Held að ég skilji hann vel.

Ég þekki þá ónotatilfinningu sem fer um flugmann þegar vélflugvél breytist óvænt í svifflugu. Tvívegis hefur slíkt leitt af sér nauðlendingu á afllausri flugvél á mínum ferli.

Síðara skiptið var í Öræfasveit fyrir 18 árum. Ég hafði tæmt annan geyminn og stillti yfir á hinn sem var með nægt eldsneyti. En þá kom í ljós að ekkert bensín kom frá honum og kom seinna í ljós að ís stíflaði aðstreymi eldsneytis að hreyflinum úr þessum geymi. Vélin var þá í 2500 feta hæð suðvestur af Hofi.

Skásti nauðlendingarstaðurinn var hringvegurinn við brúna yfir Landsál vestur af Hofi. Í hljóðlausu svifinu þangað inn lenti vélin í niðurstreymi og framhaldið leit ekki vel út því að vélin var með þann galla, sem enginn flugvirki hafði hafði getað fundið orsakir til, að hjólin komu oft ekki niður í fyrstu atrennu. Orsökin fannst raunar ekki fyrr en eftir að vélin hafði verið seld til Ameríku.

Þegar lendingarstaðurinn nálgaðist var ljóst að ekki var hægt að setja hjólin niður fyrr en undir lokin, því að annars myndi loftmótstaðan af hjólunjm valda því að vélin lenti í urð fyrir vestan beygju á veginum rétt fyrir vestan brúna.

Hjólin yrðu að fara niður í fyrstu atrennu 20 sekúndum fyrir lendingu, annars yrði þetta magalending. Annað olli vanda: Ekki var hægt að setja niður vængflapa og hjólin samtímis, annað varð að fara niður á undan hinu. Þess vegna varð að tímasetja þessar aðgerðir þannig að þær virkuðu nákvæmlega á síðustu sekúndunum fyrir lendingu.

Síðustu sekúndurnar voru eftirminnilegar. Hjólin fóru niður en í þeim svifum sem ég hóf að setja flapana niður blasti símalína skyndilega við mér beint fyrir framan mig.

Ég hafði oft á undanfðrnum árum hugsað um það áður en ég fór að sofa hvað réttast væri að gera þegar svona gerðist. Niðurstaðan var sú að ævinlega skyldi frekar fara undir línuna en yfir hana vegna hættu á að vélin ofrisi ef henni væri lyft.

Þetta kom sér vel því að ég hafði ekki tíma til að bæta umhugsun um þetta ofan á annað sem þurfti að leysa á síðustu sekúndum lendingarinnar.

Ég dýfði vélinni því án umhugsunar undir línuna og er enn minnisstætt hvernig hún var komin niður í sömu hæð og vegurinn og brúin þegar vélin sveif yfir ána á hlið við brúna og beygjuna á veginum.

Þá fóru flaparnir að virka og lyftu vélinni upp á veginn til nákvæmari lendingar en ég hefði getað treyst mér til að framkvæma þótt ég hefði vélarafl. Vélin stöðvaðist síðan rétt við vegarskilti.

Eftir að hafa hellt eldsneyti á tóma geyminn gat ég síðan flogið til Reykjavíkur.

í þessu atviki kom sér vel að vera nýbúinn i hæfnisflugi með Orra, vini mínum, sem þá var sigursælasti marklendingaflugmaður landsins. Það hjálpaði áreiðanlega til við að halda ró sinni og framkvæma afdrifaríkustu nauðlendingu ferilsins.

En síðan gerðist það merkilega að hið raunverulega sjokk kom í næsta flugi á þessari flugvél. Þá var búið að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til að losna við hættuna af ísstíflu.

Ég var á leið vestur á firði og fór í loftið til öryggis á "góða" bensíngeyminum og klifraði upp í 11000 feta hæð yfir Akranesi.
Þar skipti ég til reynslu yfir á hinn geyminn og er ekki að orðlengja það að það steindrapst á vélinni!

Þá kom loksins sjokkið sem hafði verið bælt niður við lendinguna í Öræfunum. Hvílíkt sjokk !

Samt var ég í öruggri hæð með svifmöguleika bæði til Reykjavíkur og Keflavíkur og gat þar að auki skipt yfir á "góða" bensíngeyminn, sem ég og gerði.

Hver var skýringin á þessu Kannski var það ráðstöfun óúskýrðra sálfræðilegra viðbragða í undirmeðvitundinni að veita áfallinu útrás þegar það gat ekki haft neinar alvarlegar afleiðingar. Ó, hvað ég skil Sullenberger.


mbl.is Sullenberger: Ætlaði ekki að trúa þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innilega til hamingju, íslenska þjóð, með fyrstu afleiðingar grjótkastsins: þær að ekki mátti lækka vexti síðastliðinn föstudag, þar með fara fleiri fyrirtæki og einstaklingar í þrot. Og vegna þess að AGS þarf að sjá hverju fram vindur fram yfir kosningar verður ekki almennilega slakað á vöxtum hér fyrr en í fyrsta lagi í maí, og þar með fara nánast öll fyrirtæki í þrot og fleiri þúsund í viðbót af þeim einstaklingum sem með mestar skuldir eru: fyrirtæki altso og einstaklingar sem hefðu lifað af ef mátt hefði lækka vexti strax síðastliðinn föstudag, og AGF þyrfti ekki að bíða fram yfir kosningar með frekari vaxtalækkanir og aðrar aðgerðir. Eða eins og Finnarnir segja: að þurfa að standa í stjórnarskiptum og kosningum framlengdi kreppuna hjá þeim um tvö ár með tilheyrandi auknum hörmungum fyrir þjóðina. En á Íslandi eru sem betur fer nógu mörg alvörulaus fífl, sem halda, að þótt bókstaflega ekkert megi fara úrskeiðis svo hér verði ekki TÓTAL KOLLAPS, þá sé kreppan fyrst og fremst tækifæri til að æfa eitthvert últra dásamlegt grjótakastaralýðræði. Ég á börn og veit að staðan er að heita má jafn alvarleg og ef þau lægju helsjúk á gjörgæslu, þess vegna er ég ekki með hugann við það dekurvandamál hvort hér sé últra dásamlegt grjótkastaralýðræði, hvort læknateimið sem annast börnin mín hafi 113% skínandi búsáhaldabyltingarumboð til að reyna að bjarga lífi barna minna; ég veit að það er 113% vinna fyrir læknateimið að annast börnin mín og ég heimta því ekki að læknateimið standi á sama tíma í kosningabaráttu (með þeirri miklu freistingu sem henni fylgdi að beita á börnin, kosningabaráttunnar vegna, vel útlítandi sýndarlækningu sem gerði þeim óleik). Hvaða stjórn sem hér ræður verður að fara eftir stefnu AGS: jafnvel heilagur Þorvaldur segir (sagði meðan Þingvallastjórnin lifði) að ekki megi víkja hársbreidd frá þeirri stefnu. Fyrir utan ofangreindar hörmungarafleiðingar sem stjórnarskipti/kosningar hafa í för með sér hafa þær altso sama praktíska gildi og fegurðarsamkeppni: fá sætara fólk (eða sama fólk í sætari fötum) til að framfylgja þeirri stefnu sem allir vita að verður að fylgja. Myndi slíkt vera mér mál málanna með börnin mín liggjandi fyrir dauðanum: að beita öllum tiltækum ráðum til að koma læknateiminu í læknafegurðarsamkeppni? Já. Já. Það vær mál málanna fyrir mig. Ég myndi framkalla þann hávaða sem ég gæti til að læknateimið sem væri upp fyrir haus að reyna að bjarga börnum mínum myndi á sama tíma þurfa að standa í margra vikna stífri fegurðarsamkeppni. Já. það væri mér sannarlega meira kappsmál en allt annað. Ef ég væri sama fífl og búsáhaldarbyltingarelskurnar. Þvílík skinhelgi að halda því fram að íslenska þjóðin sé saklaus fórnarlömb hrunsins. Hér var árum saman einhver mesti kaupmáttur í heimi, við altso hefðum öðrum fremur átt að eiga fyrir því sem við kaupum, en það gerðum við adeilis ekki. Gott og vel bankarnir voru í bullandi áhættu (sem er dauðadómur þegar brestur á megakreppa), en almenningur og nánast hver einasti aðili á Íslandi var ekki hótinu skárri: nánast allir hér, stórir sem smáir, voru í þeirri stöðu með sín fjármál að ekkert mátti koma uppá í heiminum svo ekki myndi allt hér hrynja. Í grunninn er málið svona: bankar eru einkafyrirtæki. Enginn var neyddur til að eiga viðskipti við bankana okkar þrjá (hér var jú öðrum lánastofnunum til að dreifa), enginn skyldugur að vinna hjá þeim, enginn skyldugur að eiga krónu í hlutabréfum/skuldabréfum þeirra. Allir þykjast núna hafa vitað allan tímann að bankarnir væru meira og minna rotnir, rétt eins og allir koma nú fram hálfsnöktandi og segja: "ég vildi þetta aldrei, snökt snökt. Þetta var ekki það þjóðfélag sem ég vildi, snökt snökt". Hvað vildu menn ekki? Hafa svona mikinn kaupmátt og taka svona mikið af lánum til að kaupa allt sem hugurinn girntist? "Já, ég vildi þetta aldrei, snökt snökt, ég bara fylgdi straumnum, af því ég hafði jú frelsi til þess, snökt snökt, ég vildi aldrei þetta frelsi, snökt snökt, til að eyða og sóa eins og hinir vitleysingarnir. Og ég vildi ekki að hinir vitleysingarnir eyddu og sóuðu eins og hin-hinir vitleysingarnir, vildi ekki að þeir væru að kaupa sér jeppa og skjái útí bláinn, snökt snökt. Og ég vildi ekki að eigendur hinna og þessara einkafyrirtækja ákveddu að borga sumum af starfsmönnum sínum mjög há laun, snökt snökt". Gott og vel, það vildi enginn gera neitt af því sem hann og maðurinn í næsta húsi og þar næsta húsi gerðu. Það var hverjum manni í sjálfsvald sett að sleppa því alfarið að eiga nokkuð saman við bankana þrjá að sælda, rétt eins og margir td vildu ekki koma nálægt fyrirtækjum sem Hannes Smára átti í. Ef hver og einn hefði tekið ábyrgð á sér, og ekki ákveðið, af fúsum og frjálsum vilja, að binda trúss sitt, að einhverju leyti, við þessi þrjú fyrirtæki, þá hefðu gjaldþrot þeirra snert okkur álíka mikið og ef einhverjar illa reknar "óreiðu"mannabúllur hefðu oltið um (Icesave-skuldin er dálítið sérstakt mál, í raun er verið að troða þeirri skuld uppá á okkur án þess að fyrir því sé lagabókstafur).

ásdís (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 13:15

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Þetta var spennandi og viðeigandi lestur hjá þér Ómar (en ekki Ásdís, sem ætti að hafa eigið blogg í stað þess að troða sér sem hýsill inn á allt aðrar færslur). Ég hafði gaman af því þegar þú flaugst að tindi Hvannadalsnúks 2005 og kvikmyndaðir okkur 100+ manneskjur á tindinum. Það getur enginn endurtekið öll þín ævintýri á einni ævi!

Ívar Pálsson, 6.2.2009 kl. 13:29

3 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Ekki þykir mér rista djúpt skilningur Ásdísar á efnahagsvandanum. Skuldir heimilanna í lok síðasta árs námu 8% af heildarskuldum landsins. Ætli helmingsaukning sé ekki ríflega áætluð viðbót vegna góðærisins. Ætlar Ásdís að telja sjálfri sér trú um að þau 4% séu einhver orsakavaldur í hruninu?

Smásagan  um spítalalífið er ekkert síðri en Grey's Anatomy þáttur. Ég hefði viljað sjá betri karakterútfærslur. Hrokafulla yfirlækninn sem segist ekki ætla að lækna lungnabólgu óreiðubarna, deildarlækninn sem ekki þorir að andmæla yfirlækninum, erlendu sérfræðingana sem segja að uppskurður sé nauðsynlegur, o.sv.frv. 

Eins og ég segi, ég skil ekki sjónarhorn Ásdísar, en hún er dugleg að skrifa.

Sigurður Ingi Jónsson, 6.2.2009 kl. 14:05

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Skemmtileg og spennandi frásög, Ómar. Ég sá einhvern hér í athugasemd á blogginu þínu, stinga upp á því að þú skrifaðir bók um ævintýri þín. Það er ekki vitlaus hugmynd.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.2.2009 kl. 14:38

5 identicon

Góð saga hjá þér, Ómar. Við flugmenn verðum alltaf að segja frá því að véldrifnar flugvélar eru líka góðar svifflugur og það reyndi ég og Jón Karl einu sinni, þegar skrúfublað brotnaði í 4400 feta hæð yfir Klofningi. Við svifum um 16 km á 15 mín og lentum örugglega á góðu túni, allan tíman sallarólegir, enda þarf lendingarhraðinn við þessar aðstæður ekki að vera mjög hættulegur.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 21:52

6 identicon

Frábær saga. Takk f. þetta. :)

Ari (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 03:57

7 Smámynd: josira

Meiriháttar frásögn, kæri Ómar...úff það hlýtur að vera rosaleg lífsreynsla að lenda í svona löguðu...ég var á báðum áttum að lesa greinina, en lét mig hafa það...

Ég er nefnilega búin að berjast við mikla flughræðslu gegnum árin...( öryggisleysið að hanga í lausu lofti lokuð inní málmröri...kjánin ég...) Skrítið, því hef ég upplifað marg oft frelsistilfinninguna við að fljúga sjálf, í draumum ( ekki í flugvél heldur að svífa sjálf )

Fyrir margt löngu síðan ætlaði ég að skrá mig á flughræðsunámskeið...en hætti snarlega við þegar mér var sagt að námskeiðin ætti að enda með flugferð yfir hafið alla leið til New York...úps og skammaðist ég mín í mörg ár fyrir heigulsháttinn... ( að hætta við )

Nokkrum árum síðar ákvað ég að horfast í augu við óttann...eða réttara sagt að skora hann á hólm...Láta hann ekki lengur ráða yfir mér og hamla því að ég nyti þeirra forréttina að geta farið á milli staða og landa á á nokkrum mínútum eða klukkustundum...í nútímanum...en ekki líkt og sæfarendur á öldum áður, sem  þurftu að vera vikur og janvel mánuði á sína áfangastaði...

Og hef flogið nokkrar ferðir síðustu ár...kostar reyndar smá svita, magapínu og tár jafnvel ...en ég læt mig hafa það...Mín sjálfshjálp er aðallega fólgin í breyttu viðhorfi gagnvart óttanum og að einbeita mér að innri slökun og öndun áður en lagt er í'ann...

Og setja allt mitt traust á flugmennina, þessa ( ykkur ) flinku manneskjur...sem aldeilis þurfa að fara í gegnum mikinn skóla og reynslu áður flugið hefst fyrir alvöru...það hefur breytt öllu, samhliða því að fræðast meir um flug og forsendurnar á bak við það...( að flugvél haldist yfir höfuð á lofti ) Er jafnvel farin að horfa á flugslysaþættina á Discovery...að hugsa sér hve breytt hugarfar gerir mikil kraftaverk... 

þetta innlegg mitt átti nú ekki að verða svona mikið í upphafi, en svona þróast víst oft hlutirnir...takk enn og aftur fyrir þessa frásögn þína...hún hjálpaði mér, á leið minni og nálgun að læra að njóta flugs...

Og svona í leiðinni langaði mig að þakka þér fyrir hugsjón þína og fylgni með Íslandshreyfinguna og allt það samstarfsfólk, sem þar leggur hönd á plóg ásamt kjósendendum ykkar...Bjarta framtíð...

leyfi þessum pælingum mínum, að fylgja með frá mai 2007

josira, 7.2.2009 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband