7.11.2008 | 20:21
Sálfræðilegt úrlausnarefni.
Skondnar uppákomur hafa orðið við söluturna borgarinnar síðan ég eignaðist minnsta bíl landsins, Fiat 500, fyrir þremur árum. Í söluskálunum eru yfirleitt tvö söluuop og ef bíll er við seinna opið, ekur næsti bíll í röðinni upp að fyrra opinu og fær annað hvort afgreiðslu þar eða bíður við það þar til búið er að afgreiða bílinn sem var á undan.
Fiatinn er með hægri handar stýri og þótt hann sé svo mjór að hægt sé að teygja sig út um vinstri gluggann er þægilegra og eðlilegra að bakka bílnum að afgreiðsluopunum og versla í gegnum bílstjóragluggann.
Vegna þess hvað bíllinn er lítill, verður oft bil á milli hans og bílsins á undan og þá er afar títt, að þeir sem koma inn á eftir mér, aka meðfram bíl mínum og þrengja sér á ská á milli mín og bílsins fyrir framan og komast þannig fram fyrir mig í röðinni.
Í fleiri en eitt skipti hefur þetta endurtekið sig á þann hátt að ég hef á endanum orðið að gefast upp og aka í burtu, nú síðast í dag. Hið skonda við þetta er að ef ég er á hinum Fiatinum mínum, sem er með vinstri handar stýri, gerist þetta aldrei.
Þetta vekur ýmsar spurningar um ástæður þessarar hegðunar.
1. Fáfræði. Þessir bílstjórar vita ekki að hægt sé að bakka bílum og halda því að ég sé á leið til baka í röðinni, á móti umferðinni.
2. Þeir telja að stórir og dýrir bílar eiga að hafa forgang við söluop fram yfir vesæla aumingjabíla.
3. Vegna þess að bil er á milli míns bíls og hins næsta fyrir framan þegar ég bíð við fyrra opið til að vera á réttum stað ef afgreiðsla býðst í því, sé rétt að þrengja sér á ská inn í þetta bil og nýta það.
4. Biðraðamenning er þessum bílstjórum framandi.
Andúð á Bretum og hægri handar stýrum getur ekki haft áhrif, þetta hefur verið svona alveg frá því að ég fékk bílinn.
Gaman væri að heyra hvaða sálfræðilega skýringu fólk hefur á þessari skondnu hegðun við söluopin.
Athugasemdir
Þeir halda að þú sért englendingur og gefa skít í þig :)
grínlaust þá er þetta bara venjuleg íslensk ókurteisi og tillitsleysi.
Óskar Þorkelsson, 7.11.2008 kl. 20:40
Kannski halda þeir bara að bíllinn sé svona skrýtinn í laginu og að þú sitjir í aftursætinu og horfir út um bakrúðuna.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.11.2008 kl. 22:36
Hugsa að þetta sé blanda af fáfræði og almennri íslenskri frekju. Kæmi ég að svona bílsjoppu og sæi litla bílinn þinn snúa öfugt í röðinni, þá myndi ég góna eins og naut á nývirki og ekki vita almennilega hvað ég ætti að gera. Eðlislæg forvitni mín myndi þó reka mig út úr bílnum mínum svo ég gæti spurt þig að því hvað þú værir eiginlega að gera.
Nína S (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 23:43
Þetta rifjar upp fyrir mér smáatvik frá því ég var táningur. Ég og félagið minn höfðum rennt upp að sölulúgu í Nesti í Fossvogi, sem að líkindum var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. (Ef til vill var sjoppan á Kópavogshálsi á undan Axeli í Nesti).
Við komum réttu megin miðað við vinstri handar aksturinn, og versluðum í aftari lúgunni, fyrir aftan bíl sem var við þá fremri. Um leið og hann fór kom bíll að öfugu megin og keypti eitthvað smátterí. Síðan flautaði hann til að skipa okkur að bakka. Við þóttumst í rétti, þótt við værum táningar, með sítt hár, á gammalli amerískri druslu. Við félagarnir vorum nýkomnir úr bókabúð, og náðum því í sitthvora bókina í aftursætið, komum okkur vel fyrir, og fórum að lesa. Sá virðulegi í dýra bílnum fyrir framan okkur flautaði góða stund áður en rann upp fyrir honum að við hefðum líklega meiri tíma en hann til að bíða. Hann gafst því upp eftir nokkurn tíma og bakkaði sjálfur, en flautaði sér til hugarhægðar meðan hann hvarf í reykmekki.
Þetta þótti okkur gaman!
Hordur Bjorgvinsson (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 18:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.