Fyrirsjáanlegt.

Rétt eins og íslenska fjármálakreppan var fyrirsjáanleg hefur hrun byggingariðnaðar og verslunar verið enn fyrirsjáanlegra. Eitt af einkennum hinnar fáránlegu þenslu voru húsbyggingar langt umfram þarfir þjóðarinnar, útþensla sem gat ekki endað nema á einn veg.

Íslendingar sem voru erlendis í nokkur ár upp úr aldamótunum og komu heim í fyrra ráku upp stór augu við að sjá allar stóru byggingarvöruhallirnar, sem hafa þotið upp á örskömmum tíma og byggðust á samskonar þenslu og hús, sem byggð eru á sandi.

Jafnvel þótt bankarnir hefðu ekki hrunið var fyrirséð að þessi allt of hátt spennti bogi myndi bresta. Búið var að reisa hús sem myndu ekki verða fullnýtt fyrr en eftir áratug eða meira.

Framundan eru allmörg ár með auðum byggingum og jafnvel hálfkláruðum vegna þess að tjaldað var til einnar nætur og ekkert skeytt um máltækið "what goes up must come down."


mbl.is Staðnaður byggingariðnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tóm steypa alltsaman.

Þorsteinn Briem, 27.11.2008 kl. 00:16

2 identicon

Já, en einhvernveginn verður samt að klára þessar byggingar sem eru langt komnar. Sérstaklega Tónlistarhúsið, íbúðaturnana við Skúlagötu, skrifstofuturninn við Borgartún. Það má ekki láta þetta bara grotna niður sem ömurlega minnisvarða um heimsku og græðgi landans.

Mér dettur einna helst í hug að ríki/borg yfirtaki þetta og klári í einhverskonar "atvinnubóta" framtaki á næstu 4-5 árum. Íbúðaturnana mætti nýta undir félagslegar eða þjónustuíbúðir fyrir þá sem þess þurfa. Hið opinbera gæti líka sjálft í það minnsta hálf-nýtt skrifstofuturninn undir stofnanir sem nú eru dreifðar um alla borg í óhentugu og/eða of litlu húsnæði.

Einhverntíman koma svo betri tímar. Mætti ég bara minna á að eitt helsta kennileiti New York-borgar, Empire State Building, var í áratug uppnefnd "Empty State Building". Menn hófu byggingu hennar af mikilli bjartsýni árið 1927. Skömmu síðar skall Kreppan mikla á, eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði hrapaði og ljóst að byggingin yrði nánast auð næstu árin. 

En þeir kláruðu hana nú samt árið 1931. Hún stóð vissulega hálf-tóm í mörg ár, en var tilbúin og fljót að fyllast þegar loks rofaði til í efnahagnum.  Held við ættum að íhuga þetta.

Eysteinn (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 00:59

3 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

ég var farinn að trúa því að lífið væri bara svona æðislegt og það myndi ekki verða samdráttur....

Ætli það sé ekki skynsamlegra að setja fjármagnið í eitthvað annað en tóm hús.

Í stað þess að ríkið fari í miklar framkvæmdir, þá gæti það lánað frumkvöðlum peningana til að byggja upp atvinnuvegi, hvort sem þeir eru nýir eða 'gamlir'.

Fólk er með nóg af hugmyndum, nú er nauðsynlegt að hjálpa því að koma því í framkvæmd.

Lúðvík Júlíusson, 27.11.2008 kl. 01:35

4 Smámynd: Karl Ólafsson

Já, nú erum við öll orðin hagfræðingar og höfum hugtökin á hreinu :-) Sjálfur var ég í langan tíma búinn að vera að velta fyrir mér þeirri atburðarás að nýbygginga- og fasteignabólan myndi springa og hugsanlega taka með sér þá einn banka eða fleiri. En mér datt eiginlega ekki í hug að þetta gerðist í öfugri röð. Útkoman er hins vegar sú sama, en bara miklu verri en nokkurn hefði órað.

Það þarf ekkert að klára tónlistarhúsið strax, til þess er ekki til fjármagn, ekki heldur hjá ríkinu. Það tók 40 ár að klára Hallgrímskirkju, því hún var byggð eftir því sem efni leyfðu. Er ekki allt í lagi að tónlistarhúsið taki ... segjum 10-15 ár? Helstu atvinnutækifæri iðnaðarmanna hérlendis verða svo væntanlega smáviðvik og lagfæringar á þessum nýju húsum sem hraukað hefur verið upp, oft frekar fljótfærnislega og illa.

Ég var einmitt erlendis á árunum í kringum aldamótin. Þegar ég kom heim í ársbyrjun 2002 fékk ég óneitanlega menningarsjokk að sjá húsalengjuna í Borgartúninu og meðfram Sæbrautinni og velti mjög fyrir mér hvernig hefði verið hægt að fjármagna þetta. Eða Kauphöllina? Svo hélt þetta bara áfram og varð bara stærra og flottara með hverju árinu. Fyrirtækið sem ég vann hjá í Bretlandi hafði á þessum sömu árum látið byggja fyrir sig nýtt hús. Það flutti þá úr niðurníddu, fullnýttu húsi frá sjöunda áratugnum í glænýja skrifstofubyggingu. Þvílíkur munur á aðstöðu okkar starfsfólksins, en þar var engu að síður ekkert verið að skipta út öllum tölvuskjám og tölvum í leiðinni, eða verið að leggja massíft parket, eða marmara á klósettunum. Allt bara staðlað, hreinlegt, praktískt og að manni fannst eðlilegt. Enginn íburður. Ekki einu sinni loftkæling, bara loftræsting.

Karl Ólafsson, 27.11.2008 kl. 01:36

5 identicon

Það sem ég skil ekki er hvernig fyrirtæki eins og Malarvinnslan á Egilsstöðum gat farið á hausinn. Lögðu menn ekkert fyrir til mögru áranna?

Hélt að fyrirtækið hefði malað gull síðustu ár á Kárahnjúkavirkjun og öðrum verkefnum?

Sama á við um mörg önnur fyrirtæki sem mökuðu krókinn síðustu ár. Hvenær hættu fyrirtæki að leggja peninga til hliðar?

Er einhver sem getur útskýrt þetta fyrir mér?

Lára (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 01:53

6 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Lára, ég minnist þess ekki að Malarvinnslan á Egilsstöðum hafi verið með verkefni við Kárahnjúka. Hún hefur hins vegar verið að leggja vegi um land allt og byggja hús. Líklega hefur veldi fyrirtækisins hrunið vegna of mikilla erlendra lána enda þurftu verktakafyrirtæki að vera með nýjar vélar til að standast útboðskröfur á síðustu árum.

Haraldur Bjarnason, 27.11.2008 kl. 06:12

7 identicon

Ég veit nú ekki hvaðan þið fáið það að þetta hrun sé svo fyrirsjáanlegt, hér hefur verið mikil og hröð fólksfjölgun undanfarin ár, 1990 var fólksfjöldi hér á landi 253 785 og var kominn í 279 785 árið 2000, svo til eingöngu á náttúrulegri fólksfjölgun þjóðarinnar sem er vegna hárrar fæðingartíðni (ein af þeim hæstu í Evrópu) og lágrar dánartíðni (sem er ein sú lægsta í Evrópu, ef ekki heiminum).

Fjölgunin á milli 1990 og 2000 er 26 000 manns en árið 2005 (tölurnar eru frá 1. janúar hvers árs og koma frá Hagstofunni) er mannfjöldinn kominn í 293 577 og 1.jan 2008 er fjöldinn kominn í 313 376 sem er fjölgun um ca 34 000 manns á 8 árum enda hefur töluverður fjöldi innflytjenda bæst við í hópinn. Á árinu 2008 hafa síðan uþb 7000 manns bæst við og þarna er kominn aukning um nærri 66 000 íbúa á 18 ára tímabili og það er alveg ljóst að einhversstaðar verður þetta fólk að búa.

Ef að fólksfjölgunin hefði haldið áfram og þessi skellur (sem flestir sáu ekki fyrir) hefði ekki orðið er ekki einusinni víst að þær íbúðabyggingar sem eru núna í gangi (margar hefðu ekki orðið tilbúnar fyrr en eftir 1-3 ár) hefðu einusinni dugað.

Það er mjög gott að geta verið vitur eftirá.

Sigvaldi Eggertsson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 09:37

8 Smámynd: Sævar Helgason

Það er merkilegt þetta mannlíf.  Þjóðin hefur aldrei í sögunni verið betur menntuð , þegar á heildina er litið.

Verkfræði,viðskiptafræði, hagfræði, o.fl - margt á doktorsstigið - best á heimsvísu.

Samt er dellan og innsýnin í framvinduna síðustu 5-6 ári varla meiri en hjá leikskólakrökkum.

Er ekki ástæðan að allir þessir hámenntuðu hópar voru aðeins að hámarka sitt þrönga svið- alveg án samhengis við heildarmyndina ?

Með öðrum orðum þetta var allsaman stjórnlaust.

Sævar Helgason, 27.11.2008 kl. 09:58

9 identicon

Veit af því að margir hámenntaðir Bretar eru nú að endurmennta sig sem Iðnaðarmenn

Kveðja

Æsir (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 10:23

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigvaldi. Hér hafa um 17 þúsund útlendingar verið við störf undanfarið, flestir í byggingavinnu og fiskvinnslu. Flestir útlendinganna fluttu hingað einungis til að vinna hér um tíma, til dæmis við Kárahnjúkavirkjun, en ekki til að setjast hér að og gerast íslenskir ríkisborgarar. Þeir voru því ekki að byggja öll þessi hús fyrir sjálfa sig.

Og flestir útlendinganna hér eru Pólverjar, þar sem töluvert atvinnuleysi var í Póllandi og þeir gátu fengið betur launuð störf hér. Atvinnuástandið hefur hins vegar batnað mikið í Póllandi undanfarið og Pólverjar streyma nú aftur heim. En vegna gengishruns íslensku krónunnar fá þeir ekki lengur mun hærri laun hér en í Póllandi.

Og nú lána Pólverjar okkur gríðarlegar fjárhæðir til að við komumst aftur á lappirnar fjárhagslega eftir að þeir hafa haldið okkur á floti árum saman vegna þess að íslenskt verkafólk hefur ekki viljað vinna í fiski. Það vill frekar vinna hér í útlendum álverum, fyrst og fremst vegna þess að þar eru launin hærri en í fiskvinnslunni.

Gengi krónunnar hefur verið allt of hátt skráð og þar af leiðandi hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki greitt hér lægri laun en ella. Á Húsavík hefur fjöldinn allur af erlendu verkafólki starfað undanfarin ár, meðal annars í fiskvinnslu, og þar er því engan veginn þörf á álveri, enda er langstærsti hluti þeirra sem starfa í álverum verkamenn.

Hagstofan skráir þá sem eiga lögheimili hérlendis en þeir eru engan veginn allir Íslendingar. Einungis íslenskir ríkisborgarar eru Íslendingar og þeir búa bæði hérlendis og erlendis. Undanfarna áratugi hafa þúsundir Íslendinga búið erlendis við nám og störf, og nú trúlega um 15% þjóðarinnar.

Íslenska þjóðin er því engan veginn fólkið sem á skráð lögheimili hérlendis, eins og Hagstofan virðist halda í fréttatilkynningum sínum, og hún ætti að sjálfsögðu einnig að taka það fram hversu margir Íslendingar búa erlendis hverju sinni.

Þetta er nú allt "íslenska efnahagsundrið" í hnotskurn. Hin íslenska Framsóknarmennska orðin að athlægi úti um allar heimsins koppagrundir.

Þorsteinn Briem, 27.11.2008 kl. 13:05

11 identicon

Takk fyrir þetta, Haraldur, í fáfræði minni hélt ég að Malarvinnslan hefði grætt á Kárahnjúkavirkjun þar sem hún staðsett á Austfjörðum. Þakka þér fyrir að skýra það út fyrir mér sem og hvers vegna hún er nú á hausnum

Það breytir því samt ekki að fullt af fyrirtækjum hafa gert það gott á undanförnum árum. Var það virkilega svo að þau "þurftu" að taka lán til að fjárfesta í betri tækjum og tólum svo þau fengju verkefni og gátu því ekki lagt til mögru áranna?

Mikið er það ömurlegt starfsumhverfi sem hér skapaðist ef fyrirtæki sem ekki voru tilbúin til að skuldsetja sig í botn í erlendri mynt urðu þá að sitja heima aðgerðarlaus

Lára (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 14:58

12 Smámynd: Ólafur Þórðarson

ER ekki hægt að ráða fólk í að RÍFA þessa ljótu turna við Skúlagötuna?

Ólafur Þórðarson, 27.11.2008 kl. 15:55

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Slippstöðin á Akureyrir og Arnafell fóru á hausinn við Kárahnjúka og ein þrjú fyrirtæki önnur ýmist urðu gjaldþrota eða var bjargað með eftirgjöfum og tilhliðrunum. Glæsilegt, - ekki satt?

Ómar Ragnarsson, 28.11.2008 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband