Munnar manna eða dýra?

Í ágætri frétt hjá RUV í kvöld var mikið rætt um munna, sem kæmu við sögu í smalamennsku. Aldrei var þó upplýst hvort þetta væri munnar manna, hesta, kinda eða hunda. Ég heyrði ekki upphaf fréttarinnar en fljótlega kom í ljós að rætt var um framkvæmdir á Vestfjörðum, nánar tiltekið jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

Varla verða þessi göng þó notuð til að reka fé í gegnum þau heldur virðist sá misskilningur á ferð að munna á jarðgöngum eigi að kallað gagnamunna. Þegar þetta er endurtekið sjö til átta sinnum í sömu fréttinni gefur það þessari málleysu aukinn trúverðugleika.

Hið rétta orð er "gangamunnar", ekki "gangnamunnar". Smalamenn eru gangnamenn en bormenn í jarðgöngum gangamenn eða gangagerðarmenn.

Orðið göng beygist svona: Göng um göng frá göngum til ganga.

Orðið göngur beygist svona: Göngur um göngur frá göngum til gangna. Punktur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Orðið göngur beygist svona: Göngur um göngur frá göngum til gagna

Ég hefði haldi að þetta ætti að vera svona..

Orðið göngur beygist svona: Göngur um göngur frá göngum til gangna.  

en hvað veit ég svosem :) 

Óskar Þorkelsson, 28.11.2008 kl. 18:42

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakaðu innsláttarvillu, Verður leiðrétt hið snarasta.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2008 kl. 18:47

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mér þykir það nú heldur reykvískt að tala um munn á dýrum. Þau voru með kjaft í minni sveit, án þess þó að þau væru mikið af brúka kjaft, eins og mannskepnan gerir óspart.

Og svo einkennileg var þessi sveit að þar borðaði ekkert dýr. Þau átu einungis og það jafnvel það sem úti fraus.

Samtýnis, en þó ekki samtímis, var frændi minn Kristján Jóhannsson, sem kallaður var tófusprengur, því hann lék sér að því að elta uppi tófur, enda tók hann þátt í Ólympíuleikunum.

Þorsteinn Briem, 28.11.2008 kl. 19:17

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Engin leið er að skilja það þegar vísað er til gangnamunna en að það séu munnar á lifandi verum sem tengjast göngum og réttum. Samkvæmt skýringu þinni var átt við munna á mönnum en ekki dýrum og fréttin því skýr og spurningin um munna dýra því óþörf.

Ég skal fallast á það og nógu lengi var ég í sveit til að læra eftirfarandi:

Menn deyja, - dýr drepast.

Menn borða, - dýr éta.

Menn hafa munna, - dýr hafa kjafta. (Undantekning var Guðni "kjaftur" rektor M.R.)

Oftast er sagt að menn hafi líkama en að dýr hafi skrokka.

Þegar menn deyja verða til lík, - þegar dýr drepast verða til hræ.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2008 kl. 20:04

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar. Ég minntist nú ekkert á munna á jarðgöngum. Þau eru hvorki menn né dýr og hægt er til dæmis að ræða um bæði fjarðarkjaft og fjarðarmynni, sem er væntanlega dregið af orðinu munnur.

Einnig er hægt að tala um op á jarðgöngum en þau eru fullkláruð opin í báða enda, eins og Framsóknarflokkurinn.

Í Skíðadalnum töluðu langflestir um göngur en þó bjó þar fólk á einum bæ sem ræddi ætíð um gönguna, enda var það mæta fólk frá Vopnafirði og þar af leiðandi rauðhært. Í MA fórum við í gangaslag en aldrei í gangnaslag, enda voru göngur og réttir bannaðar á heimavistinni.

En heldur klént þykir mér þegar sagt er að dýr hafi munna, þau hafi borðað og dáið. Akureyringurinn Magga Blöndal sagði meira að segja í sjónvarpsfrétt nú í sumar að fiskar borðuðu en það þykir mér vera barnamál.

Þó var sagt fyrir margt löngu:

Deyr , deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.

Íslenskan er því fyrst og fremst spurning um smekk manna og hann fer meðal annars eftir því hvar og hvenær þeir hafa alist upp. Nema hér sé verið að tala um hlutafé í KB-banka.

Þorsteinn Briem, 28.11.2008 kl. 21:05

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ómar, þú ert ekki ennþá búinn að leiðrétta ritvillurnar þínar, sem gera færsluna ákaflega ruglingslega.  Þú ert ennþá með "gagnamunna" (ég hef ekki ennþá heyrt af gögnum með munna ).  Þegar þú ert búinn að leiðrétta þessar ritvillur, væri gott að þú eyddir þessari athugasemd út.

Marinó G. Njálsson, 28.11.2008 kl. 23:58

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka þér fyrir, Marínó. Ég man varla eftir öðrum eins innsláttarvillum og í þessum pistli mínum og átti hann þó að fjalla um rétta notkun á íslensku máli.

Nú er ég búinn að leiðrétta villurnar en kann ekki að eyða athugasemd þinni. En get þó staðfest að þú og aðrir fóruð rétt með um stafavillurnar mínar. Púff!

Ómar Ragnarsson, 29.11.2008 kl. 01:22

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ómar, það er ennþá inni villa í síðast í fyrstu setningu 2. málsgreinar.

Til að eyða út athugasemdum, þá ferðu í stjórnborð og síðan blogg, en í staðinn fyrir að skrifa færslu velur þú Athugasemdir í valstikunni.  Þá birtast nýjustu athugasemdir, færslu fyrir færslu.  Þú finnur færsluna sem á að eyða, opnar hana (smellir á plúsinn) ogvelur síðan Fela athugasemd.

En varðandi stafsetningarvillurnar, þá eiga mínir fingur þetta ansi oft til.  Sum orð bara get ég ekki skrifað rétt.  T.d. stj´ronvöld  (ég var ekki að gera þetta viljandi), ég held ég þurfi alltaf að leiðrétta þetta orð hjá mér.  Það er bara eins og vinstri höndin hafi ekki við þeirri hægri stundum.

Marinó G. Njálsson, 29.11.2008 kl. 01:58

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

stundum held ég að ég sé haldinn skrifblindu.. sérstaklega ef ég skrifa á laptop tölvu.. 

Óskar Þorkelsson, 29.11.2008 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband