vefsíðu hans en mér sýnist að það sé ekki hægt.
Ég tel mig þó hafa það til málsbóta að í prýðisgóðu sjónvarpsviðtali við Björn lýsti hann yfir miklum áhuga á rannsókn á bankahruninu og gott ef hann ræddi það ekki líka á þingi. Og þar sem hann er jú dómsmálaráðherra hlýtur áhugi hans á málinu að skipta máli.
Ef Björn er mér sammála um það að fá þurfi erlenda menn til að stýra þessari rannsókn og slík rannsókn sé nauðsynleg þá ættum við að geta náð vel saman í þessu máli.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.