6.2.2009 | 12:03
Gustaf Vasa Íslands.
Sagan geymir ótal slys þar sem óskeikulleiki manna var talinn hafinn yfir allan vafa. Þetta ofmat hefur oft haft afdrifaríkar afleiðingar.
Skipin Hans Hedtoft og Titanic voru talin ósökkvandi en sukku samt. Enginn átti von á því að geimferjan Challenger spryngi í loft upp skömmu eftir flugtak. Engan óraði fyrir þeim möguleika að eitt fallbyssuskot nægði til að Hood, flaggskip breska flotans, spryngi í loft upp og sykki. Loftskipið Hindenburg fuðraði upp við Lakehurst og þar með endaði dýrðatími loftskipanna.
Herskipið Gustaf Vasa var stolt sænska flotans þegar það lagði frá bryggju, glæsilegra og öflugra en nokkuð annað skip og tilbúið í hörðustu orrustur við erfiðustu aðstæður.
Skipið valt skammt undan landi vegna þess að það þoldi ekki tvær vindhviður. Í þessu tilfelli og öllum fyrrgreindum tilvikum mátti sjá fyrir þá veikleika, sem ollu óförunum.
Til að gera Gusaf Vasa sem öflugast var sett annað fallbyssudekk ofan á það neðra. Þar með varð þyngdarpunktur skipsins svo hár að óhjákvæmilegt var að það ylti fyrr eða síðar.
Íslenska bankakerfið var þessu marki brennt, allt of hátimbruð bygging miðað við undirstöðurnar til að þola vindhviður fjármálalífsins.
Fáa, ef nokkra, hefði fyrirfram órað fyrir að Lehman Brothers myndi hrynja og að aðrir af stærstu bönkum heims þyrftu á stórfelldri ríkisaðstoð að halda.
Mönnum, sem telja sig snillinga eða óskeikula, er oft hættast við stórslysum. Eftir að Hitler var búinn að gera sig að snillingi og ofurmenni í eigin augum , varð það sem betur fer til þess að hann gerði fleiri afdrifarík hernaðarmistök eftir að hann var orðinn æðsti yfirmaður hersins en dæmi eru um í hernaðarsögunni.
Hættulegustu mistök flugmanna eru þau sem eru þess eðlis, að þeir trúa því ekki upp á sjálfan sig að þeir geti gert þau. Þetta fyrirbæri olli á sínum tíma dauða einhvers metaðarfyllsta, nákvæmasta og besta einkaflugmanns sem ég hef kynnst.
Dæmi eru um mannskaða í sjóslysum vegna þess að skipstjórarnir trúðu því ekki að skipin væru að sökkva.
Þekkt er setningin úr sjálfvirka símsvaranum. "Þetta er símsvari fullkomusta tækniundurs veraldar þar sem ekkert getur farið úrskeiðis...farið úrskeiðis....farið úrskeiðis....farið úrskeiðis.....
Örlög bankanna réðust með falli Lehman Brothers | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í þessu sambandi mæli ég eindregið með leikriti Jökuls Jakobssonar, Hart í bak, sem nú er verið að sýna í Þjóðleikhúsinu.
Leikritið segir grátbroslega sögu skrítinnar fjölskyldu, sem má muna sinn fífil fegurri. Sagt er frá gamla skipstjóranum Jónatan en hann hafði strandað óskafleyi þjóðarinnar sem honum hafði verið trúað fyrir, dóttur hans, spákonunni Áróru sem lifir á vændi, syni hennar Láka sem eirir ekki við neitt, og Finnbirni skransala.
Í hlutverki Jónatans er snillingurinn og Qigong-meistarinn Gunnar Eyjólfsson en hann hitti ég fyrst í kjallara Þjóðleikhússins, þar sem hann kynnti mig fyrir fallegri dóttur sinni, Þorgerði Katrínu, sem sagði mér síðar um nóttina að hana langaði að verða formaður Sjálfstæðisflokksins.
Þorsteinn Briem, 6.2.2009 kl. 13:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.