2.3.2009 | 18:19
"Var glímumaður og skellti honum illa..."?
Skylmingamenn notað hlífar svo að tryggt sé að þeir reki ekki hver annan á hol. Sverð eru hins vegar drápstól að uppruna. Brögð júdómanna eru æfð og notuð þannig að þegar þeir skella harkalega í gófið þá dreifist höggið svo að þeim verði ekki meint af.
Ef júdómaður beitir öflugu bragði á mann, sem ekki hefur æft viðbrögð við því, eykst slysahættan af athæfinu.
Til er ákveðinn "lás" í júdói sem getur drepið viðkomandi á augabragði.
Umgjörð keppni í skotfimi er þannig að öryggi allra sé tryggt. Byssur eru hins vegar drápstól.
Knattspyrnumenn nota legghlífar. Hnefaleikamenn nota hlífðarhjálma og þykka hanska til að sjá til þess að ólympískir áhugamannahnefaleikar hafi ekki í för með sér meiri meiðsli en til dæmis handbolti eða skíðaíþróttir.
Ég lýsti einu sinni heila nótt úrslitakeppni á heimsmeistaramóti í ólympískum hnefaleikum. Enginn meiddi sig en í úrslitaleik kvenna í handbolta daginn eftir rotaðist ein og tvær aðrar urðu að fara af leikvelli vegna meiðsla.
Í ofangreindum íþróttum og ýmsum íþróttum svo sem karate, tækvandó og jafnvel íslenskri glímu eru notaðar aðfarir sem hægt er að beita á hættulegan hátt af hálfu ofbeldismanna.
Slíkir menn eiga ekki aðeins að hlíta landslögum og vera refsað samkvæmt þeim, heldur einnig að vera dæmdir frá keppni í íþróttagreinununum sem þeir stunda og vanvirða með hegðun sinni.
Knattspyrnumenn sparka öllum mönnum fastar og einhver verstu meiðsli sem ofbeldismenn geta valdið felast í spörkum í höfuð. Ég sé samt varla fyrir mér fyrirsögn á borð við "....stundaði knattspyrnu og sparkaði í höfuðið á liggjandi manni."
Ofbeldismenn finna því miður alltaf aðferðir til að beita ofbeldinu. Við mat á íþróttagreinum verður að kanna slysatíðni. Ekki er að sjá að keppni í skotfimi hafi fjölgað morðum hér á landi. Tilkoma bílaíþrótta virðist ekki hafa fjölgað umferðarslysum.
Hins vegar er umhugsunarefni að morð með skotvopnum eru þeim mun algengari í mismunandi löndum sem vopnaeign er meiri og reglur um þau frjálslegri.
Blóðug slagsmál skóladrengja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvað viltu með þessu, Ómar ? Ég skil ekki alveg hvað þú vilt með þessari færslu. Ég veit þína skoðun á hnefaleikum; en mér finnst þú ekki koma skoðun þinni um athæfið eða agabeitingu hjá félaginu til skila......
Eldur Ísidór, 2.3.2009 kl. 18:25
Sammála Eldi... en það er ekki til lás í júdó sem veldur dauða á augabragði.. þau brögð eru úr öðru komin, júdó var búið til sem sport. Í skotfimi er það ekki tilgangurinn að skjóta fólk, í fótbolta er tilgangurinn ekki að sparka í fólk. Í boxi er hins vegar tilgangurinn að berja fólk, kannski ekki alltaf að meiða en berja. Hvað sem því líður er ekki hægt að gera lítið úr því að einhver sé barinn í skólanum, nú eða vinnunni. Eitthvað væri sagt ef Kristinn H. héldi Pétri B. á meðan Ögmundur léti höggin dynja á honum.
Halldór (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 18:37
Ég geri meiri kröfur til iðkenda svonefndra bardagaíþrótta en annarra íþrótta ef iðkandi verður uppvís að því að nota færni sína á vítaverðan hátt.
Taka verður tillit til ungs aldurs þegar það á við, en enginn á að mínum dómi að geta komist hjá afgerandi keppnisbanni og helst að vera vísað úr íþróttafélaginu í að minnsta kosti í ákveðinn tíma.
En áhugamannahnefaleikar eru ekki eina íþróttagreinin þar sem menn öðlast ákveðna færni í að valda skaða eins og ég rek hér að ofan.
Ekki liggur fyrir hvor drengjanna tvegga sem höfðu sig mest í frammi í slagsmálunum olli meiri meiðslum.
Meðan það liggur ekki fyrir er varasamt að aðeins sé rætt um annan þeirra frekar en hinn. Ég minni á að í næstum öllum ofbeldisárásum af því tagi sem hér um ræðir er ekki um að ræða hnefaleikaiðkendur.
Ómar Ragnarsson, 2.3.2009 kl. 18:39
Ég er sammála þessu með keppnisbannið, Ómar. Það gerist beinlínis sjálfkrafa, samkvæmt íþróttanna reglum.
Ágúst Ásgeirsson, 2.3.2009 kl. 18:41
Það á að banna hann úr íþróttinni. Hef ekkert á móti boxi og æfði sjálfur box og uppáhaldsboxarinn minn er Mike Tyson. En ég veit að þegar unglingar sem eru í einherju hegðunarvandamáli fara að æfa box þá láta þeir útrás sína á púðan í staðinn fyrir einhvern í skólanum. Auðvitað eru allstaðar til einhver skemmd epli en er það ekki í öllum íþróttum? Algjörlega sammála Ómari.
Eggert (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 19:00
Velkominn í vinstri græna.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 2.3.2009 kl. 20:00
Ég tek undir það sem Halldór sagði hér að ofan. Hnefaleikar ganga út á að koma höggum í aðra manneskju.
Vésteinn Valgarðsson, 2.3.2009 kl. 22:40
Ólympískir hnefaleikar ganga út á það að safna stigum fyrir að snerta andstæðinginn en ekki að meiða hann eða rota. Í sumum lotunum á heimsmeistarakeppninni sem ég lýsti var ekkert stig skorað því að varnarleikurinn og það að víkja sér undan er aðalatriðið.
Í sinni háþróuðustu mynd gengur þetta út á að sanna getuna til að koma inn snertingu rétt eins og í skylmingum og karate.
Íslenska glíman snýst um það eitt að fella andstæðinginn til jarðar svo hann fái byltu, sem oft getur verið harkaleg og valdið meiðslum. Hversu margir beinbrotna ekki í byltum á Íslandi árlega ?
Eini sanngjarni mælikvarðinn á réttmæti íþróttagreina er sá, hve miklum meiðslum eða slysum þær valda. Skíðaíþróttir og jafnvel knattspyrna eru þar ofar á blaði en ólympískir hnefaleikar.
Atvinnumannahnefaleikar eru allt annars eðlis og réttilega bannaðir á Íslandi.
Ómar Ragnarsson, 2.3.2009 kl. 23:06
Hér í Noregi eru slík mál, þar sem persónur koma við sögu er hafa æft ákveðnar tegundir íþrótta s.s. hnefaleika, karate og annarra, þar sem menn læra ekki bara vörn heldur líka árás, dæmdir eins og þeir hefðu notað vopn (hníf). Hélt að það væri það sama á Íslandi..?
Snæbjørn Bjornsson Birnir (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 01:23
Þetta er nú ekki mikill boxari þessi strákur, nýddist á minni máttar og þorði ekki einu sinni einn í hann helvískur.
Það er náttúrulega stór galli að hnefaleikar á Íslandi hafa ávallt síðan Hnefaleikafélag Reykjavíkur var á sínum tíma endurstofnað snúist um eintóma peningahyggju og ekkert annað, einhverjir aular að reyna að græða einhverja þúsundkalla fyrir það að kenna einhverjum krökkum um eitthvað sem þeir hafa sjálfir ekki hundsvit á í stað þess að láta hlutinn snúast um vináttu og umhyggju milli einstaklinga.
Þessi svokölluðu Hnefaleikafélög og Boxklúbbar eru það lágkúrulegir og heiðurslausir hlutir að þar er meir að segja stundað og kennt FITTNESS BOX sem er einhverskonar Aerobic rugl sem á að sjálfsögðu ekki heima á neinum stað sem kennir sig við íþróttina Box eða ætli þeir fari nú að bjóða upp á "Fitness Boxing" tíma í Kronk gyminu einhverntíman á næstunni?
Segi ekkitilnafns (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 11:55
"Sem þeir hafa ekki hundsvit á." Á það við um fyrsta Íslendinginn sem hefur hlotið réttindi til að dæma í keppni um heimsmeistaratitla í hnefaleikum.
"Lágkúrulegir og heiðurslausir." Varla á það við um hinn háaldraða heiðursmann Guðmund Arason, sem stundaði hnefaleika sér og öðrum til heilsubótar.
"Aerobic rugl." Á það við um íþrótt sem krefst meiri líkamlegri getu af þeim sem vilja ná langt í henni en flestar aðrar íþróttagreinar?
"Græða einhverja þúsundkalla." Eiga þjálfarar og leiðbeinendur í íþróttum ávallt að vera kauplausir?
Ómar Ragnarsson, 4.3.2009 kl. 00:27
""Sem þeir hafa ekki hundsvit á." Á það við um fyrsta Íslendinginn sem hefur hlotið réttindi til að dæma í keppni um heimsmeistaratitla í hnefaleikum" Já það á við þann dreng til dæmis.
""Lágkúrulegir og heiðurslausir." Varla á það við um hinn háaldraða heiðursmann Guðmund Arason, sem stundaði hnefaleika sér og öðrum til heilsubótar." Nei lágkúrulegur né heiðurslaus var hann Guðmundur Arason ekki, á engan veginn við hann.
""Aerobic rugl." Á það við um íþrótt sem krefst meiri líkamlegri getu af þeim sem vilja ná langt í henni en flestar aðrar íþróttagreinar?" Sé hann Emmanuel Steward fyrir mér í anda að kenna einhverja svoleiðis vitleysu í Kronkgymminu nú eða þá Oscar De La Hoya að æfa sig með svoleiðis bulli fyrir einhvern megabardagan.
""Græða einhverja þúsundkalla." Eiga þjálfarar og leiðbeinendur í íþróttum ávallt að vera kauplausir?" Hvorki leiðbeinendur né þjálfarar í íþróttum eiga að vera kauplausir en peningjahyggja, vankunnátta og óæskilegar kenndir einstaklinga af ýmsum togum hafa haft hrikaleg áhrif á íþróttina hér á landi.
Segi ekkitilnafns (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 01:26
"Sem þeir hafa ekki hundsvit á." Á það við um fyrsta Íslendinginn sem hefur hlotið réttindi til að dæma í keppni um heimsmeistaratitla í hnefaleikum.
Viðkomandi henti handklæði á öxlina á sér og byrjaði að kalla sjálfan sig þjálfara og aðalþjálfara löngu áður en hann svo mikið sem steig fæti inn í hnefaleikahring, hverslags kjaftæði er það með leyfi?
Respect :/
Segi ekkitilnafns (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 01:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.