150 milljarða offjárfesting, bara í bílum ?

Dæmi um offfjárfestingar Íslendinga í gróðærinu blasa alls staðar við. Hvergi er til dæmis hægt að skima um utan húss án þess að sjá bíla, sem augljóslega eru jafnvel mörgum milljónum dýrari en sem svarar því að fullnægja þörfum eigendanna.

Það lætur nærri að meðalkaupverð hvers íslensks bíls í gróðærinu hafi verið um 2,5 milljónir króna. Tugþúsundir manna keyptu bíla, sem voru mörgum milljónum króna dýrari en þeir bílar sem þeir gátu auðveldlega komist af með að eiga og margir tóku jafnvel mestallt bílverðið að láni.

Ótal dæmi sýna að lán til íbúðakaupa voru oft höfð svo há að hægt var að láta bílakaup fljóta með í leiðinni sem viðbót. Á tímabili var nánast æpt á fólk að taka lán og veðsetja allt upp í topp. 

Þúsundir manna töldu sér trú um að þeir græddu þeim mun fleiri milljónir sem þeir keyptu sér dýrari bíla, af því að gengi krónunnar var skráð allt of hátt og bílarnir fengust því í raun á allt að 40% afslætti, einkum pallbílarnir, sem verktakarnir alráðu fengu flutta inn með sérstökum fríðindum. 

Þetta var svipað hugarfar og fyrstu áratugina í sólarlandaferðunum þar sem sumir Íslendingar drukku eins og berserkir allan tímann til að "græða" sem mest á lágu vínverði erlendis. 

Ef við gefum okkur að meðakaupverð hvers bíls á Íslandi á núgildandi gengi sé einnni milljón króna hærri en þurft hefði að vera, hefur offjárfesting í bílum numið samtals 150 milljörðum króna!

Á hafnarbökkum standa nú 4000 nýir óseljanlegir bílar og ef meðalverð þeirra er talið um 2,5 milljónir króna er þar um að ræða 10 milljarða króna fjárfestingu sem engum gagnast.

Það væri fróðlegt að reikna út hvað gagnslaus offjárfesting í nýjum húsum nemur mörg hundruðum milljarða króna og áætla hve miklu betur þjóðin væri stödd ef svona stór hluti hennar hefði ekki látið blekkjast af fagurgala snillinganna sem bjuggu spilaborgina miklu til.  

 


mbl.is Laugin kostar 1,8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er alltaf heimskulegt að kaupa einkabíla og heimilistæki á afborgunum.

Fólk, sem ekki getur lagt fyrir til að eignast slíka hluti, hefur heldur ekki efni á að greiða afborganir af þeim.

Og hérlendis er yfirleitt einn maður í hverjum einkabíl.

Um 1.200 fullkláraðar nýjar íbúðir stóðu tómar á höfuðborgarsvæðinu í fyrrasumar, að sögn Ara Skúlasonar, hagfræðings hjá Landsbankanum, og margar nýjar íbúðir standa tómar á Egilsstöðum.

Þorsteinn Briem, 22.2.2009 kl. 16:14

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef hver íbúð er að meðaltali 30 milljón króna virði liggja 36 milljarðar króna í þessu húsnæði og ef við bætum við tómu verslunar- og iðnaðarhúsnæði erum við komin á hraðferð yfir 200 milljarða.

Ómar Ragnarsson, 23.2.2009 kl. 00:14

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Auk 1.173 fullkláraðra nýrra íbúða, sem stóðu tómar á höfuðborgarsvæðinu í fyrrasumar, voru þá á því svæði 509 fokheldar íbúðir, 1.250 íbúðir í byggingu, 820 grunnar og 3.583 nýjar lóðir, samtals 7.335, að sögn Ara Skúlasonar, hagfræðings hjá Landsbankanum.

(Sjá nánar á blaðsíðu 24 í Fréttablaðinu 12. febrúar síðastliðinn.)

Þorsteinn Briem, 23.2.2009 kl. 00:43

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Meðalkaupverð á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu var 28,6 milljónir króna í fyrra en 27,4 milljónir árið 2007, samkvæmt Landskrá fasteigna.

Þorsteinn Briem, 23.2.2009 kl. 01:09

5 Smámynd: Offari

Ég á bara 7 bíla svo ég var ekkert að offjárfesta.

Offari, 23.2.2009 kl. 02:02

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er nú gott að þú ferð ekki offari.

En Ómar fer kannski offari í loftfari.

Þorsteinn Briem, 23.2.2009 kl. 02:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband