Spillt sjálftöku- og oftökustjórnmál.

Mannkynssagan geymir ótal dæmi um það hvernig of löng valdaseta hefur spillt valdhöfum sem í upphafi lögðu af stað með ágætis fyrirætlanir. Átján ára slímseta Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn er gott dæmi um þetta. Þetta er lengsta samfellda valdatímabil eins flokks frá því að landið fékk fullveldi.

Það er mótsögn fólgin í orðum Bjarna Benediktssonar um það að hér hafi ekki ríkt hörð frjálshyggja en að regluverkið hafi verið of veikt. Hið veika regluverk var einmitt myndbirtingin hinnar hörðu frjálshyggju og hefur Friðrik Hansen Guðmundsson lýst því mjög vel í sínu bloggi hvernig reglurnar um bankana hér gáfu þeim miklu meira frelsi en annars staðar tíðkast.

Þar á ofan voru fyrirheit um dreifða eignaraðild bankanna svikin og þeir afhentir í staðinn á silfurfati í siðlausri einkavinapólitík helmingaskiptaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Já, Sjálfstæðisflokkurinn þarf lengri tíma en þrjá mánuði til endurhæfingar. Eftir átján ára völd þarf hann eitt kjörtímabil hið minnsta.


mbl.is Hér var ekki hörð frjálshyggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ólafur Björnsson, minn ágæti lærifaðir úr lagadeild HÍ, var öðlingsmaður, réttsýnn og um margt á undan sinni samtíð. Hans frjálshyggju get ég reynt að lýsa með því að hún hafi birst í því að frelsi eins mætti ekki koma niður á frelsi annars eða svipta hann því.

Ólafur féll í prófkjöri og datt út af þingi vegna þess að hann sætti sig ekki við það óhefta frelsi sem frambjóðendur höfðu til styrkja frá stórfyrirtækjum svo sem eins og Ísal, í prófkjörsslagnum.

Hann vildi ekki taka þátt í slíku, þáði enga styrki og féll með sæmd en skömm hinna lifir að mínu mati. Sjálfstæðismönnum væri hollt að líta til hans um þessar mundir.

Ómar Ragnarsson, 3.3.2009 kl. 14:35

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

N-1 Bjarni Beninn,
bensín tók í fen inn,
eins og Loretta Lynn,
með laglega hægri kinn.

Þorsteinn Briem, 3.3.2009 kl. 14:40

3 identicon

Þetta er fín söguskýring.  En varstu ekki að ganga í Samfylkinguna Ómar??

itg (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 16:52

4 identicon

Er ekki álitamál að borga þessum mönnum sem settu landið á hausinn eftirlaun? Er ekki rétt að íhuga að svipta þá eftirlaunum?

Doddi D (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 17:10

5 identicon

Sammála bréfskrifara no.6  Það á að svifta þá um eftirlaun, og kosningarétt og kjörgengi.  Siðan reka þá úr landi.  "Persona non Grata".

J.þ.A (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 19:31

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég mun ekki ganga í Samfylkinguna fyrr en eftir aðalfund Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands, sem auglýstur verður í blöðum á morgun og haldinn 19. mars.

Ég tel mikils virði fyrir kjósendur að fyrir hendi sé samkeppni milli heilbrigðra stjórnmálaflokka sem bjóði upp á mismunandi útfærslur og áherslur varðandi stjórnmálalegar lausnir.

Þótt ég hafi verið starfsmaður RUV lengst af og viljað veg RUV sem mestan hef ég ævinlega talið nauðsynlegt að RUV fái harða samkeppni frá öðrum ljósvakamiðlum og hef áhyggjur af tæpri stöðu Stöðvar tvö og Skjás eins.

Best væri ef Samfylkingin og VG lýstu yfir svipuðu kosningabandalagi og Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn lýstu yfir 1963 og 1967 og fengju umboð til að stjórna landinu næsta kjörtímabil, en síðan mætti Sjálfstæðisflokkurinn endurhæfður til leiks eftir fjögur ár.

Ég tel Sjálfstæðisflokkinn þurfa lengri tíma en tvo mánuði til að vera fær um að vera raunhæfur valkostur fyrir kjósendur.

Ómar Ragnarsson, 3.3.2009 kl. 20:03

7 Smámynd: Offari

Sæll Ómar mér líst ekkert á þennan samfylkingartón í þér. Ég tel að umhverfistefna þín eigi engan hljómgunn í ESB. Þar í landi er raforkan dýr og því er ekki ólíklegt að Evrópubúar vilji færa orkufrekan iðnað á orkurík svæði innan ESB. Þá efast ég um að  málflutningur þinn virki á Evrópubúa.

Offari, 3.3.2009 kl. 20:54

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þær umbætur í umhverfislöggjöf sem þó hafa fengist fram hér á landi hafa komið í gegnum ESB. Svonefnt Árósasamkomulag, sem kveður meðal annars á um aðgerðir til að jafna aðstöðumun yfirvalda og félagasamtaka og einstaklinga varðandi ágreining um framkvæmdir sem valda umhverfisáhrifum, er komið til Austuevrópuríkja í gegnum ESB.

Samkomulagið var hugsað sem aðferð til að fá yfirvöld í Austur-Evrópu til að láta af ábyrgðarlausri stefnu í umhverfismálum sem þar hafði viðgengist í ofríki kommúnistastjórnanna, sem þoldu enga gagnrýni.

Nú hafa þau ríki Austurevrópu sem eru í ESB fyrir löngu samþykkt Árósasamkomulagið en Íslendingar hafa dregið lappirnar og komust þar með aftur fyrir gömul kommúnistaríki í þessum efnum.

Því miður eru það ekki Íslendingar sem gera sér best grein fyrir verðmæti ósnortinnar náttúru Íslands heldur Evrópubúar. Ég held að hvergi eigi íslenskir umhverfissinnar betri bandamenn en í Frakklandi og Þýskalandi.

Ómar Ragnarsson, 3.3.2009 kl. 21:10

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Ekki veit ég hvaða rök hér eru færð fyrir því að leggja beri niður fulltrúalýðræðið sem að öllu leyti er að vestrænni hefð, önnur en að einum flokki frekar en Ómars flokki hafi gengið vel í því til að sitja í stjórn, þar til fyrir stuttu. Kannski rökin séu ekki önnur en þau þá.

"Slímsetja" sósíaldemókrata á hinum Norðurlöndunum í gegnum tíðina hlýtur þá að fara óstjórnlega í taugarnar á höfundi, ef samræmi finnst í orðum hans.

Hins vegar er ekki nokkur einasta leið fyrir nokkurn einasta mann að tala um "of mikið" frelsi íslenskra fjármálafyrirtækja undir handleiðslu annars vegar FME og peningaeinokunarútgáfu Seðlabanka Íslands, sem þó gerði ekkert annað af sér að fylgja vestrænni hefð seinustu áratuga hvað varðar lög og skyldur seðlabanka í umhverfi ríkiseinokunar á peningaútgáfu.

Vorhefti Þjóðmála er væntanlegt. Þeir sem skilja ekki boffs í ofangreindu um peningaeinokunarútgáfu er vinsamlegast bent á að kaupa eða lána eintak.

Geir Ágústsson, 3.3.2009 kl. 21:32

10 identicon

Er ekki lífið dásamlegt. Nú er Ómar Ragnarsson kominn í flokk virkjunarsinna og ætlar að fara að virkja í þjórsá og víðar og reysa álver á Bakka og í Helguvík.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 23:35

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í þessum "flokki virkjunarsinna" eru Þórunn Sveinbjarnardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir sem greiddu atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun, Dofri Hermannsson, sem hefur reynt allt sem hann hefur getað gert til að gera flokkinn grænan og Mörður Árnason, sem talaði fyrir hönd "Græna netsins" innan Samfylkingarinnar og lýsti yfir andstöðu sinni á þingi í álveramálum í kvöld.

Framsóknarflokkurinn fer í raun með umhverfismálin núna og valtar yfir Vinstri græna og Kolbrúnu Halldórsdóttur hvað varðar álverin. Samkvæmt skilningi nafna míns Sigurðssonar er VG flokkur virkjunarsinna.

Úr því að fylgjendum Íslandshreyfingarinnar líst ekki á að taka áhættuna af því að bjóða fram og gera með því ógagn, er eina raunhæfa leiðin til að eiga einhverja von á stefnubreytingu í virkjanamálum að hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn hafi sama úrslitavald í þeim málum og þeir hafa haft undanfarin ár.

Ég stend við hvert einasta orð nú og framvegis í þeim hundruðum bloggpistla sem ég hef skrifað gegn virkjanaæðinu þar með talin eru álverin á Bakka og í Helguvík og virkjanir í ÞJórsá.

Ómar Ragnarsson, 4.3.2009 kl. 00:20

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Ómar,

Það að vera einarður andstæðingur virkjanna, hvar svo sem þær eru, og sama hvers eðlis þær eru, er aðdáunarverð afstaða. Jón bóndi sem vill setja túrbínu undir bæjarlækinn sinn hlýtur meira að segja að hugsa sig tvisvar um áður en hann ræðst í slíka hliðrun á mosum og lóuhreiðrum á sínu eigin landi.

Þú lætur það samt vera hrópandi hávært ósvarað hvaða tæknilegu athugasemdir þú hefur á fulltrúalýðræðiskerfinu þegar þú segir "of löng valdaseta" einhvers flokks. 

Hvort andstaða þín við notkun ríkisins á landi sínu, notkun ríkisins á þjóðnýtingarákvæðum lands, notkun ríkisins á fyrirtækjum í "almannaeigu", notkun ríkisins á (að því er virðist) óumdeildum lagaákvæðum um nýtingu ríkisins á annarra manna landi, notkun ríkisins á meirihlutastuðningi Alþingis við tilteknar framkvæmdir, osfrv, er í samræmi við einarða andstöðu þína gegn virkjunum af hverju tagi - það skal ég ekki fullyrða um.

Þú lætur það samt vera hrópandi hávært ósvarað hvaða tæknilegu athugasemdir þú hefur á fulltrúalýðræðiskerfinu þegar þú segir "of löng valdaseta" einhvers flokks.

Geir Ágústsson, 4.3.2009 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband