15.11.2008 | 18:52
Hvað er svona slæmt við mannaskipti?
Vaxandi þungi er í undiröldunni í þjóðfélaginu sem vill aukið lýðræði og umbætur. Það er undarlegt hvernig þeir stjórnmálamenn sem mæra lýðræðið í orði andæfa því að kjósa næsta vor og skipta út þeim sem höfðu rangt fyrir sér og setja þá inn sem höfðu rétt fyrir sér.
Ef núverandi valdhafar telja sig best fallna til að fara með mál þjóðarinnar ættu þeir að fagna þeirri kröfu að þeir fái tækifæri til að umboð þeirra verði endurnýjað. Öll málefni þjóðarinnar eru gerbreytt og núverandi umboð stjórnvalda því úrelt.
Flestir merkustu stjórnmálaforingjar heims hafa orðið að hlíta dómi lýðræðisins. Churchill tapaði í kosningum 1945. De Gaulle gafst upp og fór frá völdum 1946 og aftur 1969. Eisenhower gat ekki haldið áfram 1960 eða Reagan 1988 vegna þess að allir forsetar Bandaríkjanna verða að hlíta því að vera ekki meira en tvö kjörtímabil, sama hve góðir þeir eru.
Brýn nauðsyn er að innleiða persónubundnar kosningar og hægt að nýta reynslu frá ýmsum löndum þar að lútandi án þess að fara út í einmenningskjördæmi eins og í Bretlandi. Það mætti meira að segja hafa blandið kerfi með 25 einmenningsþingsætum og 25 af landslistum til að jafna atkvæðavægi milli flokka.
Meðan einmenningskjördæmi voru hér á landi féllu stjórnmálaforingjar. Tryggvi Þórhallsson, sem verið hafði forsætisráðherra 1927-31 féll í kosnningum 1934. Emil Jónsson, þáverandi forsætisráðherra, féll í kosningunum í júní 1959.
Þetta er nauðsynlegt til þess að lýðræðið virki, að valdið nái ekki að spilla mönnum og að þeir taki ábyrgð og hlíti dómi þjóða sinna.
En nei, svona má helst ekki á Íslandi, heldur ekki þegar stjórnvöld og eftirlitsstofnanir í vinnu hjá þjóðinni hafa gert stórfelld mistök æ ofan í æ á sama tíma sem nú kemur í ljós að þeir kunnáttumenn, sem gagnrýndu þetta, höfðu rétt fyrir sér allan tímann.
Af hverju má ekki fela þessum mönnum að taka við? Af hverju mætti þeir Þorvaldur Gylfason og Ragnar Önundarson til dæmis ekki verða ráðherrar?
Því er stundum svarað til að þessir menn vilji ekki fara út í flokkapólitík en auðvitað mætti vel hafa þetta eins og í Bandaríkjunum að færustu menn utan þings taki að sér ráðherraembætti þegar þess reynist þörf.
Það er ekkert í íslenskum lögum sem bannar ráðherrasetu utanþingsmanna eða ríkisstjórnir með blöndu af ráðherrum innan þings og utan. Nú er tilefni og tækifæri til að stokka kosningafyrirkomulagið upp og raunar óviðunandi að gera það ekki rækilega hið snarasta.
Sömu menn og létu fyrrum birtu af sér flennimyndir til að fá fólk til að kjósa sig segja nú að það megi ekki persónugera hlutina. Erlendis segja menn að eftir eitthvert stærsta stjórnmálaklúður sem orðið hefur í nokkru landi sé það endanleg sönnun þess að okkur Íslendingum sé ekki við bjargandi að enginn skuli axla ábyrgð eða verið skipt út fyrir menn sem reyndust hafa rétt fyrir sér.
Þinghúsið þrifið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar, þú spyrð hvað væri svona slæmt við mannaskipti. Svarið er einfalt. Þeir sem ráða núna myndu missa völdin. Svo virðist sem þá skipti engu þó við stefnum lóðrétt til andsk.... svo fremi sem þeir eru við stýrið.
Þóra Guðmundsdóttir, 15.11.2008 kl. 19:02
Já Ómar þetta er með ólíkindum, lýðræði hefur ekki verið hér á landi í árabil, hér hefur ráðið smár hópur manna með þá hugsun að koma sínum eigin hagsmunum sem best fyrir.
Ríkisstjórnin þarf að stíga niður af sínum stalli því hann er aðeins reystur með eldspýtum.
Fmr og Seðlabankinn þurfa að víkja sinni stjórn með öllu.
Það er nauðsynlegt að hér verði tekinn upp sterkurgjaldmiðill, s.s. dollar, evra eða annað, öðruvísi mun verðbólga ekki minnka hérna þvi krónan er það eina sem heldur verðbólgunni uppi í dag, með þvi að taka upp annann gjaldmiðil myndi vöruverð lækka og greiðslubyrði fjölskyldna verða viðráðanleg aftur.
Þær tillögur sem komu fram í gær eru ágætar en ekkert meira en eitthvað sem ætti að vera sjálfsagður hlutur í siðuðu samfélagi.
Með nýjum gjaldmiðli myndi verðtrygging einnig falla niður þannig að kostirnir fyrir heimilin í landinu eru augljósir þótt ráðamenn virðist ekki sjá hann, enda hafa þeir eflaust einhverra hagsmuna að gæta sem við vitum ekki af.
Steinar Sörensson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 19:35
Roosevelt var kosinn í fjögur kjörtímabil.
Herra, 15.11.2008 kl. 20:00
Já mæli með Þorvaldi Gylfasyni, Ragnari Önundarsyni, Stefáni Ólafssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Andra Snæ Magnasyni, Helga Hjörvar, Katrínu Jakopsdóttur, Svandísi Svarsdóttur, Agli Helgasyni og svo meigið þið koma með restina :)
Valsól (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 20:10
Mótmæli!
http://this.is/nei/?p=525
Lopabyltingin (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 20:37
Á mér brennur, vita þessi ungmenni hverju þeir mótmæla?. Alþingi virðist ekki vera með í neinu undanfarna r vikur.
Eru þau ekki, eins og ég held að flestir landsmenn séu að mótmæla, Ríkisstjórninni.Og Seðlabankastjórn.
Hvernig væri þá að mótmælin færu upp í stjórnarráð?
Alþingi er ekki með. Og Ríkisstjórnin, vísvitandi sniðgengur Alþingi.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 23:22
Sæll Ómar,
Nú er kominn tími fyrir "Nýtt Alþingi". Flokkakerfið á Íslandi er veruleg skerðing á lýðræði. Ástæðan er sú að fólk kýs flokka en ekki einstaklinga. Oft er það svo að þeir einstaklingar sem eru í framboði geta verið frambærilegir og með áhugaverðar hugmyndir. Til þess að kjósa þetta fólk sem maður hefur álit á þarf hins vegar að kjósa alls kyns hyski sem fylgir með í kaupunum.
Mig langar til að viðra þá hugmynd að kjósa fremur einstaklinga og að sú regla verði sett fram að hver einstaklingur má ekki sitja lengur á þingi en fjögur ár í senn. Það mun tryggja það að þingmenn neyðast til að umgangast aðra þegna landsins amk annað hvert kjörtímabil og jafnvel vinna fyrir sér með eðlilegum hætti.
Með öðrum orðum: "Það er nákæmlega ekkert slæmt við mannaskipti!"
Magnús OddssonMagnús Oddsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 07:29
Guðjón,
Vandamálið við að "fólk komi sér saman" um eitthvað er stórlega ofmetið. Kosið er til Alþingis á fjögurra ára fresti. Því hljóta einhverjar ákvarðanir að vera teknar á milli kosninga. Er ekki einmitt kosið um þingmál á Alþingi? Getur ekki fólk sem er kosið á Alþingi einmitt varið tíma sínum í að móta stefnu og byggja það á málamiðlun uþb 60 þingmanna í stað þess að allt að 50% þingmanna verði sjálfkrafa á móti öllu og hinir 50% kjósa eingöngu það sem kemur þeirra flokki vel? Barn gæti skrifað tölvuforrit sem myndi hæglega geta tekið sambærilega afstöðu.
Ef maður tekur ekki þátt í prófkjörum flokkanna þá hefur maður nákvæmlega ekkert um það að segja hvers konar fólk lendir á þingi. Ef eitthvert flón slysast á lista vegna kunningsskapar, ættartengsla eða mælsku, þá getur maður ekki réttlætt það fyrir sjálfum sér að kjósa viðkomandi flokk og neyðist til að skila auðu. Nei Guðjón, Ísland er of lítið fyrir flokkakerfi. Sjálfur er ég í stökustu vandræðum vegna þess að ef blásið yrði til kosninga nú þá hefði ég ekki geð í mér til velja neinn þeirra flokka sem nú sitja á þingi. Hver á að bjarga þessu? Steingrímur J? Hvenær rak hann síðast fyrirtæki og aflaði gjaldeyris? Hvaða aðrir flokkar eru ekki beinlínis valdir að stórkostlegu hruni Íslands? Frjálslyndir? Á að kjósa flokka eingöngu vegna þess að þeir eru í minnihluta og bera því ekki ábyrgð á neinu? Flokkakerfið er beinlínis heimskulegt.
Það að kjósa fólk á þing en ekki flokka hefur margfalt meiri kosti en ókost. Má jafnvel spyrja sem svo að ef þetta blessaða fólk er búið "að koma sér saman um eitthvað" til hvers yfir höfuð þurfi að kjósa?
Því ekki að bera sig að eins og gert er í vel reknum fyrirtækjum þar sem notaðar eru kerfisbundnar, viðurkenndar aðferðir til að komast að sameiginlegri niðurstöðu? Niðurstaðan er byggð á staðreyndum en ekki fyrir fram ákveðnum ákvörðunum örfárra aðila sem móta stefnu flokkanna. Sú aðferðarfræði hefur beðið skipbrot og þarf ekki að reyna frekar. Beint fulltrúalýðræði er það sem hentar litlu þjóðfélagi eins og Íslandi.
Eins er það áhugavert hversu vond áhrif þingseta virðist almennt hafa á fólk, bæði geðslag, heiðarleika og raunverleikaskyn. Því tel ég nægar vinnuvistfræðilegar ástæður fyrir því að takmarka þingsetu við eitt kjörtímabil í senn.
Magnús Oddsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 15:13
Fram að forsetatíð Roosevelts hafði það verið hefð að forseti sæti ekki meira en tvö kjörtímabil. Flestir telja að Roosevelt hafi verið einn af bestu forsetum Bandaríkjamanna en samt komust menn að þeirri niðurstöðu eftir að hann hafði verið kjörinn fjórum sinnum í röð, að rétt væri að setja tveggja kjörtímabila reglu í lög.
Það sýnir hve Bandaríkjamenn eru sammála um það að vald spilli og að löggjöfin eigi að taka mið af því.
Roosevelt veitti frábæra forystu á árunum 1940 - 45 þegar hann var kosinn í þriðja og fjórða sinn.
Truman, fyrrum vefnaðarkaupmaður frá Missouri, tók við af honum í apríl 1945, algerlega reynslulaus að frátöldu góðu starfi sínu í eftirlitsnefnd með stríðsframleiðslunni. Truman reyndist einn að skárri forsetum Bandaríkjanna að flestra dómi.
Engin leið er að segja til um það eftir á hvort einhver annar en Roosevelt hefði staðið jafn vel að málum á örlagaárunum 1940 til 1945. Hann lagði áherslu á stríðið gegn Þjóðverjum og það reyndist einhver mikilvægasta ákvörðun aldarinnar.
Engin leið er hins vegar að segja til um hvort annar forseti en hann hefði gert það sama.
Ómar Ragnarsson, 16.11.2008 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.