Öllum er andskotans sama.

Á hinum frábæra fundi í kvöld lagði ég spurningu fyrir fulltrúa fjölmiðlanna. Þannig vildi til að í dag fékk ég upphringingu frá Braga Árnasyni, sem hefur fengið hingað fleiri fulltrúa erlendra fjölmiðla til viðtals við sig en nokkur annar Íslendingur vegna þess að hann er "faðir vetnisvæðingarinnar".

Bragi benti mér á tvö vísindarit eftir sig sem vörðuðu nýtingu jarðhitans á Íslandi. Í þeim ritum er að finna frekari staðfestingu á því sem ég hef reynt ítrekað með öllum ráðum að koma á framfæri síðustu ár að með því að pumpa upp 800 megavöttum af jarðvarmaorku á Reykjanesskaga er gengið svo hratt á heita vatnið að jarðhitasvæðin verða orðin köld og ónýt eftir nokkrar áratugi.

Bragi giskar á að heil öld muni líða eftir það að meðaltali þar til svæðin hafi jafnað sig. Fjórar kynslóðir verða rændar.  

Fyrir nokkrum árum skrifaði Jóhannes Zoega fyrrum hitaveitustjóri blaðagrein og varaði við þessu.

Sveinbjörn Björnsson staðfesti þetta við mig í meginatriðum.

Stefán Arnórsson staðfesti það í fyrirlestri á aðalfundi Landverndar.

Í frægum Kastljósþætti um Kröflumálið lá fyrir staðfesting Guðmundar Pálmasonar í þessa átt, en varúðarreglur við jarðhitanýtingu, sem upphaflega voru mótaðar af honum, voru þverbrotnar við Kröflu og eru nú þverbrotnar stanslaust í skefjalausri græðgi og orkufíkn okkar kynslóðar.

Hvað þýðir þetta á mannamáli?

1. Barnabörn okkar mun standa frammi fyrir því að finna 800 megavött í stað þeirra sem við rændum af þeim.

2. Forseti landsins, ráðherrar og landsmenn halda áfram að ljúga því að erlendum þjóðhöfðingjum og útlendingum að orkan sé endurnýjanleg og hrein. Fjölmiðlar eru meðvirkir í lyginni með því að fjalla ekki um málið.

Ég lagði eftirfarandi spurningu fyrir fulltrúa fjölmiðlanna á fundinum í kvöld:

 

Á ferðinni er framtíðardrama,

sem fólkinu verður til ama:

Hreinræktað rán

og hörmuleg smán.

Er öllum andskotans sama?

 

Fulltrúar fjölmiðlanna tóku frekar þann kost að svara öðrum spurningum þrátt fyrir að ég fengi fundarstjóra til að minna á spurningu mína.

Ekkert svar, enginn áhugi.

Niðurstaða: Fjölmiðlarnir munu halda áfram að þegja um þetta og ráðamenn þjóðarinnar og þjóðin öll getur haldið áfram óáreitt að ljúga að sjálfri sér og umheiminum að á Reykjanesskaga sé nýtt endurnýjanleg og hrein orka.

Yfirgnæfandi meirihluti sem þetta mál varðar er ýmist börn eða ófæddur. Það verður ekki skemmtilegt fyrir þau að horfast í augu við það hve öllum var andskotans sama árið 2008.

En okkur er auðvitað andskotans sama um það.


mbl.is Troðfullt á fundi á Nasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki gefast upp, Ómar. Það er ekki öllum andskotans sama. Persónulega hef ég ekki hugleitt náttúruvernd mikið, en í stormi frétta og skoðana undanfarna mánuði, þá er ég farin að hallast æ meir að mikilvægi þess að gæta að náttúruauðlindum okkar. En það er ekkert skrýtið þó þú upplifir þig stundum eins og rödd í eyðimörkinni. Ég virði það sem þú ert að gera fyrir land og þjóð og mun leggja því lið í framtíðinni.

Nína S (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 00:13

2 Smámynd: Hinrik Þór Svavarsson

já áfram ómar!!

það eru strax komnar fréttir af því að álver í Helguvík verði stærra en áætlað var..

Hinrik Þór Svavarsson, 18.11.2008 kl. 00:36

3 identicon

Kannski eiga fjölmiðlamenn almennt erfitt með limruformið. Prófaðu að hnoða sonnettu og gáðu hvort þeim gengur betur að svara henni. Spurningunni verður auðvitað ekki svarað öðruvísi en í bundnu máli.

Gunnar Þorsteinsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 00:46

4 identicon

Haltu áfram Ómar

Það þarf að kenna þessum vitleysingjum að nýta auðlindirnar á skynsaman hátt, fullnýting á framsækin hátt þá á ég við að fullnýta þær okkur til bóta en þar sem allir þættir málsins eru skoðaðir og nýting sé algerlega sjálfbær, það er skaði ekki komandi kynslóðir. Heita vatnið er okkar mesta auðlind, þvílíkt glapræði að fórna henni fyrir eiturspúandi álvers risaeðlu sem ein af annarri er verið að loka út um allan heim í kjölfar lækkandi álvers og heimskreppu.

Einar Rafn Þórhallsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 00:50

5 identicon

Heill og sæll Ómar.

Það er ekkert öllum sama. Mér er ekki sama. Það sló mig það sem þú sagðir á borgarafundinum okkar.

Þú talaðir máske fyrir 14 daufum eyrum fjölmiðlamannanna, en ég er næsta viss um að hin 2000 eyrun í salnum heyrðu hvað þú sagðir.

Þú ættir að vita elsku Ómar Ragnarsson, sem gamall fjölmiðlamaður, að það hvernig maður ber fram áríðandi erindi á borð við þetta skiptir höfuðmáli.

Spurningin þín var alls ekki skýr, enda frekar um tilkynningu að ræða en spurningu. Hvernig svarar maður ef maður er ekki viss hvort um spurningu eða tilkynningu er að ræða?

Ég segi hér það sem mér finnst, hreint út, í þeirri von að það komi að gagni. Ég vil ekki munnhöggvast við þig.

Ég ber mikla virðingu fyrir ást þinni á náttúru landsins okkar, og skil hvað þér er mikið niðri fyrir. Ég skil að þú ert búinn að hrópa nánast einn allt of lengi í þeirri von að einhver hlusti, og taki eftir hvað verið er að ganga nærri náttúru landsins okkar.

Þú ert í fararbroddi þessa erindis.

Krefjast skal skýrra svara með skýrum spurningum.

Greppur Torfason (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 01:34

6 identicon

Mér finnst spurningin skýr: Er öllum andskotans sama? Get ekki svarað fyrir aðra en mér er ekki sama.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 07:39

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér er ekki sama og hef vitað þetta lengi. Notaðu aðstöðu þína til að hamra á þessu, þar til það nær í gegn. Rétt eins og Cato gamli forðum.  Hugsum okkur stóriðju með öllum sínum ruðnignsáhrifum og einsleitni og kröfu um stöðugann vöxt. Þagar fjarar undan henni, þá er alþjóðafyrirtækjum nokk sama og þau munu bara flytja sig annað, en eftir stendur land með svipað bjartar horfur og Flint í Michigan, eða Chernobyl.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2008 kl. 09:09

8 identicon

Áfram Ómar.

Þú hefur verið þjóð þinni og fósturjörð meiri og betri en all liðið við Austurvöll samanlagt. Þó þér finnist vafalítið stundum lítill árangur af erfiðri baráttu, fullyrði ég að fáir hafa gert meir fyrir land sitt en þú.

Það er heil kynslóð á leiðinni sem taka mun við þessu þrotabúi okkar, hún þekkir þig og þín verk og þú hefur haft áhrif á hana. Okkar kynslóð sem nú situr ráðlaus í rústunum og talar um hvernig við getur nýtt meira dóp til að lækna fíkn okkar, mun brátt hverfa af vettvangi. Þú átt stóran þátt í uppeldi þeirra sem taka við, þau munu gera betur.

Hafðu þökk fyrir heilindin, einurðina, kraftinn og fórnirnar. 

Jón Baldur Hlíðberg (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 09:11

9 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Það er mörgum sem er ekki sama - en róðurinn að koma réttum upplýsingum til almennings um málefni er varða almenningsheill eins og t.d. náttúruvernd, er enn þungur og mun sennilega þyngjast enn.

Því er rödd þín svo mikilvæg.

Ég hef saknað varnaðarorða um þá vá sem steðjar að náttúru okkar á þessum tímum þar sem við höldum áfram að leita skyndilausna í stað framtíðarsýnar. Skyndilausnir skila okkur áfram inní heljarslóð heróínhagkerfisins, þó svo að ljóst er, að það kom okkur í þetta bölvaða ástand sem við erum að glíma við núna.

Við sem þjóð þurfum að muna hve mikið vald við höfum til að breyta framvindu mála ef við stöndum saman.

Birgitta Jónsdóttir, 18.11.2008 kl. 10:54

10 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Snorri Arnbjörnsson ?  Ertu ekki að meina erindi Stefáns Arnórssonar ?  Hér er útvarpsviðtal við hann. Hann minnist á 100 MW virkjun úr einum ferkílómetra á Reykjanesi.  Grímur Björnsson segir að algengt sé að tekið sé 10 til 20 MW úr ferkílómetranum.  Hérna er grein Jóhannesar Zoega.

Pétur Þorleifsson , 18.11.2008 kl. 11:25

11 identicon

Mér er ekki sama. Ég er mest hissa á því að núna erum við að súpa seyðið af andvaraleysi og að meðtaka ekki viðvaranir í bankamálum. Ætli við lærum eitthvað af því?

Tryggvi Már (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 12:20

12 Smámynd: AK-72

Ég get allavega huggað þig með einu Ómar, að það sannaðist það sem sagt var á fundinum. Það sem er ekki sagt er áhugavert, og ber að taka eftir. Við vorum þó nokkur sem tókum eftir þessu, að þér var ekki svarað.

AK-72, 18.11.2008 kl. 13:28

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hef leiðrétt innsláttarvilluna varðandi Stefán Arnórsson (sló inn: Arnbjörnsson)

Stefán ræddi um það við mig eftir erindið á aðalfundi Landverndar að hugsanlega myndu sumar virkjanirnar ekki einu sinni endast afskriftartímann, 40 ár, en sá tími er forsenda arðsemisútreikninga.

Það þýðir að á afskriftartímanum þarf að fara út í viðbótarframkvæmdir sem geta þegar upp er staðið þýtt að það var tap á virkjunni á samningstímanum.

En öllum er sama um það. Það lendur á börnunum okkar en ekki okkur sjálfum.

Ómar Ragnarsson, 18.11.2008 kl. 13:59

14 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Þetta er vonandi ekki það alvarleg innsláttarvilla að þú segir af þér Ómar ?  Við búum við GLAPRÆÐI.  Sá stígur sem þau feta er GLAPSTIGI og það sem þau segja er GLEPJA eða eftir að hafa lesið lítinn hluta af Áramótaávarpi Seðlabankastjóra, SLEPJA !   

Máni Ragnar Svansson, 18.11.2008 kl. 14:20

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt er að taka fram að nú rétt í þessu bað Freyr Eyjólfsson mig um að koma í viðtal út af þessu til að útskýra mitt mál.

Ómar Ragnarsson, 18.11.2008 kl. 14:57

16 identicon

Sæll Ómar, 

Fyrir nokkrum misserum las ég handrit að grein í morgunblaðið sem kunnáttumaður hafði skrifað um þessi mál. Greind var hagkvæmni þess að nota jarðhitasvæðin nærri Reykjavík til þess að knýja hitaveitur, á móti því að nota þau til þess að framleiða raforku. Það er óumdeilt að nýtnin við raforkuframleiðsluna er einungis brot af nýtninni við það að nota heita vatnið til að hita hús (eins og var upphaflega gert í Svartsengi og á Nesjavöllum, áður en menn hófu raforkuframleiðslu líka).

Ég hef rætt þetta við jarðeðlisfræðinga sem vilja reyndar meina að forðafræðin sé  flóknari en menn hafi talið á síðustu áratugum, - en geta ekki sagt hversu alvarleg rányrkjan er. Almennt gildir þó að það gengur á forðann þegar tappað er af. 

En óháð því hversu hratt gengur á forðann, þá er greinilegt að sú stefna sem nú er rekinn mun skilja komandi kynslóðir eftir kaldarí kuldanum.

Greinin var að lokum send til moggans, en hefur enn ekki birst, og verður líklega ekki héðan af. 

Þessi mál þarf að rannsaka betur. Það er ekki nóg að spurja fulltrúa orkuiðnaðarins (ekki frekar en það nægði að ræða stöðugleika bankanna í sumar við forustu menn þeirra gaf vitræna niðurstöðu). Ef þetta er gert núna þarf ekki hvítbók og rannsóknarnefnd þegar hitaveituna þverr.

H. 

Halldór Björnsson (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 09:36

17 Smámynd: Héðinn Björnsson

jarðhitasvæði eru að mörgu leiti eins og beitilönd. Það getur verið hagkvæmast að nýta harkalega í einhvern tíma og leyfa svæðinu svo að jafna sig. Til að slíkt gangi upp þarf að hafa aðskilin svæði sem hægt er að nýta til skiftis. Það sem hefur láðst að gera á Íslandi er að gera langtíma áætlun fyrir nýtingu jarðhitans enda áherslan verið á umhverfismat og ekki samfélagsmat. Það er nefnilega ekki umhverfisvandi þegar svona jarðhitasvæði er ofnýtt, heldur er það samfélagslegt vandamál. Eins og staðan er í dag er stefna hvers orkufyrirtækis fyrir sig er að hámarka sinn hagnað og því tapast sú heildarmynd sem ætti að vera til staðar þegar um fyrirtæki og auðlyndir í samféalgslegri eign er að ræða.

Ég starfa við forðafræði hjá Íslenskum Orkurannsóknum og ef þú hefur áhuga á að koma og spjalla við okkur um þessi mál við okkur þá væri gaman að taka á móti þér. Ef við eigum að læra eitthvað af kreppunni þá er það að það þurfa að vera beinni samskiftaleiðir milli fræðimanna og stjórnmálamanna og að hollara sé að ræða opinskátt um hlutina áður en skaðinn er skeður.

Héðinn Björnsson, 19.11.2008 kl. 16:39

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka þér fyrir, Héðinn. Niðurstaða mín er sú að algerlega skorti framtíðar- og heildarsýn yfir þessi mál.

Ef einhver alvara á að vera í því að friða t.d. Gjástykki-Leirhnjúk, Öskju, Kverkfjöll, Kerlingarfjöll, Torfajökulssvæðið, Ölkelduháls og Grændal verður að vera til áætlun sem tryggir að önnur háhitasvæði verði nýtt þannig, að þar sé um sjálfbæra þróuna að ræða til framtíðar.

Ef við gefum okkur að með núverandi aftöppun endist orkan í 50 ár og að síðan þurfi að bíða í 100 ár þangað til að aftur verði hægt að tappa af, er líklegt að við megum ekki virkja nema þriðjunginn af þeirri orku sem til ráðstöfunar og hvíla tvo þriðju á meðan.

Við erum komin mun lengra en þriðjung á Reykjanesskaga og ættum þess vegna að stoppa þar strax.

Vegna þessarar ofnýtingar verðum við að eiga auka varasvæði á Norðausturlandi til að geyma til framtíðar til að flytja orku þaðan suður. Sem sagt: Ekki álver á Bakka og ekki heldur í Helguvík.

Þetta er gróf mynd en á skjön við það ábyrgðarlausa flan skammgróðafíknarinnar sem ræður för.

Ómar Ragnarsson, 19.11.2008 kl. 23:43

19 Smámynd: Ásta

Endurnýjanlegar auðlindir og sjálfbærni
Áætluð orkunýting jarðgufuvirkjana er aðeins um 12%. Slíkt er ekki ásættanleg nýting á takmarkaðri náttúruauðlind og verður seint talin sjálfbær. F-listi, Íslandshreyfing, Náttúruvaktin, Landvernd og margir fleiri hafa hafa ítrekað bent á í ræðu og riti að í stað þess að virkja meira á Reykjanesskaga eigi að staldra við og læra, nú eigi fyrst og fremst að huga að rannsóknum á forðafræði svæðisins, leita lausna á gaslosunarvanda og fleiru sem fylgir. Hversu mikill endurnýjunarhraði auðlindarinnar sé. Rannsóknir Braga Árnasonar benda til að það taki vatnið þúsundir ára að komast niður og hitna. VIð dælum því upp á augabragði.

 Frumskylda orkufyrirtækjanna á Reykjanesskaganum er að veita birtu og yl í hýbýli íbúa. Því grundvallarhlutverki með ekki ógna með óðagoti og skammsýni. Ísland verður lítt byggilegt land ef þessa auðlind þrýtur, jafnvel þó að aðeins væri um nokkurra áratugaskeið

Ásta , 21.11.2008 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband