13.2.2009 | 18:55
Súkkulaði - unaðsleg óhollusta.
Allt sem er gott er annað hvort syndsamlegt eða óhollt. Þetta var einu sinni sagt og það er mikið til í því.
Ég er einn af þeim sem hafa alla tíð verið veikir fyrir súkkulaði. Gildi súkkulaðis sést best á því að eitt af þjóðartáknum Íslands er kók og prins. Vinstri stjórnin 1956-58 gerði fátt merkilegt en tvennt var þó gott sem hún gerði: Færði landhelgnina út í tólf mílur og fór að flytja inn Prins póló frá Póllandi.
Þessi vara er einstæð að því leyti að innflytjandinn, Ásbjörn Ólafson, ákvað að auglýsa þetta súkkulaðihúðaða kex aldrei.
Umboðið kom mér vitanlega hvergi nærri því þegar Þorsteinn Eggertsson gerði textann um sjóarann Prins Póló sem Magnús Ólafsson gerði ógleymanlegan með Sumargleðinni.
Ég hef alla tíð verið forfallinn kók og prins neytandi. Allt þangað til ég fékk ofnæmi fyrir of sterkum sýlklalyfjaskömmtum sem orsökuðu lifrarbólgu, stíflugulu og ofsakláða.
Þá varð fita bannvara í tæpa fjóra mániði og þurfti að fara stúdera fituinnilhalds alls sem neytt var. Ég léttist um 16 kíló á þessum mánuðum.
Þá kom í ljós að sú réttlæting mín fyrir Prins póló áti að það væri megrunarkex var auðvitað fjarstæða. Niðurstaða rannsókna minna var einföld: Yfir 30% af súkkulaði er hrein fita. Það er alveg eins hægt að hella í sig hreinum rjóma.
Þriðjungur sjúklega góðs 100 gramma þungs Ritter sport súkkulaðisstykkis er hrein fita. Þetta uppgötvaði ég í flugvélinni á leið til Kanarí eftir að það var orðið of seint. Með því að narta í sig eitt slíkt lítið stykki innbyrðir maður jafn mikla fitu eins og ef maður drekkur heilan lítra af mjólk.
Eftir 52ja ára nautnarneyslu Prins Pólós, sem síðustu ár hefur falist í að meðaltali tveimur stykkjum á dag (sennilega vanmetið vegna afneitunar súkkulaðisfíkilsins) hef ég nú ákveðið að fara í bindindi á þennan unað.
Með því bægi ég frá mér hátt í einu kílói af fitu á mánuði, eða ca 10 kílóum af fitu á ári og spara mér 7-10 þúsund krónur á mánuði, ca 80-120 þúsund krónur á ári. Það munar um minna í kreppunni.
Kókbindindi verður erfiðara. Þar er tvöföld fíkn á ferðum, samtvinnuð koffein- og hvítasykursfíkn. Fráhvarfseinkennin eru mikil.
Er búinn að skipta að mestu yfir í Kók Zero en það er auðvitað veruleikaflótti, því að gervisykurinn er sagður verri en venjulegur sykur á ýmsa lund, brenglar sykurviðbrögð líkamans o. s. frv. Blogga alveg sérstaklega um kókfíknina síðar en velti því fyrir mér núna hve mikla óhamingju, ótímabæra sjúkdóma og dauðföll hin unaðslega súkkulaðifíkn hefur leitt yfir Vesturlandabúa.
Athugasemdir
Kvalinn af prins og kóki,
á kveldin liggur í móki,
á Kanarí söng í karíóki,
en komst þó frá því djóki.
Þorsteinn Briem, 13.2.2009 kl. 21:44
Ómar, allt er gott í hófi og hófið líka. Maður verður að leyfa sér að hafa einhverjar syndir í formi ómótstæðilegs súkkulaðis. Hjá mér er það hreint Milka. Það er bara verst að Bónust er búið að hækka stykkið úr 99 kr. í 179 kr. á innan við ári, sem er náttúrulega ekki í samræmi við gengisbreytingar. Greinilegt að álagningin er að skríða upp. Kannski að þeir séu byrjaðir að borga sektina og skella henni á neytendur, en taka hana ekki úr vasa eigendanna sem ákváðu að brjóta lögin.
Marinó G. Njálsson, 14.2.2009 kl. 00:25
Enn bara á Laugardögum
S. Lúther Gestsson, 14.2.2009 kl. 01:09
Ég er með þá kenningu um aspartam að maður fitni af því. það vekur nefnilega upp hungurtilfinningu og ég hef séð marga fitna við að færa sig yfir í sykurlausa drykki en kannski er þetta bara vitleysa.
Sigríður Þórarinsdóttir, 14.2.2009 kl. 01:41
Alltaf gaman að lesa pistlana þína!
Það rifjaðist upp fyrir mér að ég sá sumargleðina með sjálfum Prinsinum, einhverntíma um eða upp úr 1980. Ég hef búið erlendis í 13 ár á fékk vatn í munnin þegar ég sá þig tala um Prins Polo. Man eftir gamla kexinu sem var betra en þetta nýja. Hef að mestu lagt kókið á hilluna á ég verð alltaf óforbetranlegur súkkulaðisjúklingur! Hef löngum sagt að ef einhver fæða á eftir að drepa mig þá vil ég að hún sé góð á bragðið!
Kveðja frá Port Angeles, Washington:)
Arnór Baldvinsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 06:50
Ómar ég tek undir með Marinó. Prins Póló efur hækkað úr hófi fram. Ýmsum löstum hef ég hætt á ævinni en seint læt ég af áti á Prins Póló.
Haraldur Bjarnason, 14.2.2009 kl. 07:59
ég hef aðeins eitt að segja Ómar ... PEPSI MAX ... ég þurfti að hætta öllu sykuráti fyrir nokkrum árum en leyfi mér pepsi max ... þvílíkur unaður og miklu meira koffín en í kóki !
Elín Sigríður Grétarsdóttir, 14.2.2009 kl. 09:52
Haha...! nú þekki ég minn mann! :) er virkilega erfitt að sleppa kóki og prins...?
En annars er ég skemmtilega ósammála fyrstu fullyrðingunni, ég held nefnilega algerlega því gagnstæða fram: "Allt sem er gott, er líka hollt"!
Dæmi: dökkt súkkulaði er gott, en ekki ljóst - dökkt súkkulaði er hollara en ljóst!
Ólívuolía er langbesta olían - líka hollust! - og því engin ástæða til að nota annað
Magurt kjöt er gott, en ekki feitt kjöt - líka hollara!
...og svo má áfram telja... Sem sagt: það sem er gott, er líka hollt. Er þetta ekki yndislegt?
Annars sendum við ykkur bestu kveðjur suður á eyjarnar!! - örugglega "hollara" að vera í loftslaginu þarna suður frá en í kuldanum hér....!
Þorfinnur Ómarsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 12:41
Þakka matargerðarmeistarnum. Sá er á heimavelli. Bestu kveðjur í eldhúsin heima.
Ómar Ragnarsson, 14.2.2009 kl. 19:37
Sæll Ómar.
Gaman að sjá að þú ert farinn að snúa þér að þessu.
Fyrir mann eins og mig sem gerir varla annað en að (reyna að) liðsinna offitusjukingum verða þessi fæðumál með tíma og reynslu afar einföld. Reyndar ekki vettvangur hér að fara djúpt í það en ég verð samt að fá að leggja nokkur orð í belg.
Fyrst um þetta með að allt sem sé gott sé óhollt og öfugt. Það stenst bara ekki þegar að er gáð. Þetta snýst einfaldlega um vana. Það er t.d. fljótlegt að venja sig af sykri í kaffi svo einfalt dæmi sé tekið.
Matur og drykkur getur verið afbragðsgóður þó hann sé ekki stráður sykri eða stífaður af sterkju. Náttúran ætlaði sér aldrei að við myndum fara að framleiða sykur og nota í óhófi og ekki heldur hreinsa sterkjuna úr korni, kartöflum og grjónum. Við erum hreinlega ekki hönnuð fyrir þetta og það kemur okkur í koll.
Manneldispostular hafa í einfeldni sinni afvegaleitt mannkynið allt of lengi og talið okkur trú um að fita sé það hættulega. Það er einfaldlega rangt. Rannsóknirnar sem lágu að baki þessum kennisetningum voru í besta fali ígildi ágiskana.
Sykurinn og sterkjan er stóra vanamálið. Þessi þekking er hægt og rólega að ryðja sér til rúms en það er enn fullt af miðaldra næringarspekingum sem ekki geta brotið odd af oflæti sínu og breytt um kennisetningu.
Þorfinnur Ó. feilar nú eitthvað í matargerðarfræðunum með magra kjötið og feita. Góða bragðið situr sem vel er þekkt í fitunni.
Fita er miklu betri orkugjafi og hollari en kartöflur og brauð. Allt er að sjálfsögðu best í hófi en það er alveg óþarfi fyrir flesta að skera fituna af kótilettunni. Við erum ágætlega útbúin til að höndla mátulega fitu. Kólesterólvandamál orsakast ekki af fituneyslu eins og lengi var haldið.
Bestu kveðjur frá manninum sem rak "rýtinginn" einu sinni í bakið á þér.
Björn Geir Leifsson (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 00:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.