Dauðaorlof.

Ef eitthvert eitt atriði ætti að vera efst á námsskránni í skyldunámi er það dauðinn og hvernig eigi að líta á hann og bregðast við dauða sínum og annarra. Af hverju? Af því, að eftir að lífið er byrjað er dauðinn það eina sem er 100% víst að hver manneskja mun þurfa að hlíta.

Áður fyrr upplifðu allir nálægð dauðans á sveitaheimilunum, bæði dauða dýranna og heimilisfólksins. Gamla fólkið lá yfirleitt banaleguna heima hjá afkomendum sínum og fræðsla um hann og viðbrögð við honum komu af sjálfu sér.

Í nútímasamfélagi ríkir firring og þar með fáfræði gagnvart dauðanum. Móðir mín lést svo snögglega fyrirvaralaust að spurningin um viðbrögð fyrir dauða hennar kom ekki upp.

Þegar faðir minn heitinn lagðist banaleguna tíu árum síðar áttaði ég mig á því að ég var algerlega óundirbúinn og fáfróður um það hvernig ég skyldi umgangast hann þennan erfiða tíma þegar við, hin nánustu, skiptumst á að sitja hjá honum dag og nótt.

Hvernig átti að koma fram við hann? Vorkenna honum? Stappa í hann stálinu?

Hið seinna varð fyrir valinu án þess að maður hefði fengið nokkrar leiðbeiningar um þetta og í ljós kom að í hans tilfelli reyndist það vera rétt. Faðir minn háði langa baráttu í banalegunni af hughreysti og reisn sem fáir hefðu búist við að maður með hans meðfæddu eiginleika gæti sýnt.

Um hann áttu orð Þórunnar Elfu Magnúsdóttur leikkonu vel við: Dauðinn er kóróna lífsins.

Það var dapurlegt að kynnast því að hundruð aldraðra heyja síðustu baráttuna meira og minna án nærveru nákominna ættingja. Með samstilltu átaki nánustu ættingja föður míns var hægt að tryggja að hann væri aldrei einn. Hann tók síðustu andvörpin umvafinn af nærveru afkomenda sinna.

Dauði föður míns setti síðustu stundir lífsins í nýtt ljós fyrir mér. Alveg eins og að allt frá fyrstu stundum míns eigin lífs hafði hann verið náinn lífsförunautur og núna hinn eini, sem hafði verið samferða alla leið, og þessar fyrstu stundir því ómetanlegar, einkum fyrir hann, sem mundi eftir þeim, - þannig voru síðustu stundir okkar saman enn mikilvægari fyrir okkur báða.

Því miður var banalega hans svo löng að ég átti erfitt með að láta lungann úr heilu sumri binda mig í næsta nágrenni við hann. Hann sagðist ekki vilja binda neitt okkar svo mikið

Ég fór í eina ferð þetta sumar sem var of löng til þess að ég kæmist til hans með skömmum fyrirvara og því miður fór hann einmitt þá. Ég mun ævinlega harma það. Ég vissi það ekki fyrr en eftir á hvers við báðir höfðum farið á mis.

Því lýk ég þessum pistli með tillögu: Alveg eins og til eru lög um fæðingarorlof til að tryggja umönnun hins nýfædda einstaklings ætti að vera til svipaður möguleiki til að tryggja að sams konar umönnun hinna nánustu sé veitt síðustu dagana sem einstaklingar lifa. Það er ómannúðlegt að heyja hina síðustu erfiðu baráttu í einsemd.


mbl.is Virðing þegar dauðinn nálgast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Mikið ertu heppinn að hafa átt foreldra sem þú getur talar svona vel um, og átt góðar minningar um, það get ég sagt þér, að það er ekki sjálfgefið.

Sigurveig Eysteins, 1.3.2009 kl. 02:14

2 Smámynd: Kjartan Björgvinsson

Það er rétt hjá þér að dauðinn er það eina sem er öruggt, allt annað er háð þeim valkostum sem við veljum.  Ég er hins vegar ekki sammála þér í að það að takast á við dauðann er eitthvað sem hægt er að kenna eins og mannkynssögu.  Ég tel að það sé hluti af eðlilegum þroska að verða fyrir áföllum og takast á við þau. Dauði hvers og eins er háður þeim minningum og áhrifum sem viðkomandi hefur haft á mig, þig eða einhvern annan. Það er ekki hægt að kenna. Það er heldur ekki ástæða til að hafa áhyggjur af að dauðinn verði og fjarlægur, af augljósum ástæðum eigum við öll eftir að ganga í gegnum þá reynslu, að minnsta kosti þegar við sjálf kveðjum þennan heim.

Með bestu kveðju.

Kjartan Björgvinsson

Kjartan Björgvinsson, 1.3.2009 kl. 04:14

3 Smámynd: Hlédís

Sæll Ómar!  Þakka góðan og persónulegan pistil. Ég er sammála því að fræðsla um dauðann sé hluti af fræðslu um lífið - og að gefa verði rúm fyrir dauða manneskju í samfélaginu, eins og gert er við fæðingu. Við snúum ekki við þeirri "þróun" að dauðinn er að mestu fluttur frá heimilunum inn á stofnanir.    Kjartan! Dauðinn er hluti af mannkynssögunni - þó pistillinn fjalli ekki um þörf á aukinni kennslu í fræðigreininni Dauði.  Undirritaðuð hefur verið í snertingu við veikindi og dauða náinna ættingja og við læknisfræði í tæp 50 ár. Finnnst mér of margir, einnig læknar,  telja mögulegt að sigra dauðann - verði tæknin bara nógu góð. 

Hlédís, 1.3.2009 kl. 07:11

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hefði ekki verið eins óöruggur yfir því hvernig ég átti að umgangast dauða föður míns ef ég hefði áður fengið einhverja fræðslu þar um.

Svonefndur líknrdauði held ég að sé miklu algengari en almennt er viðurkennt. Þá er ég að tala um vægasta afbrigði hans, þá óhjákvæmilegu ákvörðun eftirlifandi hve lengi eigi að neyta allra hugsanlegra ráða til að framlengja dauðastríð langt fram yfir það sem telst mannúðlegt og siðlegt.

Það er efni í annan pistil.

Ómar Ragnarsson, 1.3.2009 kl. 07:18

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hefði ekki verið eins óöruggur yfir því hvernig ég átti að umgangast dauða föður míns ef ég hefði áður fengið einhverja fræðslu þar um.

Svonefndur líknrdauði held ég að sé miklu algengari en almennt er viðurkennt. Þá er ég að tala um vægasta afbrigði hans, þá óhjákvæmilegu ákvörðun eftirlifandi hve lengi eigi að neyta allra hugsanlegra ráða til að framlengja dauðastríð langt fram yfir það sem telst mannúðlegt og siðlegt.

Það er efni í annan pistil með ákveðinni niðurstöðu.

Ómar Ragnarsson, 1.3.2009 kl. 07:18

6 Smámynd: Brattur

Ég held að það sé alveg rétt sem þú segir að nærvera nákominna skiptir miklu máli þegar síðasta baráttan er háð og þá bæði fyrir þann sem dauðastríðið háir og þann sem eftir lifir.

Brattur, 1.3.2009 kl. 09:56

7 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Góður pistill, Ómar. Ég er samála þér um að við þurfum að huga betur að fjölskyldu og vinum bæði í lífinu sem og í dauðanum. Hvað varðar tillögu þína um 'dauðaorlof' (ef ég skil hana rétt) þá er ég ekki sammála þér að það sé nokkuð sem ríkið eða sjóðir á vegum hins opinbera eigi að skipta sér af. Vitundarvakning um þetta þarf að gerast hjá einstaklingum og fjölskyldum en leysist ekki með því að ríkið taki yfir enn einn þáttinn í samfélagi mannanna.

Sveinn Tryggvason, 1.3.2009 kl. 11:23

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hugmynd mín um dauðaorlof byggir ekki á því að það verði eins langt og fæðingarorlof og kannski ekki heldur að það verði í sama formi.

Hugsanlega mætti snúa hugmyndinni upp í það að verða nokkurs konar lífslokasamningur þjóðfélagasins við þann þegn og hans nánustu, sem er að ljúka ævihlaup sínu.

Inni í slíkt mætti falla hluti af útfararkostnaði.

Ómar Ragnarsson, 1.3.2009 kl. 12:19

9 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Já. Þegar afi minn var 91. árs dó hann. Hann hafði fylgt mér í sjö ár, alla stuttu æfi mína. Mér fannst það ekkert óeðlilegt hann hafði frá rætt þetta við okkur frá því ég mundi eftir mér fyrst beinlínis óskað eftir því. Við höfðum farið með afa á næsta bæ til að kveðja gamlan mann. Skýringin á heimsókninni var: Hann far að fara innettir til að deyja. Svo kysstust þeir á munninn gömlu mennirnir eins og þeir höfðu gert í réttunum. Svo kom gamli maðurinn stuttu seinna í kistu og var grafinn.

Tveim árum seinna sagðist afi ætla að skreppa innettir til að deyja, sama serimonía, allir kysstir. Afi hafði ekki áður farið innettir þannig að þetta voru meiri tíðindi en að hann mundi deyja í innettirferðinni. Afi kom stuttu seinna til baka í kistu sem sett var inn í stofu í nokkra daga. Með þessa nýju mublu var svo farið með niður í garð og hún grafin með afa sem innihald og lífið hélt áfram án afa.

Ári áður hafði minnsti bróðir minn dáið af slysförum. Það var skelfilega óvænt. Afi hamraði á því, hann hafði sjálfur misst fimm börn. Hann ræddi þetta upphátt við Guð sinn: "Því tókst þú ekki mig fyrst þú þurftir að taka líf af heimilinu".

Dauðinn er sennilega samt alltaf óvæntur og misjafn.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 1.3.2009 kl. 14:09

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Föðuramma mín fékk krabbamein og því flutti ég til hennar. Bjó hjá henni síðasta árið sem hún lifði en síðustu vikuna var hún á sjúkrahúsi.

Stelpurnar voru svo hræddar við hana að þær fóru inn og út um svefnherbergisgluggann hjá mér til að þurfa ekki að hitta þessa hræðilegu konu.

Hún talaði mikið um að margir hér hefðu trúlega fengið krabbamein af því að skeina sig á dagblöðum.

Það gerði prentsvertan. Mogginn lagði marga í gröfina.

Seinna hætti ég á Mogganum. Axlaði ábyrgð.

Móðurafi minn lifði hins vegar öldum saman. Fæddist árið 1899 og dó árið 2000.

Hann var einnig á sjúkrahúsi síðustu vikuna sem hann lifði. Fram að þeim tíma bjó hann einn áratugum saman, eldaði sjálfur, ryksaug stigaganginn og málaði íbúðina.

Þorsteinn Briem, 1.3.2009 kl. 15:07

11 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Faðir minn lést þ. 11. sept. 2004 af völdum krabbameins, eftir langa og erfiða legu. Ég minnist þess enn þegar við fjölskyldan vorum spurð hvað við vildum að gert yrði. Við vorum öll sammála um líknarmeðferð vegna þess að hann var dauðvona og búinn að líða ósegjanlegar kvalir. Það sem stundum heldur vöku fyrir mér, enn þann dag í dag, er að kvöldið áður en hann dó var ég hjá honum, hann var með rænu af og til svo ég keyrði heim og ætlaði að heimsækja hann næsta dag. Það var hringt í mig um morguninn, um það leytið sem ég var að gera mig ferðbúinn og þá var hann búinn að kveðja. Ég iðrast þess enn að hafa ekki getað verið hjá honum og það þjáir mig stundum því hann var mér svo óumræðilega mikils virði. Ég er enn að reyna að sætta mig við þetta, því innst inni finnst mér ég hafa brugðist honum og kannski er það erfiðasta að ég gat ekki leitað til neins til að létta á hjarta mínu. En ég vona að þetta lagist með tímanum, allavega gat ég í það minnsta bloggað um þetta nú og það er það nærmasta sem ég hef komist í að tjá mig. Bestu kveðjur.

Þráinn Jökull Elísson, 1.3.2009 kl. 22:51

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég skil þig vel, Þráinn. Tvær stundir í lífi foreldris og barns eru stærstar: Fæðingin, sem annar aðilinn er meðvitaður um, og dauðinn, sem báðir eru meðvitaðir um og þess vegna er hún stærri og mikilvægari.

Ómar Ragnarsson, 2.3.2009 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband