9.2.2009 | 17:11
Mótmæli gegn mótmælum.
Ég átti áhugavert samtal við mann á förnum vegi nú rétt í þessu. Hann sagði: "Nú er langt gengið þegar gamall kommi eins og ég ætlar að kjósa íhaldið."
"Hvers vegna ?" spurði ég.
"Vegna þess að ég hef skömm á þessum skrílslátum mótmælenda sem grýta hús og lögreglumenn og þú mátt skammast þín fyrir að láta sjá þig á mótmælafundum og hafa staðið fyrir slíku hér um árið."
"Það geri ég ekki," svaraði ég. "Ég tel það hluta af mannréttindum mínum að fá að standa á löglegan og friðsamlegan hátt með leyfi lögregluyfirvalda á almannafæri á Austurvelli og hlýða þar á ræður eða að standa við Ráðherrabústaðinn, tala þar og syngja. Eftir að þeim fundi lauk og var slitið formlega og fólkið var á leið burtu tóku einhverjir sig til og brenndu fána og létu öllum illum látum. Mér og öðrum fundarmönnum, sem vorum farnir, var kennt um það í fjölmiðlum.
Sama gerðist á Austurvelli viku síðar og enn gerðu fjölmiðlarnir lætii örfárra einstaklinga að aðalfréttinni af fundinum.
"Ég áskil mér líka rétt til að fara á borgarafundi þar sem menn takast á í rökræðum."
"Já, en þú ert þar með kominn í hóp mótmælenda sem grýta lögreglumenn og hús. *Ef þú og þínir líkar stæðu ekki í mótmælum myndi ekkert slíkt eiga sér stað. "
"Ég get ekki fallist á þetta," svaraði ég. "Ekkert frekar en fólkið sem átti leið um Pósthússtræti eða Austurvelli á meðan á fundunum stóð. Og ég vil minna þig á að þeir sem beittu ofbeldi voru mjög lítill minnihluti og að þar kom að hópur mótmælenda setti á sig appelsínugula borða og raðaði sér fyrir framan lögregluþjónana til að verja þá."
"Þetta fólk var að mótmæla þessari tegund af mótmælum óeirðamanna og það geri ég líka."
Erfitt er að sjá það fyrir hvort einhverjir í hópi mótmælenda taka sig út úr í ofbeldis- og skemmdarfýsn. Ef ætíð ætti að hætta við mótmælaaðgerðir vegns hættu á slíku yrði lítið um mótmæli.
Í Jökulsárgöngunni 2006 var ekki hægt að fullyrða fyrirfram að eitthvað slíkt gæti ekki gers. Þá fór allt friðsamlega fram en það hefði ekki verið þægilegt að fá á sig stimpil óeirðamanns ef eitthvað hefði farið úrskeiðis.
Þegar ég var strákur fór ég einu sinni með afa mínum, sem var mesti friðsemdarmaður sem ég hef þekkt, niður í miðbæ á gamlárskvöld. Þegar við gengum eftir Austurstræti komum við að hóp stráka sem grýtti lögreglustöðina. Við töldums okkur samt ekki í hópi þessa skríls og heldur ekki yfirgnæfandi meirihluti fólksins sem kom niður á Austurvöll 30. mars 1949 til þess að láta það í ljósi á friðsamlegan hátt að það vildi ekki að ráðist yrði á eða inn í Alþingishúsið."
Ég fór eftir á að hugsa um það af hverju þessum gamla kommúnista var svona illa við mótmælafundi. Skýringin gæti legið í því að honum hugnaðist betur og saknaði jafnvel þjóðfélaga hins alráða kommúnisma þar sem allt slíkt var bannað og er raunar bannað enn í þeim ríkjum þar sem slík stjórnvöld halda um valdatauma.
Líklega hefur honum ekkert verið gefið um hinn fjölmenna mótmælafund Martins Luther King í Washington hér um árið. Auðvitað átti hann ekki að standa að slíku vegna þess að mótmælin á öðrum stöðum fóru oft út í ofbeldi og skemmdarverk.
Og gamla kommanum hefur líklega fundist það skítt að það skyldu vera fjölmennir mótmælafundir sem steyptu kommúnistastjórninni í Austur-Þýskalandi.
Athugasemdir
Flottur ertu Ómar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.2.2009 kl. 18:01
Mönnum hættir oft til að dæma heilan hóp fyrir gjörðir örfára.
Offari, 9.2.2009 kl. 18:29
Síðasta setningin Ómar, tær snilld
Finnur Bárðarson, 9.2.2009 kl. 18:30
Það er alveg ótrúlegt hvað fáir gátu skemmt fyrir fjöldanum þegar mótmælin fóru fram á austurvelli um daginn og við stjórnaráðið. Þegar kveikt var í alþingishúsinu þá logaði í fúgu milli flísa ég ásamt þremur öðrum hlupum til og reyndum að slökkva eldinn með fótunum það tókst illa svo ég hljóp inn á grasið með fötu sem ég hafði verið að berja allan daginn og sótti vatn í hana í smá poll til að slökkva eldinn. Þess skal tekið fram að í smá fjarlægð stóðu þrír lögregluþjónar og horfðu á hlustuðu ekki á mig þegar ég bað um slökkvitæki það hentaði þeim greinilega ekki. Á meðan við vorum að slökkva eldinn og verja húsið var ekki tekin ein einasta mynd, þarna getur hver maður séð hvað fjölmiðlar geta gert til að draga það versta fram með marg endurteknum fréttum og myndum af því al versta í það og það skiptið. Eins horfði ég á þegar ung stelpa braut 4 rúður í alþingishúsinu tók sama steininn aftur og aftur og kastaði honum af alefli ég hljóp til og stoppaði hana ef ég hefði ekki gert það þá er ég viss um að hún hefði brotið miklu fleiri rúður. Ekki var sýnt þegar þetta átti sér stað sennilega ekki þótt nógu krassandi.
Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 04:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.