Margir í súpunni.

Það var athyglisvert að hlusta á lýsingar verðlaunablaðakonunnar Sigríðar Daggar og Péturs Gunnarssonar á stjórnmálaástandinu á Íslandi. Í meitluðu máli gaf Sigríður Dögg okkur innsýn í spillingarkerfi þáverandi stjórnarflokka sem skiptu bönkunum á milli skjólstæðinga sinna eins og herfangi.

Pétur Gunnarsson rakti síðan hvernig forystumenn Sjálfstæðisflokksins sitja í súpunni, Geir formaður af augljósum ástæðum, Þorgerður Katrín vegna tengslanna við Kaupþing sem ekki hafa enn verið hreinsuð fyllilega, Illugi Gunnarsson vegna sinnar aðkomu að fjármálavandræðum og Guðlaugur Þór vegna REI-málsins.

Það var helst að Pétur fyndi ekki veikan blett á Bjarna Benediktssyni og virðist þá hafa gleymt eða horft framhjá þætti hans gagnvart skilanefnd og N1.

Ekki er ástandið betra í Framsókn. Valgerður með einkabankavæðingarspillinguna sem Sigríður Dögg lýsti svo vel, og Siv Friðleifsdóttir með einhverja afdrifaríkustu og óverjanlegustu ákvörðun okkar samtíma varðandi Kárahnjúkavirkjun.

Samfylkingin, að undanskildum tveimur þingmönnum, greiddi þeirr virkjun atkvæði og kóaði þannig með því sem var upphaf stærstu efnahagslega fíkniefnapartís Íslandssögunnar sem nú hefur endað í stjórnartíð þess sama flokks og á ábyrgð hans með afleiðingunum sem fara jafnvel fram úr því sem nokkurn gat órað fyrir.

Formenn VG og Frjálslyndra eru tilbúnir að taka við ávöxtunum af hinu siðlausa eftirlaunafrumvarpi, fimm árum eftir að það var lögfest með hraði. Ef þeir halda að það muni ekki um nokkra keppi í sláturtíðinni þá gleyma þeir því tapi á trausti kjósenda sem felst í því að segja eitt en gera annað þegar það hentar kjörum þeirra persónulega.

Þess vegna hefur það hættulega ástand skapast sem maður upplífir á Austurvelli og meðal almennings að afnema beri alla stjórnmálaflokka á einu bretti.

Það er hættulegt fyrir stjórnmálin og þjóðarhag að afneita nauðsyn þess að kjósendur skipi sér í fylkingar í samræmi við mismunandi skoðanir til þess að fá síðan umboð í kosningum til að vera í forsvari fyrir málefnum þjóðarinnar. En svona hafa stjórnmálamenn útatað stjórnmálin í óþverra og eitt helsta verkefni samtímans er að hreinsa þennan óþverra úr stjórnmálunum sem hefur komið óorði á starfsemi sem er nauðsynleg fyrir lýðræðið.

Eftir stendur að einn stjórnmálaflokkur, Íslandshreyfingin, stendur utan þings ásamt öðrum grasrótarhreyfingum og hópum sem skynja gerbreytta tíma og nauðsyn fyrir umbætur og endurreisn á öllum sviðum þjóðlífsins.


mbl.is Siv ekki á leið í formannsslag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Það var "skondið" að Ágúst Ólafur virtist ekki hafa hugmynd um hvað er að gerast í þjóðfélaginu þvi hann sagði ;" ef ríkisstjórnin hefur ekki traust almennings í landinu þá getur hún gleymt þessu"  Ég spyr bara, hvar hefur drengurinn verið? Greinilega ekki á Austurvelli.

Þóra Guðmundsdóttir, 16.11.2008 kl. 16:02

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Hversu stór "stjórnmálaflokkur" er Íslandshreyfingin og hvernig liggur þekking hennar of hæfni til að takast á við vandann. ? Þóra... ætli hann hafi ekki verið að horfa á síðustu Gallupkönnun þar sem ríkisstjórnin var með rúmlega 50 % traust og Samfylkingin 36% fylgi

Það er nokkuð meiri breidd i slíkri könnun en í öðru sem við eigum til að mæla ástand. Lögreglan á Akureyri taldi 150 manns á Ráðhústorgi. En í svona fundum felast ótvíræð skilaboð en ekki mæling á fylgi.

Jón Ingi Cæsarsson, 16.11.2008 kl. 16:15

3 Smámynd: Haraldur Hansson

"Formenn VG og Frjálslyndra halda áfram að taka við ávöxtunum af hinu siðlausa eftirlaunafrumvarpi ..."

Er einhver úr þessum nýlegu flokkum kominn á eftirlaun? Þó ég hafi hvorugan flokkinn kosið - eigum við ekki að segja að þeir hafi enn tækifæri til að bjarga andlitinu og afnema ósómann.

Væri fróðlegt að heyra meira um hugmyndir að uppstokkun sem minnst var á í Silfrinu. Ef ég greip það rétt var átt við flokkakerfið og sjálft kosningakerfið. Núna er alla vega jarðvegurinn til staðar og allir að leita leiða til bóta.

Haraldur Hansson, 16.11.2008 kl. 16:34

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt skoðanakönnunum frá því í vor til þessa dags samsvarar fylgi Íslandshreyfingarinnar því að um 4000 Íslendingar greiði henni atkvæði ef kosið hefði verið á þessum tíma frá vori til hausts.

Í framboði fyrir hreyfinguna 2007 var margt afbragðs fólk með þekkingu á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Svo að ég nefni einhver nöfn af framboðslistum hennar býr Margrét Sverrisdóttir yfir mikilli reynslu í stjórnmálum og sömuleiðis Jakob Frímann Magnússon og Ólafur Hannibalsson.

Í fjórða sæti á framboðslista í Reykjavík suður var Elvira Mendez, doktor í Evrópurétti. Í þriðja sæti Sigríður Þorgeirsdóttir, sem nýlega var í hópi þeirra hugsuða í heimspekideild Háskóla Íslands, sem sendi frá sér góða ályktun og hugleiðingu um ástand mála. 

Margt fólk á framboðslistum bjó yfir mikilli reynslu í umhverfismálum svo sem Ósk Vilhjálmsdóttir og Ásta Þorleifsdóttir, en slíkt er nauðsynlegt í grænum flokki. 

Hörður Ingólfsson, efsti maður í Norðausturkjördæmi, þekkir vel til aðstæðna á landsbyggðinni og reksturs fyrirtækja sem byggja á þekkingu og hugviti.

Pálína Vagnsdóttir var eina konan sem var í forystusæti á listum í Norðvesturkjördæmi. 

Nú er rót á fólkinu og það leitar að hreyfingu sem er utan þings. Það gæti skilað inn í eflda fjöldahreyfingu nýju fólki í anda máltækisins, "nýir vendir sópa best."

Ég lýsti því einnig í Silfri Egils að hægt væri að kalla til hæfileikafólk utan flokkanna og þingsins til að taka að sér ráðherraembætti, svo sem Þorvald Gylfason, Ragnar Önundarson og fleiri. 

Íslandshreyfingin vill að ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt á Alþingi og vill gera gleggri skil á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds svo það framkvæmdavaldið noti ekki þingið eins og gólftusku.

Hreyfingin hefur frá upphafi barist gegn græðgisvæðingu, skammgróðasjónarmiðum og tillitsleysi gagnvart samborgurum og komandi kynslóðum. Það er full þörf fyrir afl með slíka stefnuskrá og baráttumál í dag.  

Ómar Ragnarsson, 16.11.2008 kl. 16:42

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta, varðandi formenn VG og Frjálslyndra, átti að vera "eru tilbúnir að taka við ávöxtunum..." Mun breyta því til þess sem það átti að vera. 

En það hangir fleira á þeirri spýtu. Í lögum um stuðning af ríkisfé til stjórnmálaflokka, sem eru nauðsynleg til að koma í veg fyrir að þeir verði háðir voldugum aðilum og fyrirtækjum, eru ákvæði um sérstak framlag til formanna flokkanna og aðstoðarmanna þeirra.

Þetta tel ég að eigi að vera innanflokksmál og að það sé slæmt að einstaklingar í flokkunum hljóti svona framlag sérstaklega.  

Ómar Ragnarsson, 16.11.2008 kl. 16:47

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í mörgum nágrannalöndum er viðhaft persónukjör á ýmsan hátt og það ætti ekki að taka langan tíma fyrir okkur Íslendinga að velja það sem best hefur reynst.

Sjálfur hallaðist ég að því fyrir mörgum árum að taka upp 25 einmenningskjördæmi og 25 þingsæti af landslistum til að tryggja þingfylgi flokka í samræmi við kjörfylgi.

Röðun á landslistana yrði eingöngu í höndum kjósandans í kjörklefanum. Flokkarnir raða að vísu á listana að vild, en það eina sem hefur vægi í kjörklefanum er röðun hvers kjósanda.

Það má líka hugsa sér að gera landið að einu kjördæmi eða að tveimur kjördæmum, annars vegar svæðinu frá Borgarbyggð til Hvolsvallar og hins vegar landsbyggðina þar fyrir utan. 

Flokkarnir fengju að raða á framboðslista sína en það hefur ekkert vægi, er aðeins til hliðsjónar fyrir kjósendurna sem verða alráðir eins og vera ber.  

Ómar Ragnarsson, 16.11.2008 kl. 17:04

7 identicon

Þú minnist á Margréti Sverrisdóttur sem reynslumanneskju af sviði stjórnmála. Í guðs bænum ekki minnast á Þessa manneskju í sama mund og þú ert að reyna að koma flokknum þínum aftur á koppinn. Hún eyðilegur traustið á flokknum. Ég mun aldrei kjósa Íslandshreyfinguna með hana á lista.

Þórður M (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 17:11

8 identicon

Þetta eru áhugaverðar hugmyndir hjá þér Ómar. Mér eru minnisstæð orð formanns Sjálfstæðisflokksins: "Enginn maður í flokknum er svo merkilegur að flokkurinn sé ekki miklu merkilegri." Ég er fullkomlega ósammála þessari fullyrðingu enda tel ég að samtrygging flokkanna sé að ganga af samfélaginu dauðu. Styð þ.a.l. allar hugmyndir um persónukjör til þings.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 17:23

9 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Dúsan sem formenn flokkanna fengu var aukagreiðsla frá hinu opinbera fyrir formennskuna. Þessi greiðsla nemur um það bil 350.000,- fyrir hvern mánuð, takk fyrir. Þetta kokgleyptu þeir og það hefur ekki staðið í Steingrími J. hinum vammlausa, að þiggja það.

Talandi um bruðl og spillingu þá er það auðvitað galið að fyrsti varamaður í hverjum flokki  í borgarstjórn Reykjavíkur skuli fá greitt bara fyrir það að vera varamenn, jafnvel þó þeir sitji ekki svo mikið sem einn fund. Ekki hef ég heyrt Margréti Sverrisdóttur kvarta undan því jafnvel þó hún sé svarinn andstæðingur þess sem hún er varamaður fyrir. Það sýnir best fáránleikann.

Þóra Guðmundsdóttir, 16.11.2008 kl. 17:35

10 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Sæll Ómar, þetta er ekki alls kostar rétt hjá þér. Vinstri Grænir lögðu fram tillögu um að henda eftirlaunafrunvarpinu fyrir svosem tíu dögum eða tveimur vikum. Ég held að erfitt sé að að tengja þá neinum ósóma þó þeir hafi vísast gert einhver mistök - og mér þóttu þeir berjast betur gegn frjálshyggjunni fyrir síðustu kosningar en Íslandshreyfingin. Kenningin um að allir flokkar á þingi séu eins stenst ekki  - og innan Samfylkingarinnar er fullt af skynsömu  fólki þó trúgjarnt sé á markaðsórienteraða forystu einsog sannaðist með Fagra Ísland og það var nú reyndar Valgerður Bjarnadóttir úr Samfó sem fyrst  lagði fram eftirlaunafrumvarpið. Það þarf að hugsa flokkakerfið og lýðræðið upp á nýtt - en þá án þess að alhæfa eða víkja frá staðreyndum.

María Kristjánsdóttir, 16.11.2008 kl. 17:43

11 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þarna var ég einum of fljótfær einsog Bjarni Harðar það átti auðvitað að standa að Valgerður Bjarna hefði fyrst manna lagt fram tillögu um að afnema eftirlaunaskandalinn. 

María Kristjánsdóttir, 16.11.2008 kl. 17:44

12 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Jón, ég hef einmitt verið að velta því fyrir mér hvað það er sem stjórnmálamenn taka mark á . Til þessa hafa þeir ekkert endilega viljað taka mark á skoðanakönnunum. Ef skoðanakannanirnar eru þeim í óhag þá eru þetta "bara" skoðanakannanir "sem ber að taka tillit til" en ekki atkvæðagreiðsla. Ef kannanirnar eru þeim í hag  "þá ber að taka fullt mark á þeim".

Núna er staðan þannig að hvert sem maður lítur, til aðsendra greina í dagblöðum, bloggsins,, viðtala við marktækt fólk eða erlendrar umfjöllunar. Alls staðar er talað um spillingu og óhæfa stjórnendur.

Þess vegna tel ég það lykilatriði til að endurheimta traust bæði innanlands og utan, að skipta um stjórnendur bæði í ríksstjórn og Seðlabanka. 

Þóra Guðmundsdóttir, 16.11.2008 kl. 17:51

13 identicon

Staðreyndin er líka sú að VG barðist ekki nógu vel gegn frjálshyggjunni innan R listans. Í tíð R listans voru Félagsbústaðirnir einkavæddir, hús Heilsuverndarstöðvarinnar var selt, lóðir voru seldar á uppsprengdu verði og annað var eftir því. Hverju um er að kenna er kannski vert að velta fyrir sér - nema að það hafi alltaf verið ásetningur VG að fylgja stefnu frjálshyggjunnar.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 17:55

14 identicon

Það ætti að ganga enn lengra og kjósa á netinu og/eða gegnum símann um öll mál á þingi, allt kerfið gæti virkað eins með þeirri undantekningu að í stað þess að þingmenn greiði atkvæði fyrir hönd kjósenda sinna (les: flokkinn sinn) þá geta kjósendurnir gert það beint og milliliðalaust.

Þór (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 17:56

15 Smámynd: Eysteinn Þór Kristinsson

Mér finnst nú heldur billegt að kenna Kárahnjúkavirkun um ástandið eins og það er í dag!

Eysteinn Þór Kristinsson, 16.11.2008 kl. 18:16

16 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Góður Ómar!  kv. B

Baldur Kristjánsson, 16.11.2008 kl. 18:19

17 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú ert væntanlega ekki búinn að gleyma lofræðunni sem Jakob Frímann hélt um Björgólf á síðustu Edduhátíð? Menn eru enn með nábít, sem þar sátu.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.11.2008 kl. 19:47

18 identicon

Gott innlegg hjá þér Jón Steinar. Ef hugmyndir um persónukjör næðu fram að ganga þyrfti fólk ekki lengur að verja orð og gjörðir svokallaðra samherja sinna - aðeins eigin orð og gjörðir.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 20:06

19 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Þetta er góður pistill hjá þér Ómar, það er rétt að það eru ótrúlega margir í súpunni.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 16.11.2008 kl. 21:40

20 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Staðreynd: Þrátt fyrir öll stóru orðin um "eftirlaunaósómann" hefur hann haldið velli í fimm ár!

Ómar Ragnarsson, 16.11.2008 kl. 23:03

21 identicon

Heill og sæll Ómar.

Ef þú vissir hvað það eru mikil gæfuspor að fá að vera í návist þinni í Íslandshreyfingunni þá yrðir þú svo montinn að þú teldist óviðræðuhæfur í marga daga. Það er rétt að nýir vendir sópa best og ég hef rekið mig á það löngu áður en kreppan byrjaði að ef maður treystir sér ekki til að beyja sig eftir einum bognum nagla þá á maður ekki skilið að finna tvo. Leiðtogi eins og þú með alla þá þekkingu og hæfileika sem þjóðin öll veit verður samt að hlýta því lögmáli að hver keðja er eins sterk og veikasti hlekkur hennar. Ég hef séð stómenni í boxi þá er ég að tala um Tyson gráta af hræðlu við að mæta manni í hringnum sem hann rotaði svo á 15 sek. Því er nauðsynlegt að foringinn hafi dirfsku til að leiða fram málefni hvað sem hagsmunum líður. Í kvöld var ég að horfa á afhendingu Eddu-verðlauna í Sjónvarpinu og þverfóta ekki fyrir sömu andlitum í hverjum skemmtiþættinum á fætur öðrum í Ríkissjónvarpinu. Ef frá er talið Stuðmenn og co. virðast ekki hafa fæðst á Íslandi nema 4 tónlistamenn. Silvur-Egils og Kiljan státa af sama fólkinu og virðist vera brennimerkt af þáttarstjórnanda að enginn komist þar inn fyrir þröskuld nema með háskólapróf í vasanum. Veit Egil Helgason ekki að það eru til hugsandi mannverur sem finna sóma sinn í því að fara út í skurð og moka með skólfu?Hvað verður hækkun afnotagjalda þegar skatturinn verður búinn að taka þau yfir eftir áramótin? Að lokum ein spurning í restina er það rétt að meðaltalstekjur starfsmanna hjá Ruv séu yfir 500 þúsund krónur án vaktaálags á mánuði? Hafið þið velt því fyrir ykkur hvað einstæð móðir með 3 börn sem dæmi  á framhaldskólastigi þurfi að borga í afnotagjöld á mánuði? Eigum við að giska á 15 þúsund krónur íslenskar á mánuði það heyrist ekkert um þetta mál í fjölmiðlum!!!  

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 00:12

22 Smámynd: Björn Leví Gunnarsson

Tími flokkakerfis er ekki liðinn. Flokkakerfið hefur sína kosti og galla alveg eins og einstaklingsframboð hefur sína kosti og galla. Eins og er þá er helsti galli flokkakerfisins að flokkarnir ráða sjálfir hvernig þeir raða fólki á lista fyrir kosningar (mögulegt spillingartæki). Já, það myndi breyta þó nokkru í kjörklefanum ef kjósendur myndu fá að endurraða... sá möguleiki er hins vegar þegar til staðar og kallar útstrikun ... útkoma sem er því miður litið fram hjá (sjá Á.J í síðustu kosningum).

Röðun á lista verður að vera nákvæmlega eins og kosningarnar sjálfar, opið einstaklingskjör. Kerfið væri þannig tvöfalt þar sem hver flokkur hefur opnar kosningar, ekkert "gef kost á mér í fyrsta, annað eða þriðja sæti" heldur bara "ég gef kost á mér til framboðs" og allir kjósa, ekki bara flokksbundnir. Útkoma þeirrar kjörnu uppröðunar er svo sá listi sem fólk kýs um í almennum þing/sveitastjórnar kosningum.

Smá athugasemd varðandi Íslandshreyfinguna í síðustu kosninum. Vandamálið við framboð með eins stuttum fyrirvara og raun var er að það var ómögulegt að eigna málefnunum það traust sem þarf til þess að fá atkvæði. Þrátt fyrir nokkra mjög góða frambjóðendur þá er "uppfyllingin" verri en það góða.

.....

Í þessu opna samfélagi sem við búum nú í þá er þörf á eilítið öðruvísi stjórnmálum. Við erum bæði að fylgja heimsvæðingunni (nokkuð sem við klúðruðum dálítið illilega nýlega). Fólk er orðið vant því að geta nálgast ALLAR upplýsingar á fljótlegan og auðveldan hátt og upplýsingaskyldu opinberrar stjórnsýslu hefur verið allt of ábótavant á undanförnum árum, stöðluð svör eru yfirleitt "málið er á viðkvæmu stigi" eða "..." (þögn).

Alveg eins og það er bein útsending frá alþingi þá eiga öll nefndarstörf, samningaviðræður og hvað það nú er að vera vel skjalfest í bæði mynd og hljóði fyrir hvern sem er að skoða. Fólk á ekki að þurfa að treysta blindandi á störf stjórnmálamanna þeirra ... það er gríðarlega mikilvægt að vita ástæður ákvarðanna, mun mikilvægara en að vita ákvarðanirnar sjálfar.

Meirihluti er líka hugtak sem er eitrað. Ég skil ekki af hverju flokkurinn sem ég kýs þarf endilega að fórna kosningasamningum (sem ég gaf atkvæði mitt) í einhvers konar bræðingi kosningasamninga annara flokka. Flokkar fara bara á alþingi með þau atkvæði sem þeir fá (til hvers að telja það í x mörgum alþingismönnum) og leggja þau atkvæði fram sem "já, nei eða hlutlaus" þegar atkvæði eru greidd um hvert þingmál. Flokknum eru greidd laun miðað við kjörhlutfall þar sem lágmark og þrepun er heilt starfsgildi (1,587% atkvæða og landið eitt kjördæmi).

Einnig er gríðarlega mikilvægt að valdir þingmenn gæti að hlutleysi sínu, séu ekki hluthafar neinna fyrirtækja né gegni öðrum störfum... og bæta við hlutverki nokkurs konar ábyrgðarmálaráðherra, gæti verið hluti af starfi dómsmálaráðherra. Hans hlutverk væri að gæta að hlutleysis sé gætt í öllum aðgerðum stjórnvalda.

...arr, og miklu miklu meira. Nóg í bili :)

Björn Leví Gunnarsson, 17.11.2008 kl. 04:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband