Setningar ársins.

"Ekkert smá gott veður", sagði eitt af barnabörnum mínum á miðnætti þegar flugeldadýrð borgarinnar blasti betur við en um nokkur önnur áramót í fjölmörg ár. Ég dundaði við það á gamlárskvöld að reyna að raða upp ummælum ársins 2008 sem voru skrautlegri en líklega eru dæmi um á einu ári á síðari tímum.
Hér kemur niðurtalning:

6. "Staða bankanna og fjárhagur þjóðarinnar eru traust og eiga að þola áhlaup..."
Geir Haarde forsætisráðherra í viðtali um hættuna á bankahrauni vorið 2008.

5. "Þið eruð ekki fólkið..."
Nokkurn veginn það sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði í öllu lengri setningu við hátt á
annað þúsund fundarmenn á borgarfundi í Háskólabíói.

4. "Sjáið þið ekki veisluna, drengir!"
Árni Mathiesen fjármálaráðherra í andsvari við gagnrýni stjórnarandstæðinga á andvaraleysi og ótraustri stöðu
þjóðarbúsins í apríl 2008.

3. "Gas! Gas!
Lögreglumaður í gasárás á mótmælendur við Rauðavatn.
Verður varla styttra og fyrir bragðið miklu sterkara, ekki hvað síst við að sjá og heyra þetta í ógleymanlegri
nærmynd Guðmundar Bergkvists, kvikmyndatökumanns hjá Sjónvarpinu, sem tók áhættuna á því að verða
sjálfur fyrir gasárásinni. Fréttamynd ársins.
Ummælin stækka enn meira við það að árið kvaddi með sömu öskrunum í átökum lögreglu og mótmælenda við
Hótel Borg.

2. "Guð blessi Ísland."
Lokaorð Geirs H. Haarde forsætisráðherra í ávarpi til þjóðarinnar vegna neyðarlaganna.
Ekki vanþörf á að segja eitthvað óvenjulegt og sterkt í lok slíks ávarps.
Samt eitthvað svo innilega amerískt samanber síendurtekin ummæli bandarískra ráðamanna "God bless
America."

1. "Við borgum ekki..."
Davíð Oddsson seðlabankastjóri í frægu kastljósviðtali.
Líklega hafa engin íslensk ummæli ratað í eins marga fréttatíma sjónvarpsstöða heimsins né haft meiri áhrif á
álit lands og þjóðar erlendis.
Ég held ekki að Davíð hafi gert sér neina grein fyrir því að hann var ekki aðeins að ræða í góðu tómi við
tiltölulega fáa uppi á útskeri niður í höfum, heldur voru ummælin send beint út á netinu um allan heim og búið
að þýða þau á erlend tungumál í sendiráðum, ráðuneytum, fyrirtækjum og fjölmiðlum á innan við hálftíma.
Vegna tímamismunar fór útsendingin í loftið í Bandaríkjum frá hádegi til klukkan fjögur og hljómaði því á
sjónvarpsstöðvunum mestallan daginn.
Íslensk stjórnvöld eru enn að glíma við þann draug sem ummæli Davíðs beindust að.

Áramótaávarp Geirs H. Haarde forsætisráðherra var ein best samsetta ræða sem ég man eftir við slíkt tækifæri og einlægur og tilgerðarlaus flutningur spillti ekki fyrir.

Þetta segi ég sem gamall leikhúsmaður, fjölmiðlamaður og þjóðfélagsþegn sem þarf á því að halda að komið sé hreint fram með skýrum málflutningi þegar tekist er á um álitamál.

Mér fannst hvergi orði ofaukið og ræðan "ríghélt" eins og það er oft orðað.

Staða Geirs er erfiðari en dæmi eru um fyrir mann í hans stöðu í langan tíma og því mikilsvert fyrir bæði hann og gagnrýnendur hans að hann skilgreini stöðu sína og sjónarmið á eins skillmerkilegan hátt og unnt er.

Kafli ræðunnar fjallaði um það að traust yrði að ríkja milli þjóðarinnar og þeirra sem með mál hennar fara.

Þar kom Geir að höfuðatriði málsins.

Þetta traust ríkir því miður ekki nú og þeir menn eru kallaðir til ábyrgðar, sem hana eiga að bera.

Geir lofaði rannsókn en loforðin ein duga ekki, þessi mál verður að gera upp til fulls.

Því lengur sem einarðleg, óháð og undanbragðalaus úttekt verður gerð á því sem gerðist fyrir bankahrunið, í því og eftir það, því lengur sem það dregst að menn axli ábyrgð og taki afleiðingum gjörða sinna og mistaka, því minni líkur eru á að forsætisráðherra geti brúað gjána á milli ráðamanna og tugþúsunda fólks, sem engan þátt átti í byggingu spilaborgarinnar sem hrundi yfir það.

Við skulum vona að árið 2009 skili okkur áfram á leið til nýs og betra þjóðfélags með alvöru umbótum.

Gleðilegt ár!


mbl.is Gleðilegt nýtt ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlédís

 Ómar!  Þú segir enn það sem við hugsum, mörg - og ferð létt með

- Gleðilegt ár - þakka gömul!

Hlédís, 1.1.2009 kl. 04:08

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alltaf að líta á björtu hliðarnar, Ómar minn:

Nú verða feitu krakkarnir að ganga í skólann.

Hæstu laun ríkisstarfsmanna lækka, sem þýðir minni útgjöld fyrir ríkið.

Álver verður ekki reist við Húsavík.

Bílainnflutningur hefur nánast lagst af, sem þýðir geysilega mikinn gjaldeyrissparnað.

Nú eru bílar fluttir út í stórum stíl.

Allir stjórnmálamenn hér byrjaðir að segja skrýtlur.

Græðgin í þjóðfélaginu hefur nánast dottið upp fyrir.

Ríka liðið hefur tapað helling af peningum.

Íslenskir stjórnmálamenn byrjaðir að segja af sér.

Bílaumferð hér hefur minnkað mikið, sem þýðir minni loftmengun og fólk er fljótara að komast á milli staða.

Minna er flutt inn af bensíni en áður sem þýðir mikinn gjaldeyrissparnað.

Ríkisútgjöld verða mun minni á þessu ári en í fyrra.

Íslendingar sjá að hamingjan felst ekki í peningum, heldur góðum mannlegum samskiptum. Fólk er að kynnast sínum eigin fjölskyldum í fyrsta skipti.

Spásséritúrum fjölgar mikið, fólk gengur og hjólar í vinnuna, lifir því lengur og mun heilbrigðara lífi en áður, sem þýðir mikinn sparnað í heilbrigðisþjónustunni.

Utanlandsferðum hefur snarfækkað, sem þýðir gríðarlega mikinn gjaldeyrissparnað og mun minna húðkrabbamein en áður.

Íslendingar fara mun meira en áður í ferðalög hér innanlands, sem eykur tekjur ferðaþjónustunnar hér.

Ferðum útlendinga hingað fjölgar einnig mikið og þeir eyða hver og einn mun meira hér en áður vegna mikillar gengislækkunar krónunnar, sem þýðir stórauknar tekjur ferðaþjónustunnar.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 73% frá því í júlí síðastliðnum, úr 147 dollurum tunnan í 40 dollara, sem þýðir gríðarlega mikinn gjaldeyrissparnað.

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/12/30/oliutunnan_a_taepa_40_dali/

Vinna hefur dregist mikið saman og fólk getur því varið mun meiri tíma með fjölskyldunni en áður, enda unnu Íslendingar alltof mikið, sem olli veikindum, slysum, ofþreytu og hjónaskilnuðum.

Hér verður sköpuð mikil og góð atvinna í kringum annað en álver og aðra stóriðju.

Mun fleira fólk fer í nám en áður og fær yfirleitt hærri laun þegar það útskrifast en fyrir námið.

Verð á bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði snarlækkar og verður mun viðráðanlegra fyrir ungt fólk sem er að kaupa íbúð í fyrsta skipti.

Húsaleiga lækkar einnig mikið, sem er til að mynda mjög gott fyrir fólk sem missir íbúðirnar sem það keypti fyrir alltof hátt verð í platgóðæri Framsóknarflokksins.

Vextir eru mjög háir hér, sem hvetur fólk til sparnaðar og ekki veitir nú af.

Íslendingar eyða nú mun minna í alls konar óþarfa og vitleysu en áður. Bruðl hefur því nánast lagst af en sparnaður og nýtni aukist á öllum sviðum.

Verð á útflutningsvörum okkar hefur hækkað gríðarlega í íslenskum krónum talið. Evran hækkaði í fyrra um 86%, Bandaríkjadalur um 96%, japanskt jen 138%, breskt pund 45%, svissneskur franki 106%, dönsk króna 86%, norsk króna 50%, sænsk króna 60% og Kanadadollar um 59%.

http://www.landsbanki.is/markadir/gengigjaldmidla/gengisthroun/

Fólk hefur meiri tíma til að blogga og njóta ásta en í fyrra.

NIÐURSTAÐA: Síðastliðið ár var, þegar á heildina er litið, FRÁBÆRT fyrir okkur Íslendinga sem þjóð. Mótmælendur hér eru því mun fyndnari en íslenskir stjórnmálamenn og er þá mikið sagt.

Þorsteinn Briem, 1.1.2009 kl. 06:56

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gleðilegt ár Ómar minn og takk fyrir það gamla. Vonandi stendur Geir við rannsóknarheitstrengingar og þá er vert að byrja á sölu bankanna á sínum tíma og rifja upp hver samþykkt alþingis um almenningshlut og hámarkshluti einstaklinga voru og hvernig forkólfar stæstu flokkanna misnotuðu aðstöðu sina til að ræna sína eigin þjóð. Nokkuð, sem síðan varð að kæk. Fyrir það vil ég sjá menn fara í steininn og það í langan langan tíma.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.1.2009 kl. 11:34

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka þér fyrir þrotlausa baráttu þína í þágu lands og þjóðar á liðnu ári Ómar. Ég sé ekki annan kost vænlegri en að reyna að hrista saman fólk úr öllum flokkum og mynda enn eitt stjórnmálaflið.

Gleðilegt ár!

Árni Gunnarsson, 1.1.2009 kl. 11:55

5 identicon

ómar sem næsta forsætisráðherra takk er ekki gráðugur fyrir sig og sína er óhemju duglegur þar sem hann er að störfum

bpm (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 13:24

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Gleðilegt ár, Ómar og aðrir. Aldrei gefast upp, þótt móti blási.

Villi Asgeirsson, 1.1.2009 kl. 14:44

7 identicon

finnst vanta hina gullnu setningu Geirs í vor við stóra erlenda fréttastöð þegar hann sagði að íslensku bankarnir væru sterkir þegar hann var spurður um stöðu þeirra og að það væri A well kept secret

Ari (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 03:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband