Ekki rétt röð.

Tveir þingmenn hafa sagt af sér þingmennsku. Annar vegna mistaka og dómgreindarskorts við undirróður gegn andstæðingi sínum í flokknum og hinn væntanlega vegna þess að sjónarmið hans varðandi ESB hafa orðið undir.

Það er eftirsjá að þeim báðum og mér hefur líkað persónulega mjög vel við þá. Guðni á eftir að útskýra betur sína afsögn. Hann ber sinn hluta af ábyrgð Framsóknarflokksins á því ástandi sem komið er upp en maður skynjaði það allan tímann að honum var ekki sama um þá pólitík sem Halldór Ásgrímsson, Valgerður Sverrisdóttir og Siv Friðleifsdóttir ráku.

Hann viðurkenndi í sjónvarpsviðtali í fyrradag að hafa ekki talað nógu skýrt. Á sínum tíma sagði hann í óþökk virkjanasinna að Þjórsárver væru í sínum huga heilög vé.

Ég hefði viljað sjá þær Valgerði og Siv segja af sér á undan Guðna og þá sem mestu ábyrgðina bera á hruninu nú segja af sér á undan þeim öllum.

Valgerður og Siv hafa verið höfuðdrifkraftarnir í hinni skefjalausu stóriðjustefnu flokksins. Valgerður var á kafi upp fyrir haus í einkavæðingarspillingunni sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir lýsti svo vel í Silfri Eglis og Siv tók á sig að bera ein þann kross að leyfa mesta umhverfishneyksli Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun.


mbl.is Guðni segir af sér þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Guðni var greinilega orðinn einn með sín sjónarsvið. Þessi ákvörðun kom svo sannarlega á óvart en ætli hann muni slá upp kollinum í Vinstri grænum. Ég segi bara svona. 

Ég fór að hugsa það í dag, margir vilja að fremstu stjórnmálamenn ríkisins sýni ábyrgð og segi af sér sem fyrst. Hefur fólk eitthvað gert sér í hugarlund hversu alvarlegt ástandið yrði þá? Auðvitað eru þeir að vinna hörðum höndum við það að stýra þjóðarbúinu á rétta braut. Ef nýir ráðamenn kæmu til stjórnar myndi skipið sökkva ásamt allri áhöfninni.

Kveðja Steinar Arason

Steinar Arason Ólafsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 01:03

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Af hverju myndi skipið sökkva ef þeir, sem höfðu rétt fyrir sér allan tímann, tækju við? Þeir þyrftu ekki að vera flokksbundnir ráðherrar, - ekkert í lögum bannar það og Bandaríkjamenn gera þetta iðulega.

Það má vel hugsa sér blandaða ríkisstjórn þar sem slakað yrði á flokksræðinu, sumir ráðherrarnir utan flokka og ég sæi svo sem ekkert athugavert við það að Jóhanna Sigurðardóttir yrði áfram með sinn málaflokk. 70% þjóðarinnar eru ánægð með hennar störf.

Ómar Ragnarsson, 18.11.2008 kl. 14:54

3 identicon

...skjóta upp kollinum í Vinstri grænum,.. Það er nú það? Kær kveðja, Þorgils Hlynur Þorbergsson.

Þorgils Hlynur Þorbergsson (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband