Mótmæli á Kanarí.

Ég var að blogga um það að ég teldi að mótmæli og helgjardjamm færu ekki saman. Hér á Kanarí stendur einn ágætur Framsóknarmaður fyrir vikulegum fundum á Klörubar um stjórnmál. Þangað koma þeir sem hafa áhuga á þeim málum, rökræða þau á ánægjulegan hátt og veita áhuga sínum útrás.  

Í gærkvöldi fórum við hjónin í tilefni 48 ára afmælis kynna okkar með systur hennar, sem aldrei hefur komið fyrr á Kanarí. Við fórum út á tvo skemmtistaði í leiðsögn vinahjóna okkar. 

Þau buðu okkur inn á krá þar sem við settumst við borð og fórum að ræða um hugðarefni okkar og skemmtileg málefni. Þetta átti að verða yndisleg og hljóðlát samverustund, enda sat kurteist og prútt fólk við næstu borð.En Adam var ekki lengi í paradís. 

Af næsta borði stendur upp maður, kemur yfir að borði okkar án þess að heilsa okkur eða kynna sig, heldur hellir formálalalaust yfir mig úr skálum reiði sinnar yfir því hver óþurftarmaður ég sé. Kveðst hann hafa átt heima erlendis í átján ár og eigi því mikið vantalað við mig um mína pólitík. 

Vinafólk mitt við borðið hefur hins vegar ekki minnst á pólitík þessa daga hér og fannst maður þessi ekki eiga neina heimtingu á því að starta háværu rifrildi við borð okkar í stað huggulegrar samræðu á Valentínusardaginn. 

Ég bað hann um að virða rétt fólksins, sem hefði boðið mér að borðinu en hann espaðist því meira. Ég bað hann þá um að greina stuttlega frá ásökunum sínum en hann hóf þá mikla langloku um það hvernig ég hefði verið í gamla daga og gat alls ekki komist lengra að efninu.

Vinafólk mitt var ekki ánægt með þá kröfu mannsins að breyta samveru okkar þarna í pólitískan fund tveggja manna og benti manninum á að haldnir væru sérstakir fundir vikulega hér á Kanarí um pólitík. 

Maður sagðist ekki eiga þess kost að fara á þessa fundi og því ætti hann heimtingu á þessum einkafundi mínum og hans hér og nú. Mótmælti hann hástöfum því, hve merkilegur ég þættist með mig, - hvað ég héldi eiginlega að ég væri og svo framvegis. 

Hann taldi samt greinilega að við tveir hefðum rétt til að valta yfir vilja hjónanna, sem höfðu boðið okkur þarna inn til að eiga huggulega kvöldstund. Gilti einu þótt ég segði honum að við hefðum ekki farið suður til Kanaríeyja til að rífast alla daga um pólitík. Það gætum við gert heima á Íslandi en gerðum það þó ekki þar.

Þegar vinafólk mitt sagði manninum að það teldi hann vera með dónaskap og frekju, stóð upp kona við borð mannsins, kom yfir að okkar borði og tók hraustlega undir málflutning hans.

Sáum við þá okkar óvænna og stóðum upp og fórum út. Kváðu þá við fagnaðarlæti þeirra sem sátu við borðið sem maðurinn hafði setið við. Honum hafði greinilega tekist að hreinsa staðinn af óæskilegri viðveru mín og samferðafólks míns, þess mikla gæðafólks sem mér vitanlega hefur aldrei verið til neinna vandræða, hvað sem um mig má segja. 

Ég hygg að flestir Íslendingar hafi lent í svona uppákomum, bæði heima og erlendis. Þetta er nú víst einn af óhjákvæmilegum fylgifiskum þess að vera Íslendingur.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert heill og sannur Ómar, og búinn að gera ómetanlega hluti fyrir þjóðina. Ég nefni sem dæmi Stikluþættina, sem nú er hægt að fá leigða á bókasöfnum og ég nýti mér óspart.

Láttu þetta ekki slá þig út af laginu.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 11:35

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ömurleg framkoma og ótrúleg ósvífni og frekja.. en alveg ferlega íslenskt eitthvað.

Óskar Þorkelsson, 15.2.2009 kl. 11:40

3 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Úff, sumt fólk er ekki alveg í lagi, þetta fólk hlýtur að hafa verið í skrýtnu ástandi

Margrét Birna Auðunsdóttir, 15.2.2009 kl. 12:37

4 identicon

Hefur lengi loðað við landann að vera þrasgjarn. Tek undir með honum Óskari "ferlega íslenskt eitthvað."

Kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 12:57

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Það er alltaf leiðinlegt að upplifa svona atburði.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 15.2.2009 kl. 13:01

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kalda fékk þar kveðju,
frá kalli saur og leðju,
í fylgd var sá með frenju,
og full þau bæði að venju.

Þorsteinn Briem, 15.2.2009 kl. 14:23

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

það má vel greina á orðum þínum að þú hefur tekið þessari leiðindauppákomu með jafnaðargeði og æðruleysi

Brjánn Guðjónsson, 15.2.2009 kl. 15:12

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Æi, það er nákvæmlega þessi ástæða fyrir því að maður gleðst stundum yfir því að vera á hóteli eða stað þar sem eru engir samlandar.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 15.2.2009 kl. 15:41

9 identicon

Komdu saell Omar.

Eg les oft bloggid thitt, mer til mikillar anaegju og Stiklurnar thinar,

sem vinur minn a, eru meirihattar.

En ad lenda i svona framkomu fra thessum asna sem tharna var, tha hefdi

eg kvartad i bareigandann og latid henda honum ut, svona framkomu a ekki ad lida.

Bestu kvedjur fra Florida

Halldor Hjaltason (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 16:12

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er bara krydd í tilveruna hjá mér. Bareigandinn var alveg eyðilagður, elti okkur út á götu þegar við vorum á leið í burtu og fékk okkur til að setjast við borð úti á gangstétt. 

Ómar Ragnarsson, 15.2.2009 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband