16.12.2008 | 16:41
Fjórða valdið getur líka spillt.
Vald spillir. Þessi tveggja orða sannindi eru einhver þau dýrkeyptustu í mannkynssögunni. Ekki þarf annað en að nefna nöfn eins og Kaligúla, Napóleon, Hitler, Stalín og Maó sem dæmi. Þessi tvö orð, vald spillir, eru að baki því að enginn Bandaríkjaforseti fái að sitja í meira en átta ár, sama hvaða afburðamaður hann er.
Peningum fylgir vald sem vandfarið er með og við höfum dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald sem eiga að vera í jafnvægi en eru það ekki lengur því framkvæmdavaldið seilist æ lengra inn á svið löggjafans.
Stundum er talað um fjórða valdið, fjölmiðlana. Auðvitað getur slíkt vald spillt líka þeim sem með það fara eða skapað freistingar sem erfitt er að standast. Orð ritstjóra í samtali við blaðamann þess efnið að það sé stefna blaðsins að taka ákveðinn mann"djöful" niður og pönkast á honum út í það óendanlega" gefa ekki góðan vitnisburð um ritstjórnarstefnu.
Allir fjölmiðlamenn eiga taka hlutverk sitt alvarlega en stundum er eins og það gleymist að um fjórða valdið gildir hið sama og hin þrjú að vandmeðfarið er með vald og að á sviði fjórða valdsins liggja líka lúmskar freistingar.
Sumir sjá fjölmiðlavaldið í svipuðum hillingum og trúaðir menn sáu hið trúarlega vald á sínum tíma, - þetta væri svo heilagt vald og köllunin svo stór að ekkert misjafnt gæti þrifist undir verndarvæng þess.
En það vald spillti líka eins og galdarbrennur og önnur glæpaverk framin í nafni trúarinnar sýna glögglega.
Björgólfur: Fjarstæða en kemur ekki á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eru það þá ekki eigendur fjórða valdsins sem spillast af því (eða vilja spilla því í sína þágu) en ekki þeir sem neðar eru í píramídanum?
Marilyn, 16.12.2008 kl. 17:05
Ómar!, rifjaðu upp með mér hver afstaða þín var til fjölmiðlafrumvarpsins og umræðu um fjórða valdið.
Guðmundur Jóhannsson, 16.12.2008 kl. 17:12
Ég tók enga opinbera afstöðu til fjölmiðlafrumvarpsins á sínum tíma enda starfandi fréttamaður hjá RUV. Ég get hins vegar upplýst það nú að ég var persónulega og í kyrrþey andvígur frumvarpinu í því formi og samhengi sem það var sett fram. Ég hef áður bloggað um það en skal árétta nokkur atriði.
Sögulegt samhengi. Alla síðustu öld hafði Sjálfstæðisflokkurinn og hagsmunaaðilar tengdir honum haft yfirburða stöðu á blaðamarkaðnum í krafti Morgunblaðsins og Vísis. Í aldarlok, þegar gömlu flokksblöðin höfðu sálast, voru hægri öflin nær einráð á markaðnum og réðu yfir einu blöðunum, sem eftir voru, Morgunblaðinu og DV.
Allan þennan tíma var að sjálfsögðu enginn áhugi á því að hálfu ráðandi afla að setja fjömiðlalög, en aldrei hefði það verið nauðsynlegra en um aldamótin.
Á næstu árum á eftir kom hins vegar Fréttablaðið fram á sjónarsviðið og 2003 var svo komið að í fyrsta sinn, hvað snerti lestur blaða, var jafnvægi á markaðnum þar sem tveir álíka öflugir aðilar tókust á.
Þá fyrst blossaði upp áhugi ráðandi afla á fjölmiðlafrumvarpi og almenningur skynjaði það að um framlagningu þess réði fyrst og fremst andúð Davíðs Oddssonar á eigendum Fréttablaðsins og sú valdahyggja sem náði hámarki um þær mundir þegar hann við annan mann gerði herlausa og friðsama þjóðina að striðsaðila í ólöglegu stríði í Írak og réðst síðan í kjölfarið til atlögu gegn óvinum sínum.
Yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar var misboðið og fjölmiðlafrumvarpið var kornið sem fyllti mælinn.
Þess vegna var yfirgnæfandi andúð meðal þjóðarinnar á frumvarpinu og margnefnd "gjá" myndaðist milli þjóðar og þings.
Þetta breytir því ekki að full þörf er á og hefur alltaf verið á, að setja skorður við því að jafnvægi raskist á fjölmiðlamarkaði og ég er eindregið fylgjandi því, rétt eins og ég taldi miður það ójafnvægi sem var á þessum markaði alla síðustu öld.
Engin fjölmiðlalög hefðu hins vegar getað spornað við því einstæða ástandi um aldamótin að alger einstefna var þá á blaðamarkaðnum því að eignarhaldið var í höndum tveggja aðskildra aðila.
Ómar Ragnarsson, 16.12.2008 kl. 18:17
Björgólfs nú galdrabrenna,
í bankanum of há spenna,
ógnar havarí,
var út af því,
kallinum var um að kenna.
Þorsteinn Briem, 16.12.2008 kl. 18:24
Munum að þegar kemur að eignarhaldi fjölmiðla er það fyrst og fremst dagskrárvald sem eigendur þeirra eru að sækjast eftir. þ.e. að ekki sé fjallað um þá (eigendurna) á neikvæðum nótum og að öruggt sé að góðverk þeirra sjálfra og glæsileiki fari ekki framhjá neinum.
Það er jú ástæðan fyrir því hvers vegna menn eru tilbúnir til að tapa stórum fjárhæðum á þessum rekstri
Sævar Finnbogason, 16.12.2008 kl. 20:07
Flokksblöðin stunduðu ekki mannorðsmorð, að Þjóðviljanum undanskildum. Mörgunblaðið hefur verið galopið öllum sem viljað hafa tjá sig, í marga áratugi, ólíkt t.d. Þjóðviljanum. Sömu aðilarnir og stóðu að Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu, börðust gegn fjölmiðlafrumvarpinu.
Hjörleifur Guttormmsson sker sig úr í þessum hópi fólks, hvað fjölmðlafrumvarpið varðar, sjá HÉR
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.12.2008 kl. 02:51
Það má segja að Davíð hafi klúðrað fjölmiðlafrumvarpinu, sem var meingallað í sinni upprunalegu mynd, sjálfur með því að tala niður á við til þjóðarinnar en tala ekki við þjóðina um það.
Það er dygð að hlusta, sú dygð hefur ekki átt uppá pallborðið hjá stjórnmálamönnum undanfarinn áratug eða svo.
Sævar Finnbogason, 17.12.2008 kl. 12:22
Bara til að minna þig á Sævar, þá samþykkti meirihluti Alþingis fjölmiðlafrumvarið, þannig að frumvarpið varð að lögum. Meirihluti Alþingis er á hverjum tíma meirihluti þjóðarinnar. Sá sem klúðraði þessu var í framhaldinu forseti vor. Nú hefur það komið í ljós að Davíð hafði rétt fyrir sér allan tímann hvað ógnaráhrif eigendavaldsins varðar. Þá finnst mér í raun hlægilegt að halda því fram að það hafi verið vitlaust fram sett og annað í þeim dúr. Menn verða bara að vera menn og viðurkenna mistök sín.
Sigurður Sigurðsson, 17.12.2008 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.