25.11.2008 | 00:23
70% þjóðarinnar eru ekki þjóðin!
1500 manns sem komu á stærsta innanhúss mótmælafund sem ég man eftir eru ekki þjóðin að mati oddvita ríkisstjórnarinnar. Þó voru þessir 1500 manns áreiðanlega fulltrúar þeirra 70% þjóðarinnar sem samkvæmt skoðanakönnun treysta ekki ríkisstjórninni.
Oddvitar ríkisstjórnarinnar virðast álíta að þau 30% þjóðarinnar, sem styðja ríkisstjórnina, séu frekar þjóðin en hin 70% sem ekki styðja hana. Nema að þjóðin sé ekki til í þeirra huga heldur misnotað hugtak frá dögum Þjóðviljans sáluga.
Fyrir utan vantraustið sem fundurinn túlkaði voru það komandi gjaldþrot heimila sem var meginstef þessa fundar. Ljóst er að "umfangsmiklar aðgerðir" sem ríkisstjórnin kallar svo er aðeins lenging á hengingarólinni og geri stjórnvöld ekki meira, hvernig svo sem þeim framlögum úr ríkissjóði verður háttað, er ekki von á góðu.
Fjármálaráðherrann sagði að ef taka ætti peninga úr ríkissjóði til að lina vandræði heimilanna yrði að minnka opinber framlög til annars í staðinn. Einn fundarmanna nefndi í því sambandi að varla ættu þær fjárhæðir að vefjast fyrir mönnum sem nýlega hefðu eytt margfalt stærri upphæðum í bjarganir fyrir fjármálamennina.
Þetta sama viðfangsefni var eitt meginatriðið í málflutningi forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum í haust. Þeir sögðu að það yrði að bjarga Wall Street til að hægt yrði að bjarga "Main street" þ. e. lánamöguleikum litlu fyrirtækjanna, sem skapa 90% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjamanna.
John McCain sagði að vísu að hin tröllauknu ríkisframlög til auðjöfranna í Wall Street ættu ekki að fara í að halda uppi áframhaldandi bruðli og lúxusi þeirra, - að kennarar og iðnaðarmenn ættu ekki að borga fyrir þá lúxusþoturnar og þyrlurnar.
En líklega verður þetta svipað í báðum löndunum að þeir sem betur mega sín hafi betri möguleika til að sleppa en hinn venjulegi borgari.
Þetta er þjóðin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæl Ómar,
Bara svona til að leggja það til málanna að þá eru þeir sem mæta á mótmælafundi eða eins og í þessu tilfelli borgarafundi líklegri til þess að vera ósáttir við ríkisstjórnina en þeir sem ekki mættu.
Án þess þó að vilja gefa þeim sem ekki mættu það upp að vera sáttir við ríkisstjórnina að þá er það samt svo að punkturinn stendur, þeir sem mæta á slíka fundi eru líklegri til að tilheyra þeim hópi sem er hvað óánægðastur. Að þessu leyti er því eðlilegt að segja að fundarmeðlimir hafi ekki endurspeglað þjóðina, þó þjóðin sé vissulega óánægð.
Með fullri virðingu fyrir þér og þínum flokk að þá tel ég ríkisstjórnina hafa brugðist en vill ekki kosningar því ég hreinlega efast um að nokkur á þingi hefði staðið sig betur.
Mbk,
Yngvi Freyr (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 01:44
Það voru um tvöþúsund manns á fundinum og nokkur hundruð þurftu frá að hverfa.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.11.2008 kl. 02:13
Ég skil nákvæmlega hvað Ómar er að fara og er ekki með Íslandshreyfingargleraugu. Þó að allir á fundinum hafi mögulega verið á móti stjórninni, tilheyra þeir 70 % þjóðarinnar, skv. skoðanakönnunum sem eru marktækar. Annað hefði verið ef aðeins 30 % hefðu verið á móti stjórninni. Geir og Ingibjörg lítilsvirtu því bæði fundarmenn og þjóðina með orðum sínum. Er þessi hroki þeirra beggja hluti af arfleifð Davíðs?
Jóhann G. Frímann, 25.11.2008 kl. 05:37
Almenningur, sem sótti þennan fund í Háskólabíói, er að sjálfsögðu ekki fulltrúar þjóðarinnar. Hver og einn talaði þar fyrir sjálfan sig en ekki í mínu nafni eða Ómars Ragnarssonar, svo dæmi sé tekið. Fólk í þjóðfélaginu hefur alls kyns skoðanir sem allar eru jafn réttháar.
Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins fengju ríkisstjórnarflokkarnir 40 þingmenn af 63, ef kosið yrði nú, en þeir hafa 43 þingmenn.
Samfylkingin bætti hins vegar við sig fimm þingmönnum. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa því samkvæmt þessari skoðanakönnun um 60% fylgi almennings í landinu, en ekki 30%, og 60% er gríðarlega mikið fylgi, ekki síst í ljósi þess sem á undan er gengið.
Hins vegar er allt í lagi mín vegna að kjósa til Alþingis í vor. En það er ekkert nýtt að Vinstri grænir, Framsóknarflokkurinn, Íslandshreyfingin og Frjálslyndir séu á móti ríkisstjórninni. Þeir tveir síðastnefndu kæmu aftur á móti ekki manni á þing, samkvæmt þessari skoðanakönnun.
Það kæmi því Samfylkingunni og Vinstri grænum helst til góða, ef kosið yrði nú, og að sjálfsögðu er allt í lagi að þessir tveir flokkar myndi nýja ríkisstjórn. Hins vegar verða Vinstri grænir hugsanlega eini þingflokkurinn eftir næstu kosningar sem verður á móti því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.
Breyta þarf stjórnarskránni rétt fyrir og eftir næstu þingkosningar og kjósa þá í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Eftir það getur Samfylkingin myndað nýja ríkisstjórn, Ingibjörg Sólrún orðið forsætisráðherra og frúin hlær í rafmagnsbíl.
Þorsteinn Briem, 25.11.2008 kl. 09:16
70% þjóðarinnar eru 70% þjóðarinnaer en það breytir því ekki að svona fundur hvort sem á honum eru 2.500 manns eða 10.000 manns þá hefur hann bara alls ekkert umboð til að gera eitt né neitt. Ég er á því að það eigi að kjósa í vor en það er alveg rétt hjá Ingibjörgu Sólrúnu að segja að fundurinn geti ekki talað fyrir hönd þjóðarinnar.
Að halda öðru fram er í raun jafn vitlaust og þegar sendinefnd frá múslimaríki nokkru kom í heimsókn til alþingis Íslendinga fyrir nokkrum árum og þeir voru spurðir af hverju konur þar í landi hefðu ekki kosningarétt. Svarið var einfalt. Það var fellt í lýðræðislegri kosningu. Það sást greinilega að næstum allir (ég sá bara eina hönd upprétta á móti) þarna voru á því að kjósa strax og bara það segir okkur að þetta var ekki þverskurður af þjóðinni því skv. skoðanakönnunum ættu það að vera 70%.
Fundurinn í gær var ágætur um margt en ég var frekar ósáttur með fundarstjórnina. Þarna töluðu frummælendur allt of lengi. Spurningum var hrúgað á stjórnmálamennina og þeim gefinn allt of knappur tími til að svara. Fundarstjóri var með frammíköll þegar var verið að svara spurningum og reyndi með því að gera lítið úr svörunum.
Batnandi fólki er best að lifa og er það að mínu mati niðurstaða fundarins. Við verðum að vera bjartsýn á framhaldið og að alþingismönnum og almenningi verði leyft að fylgjast betur með.
Gunnar Þór Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 09:48
Ég tel mun heppilegra að kjósa í haust og þá helst strax í september heldur en að kjósa í vor. Fyrir því eru nokkrar ástæður.
Í fyrsta lagi er þá komin meiri reynsla á árangur af þeim aðgerðum, sem stjórnvöld eru að fara í núna og því hafa kjósendur betri grunn til að taka ákvörðun um það hvort þeir kjósi þá flokka, sem vilja halfa áfram á sömu braut eða þá, sem vilja fara aðrar leiðir.
Í öðru lagi mun kosningabaráttan þá fara fram að sumri til meðan Alþingi er hvort eð er ekki að störfum og þar með mun hún ekki trufla störf Alþingis eins mikið og ef kosið væri í vor. Það er mikilvægt nú þegar bjrögunaraðgerðir eru í fullum gangi. Þetta mynd reyndar klíða eitthvað af orfofi þingmanna en þeir segja reyndar sjálfir að hluti af þriggja mánaða hléi á störfum Alþigis fari í það a ferðast um kjördæmið og tala við fólk og þeir geta allt eins gert það í formi kosningabaráttu eins og undir öðrum formekjum
Í þriðja lagi tel ég að þeim mun lengra, sem er í kosningar sé minni hætta á að stjórnvöld fari í aðgerðir, sem aðeins lagi ástandið til skamms tíma en ekki eins vel til langs tíma. Þess vegna er eðlilegra að sjá til í aðeins lengri tíma hver árangurinn er af aðgerðunum áður en kosið er aftur.
Í fjórða lagi tel ég að kosningar í haust gætu verið ákvekðin málamiðlun milli þeirra, sem vilja að ríkisstjórnin starfi út næsta ár og jafnvel út allt kjörtímabilið og þeirra, sem vilja kjósa strax í byrjun næsta árs.
Ég tel hins vegar mikilvægt að ákvörðunin um þessar kosningar sé tekin strax og hún kynnt þannig að menn geti farið að beina kröftum sínum í uppbyggingu í stað þess að eyða þeim í að knýja fram kosningar.
Sigurður M Grétarsson, 25.11.2008 kl. 10:10
Sigurður segir margt af viti. Ekki vitlaus hugmynd að kjósa í haust en tilkynna það strax á næstu dögum.
Villi Asgeirsson, 25.11.2008 kl. 13:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.