Er skollaleikur í gangi ?

"Samfylkingin verður að gera sömu kröfur til sjálfrar sín og hún gerir til annarra" sagði Jón Baldvin Hannibalsson í Silfri Egils nú rétt í þessu og réttlætti með því framboð sitt í forvali flokksins og á landsfundi gegn sitjandi formanni.

En Jón Baldvin sagði líka annað, - og taki menn nú eftir, - að þetta væri háð því að 80 daga stjórnin stæði við það kosningaloforð sitt að breyta kosningalögunum og innleiða persónukjör í kosningunum. 

Sem sagt: Ef þetta loforð verður svikið á Jón Baldvin útgönguleið ef honum líst ekki á gengi sitt í framboðum sínum. Þetta setur þau ummæli hans nýlega í nýtt ljós þegar hann sagði að hann hefði engu að tapa. 

Á borgarafundi í Iðnó í fyrradag kom í ljós að lögfræðingar deila um það hvort 2/3 hluta atkvæða þurfi á Alþingi til að innleiða persónukjör. Ef aukinn meirihluta þarf mun Sjálfstæðisflokkurinn fella frumvarpið ef marka má ummæli Birgis Ármannssonar, sem kom á fundinn sem talsmaður flokks síns.

Það er ekki að sjá að neitt sé í gangi til að úrskurða um það hvort 2/3 hluta atkvæði þurfi. Hvers vegna?

Egill Helgason sleppti gullnu tækifæri til að spyrja Jón Baldvin um það hvað hann myndi gera ef persónukjör yrði ekki innleitt. Ég er búinn að nefna tilgátu þess efnis.

Helgi Hjörvar sagði á borgarafundinum að Samfylkingin myndi bjóða upp á persónukjör ef lögunum yrði breytt og Steingrímur J. Sigfússon sagðist myndu mæla með því við kjördæmaráð síns flokks að gera það. 

Hvers vegna er ekkert í gangi til að reyna að skera úr um þetta lögfræðilega sem allra fyrst?

Er það hugsanlega vegna þess að undirliggjandi samtrygging stjórnmálamanna sé í gangi? Þeir reikni dæmið þannig að vegna óvissu um það að 2/3 reglan gildi muni Sjálfstæðisflokkurinn koma geta komið í veg fyrir innleiðingu persónukjörs og þeir muni í raun vera honum þakklátir fyrir það?

Og er það svo að Jón Baldvin Hannibalsson reikni með þessu líka og sjái þannig útgönguleið fyrir sig ef illa gengur í kosningafyrirkomulagi, sem hann sagði í Silfri Egils að væri sér óhagstætt?

Niðurstaða mín: Það verður nú þegar að leita allra ráða til að skera úr um það hvort einfaldur meirihluti ráði á Alþingi úrslitum um þetta mál eða 2/3 hlutar atkvæða.

Þá er hægt að komast hjá því að spyrja hvort hér sé skollaleikur í gangi af allra hálfu.  


mbl.is Ingibjörg býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sammála..það ætti aðs skera úr um það sem allra fyrst svo við vitum að hverju við göngum. Kannski er bara alls ekki hægt að koma þessu í kring meðan sjálfstæðisflokkur situr fyrir og þá erum við undirseld gamla laginu eina ferðina enn og allt tal um breytingar hjómið eitt.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 1.3.2009 kl. 14:01

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það þarf ekki að breyta Stjórnarskránni til að leyfa óraðaða lista í alþingiskosningunum í vor:

Lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000:

129. gr. Lögum þessum verður breytt eins og fyrir er mælt í stjórnarskránni.

Ákvæðum 6. gr. um kjördæmamörk og ákvæðum 107.–108. gr. um úthlutun þingsæta verður ekki breytt nema með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi, sbr. 6. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar."

Og nú þegar er í kosningalögunum leyft að breyta röð frambjóðenda á listunum:

82. gr. Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross í ferning fyrir framan bókstaf þess lista á kjörseðlinum sem hann vill kjósa.

Vilji kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.

Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.

83. gr. Kjósandi má ekki hagga neitt við listum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta á þeim nafnaröð."

Þorsteinn Briem, 1.3.2009 kl. 14:40

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það mat mitt að núverandi lög geri í raun persónukjör ómögulegt sannar sagan sjálf og kom vel fram hjá Þorkeli Helgasyni á borgarafundinum í fyrradag.

Lögin núna eru meira að segja verri en lögin þar á undan, því að vægi röðunar flokkanna er meira en áður var og of mikið til að kjósendur hafi í raun meira vald en sem nemur því að geta fært menn lítillega til með umfangsmiklum útstrikunum.

Deilur myndu strax vakna um það hvort yfirlýsing framboðs um að listinn sé af þess hálfu óraðaður hafi gildi, bæði með tilliti til hefðar og orðanna "breyta nafnaröð" í 82.gr.

Ekkert framboðanna myndi leggja út í það að bjóða fram óraðaðan lista upp á svona vafasöm býti. Þess vegna verður borið fram frumvarp á næstu dögum um að breyta þessu afgerandi og ótvírætt.

Þar að auki liggur fyrir fylgiskjal á fyrra stigi undirbúning og setningar núgildandi laga sem tekur 110. grein líka með og það er þetta sem veldur ágreiningi lögfræðinga.

Ekkert framboðanna myndi leggja út í það að skora á kjósendur sína að taka svo almennan þátt í eigin uppröðun að það umbylti nafnaröðinni sem talað er um

Ómar Ragnarsson, 1.3.2009 kl. 16:27

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í greinargerð með frumvarpi til laga um kosningar til Alþingis, Lögum nr. 24/2000, segir meðal annars:

"Í 6. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, er enn fremur áskilið samþykki aukins meiri hluta atkvæða til að breytingar verði gerðar á ákvæðum kosningalaga um kjördæmamörk og tilhögun á úthlutun þingsæta, sbr. einnig síðari málsgrein þessarar greinar og 6. og 107.–109. gr. frumvarps þessa.

Að þessum ákvæðum frátöldum er hins vegar lagt í vald almenna löggjafans að ákveða hvert atkvæðamagn þurfi til afgreiðslu mála á Alþingi. Skv. 67. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, ræður afl atkvæða úrslitum mála, en skv. 2. mgr. 64. gr. s.l. er engin ályktun lögmæt nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra er atkvæði greiða, ljái henni atkvæði sitt.

Almennt dugir því með öðrum orðum einfaldur meiri hluti til að breyta öðrum ákvæðum kosningalaga en að framan greinir.
"

Frumvarp til laga um kosningar til Alþingis.

Óraðaðir listar í alþingiskosningum falla hvorki undir kjördæmamörk né tilhögun á úthlutun þingsæta.


Þetta atriði er því alveg nógu skýrt í Stjórnarskránni, kosningalögunum og frumvarpinu með þeim og því þarf ekki að leita lengra til að skýra það, enda væri þá verið að skerða lýðræðið í landinu. Og það er ekki hægt að gera það með einhverjum "lögskýringargögnum" sem ganga í berhögg við bæði kosningalögin og Stjórnarskrána.

Hins vegar kom 5%-reglan í úthlutun jöfnunarsæta inn í Stjórnarskána fyrir tíu árum, með stjórnskipunarlögum nr. 77/1999. "Þá felst í stjórnarskipunarlagafrumvarpinu það nýmæli að stjórnmálasamtök þurfa að fá minnst fimm af hundraði atkvæða á landsvísu til að eiga rétt á jöfnunarsætum."

Þorsteinn Briem, 1.3.2009 kl. 18:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband