Fjórir snillingar.

Fjórir snillingar áttu kvöldið í Iðnó á verðlaunaafhendingunni úr sjóði Stefaníu Guðmundsdóttir. Þrjú komu frá Landnámssetrinu og aldar minningar hins fjórða var minnst. Það var Alfreð Andrésson, en hann skein skærar á leiksviðinu en nokkur annar leikari í barnsminni mínu.

Því miður var blómaskeið hans aðeins um tveir áratugir, því að hann lést aðeins 47 ára gamall. Hann var réttur maður á röngum stað og röngum tíma því að  ef hann hefði verið uppi hér á landi á okkar dögum eða í henni Ameríku hefði hann hlotið frægð og frama víða um lönd.

Ég held að aldrei hafi einn gamanleikari verið í eins miklum sérflokki hér á landi og Alfreð. Tækni hans, útgeislun og tímaskyn voru fágæti. Á sviðinu var hann öryggið uppmálað, hann "tók sviðið" þegar hann birtist án þess að þurfa að segja neitt og án þess að vera í gervi. Ég veit ekki um neina hliðstæðu slíks.  

En skömmu áður hafði hann oft kastað upp baksviðs vegna taugaspennu.

Alfreð var átrúnaðargoð mitt og fyrirmynd sem gamanvísnasöngvari. Það heyrist glöggt á elstu upptökunum með mér. Ég sá hann ekki syngja "ó, vertu ei svona sorró" en foreldrar mínir lýstu því vel fyrir mér hvernig hann gerði það og í kvöld, þegar þetta lag var spilað í Iðnó, lá við að ég táraðist, svo snortinn var ég, einu sinni enn!

Í kvöld var sýnt atriði úr kvikmynd með þeim Haraldi Á. Sigurðssyni og Alfreð. Útgeislun Alfreðs naut sín ekki síður í kvikmyndum þótt tengslin við áhorfendur gerðu hann fyrst og fremst að þeim yfirburðamanni sem hann var á sinni tíð.  

Ég var svo lánsamur að Haraldur Á. söng sinn svanasöng á sviðinu þegar hann gerðist guðfaðir minn og leiðbeindi mér í ferð um landið á um þrjátíu héraðsmót í öllum landshlutum árið 1959. Það var frumraun mín og upphaf á hálfrar aldar ferli.

Ég man enn allt skemmtiatriði hans ekki síður en mitt. Þökk og virðing streymdi um huga minn í gamla góða Iðnó í kvöld þar sem ég steig mín fyrstu spor á sviði í stóru hlutverki fyrir 55 árum og var í herbergi með Árna Tryggvasyni.  

Ég hef reynt flest sem hægt er að reyna í fjölmiðlum, útvarpi og sjónvarpi og fyrir framan kvikmyndatökuvélina en ekkert kemst í hálfkvisti við leikhúsið vegna þeirra beinu tengsla milli þess sem á sviðinu stendur og áhorfenda.

Það  gerir leikhúsið að sannasta og sterkasta miðlinum. Straumarnir liggja í báðar áttir, vægðarlaust ef svo ber undir.

Ég vil minna á að í Borgarleikhúsinu er Laddi enn að brillera og að ég efa að nokkur leikari í heiminum geri eða hafi gert hliðstætt því sem hann gerir. Ef einhver veit betur væri gaman að fá að vita um það. Í kreppunni er gott að vita af því að hér norður á útskerinu eigum við slíka.   


mbl.is Þrjú fengu „Stefaníustjakann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er skynsamlegt að reyna að verða góður í einhverju, til dæmis leiklist, en það er heimskulegt að sækjast eftir frægð og frama.

Þorsteinn Briem, 19.11.2008 kl. 02:20

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Frægð og frami kemur sjaldnast til þess er leitar hans held ég. Það nær enginn áheyrn nema fyrir aðdáun fjöldand. Það er svo ástríða listamannsins sem smitar og hefur jakvæð áhrif.  Sumir eru að vísu háðir fenginni athygli og reyna að kreista út athyglina, þegar áhugi fólks dofnar eða þá að þeir neyðast til að misnota þá til að hafa salt í grautinn, því oft hefur mikil frægð og miklir hæfileikar ruðningsáhrif í lífi slíks fólks eins og álverin.

Dæmi um slíkt eru auglýsingar Elsu Lund og Skúla Rafvirkja fyrir Zik Zak. 'Eg verð sorgmæddur að heyra þær. Þar er illa farið með góðan dreng.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.11.2008 kl. 09:20

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég man eftir þér fyrst í 79 af stöðinni Ómar. Ungum sprelligosa. Þú hefur svo margt til brunns að bera að ef þú hefðir tekið eitt framar öru, þá hefðir þú sennilega orðið heimsfrægur í því.  Annars finnst mér þú eiginlega vera ímynd hins íslenska anda. Ákefð sem gerir allt mögulegt þvert á allar sýnilegar takmarkanir. Megir þú hafa þökk fyrir það.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.11.2008 kl. 09:27

4 identicon

SKJALDBORGARMÓTMÆLI  Í DAG - MIÐVIKUDAG KL: 12 VIÐ AUSTURVÖLL
 
þann 19. nóvember, 2008    -    "Sláum skjaldborg utan um Alþingi".
MÆTUM ÖLL SEM VILJUM SJÁ BREYTINGAR GERAST !


Stjórnarandstaðan ætlar að standa með okkur í dag,
 
-hún mætir og ætlar í framhaldi af því að lýsa yfir vantrausti

  á Ríkisstjórn Íslands .....
 
Nýir Tímar
www.nyirtimar.com
www.facebook.com/ákall til þjóðarinnar
www.facebook.com/skjaldborgarmótmælin

Sigurlaug (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband