Erfiðir útmánuðir.

Eftir áfall haustmánaðanna hafa flestir, sem í þeim lentu, áreiðanlega lagt á það áherslu að komast í gegnum hátíðir áramótanna á sem skaplegastan hátt. Því miður er næsta víst að það á eftir að harðna verulega á dalnum strax eftir áramót, einkum á útmánuðum.

Það verður peningalegt frost á Fróni og "harmar hlutinn sinn" margur vinnandi hásetinn þegar gluggaumslögin koma inn um lúgurnar.

Stjórnarflokkarnir munu vafalaust reyna að dreifa athygli fólksins með því að keyra upp umræður um ESB og hávaða og rót í kringum landsfund Sjálfstæðisflokksins.

Þeir ætla að nota landsfundinn sem afsökun fyrir því að skipta ekki úr ráðherrum og draga allt slíkt sem mest þeir mega á langinn.

Sú spurning er áleitin hversu langt þeir munu komast upp með að þeir, sem mestu ábyrgðina bera, komist hjá að axla hana. Það er umrót framundan og það má ekki gerast að engu verði breytt og spillingin, sjálftökustjórnmálin og ábyrgðarleysið látið halda áfram.

 


mbl.is „Friðsamleg og málefnaleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Ég hef misst trú á ríksstjórnina og er eflaust ekki einn um það. Þeir sem létu auðvaldið stjórna sér eiga að fara frá. Þetta þýðir að í flestum stjórnmálaflokkum þarf að skipta um áhöfn. Ég hef aldrei getað unnið við það sem mér er ekki treyst fyrir og heldur ekki geta unnið við það sem ég treysti mér ekki sjálfum til að gera.

Ljóst er að nýja hugsjón vantar. Er hægt að búa til nýtt kerfi með því að raða saman kostunum ú gömlu kerfunum og henda út ókostunum?  Hið fullkomna kerfi er ekki til það er alltaf til einhver leið til að klekkja á slíku kerfi sé það ætlunin. Ef hægt verður að fá fólk til þess að hætta að leita leiða til þess að klekkja á kerfinu er hægt að gera gott úr öllu.

Offari, 27.12.2008 kl. 17:52

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég myndi ekkert gráta það þó skipt yrði út fjármála, viðskipta og umhverfisáðherra í þessari ríkisstjórn, en að það sé eitthvert forgangsatriði til þess að rétta af kúrsinn fyrir þjóðina á næstu mánuðum er að ég held mikill misskilningur. Aðalatriðið er að þingið standi saman um þær sársaukafullu aðgerðir sem nauðsynlegar eru. Stjórnarandstaðan verður sem aldrei fyrr að sýna ábyrgð og sanngirni, en ekki að vera á vinsældaveiðum, eins og í miðri kosningabaráttu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.12.2008 kl. 18:51

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eðlilegt væri að fjármála- og viðskiptaráðherra yrðu færðir til en ég sé ekki hvernig Þórunn Sveinbjarnardóttir ber eitthvað meiri ábyrgð á klúðri ríkisstjórnarinnar en aðrir ráðherrar, til dæmis forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sem fengu ein að vita um sumt sem var að gerast og létu ekki aðrar ráðherra vita af því.

Ómar Ragnarsson, 27.12.2008 kl. 19:16

4 Smámynd: Einar Indriðason

Ég held... að það sé ekki nóg að skipta út 2-4 ráðherrum.  Til þess eru báðir þessir flokkar orðnir of samdauna.  Ég vil skipta báðum flokkunum út, algjörlega, og að öllu leyti.

Ég veit ekki hvað ætti að koma í staðinn.... Ég held líka að gamla flokkakerfið sé orðið maðkétið, og rotið, og það sé kominn tími til að skera upp í lýðræðinu.  Mig langar til að sjá fólkið sjálft hafa meiri áhrif, heldur en einu sinni á 4urra ára fresti.  Mig langar til að fá að kjósa oftar, og um fólk og málefni.  Ekki bara pakkadíl flokkakerfisins.

Ég skal líka viðurkenna heimsku hjá mér, en ég sé *engan* tilgang í því að skipta Þórunni út.  Hún hefur verið að reyna að standa vaktina við "Græna Ísland", eiginlega á móti vilja annarra í S.  Og ég er ekki heldur að sjá hvernig Þórunn tengist ástandinu í efnahagsmálum, eins og efnahagsmálin eru núna.  (Gefa ekki virkjanaleyfi, eða álbræðslustækkunarleyfi hægri vinstri... er ekki ástæða fyrir því að efnahagskerfið er eins og það er núna.)

Einar Indriðason, 27.12.2008 kl. 19:51

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nú er gjaldeyrisfrost á Fróni,
það felldi peningamarkaðssjóð,
Davíð Oddsson kveður kuldaljóð,
með Kára Stefáns í miklum móð.

Í Landsvirkjun allt búið er þar spil,
og úti varð Frikki Sóf nú hér um bil,
Katrín harmar KB-banka hlutinn sinn,
en kemst þó í Evrópusambandið inn!

Þorsteinn Briem, 27.12.2008 kl. 19:56

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég nefni Þórunni vegna þess að hún er skemmda eplið. Hún er á skjön við nánast alla í þingflokki sínum og í ríkisstjórninni. Við þurfum ekki á svona "undanvillingi" að halda á þessum erfiðu tímum. Þórunn á heima í VG eða í Íslandshreyfingunni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.12.2008 kl. 20:44

7 Smámynd: Offari

Gunnar er eplið skemmt ef það vill vera heiðarlegt í sínu starfi? Ég var ekki sammála Þórunni þegar hún vildi fá heildstætt mat yfir Bakkaálverið en ég virði þá ákvörðun því hún var að vinna sitt starf sem umhverfisráðherra. Þar fór hún held ég eftir sinni eigin sannfæringu. Það sama má segja um það er hún sagðist vilja kosningar heldég að hún hafi verið að segja sinn vilja þótt hún færi samt eftir flokksviljanum.

Þótt hún sé í ríkistjórn á það ekki að þvínga hana til þess að hafa sömu skoðun og allir hinir. Hún þarf hinsvegar að lúta vilja meirihlutans nema hún telji að meirihlutinn muni skaða þjóðina. Ég set þá ofar á virðingarstigann sem koma heiðarlega fram.

Offari, 27.12.2008 kl. 20:57

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. Það er nú varla hægt að tala um Þórunni Sveinbjarnardóttur sem "skemmt epli" í núverandi ríkisstjórn þegar líklegast er að Samfylkingin og Vinstri grænir myndi næstu ríkisstjórn, jafnvel strax á næsta ári, samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum.

Fylgi Frjálslynda flokksins var í skoðanakönnun Capacent Gallup 4. nóvember síðastliðinn um 3%, Samfylkingarinnar 31%, Vinstri grænna 27%, Sjálfstæðisflokksins 26%, Framsóknar 10% og Íslandshreyfingarinnar 1%.

Samanlagt er því fylgi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um 60%
, samkvæmt þessari skoðanakönnun, hvað sem síðar verður.

Vinstri grænir eru á móti stóriðju, fjölmargir í Samfylkingunni eru einnig á móti stóriðju og því er sjálfsagt að þeir eigi sinn, eða sína, fulltrúa í ríkisstjórninni.

Þorsteinn Briem, 27.12.2008 kl. 21:10

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er auðvitað mikill kostur hjá stjórnmálamanni að vera trúr sinni sannfæringu, enda efast ég ekkert um að Þórunn sé það. En sannfæring hennar á ekki samleið með þingflokki hennar og þess vegna segi ég að hún sé í vitlausum flokki  ( í orðsins fyllstu reyndar  )

Þessi skoðanakönnun sem þú vísar í Steini, er eina ástæðan fyrir því að sumt Samfylkingarfólk gælir við þá hugmynd að kjósa sem fyrst. Og aðal ástæðan hjá öllum í VG.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.12.2008 kl. 21:16

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. Þórunn Sveinbjarnardóttir ræður að sjálfsögðu sjálf í hvaða stjórnmálaflokki hún er, rétt eins og fjölmargir skoðanabræður hennar og -systur í Samfylkingunni, og það er sjálfsagt að þeir eigi sinn, eða sína, fulltrúa í ríkisstjórninni.

Líklegast er að annars færu þeir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar yfir til Vinstri grænna og ekki má nú ríkisstjórnin við því.

Kosið verður um Evrópusambandsaðild hér í næstu kosningum til Alþingis, Ísland gengur í Evrópusambandið og Vinstri grænir mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni eftir kosningarnar.

Þorsteinn Briem, 27.12.2008 kl. 21:36

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í öllum flokkum eru mismunandi sjónarmið á öllu. En ef ríkisstjórn á að vinna saman eins og liðsheild, eða "teymi", eins og margir vilja kalla það í dag, þá á einn af forystusauðunum ekki að rugga bátnum, allra síst á eins viðsjálverðum tímum og nú er. Þórunn getur beitt öllum sínum brögðum innan flokks til þess að vinna samherja sína á sitt band, en fjölmiðlaathygli á sjálfum sér á hún ekki að stunda.

Ef hún metur það svo að sannfæring hennar fyrir "sínum" málum, sé mikilvægari en liðsheildin, þá á hún að segja sig úr flokknum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.12.2008 kl. 21:49

12 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þetta er "fötlun" hjá þér Gunnar.

Haraldur Bjarnason, 27.12.2008 kl. 21:54

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. Og hvernig er þessi svokallaða "liðsheild" innan Sjálfstæðisflokksins núna?

Á að sparka Davíð Oddssyni (Guði), Geir Haarde (Jesú) eða Þorgerði Katrínu (Heilögum anda)? Eða kannski bara öllum á einu bretti og koma Styrmi vini mínum Gunnarssyni (Júdasi) á koppinn?

Þorsteinn Briem, 27.12.2008 kl. 22:12

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sá fyrsti og síðasti eru ekki stjórnmálamenn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið blessunarlega laus að mestu hingað til við "sóló-spilara" og VG er eiginlega eini flokkurinn fyrir utan hann sem ekki tíðkar svoleiðis. Og þegar ég tala um sóló-spilara, þá er ég að tala um forystufólkið. Stjórnmál eru félagsmál og það er erfitt að starfa að félagsmálum sem sóló-spilari.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.12.2008 kl. 22:42

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. Bæði Davíð Oddsson og Styrmir Gunnarsson hafa alltaf haft afskipti af stjórnmálum. Hversu mikil áhrif þeirra eru núna í Sjálfstæðisflokknum er svo annað mál en báðir eru þeir harðir andstæðingar þess að Ísland gangi í Evrópusambandið.

En þú heldur kannski að Styrmir hafi verið að færa Davíð kaffi á brúsa daglega í Seðlabankann síðastliðnar vikur og laumað einum gullklumpi í brúsann á leiðinni út, sér til dægrastyttingar.

Geir Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafa síður en svo verið sammála í Evrópumálunum og hver höndin hefur verið uppi á móti annarri í þeim efnum í Sjálfstæðisflokknum. Ætti þá Geir Haarde ekki að reka Þorgerði Katrínu strax úr ríkisstjórninni?

Þorsteinn Briem, 28.12.2008 kl. 00:01

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Evrópumálin eru óafgreidd í flokknum. Þegar flokkurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu um þau að loknum landsfundinum, að við höfum ekkert inn í ESB að gera, þá muntu ekki sjá einhverja evrópusinna trana sér í fjölmiðla í tíma og ótíma til þess að vekja á sér athygli fyrir sannfæringu sína.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2008 kl. 00:51

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

þ.e.a.s. úr forystuliði flokksins.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2008 kl. 00:51

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. Það skiptir engu máli fyrir þjóðina hvað Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn vilja í Evrópumálunum, því þjóðin mun kjósa um aðild Íslands að Evrópusambandinu í næstu kosningum til Alþingis og allir flokkarnir verða að sætta sig við þá niðurstöðu.

Eftir kosningarnar mun Ísland ganga í Evrópusambandið og Steingrímur Joð verður utanríkisráðherra. Stóriðja úr sögunni, Ingibjörg Sólrún forsætisráðherra og Seðlabankinn mun því heyra undir hana.

Þorsteinn Briem, 28.12.2008 kl. 01:29

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nei... nú hefurðu farið heldur óvarlega í gleðipilluboxið þitt, Steini!

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2008 kl. 01:52

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég er með afbrigðum þunglyndur, enda þótt ég sé léttlyndur að eðlisfari, Gunnar minn. Hins vegar hef ég alltaf verið óhugnanlega sannspár.

Það er íslenskra stjórnmála- og embættismanna að ná sem bestri niðurstöðu fyrir þjóðina í viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu og því er engan veginn þörf á að skilgreina þar einhver "samningsmarkmið". Þau eru að sjálfsögðu að ná sem bestum samningi fyrir alla aðila.

Og þjóðin ætti að geta kosið um aðildarsamninginn í næstu kosningum til Alþingis, sem gæti þá verið búið að breyta 21. grein Stjórnarskrárinnar og staðfest breytinguna þegar það kemur saman á ný eftir kosningarnar.

Að því leyti væri gott ef landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti nú í lok janúar að Ísland ætti að hefja sem fyrst viðræður um aðild að Evrópusambandinu
. Þær þurfa ekki að taka lengri tíma en hálft ár og því hægt að halda sameiginlega næstu kosningar til Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn  þegar búið væri að kynna samningsniðurstöðuna rækilega fyrir þjóðinni í haust.

Þorsteinn Briem, 28.12.2008 kl. 03:04

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef nú reyndar lengi sagt að ef það er svona klárt og kvitt, að aðild að ESB sé svona voðaleg fyrir okkur, þá eiga andstæðingar aðildar ekki að vera hræddir við aðildarviðræður. Viðræðurnar eiga jú að koma umræðunni upp úr farvegi"ef, mundi og kannski" stiginu og í staðinn komast hlutirnir á hreint væntanlega. Hörðustu andstæðingar aðildar segja að það sé ekkert ef og kannski í þessu, að þetta liggi allt saman fyrir. Meðmælendurnir eru ekki sammála því og þess vegna segi ég að það sé sjálfsagt að fara í aðildarviðræður. Mig grunar hinsvegar að aðild verði felld í fyllingu tímans.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2008 kl. 04:04

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. Jamm, það væri nú einkennilegt ef þjóðin mætti ekki greiða atkvæði um aðildarsamning við Evrópusambandið. Það hafa Norðmenn gert í tvígang (árin 1972 og 1994), án þess að hafa beðið nokkurn skaða af, svo ég viti. Og hér á að heita lýðræði, þar sem meirihluti þjóðarinnar á að ráða.

Þorsteinn Briem, 28.12.2008 kl. 04:33

23 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það hefur reyndar ekki verið ákveðið hvernig meirihlutinn úr kosningu þarf að vera til þess að aðild teljist samþykkt af þjóðinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2008 kl. 04:38

24 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvernig var það í Noregi? Einfaldur meirihluti úr kjörkössunum? Eða þarf kosningaþátttaka að vera einhver tiltekin prósenta? Mig minnir að Svisslendingar, sem eru heimsmeistarar í þjóðaratkvæðagreiðslum, hafi töluvert yfir 50% já-ara, til þess að breyting verði samþykkt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2008 kl. 04:42

25 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. EINFALDUR MEIRIHLUTI hefur ráðið í þeim fimm þjóðaratkvæðagreiðslum sem haldnar hafa verið hérlendis síðastliðna ÖLD. Og engin lagaákvæði eru hér um lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum eða hversu stóran meirihluta þurfi til að niðurstaðan sé gild. Og hér var ekki haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í Sambandslagasáttmálanum 1918 var kveðið á um að til að fella hann úr gildi þyrfti 2/3 atkvæða þingmanna og almenna atkvæðagreiðslu, þar sem að minnsta kosti 3/4 atkvæðisbærra kjósenda greiddu atkvæði með sambandsslitum. En Alþingi ályktaði 25. febrúar 1944 að fella Sambandslagasamninginn niður einhliða, þannig að einfaldur meirihluti allra kosningabærra manna gæti fellt Sambandslögin úr gildi og samþykkt Stjórnarskrá lýðveldisins.

Ég sé því enga ástæðu til að krefjast aukins meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu, enda byggist lýðræði á einföldum en ekki auknum meirihluta. Ef krafist væri aukins meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu væri verið að þrengja stórlega rétt meirihlutans til að ráða í þjóðfélaginu og þar af leiðandi skerða lýðræðið verulega.

Stjórnarskrá Íslands kveður á um við hvaða aðstæður þjóðatkvæðagreiðslur skulu haldnar og í 11. grein hennar segir að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli haldin ef Alþingi leysir forseta Íslands frá störfum, í 26. grein ef forseti Íslands synjar lagafrumvarpi staðfestingar og í 79. grein ef Alþingi samþykkir breytingar á kirkjuskipan ríkisins.

Hér voru haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur árið 1908 um áfengisbann (60,1% meðmælt en einungis karlmenn höfðu þá kosningarétt), árið 1916 um þegnskylduvinnu 17-25 ára karlmanna (91,8% andvíg), í Spænsku veikinni árið 1918 um setningu Sambandslaganna (92,6% meðmælt), árið 1933 um afnám áfengisbannsins (57,7% meðmælt) og tvennar kosningar Í EINU LAGI 20.-23. maí 1944 um afnám Sambandslaganna (meðmælt 99,5%) og setningu nýrrar stjórnarskrár (meðmælt 98,5%).

Ásgeir Ásgeirsson var hins vegar fyrsti forseti Íslands kosinn af þjóðinni og það var ekki fyrr en árið 1952.

Í Sviss voru haldnar samtals 395 þjóðaratkvæðagreiðslur á árunum 1940-2005, eða 73% af öllum þjóðaratkvæðagreiðslum í Evrópu á því tímabili. Og í Sviss er hægt að breyta stjórnarskránni ef einfaldur meirihluti þjóðarinnar og íbúa í meirihluta sjálfstjórnarhéraða (kantóna) landsins samþykkir það, en fjögur þjóðabrot búa í landinu.

Þorsteinn Briem, 28.12.2008 kl. 09:17

26 Smámynd: Benedikt Bjarnason

Sæll Ómar. Þú vitnar í „þorraþræl“ og á það væntanlega vel við. Mér finnst ekkert óeðlilegt að bíða eftir niðurstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins nú í janúar svo og samsæti Framsóknarflokksins sem kýs sér nýja forustu. Báðir þessir flokkar hljóta að marka sér einhverja framtíðarstefnu varðandi Evrópumálin og hugsanlega inngöngu í Evrópusambandið. Hver sem niðurstaðan verður, hafa landsmenn þó einhverja hugmynd um stefnu flokkana í Evrópumálum að loknum þessum fundum. Ég get ekki séð annað en að Sjálfstæðisflokkurinn hljóti að senda frá sér samhljóma yfirlýsingu frá landsfundinum. Annað er ávísun á meira fylgistap. Sem ég græt nú reyndar ekki.

Það tel ég líklegt að báðir ríkisstjórnarflokkarnir tilkynni einhverjar breytingar á ráðherraskipan fljótlega á næsta ári, eða að upp úr stjórnarsamstarfinu slitni. En ég vil gefa þessu smá tíma.

Ég tel eðlilegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort við göngum í Evrópusambandið, og hefjum aðildarviðræður. Hvort sem það verður gert með einum eða tveimur kosningum. Þá fáum við dóm kjósenda og niðurstöðu. Það er engin önnur leið til að komast frá þessu máli.

Benedikt Bjarnason, 28.12.2008 kl. 14:33

27 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég hvet lesendur þessa bloggs til að kíkja inn á síðuna hans Gunnars Th. bloggvinar míns og taka þátt í skoðanakönnuninni. Enn sem komið er þá er ég prýðilega sáttur við niðurstöðuna, hefði þó kosið að Íslandshreyfingin sýndi hærri tölu en Sjálfstæðisflokkurinn. En að skipta Þórunni Sveinbjarnardóttur út úr ríkisstjórninni núna held ég að yrði bara til þess að ég tæki á mig rögg og gerði mér dagamun með því að drepa mann í mótmælaskyni.

Árni Gunnarsson, 28.12.2008 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband