Þola ekki 80 daga stóriðjuhlé.

Stóriðjuflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þola ekki 80 daga stóriðjuhlé. Nei, Kolbrún Halldórsdóttir skal fá að sitja framan á stóriðjuhraðlestinni og halla sér fram eins og styttan framan á húddinu á einni bílategundinni hér í den tid og þenja brjóst framan í vindinn.

Og á morgun ætla Sjálfstæðismenn að taka að sér það hlutverk Framsóknarflokksins að berja Kolbrúnu til hlýðni eins og gert var á fyrsta starfsdegi stjórnarinnar.

Staðan núna er verri en hún var fyrir kosningarnar 2007. Þá voru þrír stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Frjálslyndi flokkurinn yfirlýstir stóriðju- og landsspjallaflokkar. Samfylkingin kvaðst berjast gegn alls 500 þúsund tonna álverum í Helguvík og á Bakka og Vinstri grænir voru á sama róli.

Þá snerist barátta náttúruverndarfólks um að koma í veg fyrir úrslitaáhrif þessara þriggja flokka á virkjana- og umhverfismál.

Strax eftir kosningarnar hófst hins vegar kapphlaup vinstri flokkanna tveggja að komast heim með Geir eftir kosningaballið og gefa álverin eftir.

Nú er búið að stækka þau upp í 700 þúsund tonn alls.

Ég er hvorki vinstri né hægri maður en höfuðatriði í næstu kosningum verður hið sama og í síðustu kosningum að koma í veg fyrir að Sjálfstæðis-Framsóknar- og Frjálslyndi flokkurinn fái að hafa úrslitaáhrif á stjórnarmyndun.

Ef þeir halda áfram þeirri stöðu sinni eru þeir vísir til að skítnýta sér aðstöðu sína til að stjórna umhverfisráðuneytinu eins og Framsókn gerir nú, hver sem verður þar ráðherra að nafninu til.


mbl.is Tekist verður á um Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Ef kosnigaloforð stóriðjuflokkana verða álver á Bakka er hætt við að þau loforð standist ekki. Ég hef enga trú á því að ný álver byggist á næsta kjörtímabili. Helguvíkur álverið er komið það langt að varla verður hætt við.

Grundvöllur fyrir Bakkaálveri er brostinn því ég tel langt í að álverð hækki það mikið að grundvöllur sé fyrir framleiðslu aukningu. Alkoa er að loka álverum því ættu þeir þá að vilja ný?

Offari, 10.2.2009 kl. 22:51

2 identicon

málshefjandi ólöf nordal? er hún ekki með sama lögheimili og forstjóri alcoa?

Muggur (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 23:18

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það frjóvgast hægt hugmyndaflugið hjá blessuðu íhaldinu! Næst á eftir því að losna við Ólaf Ragnar kemur stóri draumurinn um álverin og olíuhreinsistöðina. Þeir eru svo djúpt grafnir inn í hugsunarhátt forfeðranna að næst á ég von á að þeir krefjist þess að vökulögunum verði aflétt.

Árni Gunnarsson, 11.2.2009 kl. 00:18

4 identicon

Hvað með kísilverkssmiðju er það stóriðja? Orkan sem notuð er kemur frá jarðvarmavirkjunum en ekki uppistöðulónum þarna er um verulegan mun að ræða.

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 02:16

5 Smámynd: Benedikt V. Warén

Ekki veit ég hvernig atvinnumálum væri háttað á mið-Austurlandi, ef ekki hefði komið til virkjun og álvel.

Hvernig væri umhorfs í Reykjavík ef þar væru ekki virkjanir og álver?  Ætla menn að lifa til frambúðar á útrás skulda-bréfa-víkinganna? 

Halda menn ennþá að peningarnir verði til í bönkunum?? 

Það virðist enn enginn hörgull á fólki í Reykjavík, sem enn trúir því að mjólkin verði til í mjólkurbúunum og rafmagnið í tenglunum í veggnum?

Benedikt V. Warén, 11.2.2009 kl. 08:49

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þeir Bakka eru bræður,
og B-listi þeirra ræður,
laglegar einnig læður,
á listanum með slæður.

Þorsteinn Briem, 11.2.2009 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband