12.12.2008 | 01:43
Upplýsing til útlendinga mikilvæg.
Það er mjög mikilvægt þegar útlendingar komast að því hve óhemju stórt áfall hefur dunið yfir Íslendinga. Þegar Economist segir frá kaupæðinu sem var hér gleymist hins vegar að hjá engri þjóð hefði allt of hátt gengi gjaldmiðilsins getað komið í veg fyrir slíkt.
Einnig hefði mátt geta þess að aðeins um 30 menn stóðu á bak við þetta. Uffe Elleman Jensen sagði í Kastljósviðtali að eftirlitsaðilarnir hefðu brugðist og ef við bætum þeim við og ráðherrunum, sem tengdust þeim, eru þetta samt ekki nema nokkrir tugir manna sem bera ábyrgð að ósköpum fyrir heila þjóð.
Framundan er mikið verk við að gera öðrum þjóðum ljóst eðli þessa máls því að annars er lítil von til endurskoðunar eða sanngirni gagnvart þeim gríðarlegu skuldbindingum sem við höfum verið knúðir til að taka á okkur.
Eigum við við von um það? Já, ég tel það og tek sem hliðstæðu þegar Þjóðverjum var gert að taka á sig miklar byrðar 1919. Sex árum síðar, í Locarnosamningunum 1925 sáu menn sig um hönd og milduðu þessi ákvæði, bæði af sanngirnisástæðum en ekki síður af praktiskum ástæðum, því annars hefði tjón allra orðið meira í heildina við það að Þjóðverjar voru píndir um of.
Ef heimskreppan hefði ekki dunið yfir nokkrum árum seinna hefði líklegast margt farið á aðra lund en það fór.
Ef rétt er að Bretar hafi á ákveðnum tímapunkti í haust íhugað flýtimeðferð á því að breyta Icesafe úr útibúi í dótturfélag, bendir það til þess að í betra næði síðar sé hægt að fá hinar stóru þjóðir, sem eru aðilar að málum, til að taka á sig hluta af þessum byrðum, sem þær ráða margfalt betur við en við, sem erum aðeins örþjóð við ysta haf.
Kristján Þór Júlíusson var raunsær í Kastljósviðtali þegar hann sagði að dýfan sem við værum að fara inn í myndi endast minnst þrjú ár.
Hvort það tekur enn lengri tíma fer eftir því hvort við getum mildað "refsinguna" sem við stöndum frammi fyrir og farið að ráðum Görans Persons um það að taka höggði strax á okkur af festu í stað þess að draga það á langinn og hætta þar með á að komast ekki út úr vandræðunum.
Ísland í dag samkvæmt Economist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.