Efnahagslegt flóttafólk.

Flóttamenn er eitthvað sem við Íslendingar höfum talið okkur trú um að væri bara í fjarlægum löndum. En nú nálgast sá kaldi veruleiki óhugnanlega hratt hér á landi að að stór hluti þjóðarinnar hrekist í úr landi þegar heimilin hrynja vegna kreppunnar.

Þetta fólk mun að vísu ekki verða í flóttamannabúðum erlendis en það mun þó hafa nauðugt flúið heimaland sitt.

Þess vegna eru nýstofnuð Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð af ærnu tilefni og brýnni nauðsyn.

Í landinu eru fjölmörg almenn hagsmunasamtök, svo sem Neytendasamtökin, Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Leigjendasamtökin.

Stóra málið núna eru hins vegar heimilin í landinu, en 85% þeirra eru í eigin húsnæði, og stór hluti þeirra er á bjargbrún gjaldþrots vegna stórvaxandi lánabyrða, sem jafnvel geta verið tvöföld eða þreföld á sama tíma sem fasteignaverð lækkar.

Hingað til hefur allt lánakerfið byggst upp á kröfum og hagmunum lánveitenda en valtað hefur verið yfir hagsmuni heimilanna sem í hlut eiga. Allt hefur byggst á því að lánveitendur taki enga áhættu en lánþegarnir alla.

Í Danmörku er þak á verðbótum og lánveitendur taka áhættu af því að verðbólga fari ekki yfir ákveðin viðmiðunarmörk.

Heimilin eru grundvöllur þjóðfélagsins og ef hann hrynur, tekur það allt með sér og stór hluti kynslóðarinnar 25-45 ára hrekst úr landi og verður efhagslegt fóttafólk. Við missum fólkið sem skapar þjóðarauðinn öðrum fremur og stendur undir endurnýjuninni og eftir sitja hinir eldri, sem fer fjölgandi með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðis- og tryggingakerfi.

Tíminn er naumur ef ekki á að fara jafnvel enn verr en við búumst við. Hér verður að taka til hendi strax.


mbl.is Stofnfundur Samtaka heimilanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sæll Ómar

Það var ánægjulegt að sjá þig á fundinum en þú gefur okkur unga fólkinu styrk með þínum lífskrafti. Endilega hjálpaðu okkur að safna félagsmönnum til okkar með því að láta það skrá sig með því að fara inn á heimasíðuna www.heimilin.is

Takk enn og aftur fyrir að mæta!

Haraldur Haraldsson, 16.1.2009 kl. 00:08

2 Smámynd: Héðinn Björnsson

Öflugur fundur! Við höfum verk að vinna ef við eigum að koma í veg fyrir hrun jafn mikilvægs máttarstólpa í samfélagi okkar og heimilin eru.

Hlakka til að vinna með ykkur öllum á þessum vetvangi.

Héðinn Björnsson, 16.1.2009 kl. 00:30

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég hlakka til að vinna með því öfluga og hugmyndaríka fólki sem var þarna í kvöld.  Heimilin eru eitt af lífkerfum landsins og sem slík mega þau ekki komast í þrot.  Hagsmunasamtök heimilanna geta verið mikilvægar varnir í þeirri baráttu.

Marinó G. Njálsson, 16.1.2009 kl. 00:37

4 Smámynd: Ólafur Sigurðsson

Er hægt að fá upplýsingar þarna hvort og hvenær það borgar sig ekki lengur að borga af lánunum? Fjölskyldan verður jú að lifa ekki satt.

Og gætu þessi samtök mætt til að hindra útburð, þegar bankinn kallar á sýslumann í slík fólskuverk?

Þetta finnst mér vera nauðsynlegar aðgerðir núna. Það gengur ekki að tala um samtakamátt, það verður að standa við orðin. Annars erum við eins og stjórnmálamenn á góðum degi.

Skráið ykkur í samtökin, leitið ráð, takið þátt. Saman stöndum, sundruð föllum.

Ólafur Sigurðsson, 16.1.2009 kl. 00:39

5 identicon

Það sem verður að koma í veg fyrir er að fólki sé meinað að fara í gjaldþrot þegar að skuldir eru orðnar meiri en eignir og sé nauðugt viljugt pínt til að borga af húsnæðislánum sem eru margfalt hærri en virði þess húsnæðis sem það býr í.

Ég (ásamt fjölskyldu) er í þeim hópi sem er byrjaður að leita að vinnu erlendis, ég get væntanlega ekki selt íbúðina sem var skynsamlegt að kaupa á sínum tíma og er á ósköp eðlilegum lánum frá Íls.

Ég ákveð vegna atvinnuleysis að flytja erlendis (kem ekki aftur í bráð ef vel tekst til). 

Á meðan að ég get ekki selt þá hlaðast vextir og verðbætur ofan á íbúðina ( c.a 2,5 mill.á ári miðað við verðbólgu í dag) hjá mér og virði hennar lækkar og á endanum á ég skuldir á íslandi, þær neita ég að borga því að þær koma mér bara ekkert við, Íls lánaði mér með veði í húsnæðinu og á bara að hirða það eins og hjá hverju öðru gjaldþrota fyrirtæki.

Ég tapa öllu sem ég hef lagt í eignina, skítt fyrir mig, en þar sem að Íls taldi mig ekki vera borgunarmann fyrir hærra láni en því sem hann lét mig fá á sínum tíma verður hann að sætta sig við að hafa haft rétt fyrir sér, af hverju ætti eitthvað að hafa breyst ?  Ég er ekki borgunarmaður fyrir hærra láni en þeir sjálfir ákváðu og treystu mér ekki betur en svo að þeir tóku veð fyrir.

Hefði hinsvegar Íls sleppt því að taka veð í húsnæðinu og treyst mér persónulega og eingöngu þá hefði málum verið öðruvísi farið og eðlilegt að ég þyrfti að standa skil á því með minni kennitölu. Það að Íls treysti mér ekki og þurfti veð er yfirlýsing af þeirra hálfu um að þeir séu tilbúnir til að taka hið veðsetta ef ég get ekki borgað og séu sáttir við það. 

Íls (ríkið) á ekkert með það að vera að hundelta mig um heimin til þess að heimta af mér meiri peninga en það sjálft taldi nægjanlegt að fá greitt til baka þegar það lánaði mér, þannig vinna okurlánarar ekki ríki.

Atli (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 02:29

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stjórnmálamenn og forráðamenn lánastofnana voru aðvaraðir í upphafi húsnæðis- og lánasprengingarinnar 2003 varðandi hættuna á því að veðin gætu fallið niður fyrir upphæð lánanna.

Lýðskrumarar Framsóknarflokksins og "hjarðeðli" lánastofnana, sem Bjarni Ármannsson lýsti ágætlega í sjónvarpsviðtali, skelltu skollaeyrum við þessu og því er það réttlætismál að þeir velti ekki öllu tjóninu yfir á lánþega heldur taki á sig sinn hluta af ábyrgðinni.

Ómar Ragnarsson, 16.1.2009 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband