Af hverju mesti órói síðan 1949 ?

1. Af því að fallið í haust var hið mesta í lýðveldissögunni.
Þjóðin féll úr hæsta söðli heims, ef marka má stemninguna sem fengin var fram með gervigóðæri hröðustu og mestu skuldasöfnunar í heimi.
Fallið var úr hæsta söðlinum niður í það að við urðum aðhlátursefni og rúin trausti um allan heim.
Með skuldasöfnunninni og gervifjármagni, sem að mestu leyti var aðeins til í tölvum eða á pappírum, fékkst fram falsað hágengi krónunnar sem ýtti enn meira undir mestu eyðslu og bruðl sem nokkur þjóð hefur afrekað.
Allt átti að vera hér mest og best í heimi.
Viðskiptaráð sagði til dæmis að við værum Norðurlöndunum fremri á flestum sviðum og þyrftum ekki að læra neitt af þeim.
Öllum Íslendingum sem það gátu eða vildu var boðið á efnahagsfyllerí og beinlínis hvattir til þess.

2. Eftir fallið mikla hafa skyndilega sprottið upp þúsundir atvinnulausra. Þeir höfðu ekki tíma til að mótmæla neinu meðan allt var á fullu en hafa nú nógan tíma til þess, hvenær sem er sólarhringsins.
Þeim á væntanlega eftir að fjölga um tíu þúsund í viðbót.

Stjórnvöld hafa ekki skynjað þetta. Svona ástand er dæmalaust hér á landi.

Í þessu ástandi verða alltaf til þeir, sem vilja fara aðrar og róttækari leiðir en aðrir í mótmælum. Það hefur alltaf verið þannig.

"Fjörið og stuðið" í mótmælaaðgerðunum geta hjá einstökum einstaklingum komið að einhverju leyti í staðinn fyrir taumlaust næturlífið sem blómstaði mest í gervigóðærinu.

Ég, og áreiðanlega tugþúsundir annarra, sem tókum engan þátt í fylleríinu, áttum ekkert fyrir og eigum ekkert eftir, og vorum sum hver bara "leiðinlegir nöldrarar", - við áskiljum okkur samt rétt til að fara niður á Austurvöll, að Alþingishúsinu, Þjóðleikhúsinu eða Stjórnarráðshúsinu til að mótmæla á okkar friðsama og ofbeldislausa hátt.

Ég fullyrði að við séum 99% mótmælenda. Og einnig að það sé ekki óhugsandi að við getum hrópað eins og alþýða Austur-Þýskalands fyrir tuttugu árum: "Við erum þjóðin!"


mbl.is Lögregla beitti kylfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það er táragas, það verð ég að sjá.

Ásgrímur Hartmannsson, 22.1.2009 kl. 00:51

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Sjónvarpinu var sagt nú í kvöld að hér hefði forsætisráðherra aldrei orðið fyrir öðru eins aðkasti og í dag á öllum lýðveldistímanum. ÞAÐ ER DELLA.

Kristján Jónsson, fyrrum klefanautur minn á Mogganum, skrifaði:


30. mars 1949: "Reykjavík var enn lítill bær, Kópavogur varla til, meirihluti þjóðarinnar bjó úti á landsbyggðinni. En allt að 10 þúsund manns munu hafa verið á Austurvelli. Flestir viðstaddra voru sennilega á móti inngöngunni og kröfðust margir þjóðaratkvæðis. Var auðvelt fyrir þá grimmustu að kasta grjóti og öðru rusli að þinghúsinu og fela sig í mannþrönginni.

Kastað var grjóti að þingmönnum og ráðherrum og mildi að ekki varð manntjón. Nokkrir lögreglumenn og óbreyttir borgarar úr röðum beggja deiluaðila, alls um tuttugu manns, slösuðust en enginn þó alvarlega.

Þegar Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ætlaði eftir atkvæðagreiðsluna að setjast inn í bíl með öðrum þingmönnum við Alþingishúsið var kastað steini í bílinn og maður nokkur réðst á ráðherrann og reyndi að draga hann út. "Þarna ertu helvítið þitt, Bjarni Benediktsson," sagði maðurinn.

Sautján ára gagnfræðaskólastúlka gekk að Stefáni Jóhanni Stefánssyni forsætisráðherra, er var að koma út úr þinghúsinu, og rak honum kinnhest. Henni fannst að ráðherra hefði svikið sig."

Þorsteinn Briem, 22.1.2009 kl. 00:55

3 identicon

Magnað!

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 01:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband