25.1.2009 | 17:35
Fleiri hefðu átt að gera það sama og fyrr.
Björgvin G. Sigurðsson hefur nú, fyrstur allra ráðherra á Íslandi, tekið þá sjálfsögðu ákvörðun, sem tíðkast í öðrum löndum, að segja af sér embætti og axla pólitíska ábyrgð af störfum sínum.
Það er merkilegt að þetta skuli nú fyrst gerast nær 105 árum eftir að fyrsti ráðherrann tók við embætti en íslenskir ráðherrar hafa ætíð þumbast við og ekki hrokkið úr embætti nema að þeim hafi verið bolað burtu af þrýstingi innan eigin flokks eða eftir stjórnarskipti eða kosningar.
Þetta hættulega fordæmi hefur skaðað íslensk stjórnmál, því að hið sama á að gilda um ráðherra og til dæmis leikmenn í knattspyrnu, að þeim sé kippt út af ef sú staða kemur upp í leiknum að þeir standa sig ekki nógu vel eða falla illa inn í leik liðsins.
Ef hin sjálfsagða hefð erlendra stjórnmála um að fara út af og setjast á bekkinn og hleypa öðrum inn á til að efla leikinn hefði verið hér á landi hefði þetta ekki verið neitt stórmál hér frekar en að leikmaður fari út af og komi jafnvel síðar inná ef svo ber undir, búinn að læra af reynslunni og sanna sig.
Strax snemmsumars og síðan aftur í haust sniðgengu Geir og Ingibjörg Björgvin og leyndu hann grundvallaratriðum í hans eigin málaflokki. Með því sýndu þau honum í raun óafsakanlegt vantraust og gerðu honum erfiðara að átta sig á stöðunni eða gegna embætti sínu sem best.
Af þessum sökum hefðu þau átt að stíga til hliðar fyrst. En þetta veit á gott. Nú er afsagnarferillinn að færast upp frá lágt settum millistjórnendum í áttina að þeim sem mestu ábyrgina bera.
Björgvin segir af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Engan hann þar átti vin,
út úr stjórn fór Björgvin,
hún lafir þó graut þar lin,
laslegt sjalla og kratakyn.
Þorsteinn Briem, 25.1.2009 kl. 18:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.