Ofurvald "fjárfesta".

Fjárfestar svonefndir kollsteyptu þjóðarbúinu í haust. Þessi öfl hafa verið iðin við kolann allt frá því að íslensk stjórnvöld auglýstu orku landsins til útsölu á alþjóðlegum markaði árið 1995.

"Fjárfestar" ákváðu að í stað hóflega stórs 120 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði skyldi reist 346 þúsund tonna álver með margfalt meiri umhverfisspjöllum. Þjóðinni var þar með boðið í veislu. "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?" urðu fleyg orð fjármálaráðherrans.

Þrætt var fyrir þau endanlegu áform að reisa 360 og 340 þúsund tonna álver í Helguvík og á Bakka og sagt að 240-250 þúsund tonna álver myndu nægja.

Það var gert til að koma íslenskum stjórnvöldum á spenann og teygja þau svo langt að ekki yrði aftur snúið.

Nú koma fjárfestarnir og segja að ekkert geti orðið úr álverunum nema þau verði stækkuð. Samtals er viðbótin um 200 þúsund tonn af áli á ári sem krefjast munu allt að 350 megavatta orku til viðbótar við þau rúmlega 400 megavött sem upphaflega var sagt að myndu nægja.

Íslenskum stjórnvöldum, (sem Þórunn Sveinbjarnardóttir lýsti svo vel á borgararfundinum í Háskólabíói í gær með því að segja að Íslendingar hefðu reynst fullfærir um það sjálfir að rústa náttúru landsins,) er stillt upp við vegg sem þau hafa reist sjálf með skefjalausri þjónkun sinni við útlend stóriðjufyrirtæki og innlenda verktaka.

Álfurstarnir krefjast þess að miklu skárri orkunotendum, netþjónabúunum, verði rutt í burtu.

Stjórnvöld eru viljalaus verkfæri erlendra gróðaafla sem markvisst vinna að því að ná öllum orkuauðlindum Íslands undir sig og gefa skít í það þótt Íslendingar fórni mestu auðæfum landsins sem felast í einstæðri náttúru.

Hrun fjármálakerfisins í haust var bara forsmekkurinn af því sem stefnt er að, að Íslendingar verði leiksoppar ofureflis erlendra og innlendra fjárgróðamanna sem er nokk sama um það þótt Íslendingum sé steypt í smán og niðurlægingu.

Þeim er skítsama um þótt þessar 300 þúsund hræður verði ofurseld erlendu valdi um aldur og ævi.


mbl.is Orkuöflun í mikilli óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Bjarnason

"Álfurstarnir krefjast þess að miklu skárri orkunotendum, netþjónabúunum, verði rutt í burtu.

Stjórnvöld eru viljalaus verkfæri erlendra gróðaafla sem markvisst vinna að því að ná öllum orkuauðlindum Íslands undir sig og gefa skít í það þótt Íslendingar fórni mestu auðæfum landsins sem felast í einstæðri náttúru. "

Ég  ég man eftir umræðunni áður en álverið var reyst í Straumsvík fyrir meira en 40 árum.  Sérstaklega man ég eftir því þegar þeir sem voru á móti álverinu töluðu um hættuna á að stjórnvöld yrðu viljalaus verkfæri í höndum erlendra fjármagnseigenda. 

Björn Bjarnason, 25.11.2008 kl. 11:32

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Erlent lánshæfismat Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar hefur hrunið, enda er Landsvirkjun í eigu ríkisins og Reykjavíkurborg er að taka sex milljarða króna lán hér innanlands:

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/10/11/lanshaefiseinkunn_or_laekkud/

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item237572/

Og heimsmarkaðsverð á olíu og áli hefur einnig hrunið, enda hefur bílaframleiðsla dregist gríðarlega saman í heiminum undanfarið og verð á hlutabréfum í Century Aluminum, eiganda Norðuráls á Grundartanga, hefur lækkað um 90% frá því í maí síðastliðnum:

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/11/19/verdmat_century_aluminum_laekkad/

Þorsteinn Briem, 25.11.2008 kl. 12:18

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Minn kæri Björn Bjarnason. Ég studdi álverið í Straumsvík og það var lengi vel aðeins nokkrir tugir þúsunda tonna, sem er innan við tíundi hluti álframleiðslunnar í dag. Þá voru yfir 90% útflutningstekna frá sjávarútvegi og álverinu var ætlað að koma þeirri tölu niður undir 80% því að ekki væri gott að hafa öll eggin í sömu körfunni.

Þetta fannst mér skynsamlegt og engin hætta var þá á því að álverið næði neinum heljartökum á þjóðinni.

Nú hefur dæmið snúist við. Álframleiðslan hefur meira en tífaldast og stefnt er að því að tuttugufalda hana, ryðja öðru burtu, krefjast allrar orku landsins og þar með eyðileggingu mestu verðmæta þess sem er einstæð náttúra.

Þá þurfa erlendir fjárfestar ekki einu sinni að eignast orkulindirnar beint, því þær verða eyrnamerktar stóriðjunni sem allt eins gæti færst á eina hönd, til dæmis Rio Tinto, sóðalegasta fyrirtæki heims eins og það var orðað í breska þinginu.

Raunar var stuðningur minn og margra fleiri við álver fenginn á sjötta áratugnum með því að lofa okkur blómlegum afleiddum áliðnaði í landinu, sem gæti orðið ein aðalstoð iðnaðar og atvinnulífs landsmanna.

Þetta átti að felast í framleiðslu á alls kyns byggingarvörum úr áli, álumbúðum o.s.frv.

Ekkert af þessu kom.

En álverið í Straumsvík hefur samt auglýst í áramótaauglýsingum undanfarin ár að það framleiði flugvélar, bíla, umbúðir, tölvur, þakplötur, burðarvirki og hvað eina sem er úr áli.

"Við framleiðum..."var upphaf þessarar dæmalaus setningar í auglýsingunni. Ekki hef ég séð einn einasta álbíl renna af færibandi í Straumsvík og þaðan af síður flugvélar.

Ómar Ragnarsson, 25.11.2008 kl. 14:18

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

HÉR MÁ FELLA dóma um menn og málefni og öllum er frjálst að kjósa eins og þeir vilja.

Hér er ég búinn að setja upp kosningakerfi þar sem hægt er að kjósa eða gefa einstökum fjármálajöfrum stig eða stjörnur í kladdann!

Með þessu framtaki mínu er ég að reyna að skapa grundvöll fyrir aðhaldskerfi fyrir peningamenn! $!"#$ :|%

Hér er á ferðinni nýjung sem ætlað er að veita útrásinni, bönkunum, fréttamönnum smá aðhald ...

Fyrir suma getur þetta verið hrós en aðra eins og að fara á svartan lista. Almenningur hefur þurft að þola margt eins og að vera sett á "ýmsa" svarta lista í gegnum tíðina. Er ekki komin tími til að almenningur fái að fella sinn eigin dóm ... svona einu sinni :)

Svo er það annað mál hvort að það hjálpi eitthvað.

Hér má svo gefa einstökum aðilum útrásarinnar atkvæði:

http://www.photo.is/utras.html

(það er mikið álag á kerfinu, en eftir að síðan er komin upp, þá er lítið mál að gefa stjörnur í rólegheitunum og jafnvel skrifa smá texta með)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 25.11.2008 kl. 14:36

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni og mikið er ég sammála þér.

En í sambandi við það sem Þórunn sagði þá verðum við að gera einn skýran greinarmun og hann snýst um grundvallaratriði. 

Ef og þegar þjóðin sér í gegnum þjónkun okkar ráðamanna við erlenda auðhringa og ef þjóðin sér að fiskimið okkar eru ekki vel nýtt af flota risaskipa í kerfi sem ýtir undir sóun og brottkast (sbr þá einfalda hagfræði að hámarka afurðaverð aflans en veiðafærum er ennþá ókunnugt um þá hagfræði), þá getur þjóðin skipt um kúrs.  Bæði getur hún krafist endurskoðunar á núverandi samningum svo og hitt að breyta framtíðaráherslum sínum.

Komist auðlyndir okkar beint í eigu útlendra aðila eins og beint er unnið að þessa dagana með aðkomu alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá á þjóðin ekki auðlyndir sínar lengur en hún hefur val um að vinna eða fara.  

Á þessu er grundvallarmunur og það er sama hvað við erum óánægð með undangegna auðlyndastefnu þjóðar okkar  við höfum þó alltaf það val að geta breytt.  Val þeirra þjóða sem hafa lent í hinum helköldu krumlum IFM er ekkert því útlendir auðhringar hafa söslað undir sig auðlyndir og almanna þjónustu eins og vatnsveitur, raforkuver o.s.frv.  Í því sambandi skiptir það litlu að notaðir séu innlendir leppar til að framkvæma gjörningin.

Þess vegna átti Þórunn að hlusta betur á Einar Má því ég veit að í hjarta sínu er hún sammála honum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.11.2008 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband