Mannleg hegðun.

Hegðun dýra og manna og jafnvel trúarbrögð og þjóðfélagskerfi manna mótast af aðstæðum. Nú hafa með hruninu verið skapaðar aðstæður til þess að loksins sé ekki lengur mesti viðskiptahalli í heimi á Íslandi.

Fólk hegðar sér eftir aðstæðum. Trúarbrögð og stefnur sem fara á skjön við aðstæður og mannlegt eðli leiða til ófarnaðar.

Ég átti skemmtilegt viðtal á dögunum um mannlega hegðun við Konráð Olavsson, fyrrum atvinnumann og landsliðsmann í handbolta. Konráð er mágur dóttur minnar og við vorum í afmælisveislu dóttursonar míns.

Ég var að rifja það upp hvernig handboltinn var í gamla daga þegar viðurlög við brotum voru mun minni en nú og til dæmis ekki dæmdar leiktafir.

Niðurstaða okkar var sú að reglur sem byggðust á bláeygu trausti á því að allir leikmenn og keppnislið sýndu ávallt prúðan, drengilegan og sanngjarnan leik stæðust ekki heldur leiddu þvert á móti til ruddalegri og ósiðlegri leiks sem skaðaði íþróttina og það gagn og gleði sem af henni mætti hafa.

Það er lögmál í íþróttum að leikmenn ganga oftast eins langt og reglurnar og dómarinn leyfa. Án reglna og góðra dómara eyðileggst leikurinn. Þess vegna hafa reglurnar af fenginni reynslu verið hertar í tímans rás og þeim fylgt fastar eftir.

Íslenskir ráðamenn virtust halda að annað gilti í keppni í íþróttum heldur en í fjármálum og þjóðmálum.

En nú er á enda tímabil sem erlendis verður kennt við Thatcher og Reagan. Afleiðingarnar eru hörmulegar af hinni blindu trú þeirra og fylgismanna þeirra á skefjalaust frelsi.

Þau gleymdu tvennu: Óheft frelsi eins getur skert frelsi annarra og það er ekki hægt að ganga fram hjá mannlegu eðli, hvorki í kommúnisma, kapítalisma né neinum öðrum trúar- eða stjórnmálastefnum.

Stundum sýna dýr skynsamlegri hegðuni en menn. Í yfirlæti okkar köllum við það reyndar eðlisávísun hjá þeim en ekki skynsemi. Dæmi um slíkt hafa verið sýnd í fræðslumyndum, svo sem þegar tvö dýr gera upp sakir með því að takast á.

Hjá mörgum dýrategundum er aðdáunarvert að horfa á hvernig "skynlausar skepnur" gæta þess að ganga ekki of langt í slíkum uppgjörum. Bara að menn hefðu nú alltaf vit á slíku.


mbl.is Metafgangur af vöruskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Stöð tvö er dýrið Bíó-Bingi,
sem bráðum nú situr á þingi,
dýrslegt atferli sýnir í svingi,
með sorglega litlum tittlingi.

Þorsteinn Briem, 14.1.2009 kl. 14:52

2 Smámynd: Júlíus Björnsson

Orðið frelsi er ekki svipað helsi eða fangelsi. Sjá "else" markar VAL.  "Fair" er sanngirni. Færi eru möguleikar. "Fear" er fjær eða utan þess sem F er [stendur fyrir] og bera að Forðast.  Frjáls er sá maður sem sem sættir sig við takmarkanir sínar.  Hér á landi undir það síðasta voru þessar takmarkanir í samræmi við málshætti þjóðarinnar: Lög og reglur sem byggðu á heiðnum og kristilegum lögum sem eru grunnur siðferðis vorrar þjóðar. Sinn er siðurinn hjá hverri þjóð. Sem og frelsi einstaklinganna til orðs og æðis. Frjálsmarkaður byggður á þessum forsemdum er algjör hliðstæða við aðrar íþróttir. Því lífið er leikur ef jafnræði og heiðarleiki er haft í fyrirrúmi. Mikill er máttur orðsins [order] og þeim ber að treysta.

Júlíus Björnsson, 14.1.2009 kl. 15:12

3 identicon

Varðandi seinustu setninguna. Þá má sjá mjög áhugavert myndband hér:

http://www.youtube.com/watch?v=9fOtJi8dL_8

ari (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband