Tvær aðferðir.

Þegar menn búa yfir óþægilegri vitneskju eða eiga erfitt um svör getur það endað á tvo vegu. Annars vegar að fara undan í flæmingi og komast hjá því að tala af sér eða upplýsa um hinn vonda sannleika - eða, - ljúga. Ég geri mér grein fyrir því að íslenskir ráðamenn hafa átt erfitt með að svara áleitnum spurningum að undanförnu en lygar þeirra hafa skemmt mikið fyrir þeim.

Ég minnist viðtals í sjónvarpshúsinu gamla sem tekið var fyrir þremur áratugum við íslenskan forsætisráðherra um mjög viðkvæmt, þýðingarmikið og yfrirgripsmikið mál. Ráðherrann hafði á þessum árum alltaf ráðgjafa með sér til að segja til um frammistöðuna.

Ég horfði á upptökuna á þessu viðtali og þegar því var lokið gekk ráðherrann sveittur til ráðgjafans, sem hafði horft á viðtalið afsíðis og spurði hann: "Slapp ég ekki nokkurn veginn? Ég sagði ekkert, var það?" Rágjafinn kinkaði kolli og báðir voru ánægðir.

Margir af bestu samstarfsmönnum mínum hafa horfið frá fréttamennsku og gerst upplýsingarfulltrúar fyrir miklu hærra kaup. Þeir, sem ég hef þekkt, hafa staðið sig vel og staðið fagmannlega að störfum sínum

En almennt séð geta tvær slæmar hliðar geta verið á því þegar það er orðið algengt að fréttamenn og blaðamenn streymi út af fjölmiðlunum í störf fjölmiðlafulltrúa: Í fyrsta lagi atgervisflóttinn og í öðru lagi það, að ef þetta er orðið mjög algengt getur það myndað hvata fyrir blaða- og fréttamenn til þess að haga sér þannig í starfi hjá fjölmiðlum að þeir eigi möguleika að verða upplýsingarfulltrúar hjá voldugum öflum, sem vilja hafa áhrif á fjölmiðlun.

Upplýsingarfulltrúar útskýra oft starfsaðferðir sínar með því að líkja henni við störf lögfræðinga sem verði jú að vinna eins vel og þeir geta fyrir skjólstæðinga sína, jafnvel þótt það séu hinir verstu misyndismenn.

Ég spurði einu sinni Örn Clausen hvernig hann færi að því að verja svona marga stórafbrotamenn, sem virtust sækjast eftir því að fá hann til að verja sig. Hann svaraði: "Ég geng hreint til verks í upphafi og segi við þá: Ég skal verja þig með klóm og kjafti að uppfylltu einu grundvallarskilyrði: Þú verður að trúa mér fyrir sannleikanum því að ég mun aldrei bera lygar á borð fyrir dómarana. Gerðu þetta svikalaust og láttu mig síðan um restina."

Mér skilst að Örn hafi varið svo marga stórkrimma vegna þess hve vel honum tókst að útskýra málstað þeirra eftir að hann vissi nákvæmlega hvernig í pottinn var búið og byggði vörnina á staðreyndum en ekki lygum.

Þetta mættu margir hafa í huga.


mbl.is Rekin fyrir að segja ekki ósatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Íslendingar vilja flestir borga skuldir sínar, en sem betur fer skrifaði ég ekki upp á hjá neinum (brennt barn forðast eldinn)skil þess vegna ekki hvers vegna ég þarf að borga eitthvað sem ég vissi ekki um? Veit samt að það verður gjaldið fyrir að vera Íslendingur. Átti ekki von á hjálp frá þjóðum sem ég taldi fátækari en við. Takk Pólland og Færeyjar.

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 8.11.2008 kl. 00:58

2 identicon

Mér sýnist þú vera að skrifa um bæði siðklemmu blaðamanna og þeirra stjórnmálamanna sem þurfa að koma "fréttum" áleiðis. Erum við virkilega orðin svo ameríkanaseruð, að fréttamenn sem vilja sínum hugsjónum og knýja sannleikann fram, þurfi helst að leggjast í skotgrafir og smeygja sér síðan, eins og í bíómyndunum, innfyrir línur "óvinanna" með hlustunartæki og njósnatæki, margra mánaða rannsóknarvinna, bara til að draga sannleikann fram í dagsljósið. Útskýrðu þetta aðeins betur fyrir mér, því ég greini vonbrigði í pistli þínum.

Nína S (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 01:32

3 identicon

Það er ótrúlegt að menn skuli leyfa sér svona vinnubrögð?! Siðblindur Pálmi Haraldsson og Matthías Imsland hljóta þá að vera að ljúga þegar þeir tala um að fall Sterling hafi ekki áhrif á Iceland Express.

Jóhann (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 13:01

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég þekki ekki málaferil Arnar Clausens og get auðvitað ekki dæmt um hann. Er aðeins að segja frá svari hans við spurningu minni.

Ég veit ekki hvort ég geti útskýrt betur ummæli mín um vanda fjölmiðlamanna. Fram að þessu hafa léleg kjör flestra þeirra vegna erfiðrar stöðu fjölmiðlanna verið hamlandi fyrir stéttina, bæði fyrir getu þeirra til að stunda burðuga rannsóknarblaðamennsku og að láta ekki ginnast í burtu til miklu betur borgaðra starfa annars staðar.

Kreppan getur kannski dregið úr því að vel borguð störf bjóðist fyrir fjölmiðlafulltrúastörf í fyrirtækjum, en hún getur kannski líkað dregið úr hvatanum fyrir blaðamenn að vera beinskeyttir í störfum vegna óttans um að missa vinnuna.

Mér þótti reyndar vænt um yfirlýsingu Höllu Gunnarsdóttur blaðakonu í dag á borgarafundi í Iðnó þess efnis að hún hefði aldrei reynt það á Mogganum í þau fimm ár sem hún hefur unnið þar að spurt væri um pólítíska stöðu. Það gladdi mig líka að hún skyldi líka treysta sér til að flytja þá ræðu sem hún flutti þar án ótta um að vera látin gjalda þess í starfi

Ómar Ragnarsson, 8.11.2008 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband