Áhættufíknin í forgang í hvalveiðum og loðnuveiðum?

Greinilegt er að margt er óljóst um stöðu loðnunnar nú um stundir. Áhættufíknin sem olli græðgisvæðingunni og hruninu mikla hefur ekki horfið eins og sést best á því að það þykir allt í lagi að setja meira en þriggja milljarða viðskipti með fisk í uppnám með því að heimila hvalveiðar sem gefa aðeins atvinnu í nokkra mánuði og ekki nema brot af þessum fisksölutekjum.

Ég minnist þess ævinlega með hrolli þegar allir helstu aflaskipstjórar loðnuflotans sendu áskorun til sjávarútvegsráðherra, sem mig minnir að þá hafi verið Matthías Bjarnason, þar sem harðlega var mótmælt stöðvun loðnuveiðanna þegar veiðiflotinn elti hana vestur með Suðurlandi í áttina vestur á Faxaflóa.

Skipstjórarnir fullyrtu að enn væri loðna í hundraða þúsunda tonna tali á miðunum.

Síðar kom í ljós að þrátt fyrir stöðvunina lá við nærri að hinir veiðiglöðu skipstjórar hefðu klárað loðnuna upp til agna.

Þótt það kunni að vera að allt í lagi sé að ganga til verks gagnvart loðnunni núna sýnist mér bara alltof mikil óvissa ríkja til þess að taka hana þá áhættu, sem nú virðist í tísku að taka á öllum sviðum vegna slæms ástands.

Og menn virðast reiðubúnir til að taka gríðarlega áhættu gagnvart afleiðingum hvalveiðanna að ekki sé minnst á kröfu Framsóknarmanna og annarra um að sækja nú harðar fram í stóriðjuframkvæmdum en nokkru sinni fyrr.


mbl.is Loðnukvóta strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar, Þú hlýtur að muna eftir myndaflokknum Verstöðin Ísland sem Erlendur Sveinsson gerð fyrir svona 15 - 20 árum og sýndur var allur í rikk í Háskólabíó. Mig minnir að sýningin hafi verið einir 5, 6 tímar.

Það sem situr fastast í mynni mínu er hvernig hver nýjung í útgerð endaði í einskonar hruni oftast vegna græðgi. Græðgi er orðið sem ég hef síðan tengt við útgerð okkar ekki bara sjávarútgerð heldur ýmislegt annað sem hefði getað orðið gott, en varð bara skítt.

Loðldýrarækt, fiskeldi, grasköglar, virkjanir, stóriðja og þannig áfram.

Auðvitað erum við ekki ein um græðgi íslendingar, en við höfum verið treg að læra að hemja hana okkur sjálfum til góðs. Óheft græðgi kemur öllum í koll.

Læt ég nú lokið þessari predikun, en þakka þér fyrir góða pistla og fyrir alla muni gerðu það sem í þínu valdi stendur til þess að frávillingar í pólitík sem annt er um auð landsins okkar geti nýtt athvæðisrétt sinn, án þess að kjós um leið yfir sig höft og helsi.

Bestu Kveðjur H.P.

´Hólmfríður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 13:48

2 Smámynd: Aðalsteinn Bjarnason

Sammála þér varðandi loðnuna Ómar, en ekki varðandi hvalina. Við erum ekki að taka neina áhættu með því að veiða hvali. Áætlað er að hvalir á Íslandsmiðum éti um 6,5 milljónir tonna af sjáfarfangi árlega. Heildarveiði fiskiskipaflotans er um 1 milljón tonn. Ef við leyfum hvölunum að fjölga sér óhindrað áfram þá verður öllum fiskveiðum sjálfætt.

Aðalsteinn Bjarnason, 21.2.2009 kl. 13:59

3 Smámynd: Stefán Gunnlaugsson

Ég er sammála Aðalsteini.

Við þurfum að fara varlega í að veiða loðnu, en það hefur marg sannast að það er enginn áhætta varðandi hvalinn. Þetta er sami hræðsluáróðurinn ár eftir ár þegar hvalveiðar byrja, og aldrei ganga þessar drauga sögur eftir.

Til dæmis bjó ég í svíþjóð árið 2003 þegar hrefnuveiðar byrjuðu aftur. Þá var mikil umræða í íslenskum fjölmiðlum, sérstaklega var talað um mjög hörð viðbrögð í erlendum fjölmiðlum. Ég heyrði aldrei neitt um þetta í sænskum fjölmiðlum og heldur ekki félagi minn í þýskalandi. Það er eins og íslendingar haldi að öll heimsbyggðin standi á öndinni yfir hvalveiðum hérna, en hið rétta er að lang flestum er nákvæmlega saman. Þetta hefur enginn áhrif á ferðamenn eða sölu afurða erlendis eins og fordæmin hafa marg sýnt.

Stefán Gunnlaugsson, 21.2.2009 kl. 14:17

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fábjána- og fáráðlingsháttur Sjálfstæðisflokksins ríður ekki við einteyming:

"Um 250 manns í fiskvinnslu missa vinnuna þegar hvalveiðar hefjast og landið mun verða af um þremur milljörðum í gjaldeyristekjum. Stórir erlendir birgjar neita að skipta við lönd sem stunda hvalveiðar. Þetta segir Rögnvaldur Guðmundsson, fjármálastjóri Frostfisk í Þorlákshöfn.

Hann óttast sérstaklega um störf í Þorlákshöfn og telur að minnst 50 muni missa vinnuna þar þegar hvalveiðar hefjast. Stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins er breska verslanakeðjan Waitrose sem neitar að skipta við lönd sem stunda hvalveiðar."

Þorsteinn Briem, 21.2.2009 kl. 14:55

5 Smámynd: Aðalsteinn Bjarnason

Steini, eigum við að láta einhverja verslunarkeðju í Bretlandi stjórna því hvort hér séu stundaðar hvalveiðar eða ekki? Heldur þú að ef Frostfiskur þarf að minnka sinn útflutning út af því að þessi verslunarkeðja lokar á þá, að þá þíði það minni gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið? það er bara ákveðið magn af fiski sem má veiða á Íslandi, hvort hann er unnin hjá Frostfiski eða einhverjum öðrum vinnslum kemur á sama stað niður. það hefur engin áhrif á heildar útflutningsverðmæti. Umfram allt er að við látum ekki kúga okkur. Og við verðum að grisja hvalinn ef við ætlum áfram að stunda fiskveiðar.

Aðalsteinn Bjarnason, 21.2.2009 kl. 15:08

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aðalsteinn Bjarnason.

Hundrað hrefnur eru um 0,002% af hrefnustofninum hér og 150 langreyðar um 0,004% af langreyðarstofninum. Þar að auki er langreyðurin einungis hluta af árinu hér við Ísland.

Hrefnur og langreyðar éta mjög lítið af verðmætasta fiskinum og enda þótt hér yrðu veiddar 100 hrefnur og 150 langreyðar á ári skiptir það NÁNAST ENGU MÁLI fyrir lífríkið í hafinu hér.


Hrefnukjöt kemur Í STAÐ kjöts frá íslenskum bændum og Einar K. Guðfinnsson var BÆÐI landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.

Af fæðu hrefnunnar er ljósáta 35% fæðunnar, loðna 23%, síli 33% og þorskfiskar 6%. Og langreyðar éta svifkrabbadýr (ljósátu), loðnu og sílategundir, samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknastofnunar.

Hrefnuveiðarnar í fyrra voru stundaðar af litlum báti frá Kópavogi og hrefnukjötið var unnið af fyrirtæki í Reykjavík. Og mikið af kjötinu var á borðum borgarstarfsmanna hér í fyrrasumar. Þessar hrefnuveiðar komu því fyrst og fremst höfuðborgarsvæðinu til góða og þær koma niður á íslenskum bændum.

Íslendingar og Norðmenn hafa étið hrefnukjöt en Norðmenn hafa sjálfir veitt töluvert af hrefnu, þannig að ekki seljum við hrefnukjötið til Noregs.

Og við gætum eingöngu selt langreyðarkjöt til Japans en Japanir veiða sjálfir stórhveli og mjög erfiðlega hefur gengið að fá leyfi til innflutnings á hvalkjöti í Japan. Þar að auki myndi verð á hvalkjöti þar væntanlega lækka töluvert með stórauknum innflutningi.

Langreyðurin heldur sig á djúpslóð og er fardýr, líkt og flestir aðrir hvalir hér við land. Hún kemur hingað snemma á vorin og fer seint á haustin suður í höf, þar sem hún makast og ber. Og langreyðurin er venjulega horfin úr íslenskri efnahagslögsögu í nóvember.

Samkvæmt talningum Hafrannsóknastofnunar eru um 16 þúsund langreyðar á hafsvæðinu milli Íslands og Austur-Grænlands en tæplega 19 þúsund á milli Austur-Grænlands, Íslands og Jan Mayen (norðan 50. breiddargráðu).

Á Mið-Atlantshafssvæðinu eru um 72 þúsund hrefnur og þar af eru um 56 þúsund dýr á íslenska landgrunninu.

Þegar menn gera ekkert annað en að gapa eins og fáráðlingar um það sem þeir hafa ekki hundsvit á er miklu skynsamlegra að halda kjafti.

Þorsteinn Briem, 21.2.2009 kl. 15:54

7 Smámynd: Aðalsteinn Bjarnason

Ég veit það Steini, að þessar litlu hvalveiðar sem nú er búið að ákveða hafa sáralítil áhrif til grisjunar á kvölum, en vonandi er þetta upphafið að einhverju meira. Það er hins vegar ljóst að við getum ekki leyft okkur að veiða úr öllum stofnum hafsins nema þeim sem er efstur í fæðukeðjunni, við verðum að reyna að halda lífríkinu í jafnvægi.

Ég ætla svo að reyna að halda áfram að vera kurteis, þó sumir geti það ekki.

Aðalsteinn Bjarnason, 21.2.2009 kl. 16:13

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aðalsteinn Bjarnason.

Ég kalla það ekki kurteisi að bera þetta dellumakarí þitt á borð fyrir alþjóð og kalla það skynsemi þegar það er ekki rökstutt á nokkurn hátt. Þegar fólk fjallar opinberlega um einhver mál verður það að hafa eitthvert vit á umræðuefninu.

Það er ekki til meiri dónaskapur en að æða um Netið og segja "mér finnst þetta og hitt", án nokkurs rökstuðnings, og halda því svo fram að það sé allt heilagur sannleikur. Og þá gildir einu frá hverjum það kemur. Slíkt verður að berja niður af hörku og það strax. Annars étur fólk upp alla vitleysuna eftir hvert öðru.

Hér verða ekki stundaðar veiðar á hrefnu og langreyði, þannig að þær veiðar grisji þessa stofna so einhverju máli skipti. Þú sérð þetta að sjálfsögðu sjálfur, þannig að þú átt ekki að bera þessa dellu og dónaskap á borð fyrir almenning.

Það er ekki markaður fyrir meira hvalkjöt í heiminum og hér verða ekki stundaðar veiðar á hrefnu og langreyði einungis til að þessir hvalir éti ekki fisk. Íslenska ríkið færi aldrei að greiða útgerðum hér fyrir veiða hvali í stórum stíl einungis til að "grisja" þá. Til þess þyrfti að veiða hér mörgum sinnum fleiri hvali á hverju ári en ætlunin er að gera nú í sumar og henda öllu eða nær öllu kjötinu.

Það er enginn markaður fyrir hvalkjöt nema í Noregi, Færeyjum og Japan og þessi lönd myndu ekki flytja inn hvalkjöt dýrum dómum til skepnufóðurs. Önnur lönd banna yfirleitt innflutning á hvalkjöti og langreyðar eru fardýr sem um gilda alþjóðlegir samningar. Og hér er nú ekki mikil minka- og refarækt en þú ætlar kannski að éta þetta hvalkjöt allt saman sjálfur?!

Ef veiða ætti einungis 5% af hrefnu- og langreyðarstofnunum hér þyrfti að veiða árlega um þrjú þúsund hrefnur og um tvö þúsund langreyðar og varla hægt að kalla það mikla grisjun, þar sem eftir væru þá um 95% af þessum stofnum.

Þorsteinn Briem, 21.2.2009 kl. 17:31

9 identicon

"Einhver veslunarkeðja"á Bretlandseyjum er því miður ekki sú eina, sem hættir. Það er nefnilega talsvert framboð af fiski og þorskur er sá dýrasti. Við erum í harðri samkeppni við ýmsar matartegundir með þessa vöru og hún verður knappari þegar harðnar á dalnum hjá almenningi - það verða færri, sem geta látið eftir sér að kaupa þorsk. Því er þetta mun alvarlegra mál, en flestir vilja gera sér ljóst. Við höfum nefnilega ekki efni á öðru en láta meiri hagsmuni ganga fyrir minni. Hvalveiðar munu ekki verða neinn búhnykkur fyrir íslenskt þjóðarbú, þvert á móti. Þess utan er nákvæmlega enginn markaður fyrir afurðirnar. Japanir eru sjálfir að veiða meira af hval en þeirra heimamarkaður tekur við. Þar eru til um þessar mundir nokkur þúsund tonn af hvalkjöti, sem þeir geta ekki selt heima fyrir og aðrir markaðir eru því miður ekki til. Jú, það eru margar þjóðir, sem vantar fæðu. Þar er hinsvegar hvorki hefð fyrir neyslu á rauðu kjöti, né til sölu- ellegar dreifikerfi fyrir frosnar afurðir, því í öðru formi væri ekki hægt að koma hvalkjöti á þessa markaði. Því miður bíða engir kaupendur eftir hvalkjöti erlendis. Þegar svo veiðarnar hafa þau áhrif að spilla fiskmörkuðum okkar þá spyr maður eðlilega til hvers er verið að þessu?

Nöldurskjóða (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 17:39

10 Smámynd: Aðalsteinn Bjarnason

Ég er fylgjandi hvalveiðum Steini, eins og meirihluti þjóðar og alþingis. Mínar skoðanir eru því ekkert síður réttháar en þeirra sem eru á móti hvalveiðum eins og þú.

Ef það er enginn markaður fyrir hvalaafurðir þá verður veiðunum náttúrulega sjálfhætt, það þarf samt ekki að dæma þessar veiðar úr leik fyrirfram með þeim rökum. Það er enginn að ætlast til að ríkið fari að styrkja þessar veiðar. Ef þær standa ekki undir sér þá verður þeim einfaldlega hætt.

Að þú skulir getað lagt það fram sem rök í þessari umræðu að hvalkjötið skemmi fyrir landbúnaði á Íslandi, sýnir nú á hvaða plani þín röksemdafærsla er.

Aðalsteinn Bjarnason, 21.2.2009 kl. 17:51

11 Smámynd: Stefán Gunnlaugsson

Þetta er greinilega mjög heitt mál hjá honum Steina greiinu.

Ég er hinsvegar alveg sammála honum að þessi hvalakvóti sem var gefinn út skiptir engu gríðalegu máli fyrir aðra stofna eins og loðnu eða þorsk, en samt hlýtur þetta að telja þótt lítið sé. Ég hefði viljað sjá miklu meiri veiðar á hval, og sérstaklega hnúfubak. En það eru nú samt að segjast að rökin hjá þér Steini minn eru ansi veik. Ef þú horfir á þetta frá hinni hliðinni þá eru enginn rök fyrir því að nýta ekki þessa stórlegu vannýttu auðlynd.

Rökin um að enginn markaður sé fyrir kjötið, þá er það því miður bara óskhyggja hjá ykkur. Það er nógur markaður í japan og fyrir þessa þjóð þá eru 300 hvalir eins og  10 kindur ofan í íslendinga.

70-80% af þjóðinni vill hvalveiðar, 20% eru á móti. Ef það er eitthvað eftir af lýðræðinu í þessu landi þá þarf ekkert að vera rífast út af þessu.

Stefán Gunnlaugsson, 21.2.2009 kl. 18:36

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aðalsteinn Bjarnason.

Í opinberri umræðu eru ALLAR skoðanir heimskulegar sem ekki eru byggðar á rökstuðningi og eitt hundrað órökstuddar skoðanir eru jafn heimskulegar og ein órökstudd skoðun í opinberri umræðu.

Hrefnukjöt
kemur að sjálfsögðu í staðinn fyrir annað kjöt hér, fyrst og fremst nautakjöt frá íslenskum bændum, og þeir framleiða einnig til dæmis svínakjöt, kindakjöt og kjúklinga.

En þú lifir náttúrlega bara á súkkulaðikexi eins og Bjarni Harðarson
bóksali á Selfossi.

Þorsteinn Briem, 21.2.2009 kl. 18:53

13 Smámynd: Aðalsteinn Bjarnason

Já Steini, það er náttúrulega um að gera að útiloka allt annað kjöt á markaðnum en niðurgreitt kjöt frá bændum. Þetta er flottur rökstuðningur gegn hvalveiðum. Eru þá ekki hreindýraveiðar óæskilegar líka?

Ég held að svona orðljótir öfgamenn eins og þú séu einhverjir mestu kosningasmalar Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir.

Aðalsteinn Bjarnason, 21.2.2009 kl. 19:04

14 identicon

Vel á minnst, þessu tengt, kunningi þinn Bubbi verður með þátt næsta mánudag þessu tengt:

Er peningagræðgi fíkn?.

Flutningur: mánudagur 23. feb. 2009 kl. 22.07, miðvikudagur 25. feb. 2009 kl. 02.03.

Er peningagræðgi fíkn? Gestur Bubba Morthens í þættinum Færibandið í kvöld er Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi. Þeir félagar ætla m.a. að ræða birtingarform fíknarinnar og hver veit nema þeir geri læknisfræðilega úttekt á græðgi.

http://dagskra.ruv.is/nanar/6912/

Ari (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 19:28

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aðalsteinn Bjarnason. Það er sjálfsagt mál að fjölga í Sjálfstæðisflokknum. Ein sjallastelpan var til dæmis hjá mér í nótt og við skulum vona að eitthvað komi út úr því fyrir flokkinn.

Hérlendis kemur hrefnukjöt aðallega í stað nautakjöts frá íslenskum bændum en hér er fyrst og fremst kindakjötsframleiðslan niðurgreidd.

Hrefnuveiðar hér eru sumarvinna en íslenskir bændur starfa allt árið. Og því minna sem þeir geta framleitt og selt hér, því meiri stuðning þurfa þeir frá íslenska ríkinu. Aukinn innflutningur á kjöti hér þýðir því meiri stuðning frá íslenska ríkinu og Evrópusambandinu ef Ísland ætti aðild að því.

Og ef íslenskir bændur þurfa að bregða búi á næstu árum vegna samdráttar í kjötsölu fara þeir að öllum líkindum á atvinnuleysisbætur.

Hvalveiðar hér eru því heimskulegar, hvernig sem á þær er litið, en þú heldur nátúrlega að sjálfstæðismenn séu gáfaðri en aðrir vegna þess að fleiri eru í Sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum.

Þorsteinn Briem, 21.2.2009 kl. 20:35

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Náttúrlega" átti þetta nú að vera en ekki eru sjallastelpurnar náttúrulausar, svo mikið er víst.

Þorsteinn Briem, 21.2.2009 kl. 20:44

17 Smámynd: Hlédís

Steini Bríem!

Stendur nú til að bæta SJALLA-stofninn og þú tekinn til undaneldis?  Allsendis ógalið    Náttúrulega er gott er að vita að náttúruna vantaði ekki í sjallastelpuna.

Að breyttu breytanda má nú kveða:

"Sjallastelpan sagði já / og svo fóru þau í bíó.

Ekki leið á löngu þar til .... " o s frv.

Hlédís, 21.2.2009 kl. 21:16

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það þarf að veiða nokkur þúsund hvali á ári til að það gagni eitthvað í því að minnka hvalastofninn. En síðan gleymist eitt atriði. Sú kenning að hvalirnir muni um síðir éta upp allt lífríki sjávarins stenst ekki.

Ef það væru þannig, þá hefðu hvalirnir fyrir löngu verið búnir að éta þetta upp á þeim öldum og árþúsundum sem þeir voru ekkert veiddir af mönnum.

Hvalasérfræðingur einn útskýrði þetta fyrir mér fyrir mörgum árum á þennan veg: Lífríkið leitar sjálft jafnvægis. Fjölgi hvölum fram yfir ákveðið mark fer fæðuskortur að herja á þá og grisja stofninn sjálfkrafa. Nýtt jafnvægi myndast, að vísu með eitthvað minna af þorski en áður var en samt verður það jafnvægi. Um milljónir ára sá náttúran sjálf um að viðhalda jafnvægi sem alla tíð hefur þó sveiflast innan ákveðinna marka.

Eina dýrategundin sem hefur aðstöðu og afl til að útrýma dýrategundum er maðurinn. Það hefur hann gert víða bæði í sjó og á landi. Frægasta dæmið er nær alger útrýming vísunda á sléttum Ameríku á 19. öld.

Ómar Ragnarsson, 21.2.2009 kl. 21:58

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjallastelpum svaf þar hjá,
eitt sumarkvöld í Ríó,
Önnu, Siggu og Unni Gná,
og átti með þeim tríó.

Þorsteinn Briem, 21.2.2009 kl. 21:58

20 Smámynd: Stefán Gunnlaugsson

Steini, þetta eru rosaleg rök hjá þér. Bönnum hrefnuveiðar af því það er stundað á sumrin. Hvernig er það, heyja bændur ekki bara á sumrin, það hlýtur að þurfa banna það líka.

Miðað við þessi rök þín um að hvalkjötsframleiðsla sé heimskuleg, þá hlýtur það sama að gilda um allan annan sjávarútveg líka, já og bara alla kjötframleiðslu... nei fyrir gefðu hún er líka sunduð að veturnar... blablabla.

Stefán Gunnlaugsson, 21.2.2009 kl. 22:00

21 Smámynd: Stefán Gunnlaugsson

Þetta er alveg rétt hjá þér Ómar.

En þegar maðurinn og hvalurinn vinna saman af því að veiða sömu tegundirnar þá hlýtur það að enda með enn verra og dýpra hruni. Ef við íslendingar ætlum að lifa á t.d.  loðnu og þorskveiðum þá verðum við að veiða töluvert að hval, það segjir sig sjálft. Og það ættum við að sjálfsögðu að gera.

Núna er ástandið í hafinu í kringum landið orðið þannig að loðnan er hruninn. Það þýðir að t.d. hrefnan er mikið mikið meira í bolfisk áti en fyrir 20 árum Þetta vita menn eftir vísindaveiðarnar á hrefnu. Þetta mun leiða af sér að bolfiskstofnarnir hrynja á næstu árum.

Við íslendingar vorum svo "heppnir" að það var gengið mjög nærri hvalastofnunum hér við land 19 og 20 öld. Núna hefur dæmið snúist við af því að við höfum ekki veitt nóg að hval undanfarna áratugi. Þarna hefði verið hægt að stýra þessu betur og taka mun meiri arð út úr hafinu en við munum geta gert.

Þarna finnst mér náttúruverndin vera farin að vinna gegn sjálfri sér.

Stefán Gunnlaugsson, 21.2.2009 kl. 22:13

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stefán Gunnlaugsson. Hrefnuveiðar eru eingöngu stundaðar hér á sumrin en íslenskir bændur starfa að sjálfsögðu allt árið. Þetta eru nú ekki ný sannindi. Og hrefnukjöt hér kemur í stað kjöts frá íslenskum bændum. En þú heldur náttúrlega að það komi í staðinn fyrir súkkulaðikex.

Íslenskir bændur heyja á sumrin, en ekki veturna, sama hvort þeir eru með kýr eða kindur, en þú heldur kannski að þeir liggi uppi í rúmi á veturna. Kýr eru mjólkaðar tvisvar á dag allt árið og gefa þarf kindum hey á veturna. Hænsnum og svínum þarf einnig að sinna allt árið.

Hversu heimskt getur fólk verið?!

Þorsteinn Briem, 21.2.2009 kl. 22:34

23 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Við skulum nú aðeins líta langt til baka ,í kringum 1900 var nóg til af fiski og nóg til af hvölum, gengu þá torfur af síld og loðnu til hrygningar á landgrunninu ,ekki var mikið veitt af hvölum við landið .Það var ekki fyrr en maðurinn kom með betri tækni til að þurrka upp fiskimið, eyðileggja skjól fyrir fiskinn á hafsbotni með veiðifærum sem sléttuðu botninn og gerðu stór svæði á hafsins að eyðimörk að fisk fór að fækka .Það er ekki hægt að segja að hvalir hafi minnkað fiskstofna heldur var það græðgi mannanna sem gerði það og með ógætilegri notkun veiðifæra .Þess vegna tel ég að með því að veiða hvali verði það ekki til að auka fiskgengd heldur þarf miklu meira til . því nokkrir hvalir til eða frá skipta ekki máli ,en getur haft áhrif á álit okkar í alþjóðasamfélaginu.

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 22.2.2009 kl. 12:14

24 Smámynd: Aðalsteinn Bjarnason

Þetta er ekki rétt Guðmundur, í kringum 1900 var búið að ganga mjög nærri mörkum hvalastofnum með veiðum, Norðmenn stunduðu hér stórfelldar veiðar á 19 öld og það standa enn minjar þeirrar "stóriðju" víða á vestfjörðum. Ef ekki hefði verið búið að ganga svona á hvalastofnana áður en menn fóru að beita stórvirkum aðferðum við bolfiskveiðar þá hefði afrakstur fiskveiðanna orðið mun minni en raunin varð. Nú eru hvalastofnarnir að rétta úr kútnum aftur og það kemur niður á fiskveiðum, um þá staðreynd þarf ekki að deila.

Auðvitað skipta þessu fáu dýr sem nú er búið að ákveða að veiða engu máli varðandi viðgang stofnana, en vonandi er þetta upphafið af alvöru veiðum.

það hlýtur að vera hagur allra að við nýtum þessa vannýttu auðlind. Í stað þess að banna veiðar til þess að þóknast álit alþjóðasamfélagsins þá eigum við að reyna að sannfæra samfélagið um nauðsyn þessara veiða.

Aðalsteinn Bjarnason, 22.2.2009 kl. 12:50

25 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Auðvitað hvaða rugl er þetta í mér Aðalsteinn þegar þú nefnir það rifjast það upp en það gerðist á tiltölulega stuttum tíma en ég bakka samt ekki með þessa rányrkju mannsins á fiskistofnunum og eyðileggingu hafsbotnsins í hringum landið þannig að fiskurinn á hvergi orðið skjól. Hversu mikil nauðsyn það er að veiða hvali má deila um .

Er frekar ósáttur við aðferðafræðinni hvernig sagt er að markaður hafi opnast og verið selt fyrir 90 milljónir en gleymdist að nefna að það kostaði 120 milljónir að flytja kjötið.

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 22.2.2009 kl. 13:04

26 Smámynd: Hlédís

Eru hænsni og svín á stórbúum Íslands ekki fóðruð á gjaldeyri að mestum hluta ennþá?

Hlédís, 22.2.2009 kl. 14:00

27 Smámynd: Aðalsteinn Bjarnason

Það er alveg rétt Guðmundur að það er búið að skemma hafsbotninn víða með togveiðum.

Varðandi markaðina fyrir hvalkjöt, þá má nú benda á það að þegar Norðmenn stunduðu hér stórfelldar hvalveiðar á sínum tíma þá var kjötinu hent, einungis spykið hirt. Ég er nú ekki að mæla með slíku, en þó skrokkarnir af þessum dýrum væru einungis notaðir í bræðslu og mjöl þá væri það í lagi ef veiðarnar myndu borga sig þannig. Það má alveg eins landa þessu sjáfarfangi í bræðslu eins og loðnu. En ef það er hægt að nýta hvalinn til manneldis þá er það auðvitað æskilegra.

Aðalsteinn Bjarnason, 22.2.2009 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband