5.11.2008 | 13:00
Hægt að stórminnka notkunina.
Ég ek á ónegldum dekkjum allt árið en á 23ja ára gamlan nær verðlausan smájeppa, Suzuki Fox ´85 (minnsta jöklajeppa landsins) sem ég get gripið til ef ég þarf að fara yfir Hellisheiði eða lengra á vit snævar og ófærðar.
Í fyrravetur þurfti ég að aka frá Bergen til Osló yfir miðhálendi Noregs á flughálum vegum á ónegldum dekkjum. Þau voru frábær og ég trúði því varla hve vel þau gripu, nánast eins og negld dekk eða harðkornadekk.
Þörf fyrir negld dekk hér á höfuðborgarsvæðinu skapast aðeins fáar klukkustundir á hverjum vetri. Góð, óslitin, ónegld dekk nægja. En salt veldur líka miklu tjóni á bílum, sem þarf að minnka.
Tillögur mínar til úrbóta eru þessar:
Þeir borgi sem valda tjóni, tekið gjald af þeim sem nota negld dekk.
Markviss söltun, aðeins við aðstæður þegar hennar er þörf og samstundis þegar hálka myndast. (Salt-slökkvilið)
Afsláttur á opinberum gjöldum á ónegld vetardekk en aukagjald á naglana.
Komið upp stórri þvottastöð innan húss þar sem fólk getur þvegið saltið neðan af bílum sínum frítt þótt frost sé úti.
Niðurfelling gjalda á ryðvarnarefnum. (Myndi hafa lagt þetta til, jafnvel þótt bróðir minn ætti ekki ryðvarnarstöð)
Notkun nagladekkja kostar sitt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Meðan lög og dómar eru þann veg að notkun nagladekkja sé nauðsynlegur búnaður í hálku og menn hafa verið dæmdir sekir þegar slys verða fyrir að vera án nagladekkja, þá skiptir það ekki máli hversu mikil gæði annarra dekkja er.
það verður fyrst að breyta lagabókstafnum.
Fannar frá Rifi, 5.11.2008 kl. 13:36
Og þá lika að tjónvaldar á sumardekkjum borgi tjón ef þeir valda þvi í hálku ekki satt.
Jón Aðalsteinn Jónsson, 5.11.2008 kl. 13:43
Ég hef nú oft velt fyrir mér af hverju öll sagan er aldrei sögð. Mikið af þessum "skemmdum" sem naglarnir eru sagðir valda eru sjaldnast beinar skemmdir og ansi oft beinlínis vegna lélegs undirlags undir vegunum. Ég sá t.d. oftar en einu sinni götur í Reykjavík þar sem höfðu myndast vegleg hjólför að þegar skorið var í gegnum malbikið voru hjólförin orðin dýpri en þykktin á malbikinu og munur á þykktinni ofan í hjólförunum og á milli þeirra var nánast enginn. Samt kenndu menn kinnroðalaust nöglunum um. Eins er með göt í malbikinu, menn kenna nöglunum hiklaust um slíkt þó ekki sé með nokkru móti hægt að sjá hvernig naglanotkun geti valdið slíkum skemmdum, kunnugir menn segja mér að einungis tvennt geti orsakað slíkar skemmdir, lélegt malbik og lélegt undirlag.
Ég bý í Svíþjóð og hér er talsvert keyrt á nagladekkjum. Ekki er hægt að sjá þessa gríðarlegu svifriksmengun hér, né heldur hjólfaramyndun eins og sést í líkingu við það sem sést í Reykjavík. Eru nagladekkin sem seld eru á Íslandi eitthvað illvígari en þau sem seld eru í Svíþjóð?
Ég er enginn sérstakur talsmaður nagladekkjanotkunar en finnst helvíti lélegt þegar verið er að breiða yfir handabakavinnu og lélegt efnisval með því að kenna nagladekkjum um það sem aflaga fer í umferðarmannvirkjum.
Gulli (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 13:47
Ég er sammála því að það má salta miklu minna en gert er því oft er treyst of mikið á saltið. Ég get samt ekki verið sammál því að rukka þá um aukagjald sem keyra á nöglum. Ég keyri á nöglum þar sem ég bý á norðurlandi og þar er ekki hægt að komast hjá nagla notkun. Það er ekki rétt að láta okkur sem búum á landsbyggðinni borga meira því veður aðstæður okkar eru þannig að naglar er eina sem dugar. þar sem ég bý er aldrei saltað sem betur fer það mesta lagi dreift sandi ef mikil hálka er Ef ég væri ekki á nöglum þá væri ekki hægt að keyra mikið um svæðið og upp að húsinu heima þar sem löng og brott brekka liggur upp að því. Það má heldur ekki ganga of langt í umhverfisumræðu og láta umhverfissjónarmið spilla fyrir öryggissjónarmiði.
Þórður Ingi Bjarnason, 5.11.2008 kl. 14:15
Á veturnar eru götur aldrei þrifnar (engir götusóparar) uppsafnaður skítur hlítur að valda mestu svifriki, þetta er áróður gatnamálastjóra gegn nöglum, held að gatnamálastjóri ætti að drullast til að finna lausn á þryfum Gattna yfir Veturinn.
sverrir sigurðsson (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 14:29
Við höfum aldrei verið á negldum dekkjum og förum þó talsvert út ur borginni. Menn gleyma stundum að aka miðað við aðstæður. Gott er að áætla lengri tíma í aksturinn þegar veðrið er vont. Svo finnst mér ósköp skondið að ég sem nota reiðhjólið mikið allan ársins hring get verið á mínum venjulegum dekkjum en stór hópur akandi fólks heldur að nagladekk séu ómissandi!
Úrsúla Jünemann, 5.11.2008 kl. 14:48
Það versta við nagladekk að sumir halda að þeir séu færir í allt og geta keyrt eins og á sumarlagi á nöglum. það er ekki svo því eins og kemur fram hér ofar þá geta nagladekk verið stórhættuleg við sumar aðstæður og þeir sem aka um á nöglum verða að vera meðvitaðir um þá hættu. Ef ég byggi í bænum þá myndi ég vera á heilsársdekkjum þar sem það dugar vel í bænum og á helstu vegum út frá borginni.t.d hringvegurinn er yfirleitt það góður að ónegld dekk duga vel þar. En það eru staðir þar sem ekki er saltað eða sandað og því glæra hálka og á þeim stöðum eru naglar sem duga best.
Þórður Ingi Bjarnason, 5.11.2008 kl. 15:11
Góðar tillögur hjá þér Ómar. Það mættu fleiri nefna hvað er til úrlausnar því sem verið er að skrifa um
Ég segi nú bara sisona
Gylfi Björgvinsson, 5.11.2008 kl. 20:17
Gallinn við það að taka tillit til landsbyggðarmanna vegna sannanlegrar meiri þarfar þeirra á að nota bestu vetrardekk að erfitt er að staðsetja bílana rétt í kerfinu. Ég hef átt bíla með A-númerum í Reykjavík og notað bíla með R-númerum við starfsemi mína á Kárahnjúkasvæðinu.
Rétt er að geta þess að Ólafur Guðmundsson flutti stórfróðlegan fyrirlestur um daginn um það að enda þótt ESB-staðlar hafi verið innleiddir í smáu og stóru á Íslandi giltu þeir ekki um vegina.
Þannig væri notað margfalt lélegra efni í malbikið í Reykjavík en tíðkast erlendis og það myndi vera fjarri því að standast Evrópustaðla.
Afleiðingin er margfalt meira slit en í nágrannalöndunum og þar af leiðandi margfalt meira svifryk. Ætla að bæta þessu núna inn í tillögur mínar.
Ómar Ragnarsson, 5.11.2008 kl. 21:01
Því eins og með margt hérna á Íslandi þá má start kostnaður ekki vera hár. betra að vera með háan viðhaldskostnaður heldur en að leggja aðeins meira í start kostnað.
eða það virðist allavega vera þannig.
Það hefur aldrei verið pólitískur vilji hjá neinum að ræða að alvöru um vegakerfið landsins. býst við því að það sé þannig ennþá í dag.
Fannar frá Rifi, 5.11.2008 kl. 21:08
Sæl Öllsömul.
Athyglisvert að lesa um þessar mismunandi tillögur og fróðleik varðandi notkun nagladekkja á bifreiðir, svifryksmengun og fleira.
Ekki hef ég jafn mikla akstursreynslu og Ómar, tel mig geta lært margt af skrifum hans.
Ég hef reynt að muna það sem ég lærði í ágætri ökukennslu á sínum tíma:
Að haga akstri eftir aðstæðum.
Að hafa útbúnað bifreiðarinnar eftir aðstæðum.
Þarf lítið að fara á fjöll eða utan Höfuðborgarsvæðisins á vetrum, ek því um á ódýrum japönskum smá-fólksbíl (Dósa) án negldra dekkja.
Reiðhjólið mitt fær vetrarútbúnað þegar nálgast vetur, nagladekk að framan og aftan, góð ljós, og hjólreiðamaðurinn fer í föt við hæfi.
Á reiðhjóli hjálpa nagladekkinn mér að halda jafnvægi í jafnvel verstu hálku. Á Höfuðborgarsvæðinu þarf ég afar sjaldan nagladekk undir bílinn, ekki á þeim stöðum sem ég ek. Aðrir geta verið að glíma við allt aðrar aðstæður en ég, líka á Höfuðborgarsvæðinu.
Mjög sammála því, að þrif á götum og gangstígum Höfuðborgarsvæðis mættu vera meiri þegar þurrt og autt er að vetrarlagi.
Kveðja,
Heimir H. Karlsson.
Heimir H. Karlsson. (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 01:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.