1.1.2009 | 15:18
Dæmi um smá prófstein.
"Orð eru til alls fyrst" segir máltækið og það er af hinu góða forseti vor talar um aukið lýðræði og þjóðarátak til endurreisnar á öllum sviðum. Einnig um möguleikana sem einstæð náttúra landsins gefur þjóðinni.
Forsætisráðherra minntist loksins í ræðu sinni í gærkvöldi á að mistök hefðu verið gerð.
Þegar hann ræddi um að skapa þurfti "raunveruleg verðmæti" minntist hann í fyrsta skipti ekki aðeins á verksmiðjur eins og venja hans hefur verið heldur líka á þjónustu, ferðaþjónustu og þekkinariðnað.
En orð eru til lítils ef ekki fylgja efndir. Íslandshreyfingin -lifandi land hefur lagt til breytingar á kosningalögum til þessl að aflétta því ástandi að meirihluti þingmanna sé í svonefndum "örugggum sætum" í kosningum.
Ég minntist á það þegar rætt var við mig í mótmælahring umhverfis Alþingishúsið í haust hve auðvelt væri að breyta kosningalögum í þessa veru og afnema þröskuld fylgis sem meinar framboðum að fá þingfylgi í samræmi kjörfylgi.
Án þess að hrófla við stjórnarskrá væri hægt að koma því svo fyrir að enginn kæmist á þing nema kjósendur krossuðu sérstaklega við nafn hans á kjörseðlinum eða raðaði beint í kjörklefanum á listann.
Hugsa má sér að flokkarnir hefðu aðeins það vald að raða listum sínum upp, kjósendum til glöggvunar, og einnig að vægi þeirrar röðunar væri eitthvað en þó ekki það mikið að núverandi ástand flokksræðisins héldi velli, heldur hefði beint persónuval kjósenda úrslitavald.
Engir aðrir flokkar hafa minnst á þetta mál sem myndi vafalaust, væri það tekið upp nú þegar, minnka vantraust fólks á þingi og stjórn. Ég tel það prófstein á raunverulegan lýðræðisvilja hvort eitthvað í þessa veru verði gert.
Ef við engu verður hróflað er lýðræðishjalið aðeins orðin tóm.
Þjóðarátak nýrrar sóknar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll,
Ég skil nú ekki alveg hvað þú ert að fara með því að segja að listar verði aðeins til glöggvunar kjósendum og krossa verði við ákveðið nafn en samt á listaröðunin að hafa eitthvert vægi! Flókið mál og erfitt úrlausnar! Ég vil hins vegar benda þér á bloggið mitt um kosningar: http://riddari.blog.is/blog/riddari/entry/757461 þar sem ég er að benda á að lækka þurfi lágmarksfylgi sem þurfi til að hljóta uppbótarþingsæti og sömuleiðis að gera þurfi ríkinu kleyft að styrkja ný framboð. Þetta er hvorutveggja hægt að gera strax - ef vilji er fyrir hendi.
Í sambandi við þig sjálfan þá er ég hræddur um að þú eigir við sama vanda að stríða í pólitíkinni eins og Alfreð Andrésson og Dirch Passer áttu í sambandi við leiklistina! Vona þó að þér takist ætlunarverk þitt því ekki efast ég um heiðarleikann og hreinskiptnina hjá þér og það vantar okkur sárlega!
Ragnar Eiríksson
Ragnar Eiríksson, 1.1.2009 kl. 16:28
Vilhjálmur Þorsteinsson bendir í bloggi sínu á að Vilmundur Gylfason hafi á sínum tíma lagt til að kjósendur fengju að velja flokkalista og/eða einstaka frambjóðendur í Alþingiskosningum.
"Slíkt kosningafyrirkomulag hefur m.a. verið notað í breska samveldinu allt frá lokum 19. aldar. Hér er dæmi um kjörseðil úr kosningum til öldungadeildar ástralska þingsins. Kjósa má annað hvort lista í heild sinni, eða einstaka frambjóðendur með því að númera þá í töluröð, eins marga og kjósandinn vill - og þvert á flokka ef óskað er.
Nánar má lesa um kosningakerfið, "færanleg atkvæði", á Wikipediu. Takið eftir dálkinum lengst til hægri, "Ungrouped" - óflokksbundnir frambjóðendur sem treysta á einstaklingsatkvæði en ekki flokka."
http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/entry/729682/#comments
Vilhjálmur bendir einnig í bloggi sínu á að í Fréttablaðinu 20. desember síðastliðinn var ágætis ritgerð um fullveldishugtakið eftir Eirík Bergmann Einarsson.
http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/entry/751205/#comments
Þorsteinn Briem, 1.1.2009 kl. 17:57
Ljóst má vera að hér á landi verður að gera lýðræði virkara en nú er- í raun er hér ekkert lýðræði.
Bara klíkur og flokkadrættir sem ráðskaðst hafa með málefni þjóðarinnar .
Kosningar eru aðeins til að marka vægi hverrar klíku í goggunarröðinni á 4 ára fresti.
Nú hefur þetta ólýðræðislega kerfi leitt af sér rústun á þjóðfélaginu.
Þvi er núna besta tækifæri sem við höfum fengið uppí hendurnar á áratugi - jafnvel aldir- til að virkja hér raunverulegt lýðræði.
Allavega nú er lag - nýtum það.
Sævar Helgason, 1.1.2009 kl. 19:16
Ég verð nú að viðurkenna að ég er svo slæmur í enskunni að ég orka ekki að stafa mig gegnum Wikipedia-greinina og hitt hef ég ekki skoðað. Ég var nú fyrst og fremst að hugsa um hvað lítið mætti komast af með að breyta fyrir næstu kosningar - ef þær verða þá haldnar!!!!!
Annað sem ég er búinn að velta mikið vöngum yfir er það að það þurfi þingkjörinn mann til að fá uppbótarþingsæti. Í kosningalögunum (24 - 2000) stendur:
"108. gr. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu." Ekkert minnst á kjördæmi. Í næstu grein stendur:
Til þess að finna hve mörg jöfnunarsæti koma í hlut stjórnmálasamtaka, sem fullnægja skilyrðum 1. mgr., og hvaða framboðslistar þeirra hafa hlotið jöfnunarsæti skal fyrst telja saman atkvæðatölur þeirra á landinu öllu og kjördæmissæti þeirra skv. 107. gr.
Síðan skal fara þannig að fyrir þessi samtök:
1. Deila skal í atkvæðatölur samtakanna með tölu kjördæmissæta þeirra, fyrst að viðbættum 1, síðan 2, þá 3 o.s.frv. Útkomutölurnar nefnast landstölur samtakanna.
2. Taka skal saman skrá um þau tvö sæti hvers framboðslista sem næst komust því að fá úthlutun í kjördæmi skv. 107. gr. Við hvert þessara sæta skal skrá hlutfall útkomutölu sætisins skv. 1. tölul. 107. gr. af öllum gildum atkvæðum í kjördæminu.
Sem sagt - flokkur fær 3% atkvæða og engan mann kjörinn. Við útreikning uppbótarsæta verður "landstalan 0+1=1 . Getið þið bent mér á hvar skilyrði um kjördæmakjörinn þingmann kemur inn? Er það e.t.v. í öðrum lögum?
Vinsamlegast,
Ragnar
Ragnar Eiríksson, 1.1.2009 kl. 20:13
Hér eru gamlar vangaveltur mínar um núverandi úthlutunarreglur.
D'Hondt kerfið, 5% reglan og jöfnunarsætin
Sigurður Ingi Jónsson, 1.1.2009 kl. 21:59
Ýmislegt í núverandi kosningalögum býður upp á ólíka túlkun samanber þetta með kjördæmakjörna þingmenn. Orðalagið "á landinu öllu" má túlka þröngt þannig að aðeins framboð, sem bjóða fram í öllum kjördæmum geti fengið uppbótarþingmann.
Þess vegna reyndu þau tvö nýju framboð, sem efnt var til fyrir kosningarnar 2007 að bera fram löglega framboðslista með tilskildum fjölda meðmælenda í tæka tíð.
Framboði aldraðra og öryrkja tókst þetta ekki. En hindranirnar eru fleiri.
Fjölmiðlarnir eltu þetta með því að leyfa einungis talsmönnum þeirra flokka sem buðu fram í öllum kjördæmum landsins að taka þátt í hinum mörgu umræðuþáttum um einstaka málaflokka og landsmálin almennt.
Þetta fyrirkomulag verður til þess að ný framboð þurfa að fara í gegnum margar hindranir til þess að vera örugg um að fá að vera tekin með í fjölmiðlunum, sem eru jú baráttuvettvangur þeirra.
Áður en framboðsfrestur rann út 2007 var búið að útvarpa og sjónvarpa níu slíkum þáttum og byrjað á því mánuði áður en framboðsfrestur rann út.
Allir virtust leggjast á eitt um það að gera nýju framboði sem erfiðast fyrir.
Fyrir bragðið gat Íslandshreyfingin ekki sent fulltrúa í bráðnauðsynlegar sjónvarpsumræður á Stöð tvö um málefni norðvesturkjördæmis.
Það var bagalegt því að í því kjördæmi var I-listinn hinn eini sem hafði konu í efsta sæti.
Það þurfti mikið átak til þess að geta verið með í næstu þáttum vegna tortryggni fjölmiðlanna gagnvart því hvort af framboði okkar yrði þegar upp yrði staðið.
Ég minnist þess að hafa þurft að skila til fulltrúa fjölmiðlanna framboðslistum mörgum vikum áður en framboðsfrestur rann út til þess að sannfæra þá um að framboðið væri raunverulegt.
Talsmenn allra flokka voru óánægðir með það hve mjög kosningabaráttan var dregin á langinn því að hún stóð í sex og hálfa viku og reyndist bæði erfiðari og dýrari en hún hefði þurft að verða.
Það þarf að gera þessi lög skýrari og mér finnst ósanngjarnt að ætlast til þess að flokkur þurfi að bjóða fram í öllum kjördæmum til þess að fá uppbótarþingsæti.
Ofan á framangreinda þröskulda bætist síðan 5% þröskuldurinn sem er hvergi nærri svona hár í öðrum löndum nema bara í Rússlandi, Tyrklandi og Þýskalandi.
Í þessum löndum eru þingmenn miklu fleiri en hér og hættan á mörgum smáum þingflokkum því miklu meiri en hér.
Að baki hverju þingsæti á Alþingi eru tæp 1,6% atkvæða og það ætti að vera hinn eðlilegi þröskuldur eða í hæsta lagi 2,5%.
Hvor þessara þröskulda sem væri ætt að hafa það í för með sér að ef fylgið færi yfir 3,2% fengist uppbótarmaður.
Það er eðlilegt að fólk skipi sér í fylkingar eða flokka um stjórnmál. En flokksræðið má ekki taka völdin af kjósandanum í kjörklefanum eins og það gerir að stórum hluta nú varðandi þær persónur sem setjast á þing.
Flokkarnir skipa fólki til verka og með því starfi myndast innviðir þeirra, flokksstjórnir, einstakar nefndir þeirra og starfsfólk. Flokkarnir nota mismunandi aðferðir við að skipa mönnum á framboðslista en prófkjör geta aldrei orðið jafn lýðræðisleg og beint persónukjör í kjörklefanum.
Í flokkunum fer fram mikið starf og mér finnst eðlilegt að þeir fái að kynna niðurstöður liðsskipanar sinnar á kjörseðlinum. Ég sé ekki að það sé réttlátara né líklegt til góðrar yfirsýnar yfir mannvalið að nöfnum á listunum sé raðað í stafrófsröð.
Reynslan sýnir að núverandi fyrirkomlag útstrikana virkar ekki. Það þarf allt of mikið til svo að einhverjar breytingar náist fram og aldrei hefur það gerst að fólkið í "öruggu sætunum" hafi þurft að sæta því að komast ekki á þing.
Ég vildi helst vilja að vægi listaröðunar flokkanna væri núll og að kjósendur réðu eingöngu sjálfir í kjörklefanum röðuninni á listanum.
Ég held að nógu margir flokkshollir myndu raða eftir vilja forystunnar ef hún nyti trausts. Eina "hættan" á að kjósendur breyttu miklu er sú að forystan nyti ekki nægilegs trausts.
Og snúast ekki stjórnmál um traust? Hvað er þá að því að á traustið reyni á eina staðnum, þar sem ótruflaður vilji kjósandans kemur fram, í kjörklefanum?
Það er hægt að gera sáraeinfaldar breytingar á kosningalögum til að auka lýðræðið og ætti ekki að vefjast fyrir mönnum, sé vilji fyrir hendi.
Ómar Ragnarsson, 1.1.2009 kl. 22:11
Takk,
Samkvæmt athugasemd Baldurs um D'Hondt kerfið þarf engan kjördæmakjörinn þingmann til að fá uppbótarsæti! Það þýðir að Íslandshreyfingin tapaði á 5% reglunni einni saman og það er þá auðveldur leikur að létta undir með litlum framboðum að fella þessa prósentutölu niður eða t.d. lækka hana um helming! Það er varla vilji til að hlaða undir stóru flokkana með ósanngjörnum kröfum núna í þessu árferði!!!!
Ragnar Eiríksson, 1.1.2009 kl. 22:34
Þegar þú segir frá þessu rifjast þetta upp fyrir mér - en hugarfarið gagnvart þessum hindrunum öllum saman er gerbreytt núna að ég held. Ég hugsaði ekki mikið út í þetta þá og fannst mér hvorki koma það við eða að ég gæti haft áhrif!! Það hrikti ekkert í flokkakerfinu þá eins og gerir núna. Þess vegna vil ég bara óska eftir litlum breytingum núna strax - en svo þarf að bylta öllu djö.... kerfinu og koma á lögum, reglu og jafnrétti á í landinu.
Ég er búinn að þvæla mér gegnum kosningalögin og sé hvergi heimild til Landskjörstjórnar eða annara um þrönga eða víða túlkun á orðunum "á landinu öllu". Var reynt að kæra þessa túlkun á orðalaginu???
Kveðja,
Ragnar
Ragnar Eiríksson, 1.1.2009 kl. 23:04
Í frumvarpi til Laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 segir um 108. grein laganna:
"Í 1. mgr. greinarinnar er áréttuð sú regla sem fest var í síðari málslið 4. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, og mælir fyrir um að þau stjórnmálasamtök komi ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa að minnsta kosti fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.
Skiptir þá ekki máli hvort framboð hafi náð þingsæti í kjördæmi eins og nú er, sbr. síðari málslið 1. mgr. 112. gr. kosningalaga, ef það hefur á annað borð náð þessu lágmarksfylgi á landsvísu.
Í 2. og 3. mgr. greinarinnar er lagt til að úthlutun jöfnunarsæta til stjórnmálasamtaka byggist á d'Hondt-reglu eins og verið hefur. Sú regla hefur gilt hér frá því að hlutfallskosningar voru teknar upp í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum, nema í einstökum kjördæmum við alþingiskosningar frá 1987. Óþarft þykir því að skýra þessa reglu nánar hér."
Stjórnarskrá Íslands nr. 33/1944: 31. grein, síðari málsliður 4. málsgreinar: "Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu."
Stjórnmálasamtök þurfa því að fá að minnsta kosti 5% af gildum atkvæðum á öllu landinu til að koma til álita við úthlutun jöfnunarsæta en þau þurfa ekki að bjóða fram í öllum kjördæmum til þess. Ekkert er kveðið á um það í lögum að atkvæðin þurfi að koma úr öllum kjördæmum landsins og kveða þyrfti skýrt á um slíkt í lögunum.
Aftur á móti er augljóst að mun betra er fyrir stjórnmálasamtök að bjóða fram í öllum kjördæmum til að fá sem flest atkvæði á landsvísu.
Þorsteinn Briem, 2.1.2009 kl. 00:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.