3.3.2009 | 13:28
Furðustórt hús en ekki aftur snúið.
Eftir hneykslanlegan drátt á því að reisa almennilegt tónlistar- og óperuhús í Reykjavík var skyndilega brunað af stað með hús, sem verður margfalt dýrara en Ólafshöllin í Þrándheimi, sem er bæði frábært tónlistarhús og óperuhús, en tónlistarhúsið í Reykjavík getur ekki hýst óperu og því er ætlunin að reisa líka óperuhús í Kópavogi !
Ekkert byggðarlag í heimi er líkara suðvesturhorni Íslands en Þrándheimur og Þrændalög, - sama breiddargráða, álíka mannfjöldi, loftslag, menning og efnahagur.
Stærð tónlistarhússins okkar var réttlætt með því að það gæti keppt við sambærileg hús erlendis með sambyggt hótel og ráðstefnusali. Ólafshöllin í Þrándheimi hefur þetta allt auk verslanamiðstöðvar, en minni salnum er mun skynsamlegri að stærð að mínum dómi en minni salur tónlistarhússins.
Í Kaupmannahöfn og Osló gnæfa nú við himin jafnglæsileg tónlistarhús og hér á að reisa. Ætlunin virðist vera að laða hingað fólk í samkeppni við húsin í Höfn og Ósló, sem eru margfalt styttra frá aðal markhópnum á meginlandi Evrópu en húsið í Reykjavík verður.
En nú er tónlistarhúsið í Reykjavík komið of langt. Það má ekki fara fyrir því eins og ÞJóðleikhúsinu á sínum tíma sem stóð fokhelt en óupphitað í tólf ár og er í raun ónýtt af þeim sökum. Það verður miklu dýrara til framtíðar litið að hætta við það en að klára það. Við sitjum uppi með þetta vafasama tiltæki.
Mér segir sá byggingarfræðingur, sem best er að sér hér á landi í skemmdum á húsum og viðhaldi húsa, að líklega hefði verið skásta lausnin að reyna ekki að lappa upp á Þjóðleikhúsið á sínum tíma, heldur rífa það og byggja í sömu mynd aftur á betri stað. Húsið nýtur sín hvergi nærri þar sem það er nú og því verður ekki bjargað.
Hann segir mér að það fari ekki verst með hús að vera opin og óupphituð heldur að vera lokuð og óupphituð.
19 hæða turninn við Borgartún hefði kannski átt að fá að standa opinn í stað þess að standa lokaður og óupphitaður, en því miður er ekki hægt að hafa hann opinn vegna þess að í roki er svo mikill hávaði af hvininum af vindinum sem blæs í gegnum hann, að engum verður svefnsamt í næsta nágrenni !
Ég fór á sínum tíma og skoðaði og tók myndir af öllum þeim húsum sem ég nefni í þessum pistli, en náði aldrei að gera um það heimildarmynd vegna virkjanaæðisins sem ríkti og ríkir hér ann.
Enda þetta með vísu um Þjóðleikhúsið:
Þjóðleikhúsið, það er að hrynja.
Þar molnar steypan og listvinir stynja.
En það er eitt ráð við þessari ósvinnu
og það er að reisa það aftur, - úr tinnu.
Furða sig á framkvæmdum við tónlistarhús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tóm er öll sú tjara,
á túndrunnar hjara,
en Kata ætlar að kara,
kostar einn sleik bara.
Þorsteinn Briem, 3.3.2009 kl. 14:59
Íslendingar búnir að bíða eftir tónlistarhúsi í áratugi og það var ekki fyrr en hægt væri að skeyta "ráðstefnu-hótel" orðinu við, að lagt var af stað í framkvæmdir.
Flottræfilshátturinn var svo yfirgengilegur að Íslenska óperan fékk ekki inni í húsinu. Ef þetta hús væri líka fyrir óperuflutning þá "skemmdi" það hljómburðinn. Samt eru svona hús um alla Evrópu þar sem hýsa bæði synfóníu og óperu.
Vonandi verður þetta hús klárað og með þeim hætti að Íslenska óperan fái þar inni líka.
Sigurður Haukur Gíslason, 4.3.2009 kl. 01:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.